Útkall - Landsmótsstjórn
Langar þig að taka þátt í að skipuleggja Landsmót skáta á Úlfljótsvatni næsta sumar. Við leitum að áhugasömum einstaklingum til að takast á við skemmtilegt og krefjandi verkefni.
Okkur vantar;
Mótsstjóra
Aðstoðarmótsstjóra/starfsmannamál
Tækni- og tjaldbúðarstjóra
Dagskrárstjóra
Fjölskyldubúðastjóra
Nánari upplýsingar gefur Kristinn framkvæmdastjóri BÍS í síma 550-9800
Umsóknarfrestur er til 17. sept 2020.
Áhugasamir geta sent póst á kristinn@skatar.is
Landsmót verður á Úlfljótsvatni næsta sumar
Ákveðið hefur verið að halda landsmót skáta á Úlfljótsvatni næsta sumar- 14. – 21. júlí 2021.
Upphaflega átti að halda mótið í sumar en vegna fjöldatakmarkana vegna Covid-faraldursins féll það niður. Stefnt var á Akureyri sem mótsstað, en eftir að hafa metið heildarstöðuna ákvað stjórn Bandalags íslenskra skáta að færa mótið á Úlfljótsvatn og þar verður það haldið sumarið 2021.
„Við erum með mikinn búnað og góða aðstöðu á Úlfljótsvatni. Það var ekki auðvelt að taka þessa ákvörðun, en við teljum að það sé skynsamlegt í stöðunni eins og er,“ sagði Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Skátamiðstöðvar þegar hann kynnti málið á vel sóttum fjarfundi með félagsforingjum í gærkvöldi.
Ólöf Jónasdóttir, sem tók að sér stöðu mótsstjóra á liðnum vetri, þegar til stóða að halda mótið á Akureyri, tók undir orð Kristins um að það væri rétt ákvörðun að færa mótið á Úlfljótsvatn. „Við eigum að setja fókus á að halda Úlfljótsvatni gangandi,“ sagði hún. „Við hefðum auðvitað viljað halda mótið hér á Hömrum á Akureyri, en þetta er það skynsamasta í stöðunni.“
„Það er búið að vinna töluverða undirbúningsvinnu sem við munum skila til þeirra sem taka við mótinu,“ segir Ólöf sem nú lætur af störfum sem mótsstjóri. Félagsforingjar og stjórn BÍS þökkuðu Ólöfu fyrir hennar vinnu. Þema landsmótsins verður tengt heimsmarkmiðum sem skátar hafa hlúð að í sínu starfi, en einkunnarorð mótsins eru Byggjum betri heim.
Á næstunni verður leitað eftir nýju fólki til að koma inn í mótsstjórn. Kristinn er bjartsýnn á að það muni ganga vel. „Mögulega náum við að virkja á ný einhver þeirra sem tóku þátt í að skapa Moot heimsmótið sem haldið var á Úlfljótsvatni,“ segir hann og gerir ráð fyrir að næstu daga verði sent út opið kall eftir þeim sem vilja taka þátt í að halda Landsmót.
Nýr skátabúningur kominn í Skátabúðina
Skátabúðin er komin með í sölu nýja skátabúninginn. Peysur og boli sem eru óformlegri og þægilegri fatnaður heldur en skyrtan sem heldur áfram sínum sess sem hátíðarbúningur íslenskra skáta.
Peysurnar eru úr 85% lífrænni bómull og 15% endurunnu polyester, bolirnir eru úr 100% lífrænni bómull. Auk þess sem merkingin er unnin á vistvænan máta hjá Farvi ehf.
Auðvelt er að panta rétta stærð þar sem góðar stærðartöflur má finna í netverslun Skátabúðarinnar. Flíkurnar verða til mátunar í Skátabúðinni á næstu dögum og framleiddar eftir pöntunum. Einnig verður í boði að fá mátunarsett til láns í skátafélögin.
Verð:
Blá peysa barna: 5.800 kr.
Blá peysa fullorðins: 7.000 kr.
Appelsínugul peysa fullorðins: 8.600 kr.
Bolur barna: 2.600 kr.
Bolur fullorðins: 3.000 kr.
ATH: þessi verð gilda í 3 vikur ef gengi á evru fer ekki yfir 167 kr.
Pöntunareyðublað fyrir skátafélögin má finna hér.
Kjarkur, hugmyndaflug og samvinna
Vetrarstarf skátafélaganna er að hefjast þessa dagana fyrir börn og ungmenni á aldrinum 7 – 25 ára. Starfinu er aldursskipt og tekur mið af getu skátanna og byggir upp færni þeirra til framtíðar á fjölmörgum sviðum. Starfið eflir kjark, sjálfstæði, seiglu, útsjónarsemi og samvinnu.
Skátafélögin bjóða áhugasömu ungu fólki að kynna sér starfið og víða er mögulegt að líta við á fund án skuldbindingar. Á vefnum skatarnir.is eru greinargóðar lýsingar á inntaki skátastarfs og hvar finna má starfandi skátafélög ásamt þeirri dagskrá sem er í boði á hverjum stað.
Starfið yfir veturinn eru vikulegir skátafundir sem ýmist eru haldnir innan- eða utanhúss. Oft bætist við dagsferð um helgi og útilega. Þátttökugjöldum er stillt í hóf og taka sveitarfélög þátt í kostnaði með frístundastyrkjum.
Tvö skátafélög hafa boðið upp á nýjung sem kallast Fjölskylduskátun, en þá taka foreldrar þátt í starfinu með börnum yngri en 7 ára. Gjarnan er hist vikulega um helgar hluta úr degi eða með öðrum hætti sem hópurinn ákveður. Foreldrar þurfa ekki að hafa verið skátar og geta fengið leiðsögn frá skátamiðstöð.
Einnig eru starfandi hópar fullorðinna sjálfboðaliða í baklandi skátafélaganna og eru skátar og foreldrar hvattir til að skrá sig eða yfirfara eldri skráningar.
Covid-19 faraldurinn setti strik í reikninginn varðandi skátastarfið á liðnu vori sem féll niður um tíma. Skátar brugðu á það ráð að opna Stuðkví á netinu sem skátar og fleiri nýttu sér. Þegar takmörkunum var aflétt var boðið upp á starfið á ný og víðast hvar lengra fram á sumar en áður til að vinna upp glataðan tíma, enda skátarnir þyrstir eftir samveru og skátastarfi á nýjan leik. Komi til takmarkana í vetur munu skátar taka því af ábyrgð og festu með hagsmuni barna og ungmenna að leiðarljósi.
Leitað að nýjum alþjóðafulltrúa BÍS
Vegna breytinga er leitað að nýjum alþjóðafulltrúa Bandalags íslenskra skáta (BÍS). Fyrirvarinn er stuttur og verða þau sem hafa áhuga að láta vita af sér fyrir miðnætti 4. september. Fyrir þá sem hafa áhuga á alþjóðastarfi og samskiptum er hér óneitanlega spennandi tækifæri.
Alþjóðafulltrúarnir okkar eru tveir og að auki eru þrír í alþjóðaráði. Hópur vinnur þétt saman og hefur lagt góðan grunn fyrir starfið í vetur. Þær Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir og Erika Eik tóku við stöðu alþjóðafulltrúanna í vor, en það er staða Eriku sem nú losnar. Erika er óvænt að fara á vit nýrra ævintýra í orðsins fyllstu merkingu því hún er að hefja bachelor nám í „adventure and outdoor education“ við Humak University of Applied Sciences. Það var vitað að þessi staða myndi mögulega koma upp þegar hún tók við stöðunni í vor og við óskum Eriku alls hins besta í náminu í Finnlandi.

