Verkefni 37 - Kort til að gróðursetja
Verkefni 37 – Kort til að gróðusetja
Verkefni dagins er að búa til kort sem viðtakandi getur gróðursett og fengið fallegt blóm í staðinn. Kortið er hægt að nota sem afmæliskort, jólakort, senda vinum eða ættingjum póstkort eða til að senda vinum góðar kveðjur. Þetta er auðveld leið til að nýta afganga af pappír sem fellur til á heimilum og minnka úrgang sem kemur úr keyptum kortum. Þetta tengist vel inn á heimsmarkmið 12 (Ábyrg framleiðsla) og heimsmarkmið 15 (Líf á landi). Þið getið lesið um heimsmarkmiðin og undirmarkið þeirra hér.
Kort sem hægt er að gróðursetja
Fyrsta skref: Finna pappír
Til að byrja verkefnið þarf að finna góðan pappír til að nota í kortagerðina. Þú þarft að finna fullt af endurvinnanlegum pappír. Góður pappír til að nota í verkið er til dæmis dagblöð, eggjabakki, bréfpoki úr búðinni eða hvít blöð. Þegar þú ert búin að finna góðan bunka af blöðum þá skalt rífa þau niður í mjög litla bita. Settu bitana í blandara þangað til þú ert búin að fylla upp að helmingi.
Annað skref: Blanda saman við vatn
Næst skalt þú hella volgu vatni yfir blöðin og fylla eins mikið og blandarinn leyfir. Svo skaltu setja blandarann í gang á lága stillingu og blanda í um 10 sekúndur. Svo skaltu auka hraðann og blanda í 30 sekúndur í viðbót. Þá ætti pappírinn að hafa blandast vel við vatnið og engar pappír flygsur að sjást.
Þriðja skref: Blanda fræ við pappírinn
Nú er komið að því að setja inn fræ. Við mælum með að nota kál, en kál er fljótt að vaxa og miklar líkur á að þau spíri og því gaman að fylgjast með því vaxa. Settu teskeið af fræjum og hrærðu. Ekki nota blandara í þetta verk heldur notaðu skeið og hrærðu fræunum rólega við. Þegar þú ert búin að blanda fræunum við, sigtaðu blönduna og reyndu að losna við eins mikið vatn og þú getur. Þú getur notað skeið eða sleif til að þrýsta á blönduna til að ná sem mestu vatni úr.
Fjórða skref: Þerra pappírskvoðann
Nú þarftu að leggja gróft handklæði, míkrófíber klúta eða annað svipað efni á flatt yfirborð. Settu pappírskvoðann (því sem þú varst að blanda saman) á efnið og notaðu skeið eða sleif til að dreifa pappírskvoðanum um efnið. Þú getur búið til hvaða form sem þú vilt, kassa, hring eða jafnvel hjarta. Eina sem þú þarft að passa er að reyna að dreifa því eins þunnt og þú getur svo það þorni fljótt og vel. Þegar formið er tilbúið getur þú notað svamp til að tryggja að yfirborðið á pappírskvoðanum sé eins flatt og mögulegt er og til að þerra vatn ef það er enn í pappírskvoðanum. Þegar pappírskvoðinn er alveg þurr á einni hliðinni, snúðu honum þá við til að leyfa hinni hliðinni að þorna alveg. Þegar báðar hliðarnar eru orðnar alveg þurrar, þá er kortið þitt tilbúið.
Nú getur þú skreytt kortið þitt eins og þú vilt. Þessi kort eru sniðug sem boðskort, afmæliskort, jólakort og gjafamiða. Mundu bara að láta viðtakanda vita að þau geta sett kortin í mold og vökvað þau og þá byrja fræin að vaxa og dafna.
Sýndu okkur þín kort undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví
Verkefni 36 - Endurnota, minnka, endurvinna
Verkefni 36 – Endurnota, minnka, endurnýta
Eins og við höfum farið yfir í seinustu verkefnunum er skáti nýtinn, náttúruvinur og tillitsamur, ásamt mörgum öðrum góðum eiginleikum. Því höfum við verið að vinna mikið með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, en fyrir þau sem þekkja þessi markmið ekki þá geti þið lesið um þau hér. Flest verkefni sem við vinnum að í skátunum tengjast á einn eða annan máta inn á heimsmarkmiðin. Ef þú skoðar þau vel finnur þú örugglega fullt af hlutum sem þú ert að gera til að ná heimsmarkmiðunum og til að hjálpa jörðinni okkar. Þetta verkefni tengist markmiði 9, Nýsköpun og uppbygging og markmiði 12, ábyrg neysla og framleiðsla.
