TÍU SKÁTAR LÆRA SKYNDIHJÁLP

Hér má sjá flest þeirra sem luku námskeiðinu, á myndina vantar ljósmyndarann og eina sem tók hluta námskeiðs sem upprifjun á fyrri kennslu.

Þrjú kvöld í skyndihjálparkennslu

Skyndihjálparnámskeið var haldið fyrir sjálfboðaliða Bandalags íslenskra skáta yfir þrjár kvöldstundir dagana 14. – 16. janúar 2020. Námskeiðið var 12 kennslutunda námskeið og leiðbeinandi var Laufey Gissurardóttir frá Rauða krossinum. Námskeiðið sóttu 10 skátar sem öll sinna hinum ýmsu ábyrgðarstöðum innan skátahreyfingarinnar sem sjálfboðaliðar. Níu þeirra sóttu öll þrjú kvöldin en ein kom einungis í upprifjun fyrsta kvöldið.

Mörg tóku skyndihjálparnámskeiðið sem hluta af Gilwell þjálfun sinni en skyndihjálparnámskeiðið er skyldu hluti af þeirri þjálfun. Öll tóku þó þjálfunina í þeim tilgangi að vera vonandi betur búin til að bregðast við ef slys bera að garði. Öryggi er öllum skátum mikilvægt og það að kunna ekki nema grunnatriðin í skyndihjálp getur skipt sköpum þegar hættan ber að garði.

„Rauði krossinn býður upp á vönduð og hagnýt námskeið í skyndihjálp, sem sniðin eru að þörfum hópa, hægt er að fara á námskeið frá 2
kennslustundum upp í 12 kennslustundir. Vel gert og metnaðarfullt af skátunum að bjóða upp á að sækja 12 kennslustunda námskeið sem þetta“
segir Laufey

Við þökkum Laufey fyrir að standa að þessari mikilvægu kennslu fyrir okkur og vonum að þátttakendur verði viðbúin næst þegar skyndihjálparkunnátta þeirra gæti komið að gagni!