Ólöf Jónasdóttir, nýr mótstjóri Landsmóts skáta 2020

 

Ólöf Jónasdóttir, mótstjóri Landsmóts skáta 2020

Ólöf Jónasdóttir tók nýlega við sem mótstjóri Landsmóts skáta 2020. Ólöf hefur þekkt skátastarfið lengi vel en hún starfaði eitt ár í Kvenskátafélaginu Valkyrjunni þegar hún var 12 ára. Hún tók svo aftur upp þráðinn 2011 þegar eldri dóttir hennar byrjaði í skátunum en þá í Þrándheimi í Noregi. Í dag starfa þær báðar með Klakki á Akureyri þar sem Ólöf er rekka- og róverskátaforingi. Auk þess er Ólöf verkefnastjóri tvítyngismála í leikskólanum Iðavelli á Akureyri.

 

 

Kom Klakki til Noregs

Ólöf fór á sitt fyrsta stórmót árið 2013, en það var landsmót norskra skáta og sá Ólöf um að skipuleggja dagskrá fyrir börn foringja og um gestamóttökuna. Hún tók svo þátt á landsmótum hér á landi árin 2014 og 2016. Hún hélt svo aftur til Noregs á landsmótið árið 2017 en þá fékk hún flottan hóp úr Klakki með sér.

Fararstjórar Íslands á landsmóti Noregs 2017

Mikilvægt að hafa gott teymi og upplýsingaflæði

“Mér finnst alltaf svo frábært að upplifa stemninguna og sjá samstarfið hjá skátunum á mótum”, segir Ólöf, aðspurð um hvað heilli hana við landsmót. Mikil vinna er fólgin í því að skipuleggja Landsmót skáta og þarf öflugt teymi til þess að hlutirnir gangi upp að sögn Ólafar. “Ég kem í verkefnið um áramótin og tek við góðu búi ef svo má segja. Undirbúningurinn gengur mjög vel og ég hlakka til að starfa með mótstjórninni fram yfir Landsmót. Þetta væri hins vegar ekki hægt án allra þeirra starfsmanna og sjálfboðaliða sem taka þátt í þessu með okkur – þeirra framlag er ómetanlegt!” Ólöf minnir á mikilvægi þess að hafa gott teymi, öflugan starfsmannahóp og gott upplýsingaflæði til að svona stórmót verði að veruleika og virðist ekki vera skortur á góðu fólki í kringum Ólöfu að vinnu Landsmótsins.

 

Frábær aðstaða og nálægð við Akureyri

Ólöf hlakkar mikið til að sjá Landsmót skáta verða að veruleika og ekki skemmir fyrir hvað aðstaðan á Hömrum er frábær og nálægðin við Akureyri eykur valmöguleika á dagskránni mikið. Landsmót er stærsti reglulegi viðburðurinn á vegum Bandalags íslenskra skáta og fer fram á Hömrum í þetta skiptið. Ólöf hvetur alla skáta til að sameinast á landsmóti – nú þarf bara hressa skáta og frábærar fararstjórnir og foringja til að mæta og hafa gaman á Landsmóti skáta 2020. “Sjáumst á Landsmóti skáta á Hömrum!”