Nú fer að líða að sumardeginum fyrsta (hann er á fimmtudaginn!) og eflaust margir farnir að hlakka til 😀 Nú er góður tími til að fara yfir búnaðinn sem við eigum fyrir sumarið og passa að allt sé tilbúið. Ef eitthvað er bilað, rifið eða brotið þá ætlum við að byrja á því að laga það. Hér kemur listi yfir hluti sem þið getið farið yfir og hvernig hægt er að endurnýta hluti.
Endurnýta útilegubúnað
Skoðið útilegubúnaðinn ykkar. Ef það er eitthvað bilað, byrjið á því að reyna að laga það. Ef það er gat þá er hægt að sauma það eða líma fyrir gatið. Ef hluturinn er mjög skítugur þá er gott að byrja á því að þrífa hann. En ef ekki er hægt að laga hlutinn og nota þá geti þið prófað að búa til eitthvað nýtt úr hlutnum.
Segjum til dæmis að þið eigið tjald sem er orðið mjög slitið og þið eruð búin að prófa að laga það en ekkert virkar. Þá geti þið endurnotað tjaldið og búið til úr því ýmsa hluti. Sem dæmi er hægt að gera:
- Innkaupanet (t.d. fyrir ávexti eða brauð)
- Hælapoka
- Poka undir útilegupottasettið
- Flokkunarpoka sem hægt er að nýta aftur og aftur
- Höfuðflugnanet fyrir ykkur (getið notað flugnanetið sem er í tjaldinu)

Þegar þið farið í gegnum búnaðinn ykkar, skoðið hvernig þið geymið hann. Búnaðurinn endist lengur ef honum er haldið við og hann er geymdur á góðum stað.
Fleiri hugmyndir
Stundum er hægt að nýta hluti í eitthvað allt annað. Hvað á til dæmis að gera við stígvélin þegar þau eru byrjuð að leka eða orðin of lítil?
Þú getur til dæmis málað þau og sett blóm ofan í þau og skreytt þannig pallinn/svalirnar/garðinn þinn.

Veist þú um fleiri leiðir til að endurnota og endurnýta útilegubúnað? Endilega sendu okkur og láttu einnig vita hvernig gengur að fara yfir þinn búnað!
#skátarnir #stuðkví
Verkefni 35 - Skáti er sjálfstæður
Verkefni 35 – Skáti er sjálfstæður
Verkefni dagsins í dag er tileinkað tíundu, og seinustu, grein skátalaganna ‘Skáti er sjálfstæður. Því er verkefni dagsins að baka bananabrauð, skemmtilegt verkefni sem þarf alls ekki að vera erfitt né flókið. En mikilvægt er að undirbúa verkefnið vel áður en þið byrjið:
- Fáðu leyfi og aðstoð hjá foreldrum
- Gakktu úr skugga um að þú eigir það sem þarf í uppskriftina, líka áhöldin.
- Þvoðu hendur vel og gættu þess að vinnusvæðið sé hreint.
- Finndu til allt hráefnið og settu það á vinnusvæðið.
- Byrjaðu verkefnið og fylgdu leiðbeiningunum vel.
Eftir baksturinn er mikilvægt að ganga vel frá. Þvo upp eða setja allt í uppþvottavélina og þurrka vel af borðinu.
Hér er uppskrift að einföldu (en ljúffengu) bananabrauði.
Áhöld:
- Skál
- Desilítramál
- Mæliskeiðar
- Sleif
- Diskur
- Gaffall
- Kökuform (eitt stórt brauðform)
Hráefni
- 1 egg
- 2 dl sykur
- 4 dl hveiti
- ½ tsk matarsódi
- 2-3 vel þroskaðir bananar
- 1 dl mjólk
Aðferð
- Stilltu ofninn á 180°C og blástur ef hægt er, annars á yfir- og undirhita.
- Hrærðu vel saman egg og sykur, þar til blandan verður ljós á litinn. Það er gott að nota hrærirvél í þetta verkefni en mundu að fá aðstoð hjá fullorðnum.
- Stappaðu bananana vel á disknum og bættu þeim út í blönduna.
