Kyntu heitapottinn með eldi og gistu í tjöldum
Vetrarmót Reykjavíkurskáta var haldið í sjötta sinn um liðna helgi á Úlfljótsvatni og að þessu sinni tóku 170 skátar úr Reykjavík þátt í mótinu. 130 sem þátttakendur í fjölbreyttri dagskrá og meira en 40 sem sjálfboðaliðar fylgdu ungu skátunum í dagskrá, sinntu matseld og héldu uppi dagskrá helgarinnar.
„Við viljum fyrst og fremst að kenna ungum skátum að takast á við fjölbreyttar áskoranir að vetrarlagi og að efla samstarf milli skátafélaganna í Reykjavík,“ segir Jón Andri Helgason hjá Skátasambandi Reykjavíkur.
Dagskránni var skipt eftir aldursstigum skátastarfsins. Dagskrá yngstu skátanna á mótinu fór að mestu fram í kringum skátaskálana á svæðinu þar sem þau kepptu við tímann og hvort annað í æsispennandi stórleikjum. Eldri skátarnir voru síðan í hinum enda skálabyggðarinnar þar sem þau fóru meðal annars í vetrargöngu í snjónum út af svæðinu. Þau elstu á mótinu unnu síðan saman að því að smíða heitan pott sem hægt væri að hita upp með varðeldi, þegar sólin var sest og verulega fór að kólna gátu þau því notið stjörnuhimins í notalegu baði.
Skátaíþróttir á Ólympíuári
Í tilefni Ólympíuleikanna í sumar voru þeir notaðir sem þema mótsins, en hluta af dagskránni var skipt í sumar-, vetrar- forn- og skátaólympíuleika. Þar reyndu skátarnir á sig í klifri og bogfimi, kepptu í snjóðsleðaakstri, pokahlaupi og folfdiskakasti ásamt því að fara í hefðbundnari skátadagskrá þar sem þau lærðu góða siði í varðeldagerð.

En yfir helgina voru líka ýmsir aðrir dagskrárliðir.
Dróttskátarnir komust t.d. á föstudagskvöldinu að því að farangur þeirra hefði orðið dagskránni að bráð. Í snjó og kolniðamyrkri þurftu þau að vinna saman og ráða úr ýmsum þrautum til finn að svefnpoka sína og hlý föt.
Vetrarmótið er skipulagt í sameiningu af öllum skátafélögunum átta úr Reykjavík og hefur fest sig í sessi og er beðið með eftirvæntingu á hverju ári, að sögn Jóns Andra.
Ólöf Jónasdóttir, nýr mótstjóri Landsmóts skáta 2020

Ólöf Jónasdóttir tók nýlega við sem mótstjóri Landsmóts skáta 2020. Ólöf hefur þekkt skátastarfið lengi vel en hún starfaði eitt ár í Kvenskátafélaginu Valkyrjunni þegar hún var 12 ára. Hún tók svo aftur upp þráðinn 2011 þegar eldri dóttir hennar byrjaði í skátunum en þá í Þrándheimi í Noregi. Í dag starfa þær báðar með Klakki á Akureyri þar sem Ólöf er rekka- og róverskátaforingi. Auk þess er Ólöf verkefnastjóri tvítyngismála í leikskólanum Iðavelli á Akureyri.
Kom Klakki til Noregs
Ólöf fór á sitt fyrsta stórmót árið 2013, en það var landsmót norskra skáta og sá Ólöf um að skipuleggja dagskrá fyrir börn foringja og um gestamóttökuna. Hún tók svo þátt á landsmótum hér á landi árin 2014 og 2016. Hún hélt svo aftur til Noregs á landsmótið árið 2017 en þá fékk hún flottan hóp úr Klakki með sér.

