Þankadagurinn 2020

Í tilefni af Þankadeginum, 22.febrúar næstkomandi, gaf WAGGGS út dagskrárpakkann ‘Living Threads’ eða ‘Lifandi Þræðir’. Nú hefur hópur af skátum þýtt dagskrárpakkann ‘Lifandi Þræðir’ og er tilvalið að tileinka febrúarmánuði þessum spennandi verkefnum sem fjalla um fjölbreytileika, inngildingu og réttsýni. Á meðan á verkefninu stendur safna skátar þráðum til að skapa armband sem táknar fjölbreytileikan.

Þankadagurinn eða World Thinking Day er dagur alþjóðlegrar vináttu þar sem skátar út um allan heim hugsa hlýtt til annarra skáta og senda þakklæti út í heiminn. Haldið hefur verið upp á Þankadaginn á hverju ári síðan 1926. Hugmyndin varð fyrst til þegar kvenskátar (Girl Guides og Girl Scouts) hittust í Bandaríkjunum á fjórðu heimsráðstefnu WAGGGS sama ár. Þær voru sammála um að það ætti að vera sérstakur dagur á hverju ári, tileinkaður öllum þeim sem eru hluti af skátunum til að hugsa hvert til annars og senda þakklæti út í heiminn. Dagurinn er haldinn 22. febrúar en sá dagur var valinn vegna þess að það er afmælisdagur bæði Lord Baden-Powell, stofnanda skátahreyfingarinnar og Olave Baden-Powell, sem var World Chief Guide.

Þá er ekkert eftir en að spila Lifandi Þræði. Skemmtið ykkur vel!

Þankadagurinn 2020 á íslensku