- Bættu hveitinu og matarsódanum saman við og hrærðu aðeins saman. Þetta má gera með sleif ef þú hefur verið að nota hrærivélina hingað til.
- Bættu mjólkinni saman við og hrærðu aðeins þar til að deigið er orðið vel samlagað.
- Helltu öllu saman í eitt aflangt brauðform eða tvö lítil. Það er gott að smyrja formin aðeins með olíu eða smjöri.
- Bakaðu í miðjum ofni í um 35-45 mínútur. Eitt stórt brauð er lengur að bakast en tvö lítil. Til að vita hvort brauðið er tilbúið er hægt að stinga í það prjóni. Ef hann kemur hreinn upp þá er brauðið til en ef á honum er blautt deig þarf að baka brauðið lengur.
- Láttu brauðið kólna vel áður en þú tekur það úr forminu.
Bónus: Ef þú vilt getur þú bætt við um 70 gr af niður söxuðu súkkulaði í deigið um leið og þú setur hveitið saman við.
Eftir bakstur:
- Þvo allt og ganga frá.
- Þurrka af borðunum
- Þvo hendur
- Borða brauðið t.d. með smá smjöri.
Verði ykkur að góðu 🙂
#skátarnir #stuðkví
Verkefni 34 - Skáti er réttsýnn
Verkefni 34 – Skáti er réttsýnn
Verkefni dagsins er tileinkað níundu grein skátalaganna ‘Skáti er réttsýnn’. En hvað er að vera réttsýnn? Ein útskýringin er að sjá muninn á réttu og röngu og reyna að velja „réttu“ leiðina, þrátt fyrir að hún geti verið erfiðari. Í verkefni dagsins ætlum við að æfa okkur í að bregðast við aðstæðum sem okkur finnast erfiðar að tækla og sjá hvernig við getum unnið með fólkinu í kringum okkur til að vinna vel úr þeim aðstæðum.
Opið leikhús
Opið leikhús er aðeins öðruvísi leikhús en flestir eru vanir. Það byrjar þannig að tveir eða fleiri byrja á því að leika atriði sem tengist erfiðri stöðu. Þau ná ekki að leysa vel úr vandamálinu þannig það endar illa og er ekki höndlað vel.
Svo leikur sami hópurinn aðstæðurnar aftur. Nema í þetta skipti geta áhorfendur stoppað atburðarásina þegar þau vilja, stigið inn í þær og sýnt fram á hvernig þau myndu finna góða lausn á því sem er í gangi.
Þessi tegund af leikhúsi er til í að æfa okkur að skilja mismunandi aðstæður og hvernig hægt er að leysa þær á mismunandi máta. Þetta æfir líka hóp í að finna sameiginlega út úr því hvernig er rétt að bregðast við í mismunandi aðstæðum.
Þó eru nokkrar reglur sem þarf að fylgja til að leikhúsið gangi vel:
- Þú þarft að klappa til að fá að stíga inn í aðstæðurnar.
- Ef þú ert beðinn um að stíga úr aðstæðunum, þá þarftu að hlusta.
- Notum inniröddina og tölum saman á blíðum nótum. Ef við erum ekki sammála þá ræðum við málin.
- Mikilvægt er að taka vel eftir og hlusta á alla.
Verkefni 33 - Skáti er nýtinn
Verkefni 33 – Skáti er nýtinn
Verkefni dagsins er tileinkað áttundu grein skátalaganna ‘Skáti er nýtinn’. Hægt er að finna allskonar hugmyndir til að nýta hluti sem við eigum. Prófaðu að spyrja ömmu, afa eða frænku og frænda hvernig þau nýttu hluti þegar þau voru að alast upp. Þá gætir þú lært nýja hluti og sagt þeim frá því hvernig þú nýtir hlutina þína!
Í dag ætlum við að nýta staka sokka eða sokka sem þið eruð hætt að nota til að búa til sokkabrúður 🙂
- Byrjið á því að finna til sokkana sem þið ætlið að nota. Skemmtilegt er að hafa sokkana eins fjölbreytta og þið finnið.


2. Sokkurinn verður að höfuði en táin er brotin inn til að mynda munn á brúðuna
3. Nú geti þið skreytt brúðuna eins og þið viljið, t.d. með því að nota garn eða pípugreinsa fyrir hár. Því meira hár, því betra!


Þið getið einnig notað tölur fyrir augu og límt allskonar skraut á brúðurnar. Leyfið ímyndunaraflinu ykkar að ráða för.


Búið endilega til fleiri en eina brúðu og setjið upp litla brúðusýningu!
Þið getið meira að segja búið til brúðuleikhús úr pappakassa og leikhústjöld úr gömlum stuttermabolum 🙂
Ekki gleyma að sýna okkur afraksturinn undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví
Verkefni 32 - Skáti er samvinnufús
Verkefni 32 – Skáti er samvinnufús
Verkefni dagsins er tileinkað sjöundu grein skátalaganna ‘Skáti er samvinnufús’. Þið þurfið að finna ykkur æfingafélaga á heimilinu og vinna í sameiningu að því að klára þessar æfingar. Hér fyrir neðan er listi með æfingum og útskýringum til að prófa. Þú getur kíkt á síðuna okkar á Facebook þar sem þið getið séð myndband af æfingunum 🙂
Upphitun
- Hoppa yfir planka
- Einn aðili plankar í 30 sek á meðan hinn aðilinn hoppar yfir fætur fram og til baka. Svo skipti þið um hlutverk.
Æfingar
- Magaæfingar með bolta
- Sitjið á gólfinu á móti hvort öðru, gerið magaæfingar og látið bolta ganga á milli ykkar.
- Því þyngri sem boltinn er því erfiðari er æfingin
- Planki eða armbeygjustaða + fimma
- Liggið á móti hvort öðru í planka eða armbeygjustöðu og skiptist á með hvorri hönd að gefa fimmu.
- Erfiðari útgáfa er að vera í armbeygjustöðu og gera armbeygjur á milli fimma
- Veggseta með bolta
- Sitjið við vegg með fæturnar í 90° og sendið bolta á milli ykkar
- Hér geta margir tekið þátt
- Hjólböruarmbeygjur
- Annar aðilinn er í armbeygjustöðu og hinn aðilinn heldur fótum hans uppi
- Aðilinn sem er í armbeygjustöðu gerir eins margar armbeygjur og hann getur
- Svo er skipt um hlutverk
- Til að gera æfinguna erfiðari getur sá sem stendur verið í hnébeygjustöðu
- Boltakast með hnébeygjum
- Hnébeygja og kasta boltanum yfir á hinn aðilann á leiðinni upp
- Hinn aðilinn grípur boltann, fer niður í hnébeygju og kastar boltanum til baka á leiðinni upp
- Fótalyftur með bolta
- Liggja á bakinu þar sem höfuð snúa saman
- Setjið bolta á milli fótanna ykkar og lyftið þeim upp og látið þannig boltann ganga á milli
- Hjóla
- Liggið á bakinu og snúið þannig að fæturnir ykkar snertist. Setjið iljar saman og beygið hnén
- Nú reynir á samhæfinguna að hjóla með fótunum
- Mjaðmalyftur og þríhöfðadýfur
- Annar aðilinn liggur á bakinu með fætur bognar og lyftir mjöðmunum
- Hinn aðilinn kemur sér fyrir, stendur með bakið að fótum þess sem liggur, styður sig við hnén hjá æfingafélaga sínum og tekur þríhöfðadýfur
- Svo skipti þið um stöðu
- Þríhöfðadýfur verða erfiðari eftir því sem lengra bil er haft á milli fótanna
- Hnébeygjur á öðrum fæti
- Stattu á öðrum fæti, þú getur stutt þig við æfingafélagann þinn
- Gerðu 10 hnébeygjur á hvorn fót
- Svo skipti þið
Til eru allskonar skemmtilegar æfingar sem skemmtilegt er að gera heima. Þekkir þú aðrar æfingar sem þú vilt deila með okkur hinum?
Sýndu okkur undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví
Verkefni 31 - Skáti er heiðarlegur
Verkefni 31 – Skáti er heiðarlegur
Í dag kynnum við verkefni dagsins með sjöttu grein skátalaganna að leiðarljósi ‘Skáti er heiðarlegur’. Hvers vegna er mikilvægt að vera heiðarleg/ur? Sem dæmi þá byggir þú upp traust meðal vina þinna og fjölskyldu með því að vera heiðarleg/ur. Dettur þér eitthvað annað í hug?
Verkefni dagsins er að byggja sína draumaborg, með heiðarleika að leiðarljósi. Mannfólkinu fer fjölgandi með hverjum deginum og fer stór hluti daglegs lífs fólks fram í stórborgum. Reiknað er með því að árið 2050 muni 2/3 hlutar jarðarbúa búa í borgum. Þetta setur kröfur varðandi búsetuhætti okkar og þær borgir sem við munum búa í. Við þurfum rafmagn, innviði, skóla og samgöngukerfi o.s.frv.
