Opinber heimsókn á skátafund

 

Forseti í heimsókn á Grundarfjörð

Skátarnir í 8.-10. bekk í Grundarfirði fengu heldur betur skemmtilega heimsókn nú á dögunum þegar forsetahjónin litu við á skátafund í opinberri heimsókn á Snæfellsnesi. Skátarnir tóku vel á móti hjónunum, afhentu þeim merki félagsins og ræddu við þau um skátastarfið og hvernig það er að alast upp í Grundarfirði.

Skátafundurinn var að þessu sinni haldinn í klifurhúsinu í Grundarfirði og fengu skátarnir hjálp frá hjónunum við að skrúfa upp nýja klifurleið sem var hönnuð til að henta yngstu kynslóðinni auk þess sem þau sýndu þau hjónunum klifurleiðir í húsinu og leikgleðin og ánægjan smitaði svo frá sér að fyrr en varir var Guðni Th. sjálfur farinn að klifra upp veggina við mikinn fögnuð viðstaddra.

Forseti Íslands er verndari skátahreyfingarinnar og ár hvert er athöfn á Bessastöðum þar sem forseti Íslands sæmir 17-19 ára skáta forsetamerkinu svokallaða. Nánari upplýsingar um forsetamerkið má finna hér: https://skatarnir.is/rekkaskatar/

Forseti að klifra á Grundarfirði

Myndirnar tók Tómas Freyr Kristjánsson ljósmyndari