Þórey Lovísa bíður ásamt öðrum í alþjóðaráði spennt eftir nýjum liðauka. Þau hafa lagt upp með áherslur í starfinu og þar kemur fram vilji þeirra að vera bæði sýnileg og virk á netinu sem og á vettvangi í skátastarfinu. „Við ætlum að senda einstaklinga út á ýmsa viðburði og koma heim með fræðandi efni“, segir í kynningu sem þau létu nýlega frá sér. Alþjóðaráð vill koma alþjóðastarfi meira inn í félögin og styðja þannig starfið með dagskrárpökkum og skemmtilegum verkefnum tengd alþjóðastarfi. „Okkar markmið er að gera íslenska skáta virka í alþjóðastarfi og fá Ísland til að vera virkt í alþjóðarhreyfingunum WOSM og WAGGGS, bæði með því að deila upplýsingum útávið sem innávið og þannig ná mestum árangri með góðum undirbúningi“.
Skipað verður í stöðuna til vors 2022. Erika hefur sem alþjóðafulltrúi verið með formlegar tengingar við kvenskátahreyfinguna (WAGGGS) og tæki nýr alþjóðafulltrúi við því hlutverki. Nánari upplýsingar fást hjá Eriku Eik og Mörtu Magnúsdóttur, skátahöfðingja.
Sjá einnig lýsingu á hlutverki alþjóðafulltrúa
Samskiptaráðgjafi
Samskiptaráðgjafi tók til starfa á vor mánuðum eftir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setti lög um starfið síðastliðið haust. Samskiptaráðgjafi hefur það markmið að auka öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna. Markmiðið er að allir geti tekið virkan þátt á sínum vettvangi og jafnframt leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem hafa átt sér stað án þess að óttast afleiðingar.
Þjónusta og ráðgjöf samskiptaráðgjafa stendur öllum þeim til boða sem tilheyra skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi á landinu. Til samskiptaráðgjafa er hægt að leita með mál sem varða andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi og áreitni, einelti og önnur sambærileg tilvik sem hafa farið fram á íþrótta- eða æskulýðsvettvangi. Einnig mun samskiptaráðgjafi koma á samræmdum viðbragðsáætlunum á landsvísu hvað slík mál varðar.
Starfi samskiptaráðgjafa sinnir Sigurbjörg Sigurpálsdóttir sem er klínískur sálfræðingur. Hægt er að hafa beint samband við hana, símatími er alla þriðjudaga kl.10-11 í síma 839-9100. Utan þess tíma er hægt að hringja í símanúmerið en ekki alltaf öruggt að ná samtali þá. Annars er hægt að senda tölvupóst á sigurbjorg@dmg.is sem verður svarað eins fljótt og hægt er. Einnig er hægt að leita til aðila innan síns félagsstarfs sem gæti svo haft samband við samskiptaráðgjafa fyrir hönd viðkomandi.
Eftir samtal eða fyrstu samskipti við samskiptaráðgjafa er boðið upp á viðtal ef málið varðar áreitni, ofbeldi eða einelti. Þá er frekari upplýsingum aflað og í kjölfarið yrðu næstu skref ákveðin, ávallt í samráði við þann sem leitar til samskiptaráðgjafa. Það er einnig hægt að leita eftir ráðgjöf hjá samskiptaráðgjafa, ekki þarf að fara lengra með mál ef viðkomandi kýs það ekki.
Samskiptaráðgjafi er óháður aðili sem getur aðstoðað og leiðbeint einstaklingum sem telja sig hafa verið beittir ofbeldi eða misrétti í sínu íþrótta- eða æskulýðsstarfi. Þjónusta samskiptaráðgjafa er gjaldfrjáls.