Mikilvægt að hafa gott teymi og upplýsingaflæði
“Mér finnst alltaf svo frábært að upplifa stemninguna og sjá samstarfið hjá skátunum á mótum”, segir Ólöf, aðspurð um hvað heilli hana við landsmót. Mikil vinna er fólgin í því að skipuleggja Landsmót skáta og þarf öflugt teymi til þess að hlutirnir gangi upp að sögn Ólafar. “Ég kem í verkefnið um áramótin og tek við góðu búi ef svo má segja. Undirbúningurinn gengur mjög vel og ég hlakka til að starfa með mótstjórninni fram yfir Landsmót. Þetta væri hins vegar ekki hægt án allra þeirra starfsmanna og sjálfboðaliða sem taka þátt í þessu með okkur - þeirra framlag er ómetanlegt!” Ólöf minnir á mikilvægi þess að hafa gott teymi, öflugan starfsmannahóp og gott upplýsingaflæði til að svona stórmót verði að veruleika og virðist ekki vera skortur á góðu fólki í kringum Ólöfu að vinnu Landsmótsins.
Frábær aðstaða og nálægð við Akureyri
Ólöf hlakkar mikið til að sjá Landsmót skáta verða að veruleika og ekki skemmir fyrir hvað aðstaðan á Hömrum er frábær og nálægðin við Akureyri eykur valmöguleika á dagskránni mikið. Landsmót er stærsti reglulegi viðburðurinn á vegum Bandalags íslenskra skáta og fer fram á Hömrum í þetta skiptið. Ólöf hvetur alla skáta til að sameinast á landsmóti - nú þarf bara hressa skáta og frábærar fararstjórnir og foringja til að mæta og hafa gaman á Landsmóti skáta 2020. “Sjáumst á Landsmóti skáta á Hömrum!”
Ungmennaþingið verður peppað
Ungmennaþing skáta verður haldið um helgina á Grundarfirði. „Þetta verður mjög skemmtilegt þing og mjög peppað fólk sem er búið að skrá sig,“ segir Ásgerður Magnúsdóttir, formaður ungmennaráðs.
Markmiðið þingsins er að þjálfa ungt fólk í lýðræðislegum vinnubrögðum og ræða þau málefni sem skipta ungmenni í skátastarfi máli. Einnig vill unga fólkið kynnast fyrirkomulagi Skátaþings sem haldið verður í lok mars og undirbúa sig fyrir það. „Kannski kemur einhver grilluð þingsályktunartillaga um helgina sem við förum með á Skátaþing,“ segir Ása.
Þingið er opið fyrir skáta sem eru á elsta árið í dróttskátum, alla rekkaskáta og róverskáta. Lokað hefur verið fyrir skráningu og segir Ása að þeir sem hafi gleymt sér verði að biðja mjög mjög fallega.
Vel sótt námskeið – Verndum þau
Námskeiðið Verndum þau var haldið í Skátamiðstöðinni þann 22. Janúar síðastliðinn. Þátttaka var nokkuð góð og tóku þrjátíuogfimm einstaklingar þátt, annað hvort á staðnum eða í gegn um fjarfundabúnað. Mikilvægt er fyrir alla þá sem starfa með börnum og unglingum að vera meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð, geta lesið í vísbendingar um að vanræksla eða ofbeldi eigi sér stað, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt og vita hvernig bregðast á við ef grunsemdir vakan um slíkt misferli.
Æskulýðsvettvangurinn (ÆV) hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu Verndum þau. Námskeiðið er byggt á efni bókarinnar Verndum þau og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og unglingum. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem starfa með börnum og ungmennum og öðrum sem áhuga hafa. Æskulýðsvettvangurinn gerir kröfu um að allir starfsmenn og sjálfboðaliðar innan aðildarfélaga ÆV sæki námskeiðið og geta félögin fengið námskeiðið sér að kostnaðarlausu.
Næsta námskeið verður haldið fimmtudaginn 6. febrúar í Reykjanesbæ. Fleiri námskeið eru svo áætluð á næstunni, á Akureyri, í Borgarnesi og í Reykjavík.
Ef áhugi er fyrir námskeiði í þinni heimabyggð má hafa samband við Sigurgeir í Skátamiðstöðina.
Þankadagurinn 2020
Í tilefni af Þankadeginum, 22.febrúar næstkomandi, gaf WAGGGS út dagskrárpakkann 'Living Threads' eða 'Lifandi Þræðir'. Nú hefur hópur af skátum þýtt dagskrárpakkann 'Lifandi Þræðir' og er tilvalið að tileinka febrúarmánuði þessum spennandi verkefnum sem fjalla um fjölbreytileika, inngildingu og réttsýni. Á meðan á verkefninu stendur safna skátar þráðum til að skapa armband sem táknar fjölbreytileikan.

