Leitað að nýjum alþjóðafulltrúa BÍS

Vegna breytinga er leitað að nýjum alþjóðafulltrúa Bandalags íslenskra skáta (BÍS). Fyrirvarinn er stuttur og verða þau sem hafa áhuga að láta vita af sér fyrir miðnætti 4. september. Fyrir þá sem hafa áhuga á alþjóðastarfi og samskiptum er hér óneitanlega spennandi tækifæri.

Alþjóðafulltrúarnir okkar eru tveir og að auki eru þrír í alþjóðaráði. Hópur vinnur þétt saman og hefur lagt góðan grunn fyrir starfið í vetur. Þær Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir og Erika Eik tóku við stöðu alþjóðafulltrúanna í vor, en það er staða Eriku sem nú losnar. Erika er óvænt að fara á vit nýrra ævintýra í orðsins fyllstu merkingu því hún er að hefja bachelor nám í  „adventure and outdoor education“ við Humak University of Applied Sciences. Það var vitað að þessi staða myndi mögulega koma upp þegar hún tók við stöðunni í vor og við óskum Eriku alls hins besta í náminu í Finnlandi.

Alþjóðafulltrúar BÍS
Þórey Lovísa og Erika Eik

Þórey Lovísa bíður ásamt öðrum í alþjóðaráði spennt eftir nýjum liðauka. Þau hafa lagt upp með áherslur í starfinu og þar kemur fram vilji þeirra að vera bæði sýnileg og virk á netinu sem og á vettvangi í skátastarfinu. „Við ætlum að senda einstaklinga út á ýmsa viðburði og koma heim með fræðandi efni“, segir í kynningu sem þau létu nýlega frá sér. Alþjóðaráð vill koma alþjóðastarfi meira inn í félögin og styðja þannig starfið með dagskrárpökkum og skemmtilegum verkefnum tengd alþjóðastarfi.  „Okkar markmið er að gera íslenska skáta virka í alþjóðastarfi og fá Ísland til að vera virkt í alþjóðarhreyfingunum WOSM og WAGGGS, bæði með því að deila upplýsingum útávið sem innávið og þannig ná mestum árangri með góðum undirbúningi“.

Skipað verður í stöðuna til vors 2022.  Erika hefur sem alþjóðafulltrúi verið með formlegar tengingar við kvenskátahreyfinguna (WAGGGS) og tæki nýr alþjóðafulltrúi við því hlutverki. Nánari upplýsingar fást hjá Eriku Eik og Mörtu Magnúsdóttur, skátahöfðingja.

Sjá einnig lýsingu á hlutverki alþjóðafulltrúa