Jafnframt þurfum við að geta framleitt nægan mat og skapað nógu mörg
störf til að allir geti lifað góðulífi í borgum. Lífshættir okkar nú samsvara því að við notum þrjár og hálfa jörð til að sjá okkur fyrir nægum auðlindum. Þess vegna verðum við að breyta hugsunarhætti okkar varðandi það hvernig við skipuleggjum borgir.


Nú eigi þið að hugsa ykkar draumaborg, hugsið um það hvernig samgöngurnar eru, hvað er mikilvægt að hafa í borgum og hvar ætli þið að setja úrganginn? Einnig þurfi þið að ákveða hvar þið viljið að borgin sé, eru þið á Íslandi eða vilji þið komast nær miðbaugnum? Þið þurfið að taka mið af hitastigi og staðsetningu borgarinnar þegar þið setjið upp allt sem þið viljið hafa í borginni ykkar.
Finnið til efni heima hjá ykkur, þið getið nýtt úrklippur, dagblöð, föndurdótið ykkar og klósettrúllur! Nýtið það sem þið finnið heima og leyfið hugmyndarfluginu að ráða för.

Hér eru nokkrir punktar sem gott er að huga að þegar þið byggið ykkar borg:
- Hverjir og hversu margt fólk á að búa þarna?
- Hvaða möguleika hefur það?
- Hvernig fær fólk mat, vatn og orku?
- Við hvað vinnur fólkið?
- Hvernig er borginni stjórnað?
- Ríkir friður og ró í borginni?
- Hver eru tengsl borgarinnar við aðrar borgir?
- En við önnur byggðarlög?
- Hvernig er meðhöndlun á úrgangi og frárennsli háttað?
- Hvernig er heilsa fólksins tryggð?
- Hvernig er menntakerfið í borginni?
- Hvernig ferðast fólk innan borgarinnar?
- Er borgin bara fyrir fólk?
- Hvar kemst maður í skátafélag?
Verkefni 30 - Skáti er tillitssamur
Verkefni 30 – Skáti er tillitssamur
Verkefni dagsins er tileinkað fimmtu grein skátalaganna ‘Skáti er tillitssamur’. En hvað þýðir það? Að vera tillitssamur er að taka mið af öðru fólki og aðstæðum þess. Í dag erum við að upplifa tíma sem fólk þarf að vanda sig vel í að vera tillitssamt við aðra í kringum sig. Við eigum að virða 2 metra regluna og vanda okkur við handþvott og hreinlæti í kringum okkur. Það geta allir æft sig í að vera tillitssamur/söm og hér koma nokkrir leikir/æfingar sem þið getið prófað heima.
Skrifaðu vini eða ættingja bréf
Nú eru margir heima hjá sér og fólk er minna að hittast en vanalega. Því getur verið gaman að setjast niður og skrifa bréð eða póstkort til vina og ættingja og hrósa þeim eða segja þeim frá því hvernig ykkur þykir vænt um þau. Þið getið líka teiknað mynd og látið fylgja með bréfinu 🙂

Látbragð
Skrifaðu niður á miða hugmyndir um hvenær þú þarft að sýna tillitssemi, settu miðana í krukku og svo getur þú fengið fjölskylduna þína til að draga miða og leika það sem stendur á miðanum. Allir geta hjálpast að við að giska á hvaða aðstæður er verið að leika og hvað er best að gera í þessum aðstæðum.
Hugmyndir af atriðum til að leika:
- Mamma eða pabbi eru að elda en þú vilt sýna þeim eitthvað í snalltækinu þínu
- Þú ert að leika þér úti á leikvellinum og einhver er aldrei búin/n að prófa róluna
- Einhver er að koma inn á stigaganginn með fullt af innkaupapokum og á erfitt með að opna hurðina
- Vinur þinn er í heimsókn í fyrsta skiptið og vill leika sér með uppáhalds leikfangið þitt
Hlustunarleikir
Gott er að æfa sig í að hlusta á aðra og heyra hvað þau hafa að segja. Til eru margir leikir sem æfa hlustun en hér er dæmi um þrjá leiki sem þið getið prófað:
-
Orðaleikir
Til eru margir orðaleikir sem snúast um að hlusta vel á hina í hópnum.