Þankadagurinn eða World Thinking Day er dagur alþjóðlegrar vináttu þar sem skátar út um allan heim hugsa hlýtt til annarra skáta og senda þakklæti út í heiminn. Haldið hefur verið upp á Þankadaginn á hverju ári síðan 1926. Hugmyndin varð fyrst til þegar kvenskátar (Girl Guides og Girl Scouts) hittust í Bandaríkjunum á fjórðu heimsráðstefnu WAGGGS sama ár. Þær voru sammála um að það ætti að vera sérstakur dagur á hverju ári, tileinkaður öllum þeim sem eru hluti af skátunum til að hugsa hvert til annars og senda þakklæti út í heiminn. Dagurinn er haldinn 22. febrúar en sá dagur var valinn vegna þess að það er afmælisdagur bæði Lord Baden-Powell, stofnanda skátahreyfingarinnar og Olave Baden-Powell, sem var World Chief Guide.
Þá er ekkert eftir en að spila Lifandi Þræði. Skemmtið ykkur vel!
Tíu skátar læra skyndihjálp
TÍU SKÁTAR LÆRA SKYNDIHJÁLP

Þrjú kvöld í skyndihjálparkennslu
Skyndihjálparnámskeið var haldið fyrir sjálfboðaliða Bandalags íslenskra skáta yfir þrjár kvöldstundir dagana 14. – 16. janúar 2020. Námskeiðið var 12 kennslutunda námskeið og leiðbeinandi var Laufey Gissurardóttir frá Rauða krossinum. Námskeiðið sóttu 10 skátar sem öll sinna hinum ýmsu ábyrgðarstöðum innan skátahreyfingarinnar sem sjálfboðaliðar. Níu þeirra sóttu öll þrjú kvöldin en ein kom einungis í upprifjun fyrsta kvöldið.
Mörg tóku skyndihjálparnámskeiðið sem hluta af Gilwell þjálfun sinni en skyndihjálparnámskeiðið er skyldu hluti af þeirri þjálfun. Öll tóku þó þjálfunina í þeim tilgangi að vera vonandi betur búin til að bregðast við ef slys bera að garði. Öryggi er öllum skátum mikilvægt og það að kunna ekki nema grunnatriðin í skyndihjálp getur skipt sköpum þegar hættan ber að garði.
„Rauði krossinn býður upp á vönduð og hagnýt námskeið í skyndihjálp, sem sniðin eru að þörfum hópa, hægt er að fara á námskeið frá 2
kennslustundum upp í 12 kennslustundir. Vel gert og metnaðarfullt af skátunum að bjóða upp á að sækja 12 kennslustunda námskeið sem þetta“
segir Laufey
Við þökkum Laufey fyrir að standa að þessari mikilvægu kennslu fyrir okkur og vonum að þátttakendur verði viðbúin næst þegar skyndihjálparkunnátta þeirra gæti komið að gagni!
NEISTAR Á (FERÐ OG) FLUGI

Neisti orðinn árs gamall
Neisti er leiðtogaþjálfun á vegum Bandalags íslenskra skáta ætluð skátaforingjum og þeim sjálfboðaliðum sem koma að félagsstarfi skátanna með beinum hætti.
Viðburðurinn fór fram helgina 10.-12. janúar í annað skipti rúmu ári eftir að hann var haldinn fyrst við verulega góðar viðtökur.
Þátttakendur mótuðu eigin dagskrá
Á Neista fá þátttakendur tækifæri til að móta sína eigin dagskrá samkvæmt sínu áhugasviði og hafa þar úr að velja milli gífurlega fjölbreyttra og skemmtilegra námskeiða og smiðja.
Í ár gátu þátttakendur í forvali valið á milli 29 ólíkra smiðja. Þar var hægt að læra um leikjavæðingu, ævintýramennsku í skátastarfi, öryggi á fjöllum eða hvernig megi auka aðgengileika starfsins eða bæta hina ýmsu færni í smiðjum um klifur og sig, framkomu og ræðumennsku, merkjahönnun, eldgerð og fjallamensku og rötun.
Vinsældir í forvali réðu síðan að dagskrá helgarinnar samanstóð af 19 af þessum 29 ólíku smiðjum. Lista þeirra 29 smiðja sem voru í forvali má skoða með því að smella hér.
Neisti kveikti áhuga yfir 100 sjálfboðaliða um allt land
90 þátttakendur voru skráð á Neista þegar skráningu á viðburðinn lauk. Allir þátttakendur viðburðarins eru sjálf virk sem sjálfboðaliðar í félagsstarfi skátafélaganna um land allt ýmist sem skátaforingjar eða stjórnarfólk. En þar að auki voru rúmlega 20 skátar sem gerðust sjálfboðaliðar við að stýra smiðjum eða unnu önnur verk fyrir viðburðinn.
Sjálfboðaliðar skátahreyfingarinnar eru stoðir alls skátastarfs á Íslandi og því er verulega ánægjulegt að Neisti sé svona vel sóttur af sjálfboðaliðum því þannig er vonast til að bál kvikni innra með þeim sem berst síðan áfram í félagsstarfið með ungu skátunum okkar.

Veðrið blés Neista ekki út
Í aðdraganda Neista fór veðrið að feykja skipulagi Neista. Til stóð að viðburðurinn færi fram á Úlfljótsvatni, þangað var því pantaður matur fyrir helgina, stjórnendum smiðja stefnt og bókuð rúta til að flytja þátttakendur austur.
En stuttu fyrir viðburð var tilkynnt að mikið óveður myndi geysa um allt land á sama tíma og viðburðurinn skyldi fara fram. Skátar sem starfa fyrir veðurstofu Íslands spáðu okkur fyrir um vegalokanir og því þurfti að ákveða hvort viðburðurinn skyldi færður eða hvort veðrið blési viðburðinn hreinlega af.
Vegna þess hve mikilvægt það þótti að mæta fróðleiksþyrstum sjálfboðaliðum var viðburðinum haldið til streitu en nú aðlagaður að veðurskilyrðum.
Aðdáunarverð jákvæðni og eljusemi sjálfboðaliða
Skipuleggjendur námskeiðsins höfðu varla lokið verkefnalistanum við skipulag viðburðarins þegar hann tvöfaldaðist og mikið af vinnunni sem þegar hafði verið unnin var fyrir bý. En skáti er glaðvær og skipuleggjendur námskeiðsins tókust á við ný verkefni af aðdáunarverðri jákvæðni og eljusemi.
Fyrst þurfti að útvega nýtt húsnæði undir viðburðinn sem gæti húsað allan fjöldan í gistingu og mætt þeim fjölbreyttu þörfum sem 19 smiðjurnar og önnur dagskrá þess utan kröfðust.
Skáti er hjálpsamur
Hjálpin lét ekki á sér standa og barst úr fjölmörgum áttum. Bæði skátafélögin Vífill í Garðabæ og Hraunbúar í Hafnarfirði buðu aðstöðu sína til að hýsa þá þátttakendur sem þyrftu gistingu og til afnota á annan hátt sem nýttist viðburðinum. Þökkuðu skipuleggjendur góð boð og ákváðu að nýta sér húsnæði Hraunbúa til að setja viðburðinn á föstudagskvöldi og hýsa þau sem gistu.
Þá fékk Neisti gífurlega ríkulega aðstoð frá Hinu Húsinu þar sem mest öll dagskrá helgarinnar gat verið til húsa og eins fékkst Skátalundur, skáli St. Georgsgildanna í Hafnarfirði, að láni til að hýsa kvöldmat og kvöldvöku á laugardegi.
Baklandið reyndist sterkt og stöðugt
Stjórnendur smiðjanna voru álíka boðin og búin að hjálpa til við að láta viðburðinn ganga upp. Öll aðlöguðu þau sínar smiðjur að breyttri staðsetningu og mörg hver útveguðu þau sjálf húsnæði og búnaði sem hentaði betur fyrir sínar smiðjur. Neisti fékk t.d. aðgengi að klifurvegg í bækistöðum HSSR, aðstöðu stjörnuskoðunarfélagsins á Seltjarnarnesi og að vinnustofu Farva í Álfheimum.

Breyttar ferðaáætlanir
Þátttakendur Neista þurftu ekki síður að aðlagast nýjum aðstæðum. Utan af landsbyggðinni þurftu þátttakendur ýmist að tilkynna forföll eða seinkun á komu sinni. Óháð búsetu þurftu síðan allir þátttakendur að skoða persónulega stundaskrá helgarinnar og skipuleggja síðan í samstarfi við aðra þátttakendur hvernig þau kæmust á milli staða yfir helgina.
Gildi skátastarfsins og heimsmarkmiðin skoðuð í gegnum leiki
Viðburðurinn hófst á föstudagskvölinu í Hraunbyrgi. Þátttakendur kynntust flokkunum sem þau áttu síðan eftir að starfa með um helgina og fóru í sínum flokkum í póstaleik þar sem gildi þeirra sem sjálfboðaliðar í skátastarfinu voru höfð að þema og hver þátttakandi skóp sína eigin ofurhetju með persónulega styrkleika sem myndi gagnast þeim síðar um helgina.
Laugardagurinn byrjaði á stórleik í þema heimsmarkmiðanna, þar kepptust þátttakendur í flokkum sínum hvert við annað og kynntust samtímis skemmtilegum leiðum til að nýta heimsmarkmiðin í skemmtilegri dagskrá með yngri skátum.

Smiðjur um allan bæ
Á eftir heimsmarkmiðunum komu síðan smiðjurnar sem þátttakendur höfðu valið sér. Í Hinu Húsinu reyndu þátttakendur við flóttarými, kynntu sér öryggi í fjallaferðum, kynntust starfsháttum jöklaleiðsagnar, lærðu ýmsar aðferðir og á verkfæri í leðurvinnu og öðru frumstæðu föndri, sátu frásögn frá ævintýraferð á Amadablam og lærðu undirstöðuatriði í kvöldvökustjórn og gítarspili.
Á meðan fóru aðrir niður í Álfheima og kynntustu umhverfisvænni hönnunarstofu, hönnuðu eigin merki og silkiprentuðu það á taupoka. Í Malarhöfðanum fengu skátar að læra og reyna ýmislegt sem gott er að kunna í klifri og sigi í aðskildum hópum eftir fyrri reynslu. Á Seltjarnarnesi fór síðan stór hópur og lærði hvernig mætti nýta stjörnufræði á skemmtilegan máta í starfi með yngri skátum og fræddust um himinhvolfið yfir höfði sér.

Jákvæð samskipti á sunnudegi
Á sunnudeginum fóru þátttakendur ýmist og lærðu nýja leiki með því að leika sér í tvær og hálfa klukkustund eða sóttu par styttri fyrirlestra um ævintýramennsku, aðgengileika, alþjóðastarf og skipulag í skátastarfi. Á sama tíma hýrðust aðrir skátar úti í snjófokinu í Háuhlíðinni og lærðu nytsamlega hluti um hvernig skuli bera sig að þegar kveikja á eld í ólíkum tilgangi. Eftir hádegi hittust síðan öll aftur í Hinu Húsinu og sóttu saman fyrirlestur um jákvæð samskipti.
Skáti er samvinnufús
Leiðtogaþjálfun skátanna fer iðulega fram utan borgarmarka og því var fróðlegt fyrir skipuleggjendur og þátttakendur að upplifa viðburð sem þennan á flakki um höfuðborgarsvæðið. En með rúmlega hundrað þaulvana skáta gekk viðburðurinn engu að síður mjög greiðlega fyrir sig og lögðust allir á eitt við að láta viðburðinn smella aftur saman í breyttri mynd.
Þátttakendum var í lok helgar færð þökk frá skipuleggjendum fyrir jákvæða viðleitni og aðstoðina við að aðlagast breytingum. Sem þau áttu sannarlega skilið. Þátttakendur höfðu verið vökul fyrir upplýsingagjöf vegna breyttra aðstæðna, þau höfðu með bros á vör unnið saman að því að komast á milli staða um allan bæ og síðan hjálpað til við matseldina þar sem matráðar viðburðarins voru þau einu sem drifu á Úlfljótsvatn fyrir vegalokanir og sátu þar föst.
Gildin skinu í gegn
Það var kannski viðeigandi að gildi skátastarfsins skinu í gegn á eimmit þessum viðburði þar sem þau voru í hávegum höfð. Það hefði verið öllum augljóst sem hefðu séð að þarna var samankomið hópur fólks með mikla færni í samskiptum, jákvæðu viðhorfi, samvinnu, útsjónarsemi og ástríðu.
Neisti snýr aftur 2021
Hulda María Valgeirsdóttir, nýr viðburðastjóri BÍS