Nú hefur heimasíða samskiptaráðgjafa litið ljós og mun hún þjóna sem upplýsinga- og fræðslusíða starfsins. Einnig er hægt að setja sig í samband við samskiptaráðgjafa þar til að fá ráðgjöf eða aðrar upplýsingar.
https://www.samskiptaradgjafi.is/
17. júní - Hæ hó jibbí jei
Hæ hó jibbí jei það er kominn 17.júní!
Á morgun er 17. júní, þjóðhátíðardagur Íslendinga. Í ár verða hátíðarhöldin þó með breyttu sniði en venjulega þar sem ekki er mælt með því að stór fjöldi safnist saman. Eru fjölskyldur hvattar til að halda hátíð heima, skreyta heimilin sín og nærumhverfið og fagna með sínum nánustu.
Skátar eru oft sýnilegir í hátíðarhöldum og er ekki mikil breyting í ár. Hægt verður að finna hressa skáta um allt land að bralla ýmislegt skemmtilegt! Við mælum með að þið kynnið ykkur dagskrána betur en hér er stiklað á stóru hvað skátafélögin eru að gera.

Klakkur á Akureyri sér um fánahyllingu, skrúðgöngu og einnig ætla þau að vera með tívolí þar sem hægt verður að prófa risatafl, frisbígolf og fleira skemmtilegt! Frekari upplýsingar hér.
Garðbúar í Bústaðarhverfi ætla að bjóða upp á hoppukastala fyrir framan skátaheimilið sitt. Frekari upplýsingar hér.
Fossbúar á Selfossi ætla að vera með ratleik um Selfoss Frekari upplýsingar hér.
Mosverjar í Mosfellsbæ bjóða upp á fjölskylduratleik um MosfellsbæS þar sem spennandi þrautir verða út um allt. Frekari upplýsingar hér.
Vífill í Garðabæ verður með Kanósiglingar við Ylströndina í Sjálandi og ratleik sem leiðir þátttakendur um bæinn. Auk þess munu þau standa heiðursvörð í Vídalínskirkju og selja snuð á meðan Eyþór Ingi syngur. Frekari upplýsingar hér.
Svanir á Álftanesi munu standa heiðursvörð í Safnaðarheimili Bessastaðasóknar og selja snuð á meðan Eyþór Ingi syngur í Álftanesi. Frekari upplýsingar hér.
Faxi í Vestmannaeyjum leiðir skrúðgöngu frá íþróttamiðstöðinni. Frekari upplýsingar hér.
Strókur í Hveragerði mun taka þátt í skrúðgöngu og sjá um skemmtilegan ratleik fyrir fjölskylduna. Frekari upplýsingar hér.
Stígandi í Dalabyggð verður með candy floss til sölu, eldstæði og pylsur á pinnum á túninu bakvið stjórnsýsluhúsið. Frekari upplýsingar hér.
Heiðabúar í Reykjanesbæ verða með skrúðgöngu, draga stærsta íslenska fánann að húni, leiða fjallkonuna og sjá um fánahyllingu fyrir fjallkonuna. Frekari upplýsingar hér.
Skátar úr Reykjavík standa heiðursvakt í morgunathöfninni á Austurvelli. Frekari upplýsingar hér.
Vinalegt á Úlfljótsvatni
Það var vinamargt á Úlfljótsvatni um helgina, en auk tjaldgesta, þátttakenda í Frisbýgolfmóti og annarra sem leið áttu um, tóku 30 ungir skátar þátt í hópefli og örnámskeiði. „Við skipulögðum þessa helgi til að ná til yngri skátaforingja sem geta lagt Úlfljótsvatni lið,“ segir Pani, en hann heitir fullu nafni Javier Paniagua og er dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni.
Markmiðið var að stækka hópinn sem getur kallað sig Vini Úlfljótsvatns, en það er fjöldi skáta með hlýjar tilfinningar til Úlfljótsvatns og starfseminnar þar. Pani og Jakob Guðnason, forstöðumaður á Úlfljótsvatni eru ánægðir og þakklátir fyrir góða þátttöku. „Þetta fór fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Jakob. „Við viljum stækka hópinn sem finnst hann eigi heima hérna,“ segir Jakob. „Þetta er ekki og má ekki vera lokaður hópur, hvort sem við köllum hann Vini Úlfljótsvatns eða heimalinga. Það eru allir velkomnir“. Þeir sem komust ekki um helgina geta haft samband við Pani og Jakob, sem koma nýju fólki inn í hópinn.
Gagnast í félagsútilegunni í sumar
Auður Eygló úr skátafélaginu Landnemum var ánægð með helgina. Við hittum hana við klifurturninn og þó hún sé vön sem skátaforingi að leiða krakka í skátastarfi lærði hún margt gagnlegt.
Landnemar halda félagsútilegu á Úlfljótsvatni í sumar. „Það verður frábært að nýta sér þessa kunnáttu til að geta hjálpað þeim og vera með dagskrána,“ segir Auður Eygló.
Nota Hleiðru fyrir útilífsnámskeiðin

Félagar í Skjöldungum hafa staðið í stórræðum undanfarið við endurnýjun Hleiðru, skátaskála síns við Hafravatn. „Við erum að gera Hleiðru nothæfa á ný,“ segir Helga Þórey Júlíudóttir, félagsforingi Skjöldunga og í vídeó viðtalinu hér að neðan segir hún nánar frá verkefninu.
Sjálfboðaliðar hafa unnið mikið verk á liðnum vikum, en þau hittast alla þriðjudaga og fimmtudaga. Unnið er að endurnýjun palla, gróðursetningar og grisjunar á skógi umhverfis Hleiðru.
Helga Þórey segir að Skjöldungar hafi ákveðið að stökkva í þetta verkefni í miðju Covid-faraldrinum til að geta boðið upp á útilífsnámskeiðin í sumar, en það leit út fyrir að ekki væri hægt að halda námskeiðin með hefðbundum hætti. Skjöldungar hafa verið með sín námskeið í skátaheimilinu í Sólheimum og nýtt sér nálægð við Laugardalinn og aðstöðu sem þar er s.s. sundlaugar og fjölskyldu- og húsdýragarðinn.
Námskeið Skjöldunga í sumar verða þrjá daga í Hleiðru og tvo daga í Sólheimum. „Nú verða námskeiðin í raun meiri útilífsnámskeið,“ áréttar Helga Þórey.
Tengt efni:
- Skjöldungar - upplýsingasíða á skatarnir.is
- Skjöldungar – heimasíða félagsins
- Útilífsskóli skáta
- Útilífsskóli Skjöldunga
Samtal um nýja framtíðarsýn
Færni til framtíðar er heitið á framtíðarsýn skátanna til ársins 2025. Þessi nýja stefna Bandalags íslenskra skáta var tekin fyrir á vinnufundi stjórnar í liðinni viku og verður hún send skátum til kynningar í sumar. Stefnan verður lögð fram á Skátaþingi sem haldið verður 18. – 19. september á Úlfljótsvatni.

Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi, er spennt að kynna stefnuna og önnur stór mál fyrir Skátaþingi haustsins og nefnir þar sérstaklega Skátaskólann og MOVIS sem er stuðningskerfi við sjálfboðaliða í skátastarfinu. Margir skátar ættu að þekkja til innihaldsins því stefnan hefur verið unnin á opnum fundum með skátum í vetur.
Harpa Ósk Valgeirsdóttir, formaður dagskrárráðs, segir mikilvægt að skátar kynni sér stefnuna. „Flestir eru sammála um hver séu stóru málin í skátahreyfingunni, en við þurfum öll að vera saman í að keyra þau áfram,“ segir hún. „Við þurfum öll að vera meðvituð um hvert við erum að fara og þessi stefna hjálpar okkur við að vita það og hjálpi okkur við að svara spurningunni hvað er skátastarf.“