- Til dæmis er hægt að fara í söguleikinn. Þá byrjar ein manneskja á að segja eitt orð og næsti tekur við og bætir við orði. Þannig gengur þetta hringinn og markmiðið er að segja saman sögu, án þess að vita um hvað hún fjallar.
- Annar leikur er að ein manneskja byrjar á að segja orð og næsti þarf að segja orð sem byrjar á sama staf og seinasti stafurinn í orðinu á undan.
- Sem dæmi: Ef ég segi bananI þá þarf næsta manneskja að segja orð sem byrjar á I
-
Símon segir
- Þið ákveðið einn stjórnanda
- Ef stjórnandinn byrjar setninguna sína á „Símon segir“ þá þurfi þið að fylgja því eftir sem hann segir
- Ef stjórnadninn byrjar ekki setninguna sína á „Símon segir“ þá á ekki að fylgja því eftir sem er sagt
- Dæmi:
- „Símon segir allir hoppa.“ Þá eiga allir að hoppa
- „Allir að hoppa.“ Þá á enginn að hoppa
-
Grænt, gult eða rautt ljós
- Valin er einn stjórnandi
- Hann segir annað hvort grænt ljós, gult ljós eða rautt ljós
- Ef hann segir grænt ljós þá eiga allir að hlaupa um
- Ef hann segir gult ljós þá eiga allir að hreyfa sig ofurhægt (slow-motion)
- Ef hann segir rautt þá eiga allir að frjósa
- Svo þarf að passa að hlusta vel til að heyra hvað á að gera
Færsla 29 - Skáti er náttúruvinur
Verkefni 29 – Skáti er náttúruvinur
Knús og músarhús
Skáti er náttúrvinur og jafnast ekkert á við góða útiveru 🙂 Verkefni dagsins er því að fara út og vinna verkefnin þar. Þið ætlið nefnilega að fara út og knúsa tré og búa til músarhús!
Að knúsa tré er skemmtileg og falleg athöfn og er best að gefa sér góðan tíma í knúsið. Athugaðu hvort það sé öðruvísi að knúsa mismunandi tré. Hvíslaðu fallega hluti að trénu þegar þú knúsar þau, þau verða mjög glöð að heyra það.

Svo er að búa til músarhús
Fyrsta skrefið er að finna góðan stað til að byggja húsið á. Það er best ef það er í smá skjóli, eins og undir tréi.
Svo skaltu leita í kringum þig af litlum spýtum, laufblöðum og grasi til að búa til húsið. Byrjaðu á því að setja spýturnar upp þar sem þú vilt að húsið sé.
Næst skaltu fylla inn í götin á milli spýtnanna og trésins með grasi og laufblöðum þannig að húsið haldi rigningunni úti.
Þá er húsið tilbúið! Þú getur skreytt það og jafnvel sett eitthvað skemmtilegt inn í húsið fyrir mýsnar, eins og blóm eða litla steina sem þær geta leikið sér með.



Ekki gleyma að deila því með okkur hvernig þitt músarhús lítur út 🙂 #skátarnir #stuðkví
Verkefni 28 - Skáti er traustur
Verkefni 28 – Skáti er traustur
Dagurinn í dag er tileinkaður þriðju grein skátalaganna ‘Skáti er traustur’ og er verkefni dagsins að búa til brú úr spaghettí sem er jafn traust og skátar! Er það hægt..? Það er bara ein leið til að komast að því 😀
Byrjaðu á því að finna spaghettí (ekki sjóða það í þetta skiptið). Þú þarft líka skæri til að klippa það til og lím til að líma brúna saman. Þegar þú ert búin að setja brúna saman þá getur þú skreytt hana að vild! Settu á hana smápeninga, eða þungt dót til að sjá hvort brúin sé jafn traust og skátar.
Þú gætir átt þér þína uppáhalds brú sem þú vilt endurgera. Þú getur líka farið á internetið og fundið ýmsar skemmtilegar hugmyndir um hvernig brýr eru til í heiminum. Fáðu einhvern á heimilinu til að aðstoða þig 🙂 Þegar allir eru búnir að setja saman sína brú þá geti þið séð hver nær að stafla fleiri smápeningum á brúna 😉
Ekki gleyma að deila með okkur hvernig þín brú lítur úr undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví. Hlökkum til að sjá 🙂