Þar sem Rakel Ýr er á leiðinni í fæðingarorlof hefur BÍS ráðið Huldu Maríu Valgeirsdóttir í starf viðburðastjóra.
Hulda hefur verið virk í skátununum frá því hún var 8 ára gömul. Síðustu ár hefur hún ýmist starfað sem foringi eða stjórnarmeðlimur í skátafélaginu Landnemum. Auk þess hefur hún verið skólastjóri Útilífsskóla Landnema, unnið tvö sumur sem dagskrárstarfsmaður á Úlfljótsvatni og starfað mikið í ráðum og viðburðum skátahreyfingarinnar.
Síðastliðið ár var hún í alþjóðlegu skátamiðstöðinni í Kandersteg, í Sviss, og starfaði þar sem “Catering Manager” og hafði yfirumsjón með matreiðslu, pöntunum og skipulagi mötuneytisins þar fyrir skáta allstaðar að úr heiminum. Nú mun hún taka yfir starfi viðburðarstjóra á meðan Rakel fer í fæðingarorlof, og mun þá sjá m.a. um viðburði BÍS með aðaláherslu á landsmót skáta næsta sumar.
Við bjóðum Huldu Maríu hjartanlega velkomna til starfa.
Opinber heimsókn á skátafund

Skátarnir í 8.-10. bekk í Grundarfirði fengu heldur betur skemmtilega heimsókn nú á dögunum þegar forsetahjónin litu við á skátafund í opinberri heimsókn á Snæfellsnesi. Skátarnir tóku vel á móti hjónunum, afhentu þeim merki félagsins og ræddu við þau um skátastarfið og hvernig það er að alast upp í Grundarfirði.
Skátafundurinn var að þessu sinni haldinn í klifurhúsinu í Grundarfirði og fengu skátarnir hjálp frá hjónunum við að skrúfa upp nýja klifurleið sem var hönnuð til að henta yngstu kynslóðinni auk þess sem þau sýndu þau hjónunum klifurleiðir í húsinu og leikgleðin og ánægjan smitaði svo frá sér að fyrr en varir var Guðni Th. sjálfur farinn að klifra upp veggina við mikinn fögnuð viðstaddra.
Forseti Íslands er verndari skátahreyfingarinnar og ár hvert er athöfn á Bessastöðum þar sem forseti Íslands sæmir 17-19 ára skáta forsetamerkinu svokallaða. Nánari upplýsingar um forsetamerkið má finna hér: https://skatarnir.is/rekkaskatar/

