Verkefni 32 – Skáti er samvinnufús

Verkefni dagsins er tileinkað sjöundu grein skátalaganna ‘Skáti er samvinnufús’. Þið þurfið að finna ykkur æfingafélaga á heimilinu og vinna í sameiningu að því að klára þessar æfingar. Hér fyrir neðan er listi með æfingum og útskýringum til að prófa. Þú getur kíkt á síðuna okkar á Facebook þar sem þið getið séð myndband af æfingunum 🙂

 Upphitun

 1. Hoppa yfir planka
  • Einn aðili plankar í 30 sek á meðan hinn aðilinn hoppar yfir fætur fram og til baka. Svo skipti þið um hlutverk.

Æfingar

 1. Magaæfingar með bolta
  • Sitjið á gólfinu á móti hvort öðru, gerið magaæfingar og látið bolta ganga á milli ykkar.
  • Því þyngri sem boltinn er því erfiðari er æfingin
 2. Planki eða armbeygjustaða + fimma
  • Liggið á móti hvort öðru í planka eða armbeygjustöðu og skiptist á með hvorri hönd að gefa fimmu.
  • Erfiðari útgáfa er að vera í armbeygjustöðu og gera armbeygjur á milli fimma
 3. Veggseta með bolta
  • Sitjið við vegg með fæturnar í 90° og sendið bolta á milli ykkar
  • Hér geta margir tekið þátt
 4. Hjólböruarmbeygjur
  • Annar aðilinn er í armbeygjustöðu og hinn aðilinn heldur fótum hans uppi
  • Aðilinn sem er í armbeygjustöðu gerir eins margar armbeygjur og hann getur
  • Svo er skipt um hlutverk
  • Til að gera æfinguna erfiðari getur sá sem stendur verið í hnébeygjustöðu
 5. Boltakast með hnébeygjum
  • Hnébeygja og kasta boltanum yfir á hinn aðilann á leiðinni upp
  • Hinn aðilinn grípur boltann, fer niður í hnébeygju og kastar boltanum til baka á leiðinni upp
 6. Fótalyftur með bolta
  • Liggja á bakinu þar sem höfuð snúa saman
  • Setjið bolta á milli fótanna ykkar og lyftið þeim upp og látið þannig boltann ganga á milli
 7. Hjóla
  • Liggið á bakinu og snúið þannig að fæturnir ykkar snertist. Setjið iljar saman og beygið hnén
  • Nú reynir á samhæfinguna að hjóla með fótunum
 8. Mjaðmalyftur og þríhöfðadýfur
  • Annar aðilinn liggur á bakinu með fætur bognar og lyftir mjöðmunum
  • Hinn aðilinn kemur sér fyrir, stendur með bakið að fótum þess sem liggur, styður sig við hnén hjá æfingafélaga sínum og tekur þríhöfðadýfur
  • Svo skipti þið um stöðu
  • Þríhöfðadýfur verða erfiðari eftir því sem lengra bil er haft á milli fótanna
 9. Hnébeygjur á öðrum fæti
  • Stattu á öðrum fæti, þú getur stutt þig við æfingafélagann þinn
  • Gerðu 10 hnébeygjur á hvorn fót
  • Svo skipti þið

Til eru allskonar skemmtilegar æfingar sem skemmtilegt er að gera heima. Þekkir þú aðrar æfingar sem þú vilt deila með okkur hinum?

Sýndu okkur undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví