Vinalegt á Úlfljótsvatni

Það var vinamargt á Úlfljótsvatni um helgina, en auk tjaldgesta, þátttakenda í Frisbýgolfmóti og annarra sem leið áttu um, tóku 30 ungir skátar þátt í hópefli og örnámskeiði. „Við skipulögðum þessa helgi til að ná til yngri skátaforingja sem geta lagt  Úlfljótsvatni lið,“ segir Pani, en hann heitir fullu nafni Javier Paniagua og er dagskrárstjóri á Úlfljótsvatni.

 

Markmiðið var að stækka hópinn sem getur kallað sig Vini Úlfljótsvatns, en það er fjöldi skáta með hlýjar tilfinningar til Úlfljótsvatns og starfseminnar þar. Pani og Jakob Guðnason, forstöðumaður á Úlfljótsvatni eru ánægðir og þakklátir fyrir góða þátttöku. „Þetta fór fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Jakob. „Við viljum stækka hópinn sem finnst hann eigi heima hérna,“ segir Jakob. „Þetta er ekki og má ekki vera lokaður hópur, hvort sem við köllum hann Vini Úlfljótsvatns eða heimalinga. Það eru allir velkomnir“.  Þeir sem komust ekki um helgina geta haft samband við Pani og Jakob, sem koma nýju fólki inn í hópinn.

Gagnast í félagsútilegunni í sumar

Auður Eygló úr skátafélaginu Landnemum var ánægð með helgina. Við hittum hana við klifurturninn og þó hún sé vön sem skátaforingi að leiða krakka í skátastarfi lærði hún margt gagnlegt.

Landnemar halda félagsútilegu á Úlfljótsvatni í sumar. „Það verður frábært að nýta sér þessa kunnáttu til að geta hjálpað þeim og vera með dagskrána,“ segir Auður Eygló.