Myndirnar tók Tómas Freyr Kristjánsson ljósmyndari
Fjáröflunin sem fór of vel!
Tveimur mánuðum fyrir Hrekkjavöku voru Dróttskátarnir í Svönum að skipuleggja útilegu þegar upp kom sú hugmynd að halda draugaútilegu á Hrekkjavöku nótt. Þar sem að Hrekkjavakan yrði á þriðjudegi og því skóli daginn eftir, myndi ekki ganga upp að halda innilegu í skátaheimilinu það kvöld. Það varð hins vegar uppsprettan að þeirri hugmynd að hafa draugahús í skátaheimilinu á Hrekkjavöku til að fjármagna ferð til Englands sem sveitin fór sumarið 2019.
Tveimur vikum fyrir Hrekkjavöku var byrjað að undirbúa viðburðinn. Hópurinn lagði heilann í bleyti, hugmyndum var kastað á milli þar til að á endanum var ákveðið að breyta skátaheimilinu í drungalegan draugakofa þar sem þátttakendur yrðu leiddir í gegnum hryllingssögu af leiðsögumanni.
Tveimur vikum fyrir Hrekkjavökuna var undirbúningur hafinn. Á skátafundi var sagan samin, húsið undirbúið og hlutverkum skipt á milli skátanna. Helgina fyrir Hrekkjavöku var aldeilis farið að hitna í kolunum. Skátarnir settu saman öll skilti og myndir sem þurfti að hengja upp. Bruggað var gerviblóð sem var nógu þykkt til að festast við vegginn, búinn var til haugur af brjóstsykri til að selja í miðasölunni og loks var draugahúsið prufukeyrt. Allt sem hægt var að undirbúa fyrir fram var undirbúið. Skátarnir voru búnir að auglýsa viðburðinn í skólabekkjunum sínum, hengja upp auglýsingar í íþróttahúsinu og félagsmiðstöðinni, og þeir skátar sem báru út póstinn á morgnanna laumuðu með auglýsingar blaðpésa. Þetta átti ekki að fara fram hjá neinum
Daginn fyrir var allt gert reiðubúið fyrir gesti draugahússins. Slettur af gerviblóði tóku stað viðurkenninga og leðurs, ljósin voru hulin með rauðum filmum, og húsið umbreyttist úr ævintýraleguskátakoti í drungalegan draugakofa.
Þórukot, skátaheimili Svana, á venjulegum degi
Hrekkjavakan var gengin í garð. Skátarnir mættu beint upp í skátaheimilið eftir skóla og héldu eina general prufu. Hver skáti í draugahúsinu var búinn að æfa sinn hluta í þessum marghliða leikþætti. Leiðsögumaður leiddi þátttakendahóp í gegnum húsið og sagði sögu draugahússins. Fjölskyldan sem átti heima í húsinu var myrt. Morðinginn er ennþá í húsinu en enginn þorir að fara inn í húsið til að fanga hann. Markmið þátttakenda er að fara inn í húsið, leita að vísbendingum, og finna morðingjann. Áætlað var að viðburðurinn myndi byrja klukkan 18, yngri krökkum yrði boðið að taka þátt til klukkan 20 en þá yrði dagskráin keyrð af meiri ákafa til klukkan 22 fyrir eldri krakkana.
„Við bjuggumst við tíu til þrjátíu manns“ sagði Valdís Huld sveitarforingi. „Í kringum tíu mínútur í opnum mættu tveir strákar og við hugsuðum „Nice. Við getum keyrt þetta allt í gegn, þrifið og farið snemma heim.“ Síðan mættu tíu, og svo tvö hundruð. Tíu mínútur inn í dagskránna var bílastæðið fullt. Það var komin röð út úr dyrum. Það flæddi inn. Við þurftum að senda mannskap út í umferðarstjórnun bæði á bílunum sem voru að koma og röðinni sem náði hringinn í kringum húsið. „Við ætluðum upprunalega að senda fólk inn í fjögurra manna hollum“ sagði Þóra Lóa sveitarforingi. „Við þurftum að senda inn tíu manns í einu ef við ætluðum að hafa einhvern möguleika á að hleypa öllum inn. Þetta var ekki nærum því eins chillað og við bjuggumst við.“
Áður en fyrri hlutinn af dagskránni var allt nammið uppselt. Það þurfti að banna fólki að fara aðra ferð svo allir kæmust að. Rétt undir hundrað krakkar voru búnir að koma sér fyrir í litlu sólstofunni sem notuð var sem miðasala og sjoppa. Fjárhagsmarkmiðinu var löngu náð og enn þá átti eftir að keyra seinni hlutann af dagskránni.
Að kvöldi loknu var talið að rétt yfir 400 manns hafi mætt og tekið þátt í dagskránni. Skátarnir og foringjar þeirra voru að vitaskuld ánægð með góða þátttöku en voru þó sammála um að þessi fjáröflun hefði jafnvel farið of vel.
Draugahúsið í Þórukoti þetta árið verður haldið 1. nóvember 2019
Skátafélagið Svanir á Álftanesi rekur eins og fleiri félög gífurlega öflugt og fjölbreytt starf fyrir stóran hóp ungmenna. Á næsta ári heldur félagið á Landsmót skáta á Akureyrir ásamt því sem 18 dróttskátar úr félaginu halda erlendis á Evrópumót skáta í Gdansk í Póllandi.
Því endurtaka þessir flottu skátar leikinn en draugahús Svana verður opið gestum þann 1. nóvember. 6. bekkur og yngri geta tekið þátt milli 18:30 og 20:30 þar sem aðgangseyrir verður 500 krónur, en þar eftir færist meiri hrollvekja í draugahúsið og 7. bekkur og eldri getur tekið þátt fyrir 1000 króna aðgöngugjald!
Skátar úr Svönum munu standa fyrir ýmiskonar skemmtilegheitum fyrir þau sem bíða eftir því að komast inn í draugahúsið og líkt og í fyrra verður sjoppa á staðnum þar sem hægt verður að kaupa ýmiskonar góðgæti! Skátafélagið Svanir býður öll sem vilja halda upp á Hrekkjavökuna á skemmtilegan máta ásamt því að styrkja öflugt æskulýðsstarf velkomin!













