Fálkaskátadeginum frestað

Fálkaskátadeginum frestað

Það er verulega leitt að tilkynna að sú ákvörðun hefur verið tekin að fresta fálkaskátadeginum 2021. Ákvörðunin var tekin bæði af BÍS sem ábyrgist viðburðinn og skátafélaginu Garðbúum sem átti að vera gestgjafi fálkaskátadagsins í ár. Þeim sem standa viðburðinum þykir ekki ábyrgt að stefna saman hópum barna og fullorðinna úr ólíkum hverfum og bæjarfélögum við núverandi stöðu.

 

Skátafélag hefur þurft að afboða komu sína og allra sinna þátttakenda vegna stöðunnar í þeirra nærsamfélagi og á sama tíma er fjöldinn allur af ungum þátttakendum sem voru spennt fyrir að koma sem þyrfti að biðja um að koma ekki sökum þess að þau eru í smitgát. Tilgangur fálkaskátadagsins er að leyfa krökkum úr ólíkum skátafélögum að hittast og hafa gaman saman og aðstæður núna eru ekki heppilegar til að ná þeim markmiðum.

Þess verður freistað að reyna aftur síðar og ný dagsetning viðburðarins er sunnudagurinn 13. febrúar og er gert ráð fyrir að fálkaskátadagurinn fari fram með sama hætti, á sama stað og með sömu gestgjöfum. Skráning er því framlengd og þau sem eru skráð halda sínu sæti. .

 

Við minnum alla skátana okkar á að muna að vera ávallt viðbúin sérstaklega núna þegar á reynir!


Öll heimsmarkmiðin plaggat

Ungmennaráð heimsmarkmiðanna

Ungmennaráð heimsmarkmiðanna

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í ungmennaráð heimsmarkmiðanna til næstu 2 ára.

Hlutverk ungmennaráðs heimsmarkmiðanna er að vinna með málefni tengd heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, og vinna að því að koma sjónarmiðum barna á framfæri. Þetta er eina ungmennaráðið sem starfar innan stjórnsýslunnar og gefur það sínar ráðleggingar til ráðuneyta og ýmissa stofnanna eftir óskum. Einnig hefur ráðið greiðan aðgang að ráðuneytunum til að koma sínum málefnum á framfæri og funda til að mynda árlega með ríkisstjórn.

Ungmennaráðið heldur á lofti ákvæðum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, þá sér í lagi hvað varðar áhrif barna á ákvarðanatöku og rétt þeirra til að láta í ljós skoðanir sínar.

Í ungmennaráðinu sitja tólf börn og skulu þau vera 13-18 ára á meðan á skipunartímabilinu stendur. Öll börnin í ráðinu skulu því vera fædd á árunum 2006-2009. Leitast er eftir því að hafa fjölbreyttan hóp barna í ráðinu, þá sér í lagi með tilliti til kynjahlutfalls og búsetu en áhersla hefur verið lögð á að vera með fulltrúa úr öllum landshlutum. Ráðið heldur að meðaltali einn netfund í mánuði, og hittist í persónu á lengri fundum 3-4 sinnum yfir árið.

Umsóknir fara fram á vef stjórnarráðsins og er umsóknarfrestur til og með 15. nóvember

Öll heimsmarkmiðin plaggat

Drekaskátar eru öflugir!

Drekaskátar eru öflugir!

"Það var margt sem bar fyrir augu á leiðinni og drekaskátarnir tóku sér góðan tíma í að rannsaka drullupollana, sprekin, krækiberin, já og útsýnið. Það má segja að drekaskátar séu algjörlega með núvitundina á hreinu og það var ótrúlega dásamlegt að fylgjast með þeim njóta náttúrunnar og félagsskaps hvers annars."

Drekaskátasveitin Huginn og Muninn í Landnemum fór í dagsferð á Úlfarsfell laugardaginn 25. september síðastliðinn. Þegar við sveitarforingjarnir vorum að skipuleggja vígsludagsferð haustsins vorum við ákveðin í að dagsferðin skyldi vera eflandi fyrir skátana. Drekaskátar eru nefnilega öflugir og geta oft meira en margur heldur. Við veltum ýmsum möguleikum fyrir okkur og loks var stungið upp á því að ganga á Úlfarsfell. Hugmyndin var gripin á lofti, hún samþykkt og foreldrabréfið sent út.
Laugardagurinn rann upp, bjartur og fagur, og krakkarnir streymdu að í Landnemaheimilið með nesti og gott skap. Í bakpoka foringjanna rataði gomma af gulum drekaskátaklútum, skyndihjálpartaska og súkkulaðikex. Við kynntum helstu reglur ferðarinnar og minntum á mikilvægi þess að halda ávallt hópinn og svo héldum við af stað með fjórtán spræk börn í strætó.
“Jæja, hér förum við út!”, var loks kallað þegar strætóinn var kominn í nýlegt hverfi í Úlfarsárdal og út héldum við. Við sögðum krökkunum að við ætluðum að reyna að fara alla leið upp á topp og svo örkuðum við öll af stað upp fjallið.
Það var margt sem bar fyrir augu á leiðinni og drekaskátarnir tóku sér góðan tíma í að rannsaka drullupollana, sprekin, krækiberin, já og útsýnið. Það má segja að drekaskátar séu algjörlega með núvitundina á hreinu og það var ótrúlega dásamlegt að fylgjast með þeim njóta náttúrunnar og félagsskaps hvers annars. Drekaskátarnir voru líka duglegir að pæla í mismunandi leiðum sem hægt er að fara upp fjallið og komu stundum með uppástungur um hvaða leið skyldi fara og oft máttu krakkarnir vísa veginn en stundum þurfti líka að rifja það upp að stysta leiðin er ekki alltaf besta leiðin!

Drekaskátarnir urðu spenntir þegar þeir sáu að við nálguðumst toppinn og sumir hverjir þutu upp síðasta spölinn þar sem útsýni til allra átta beið okkar. Eftirvæntingin var mikil meðal krakkanna því á toppi Úlfarsfells átti vígsla nýrra skáta að fara fram. Eftir nestisstund voru nýir skátar vígðir inn í skátahreyfinguna og á einu augnabliki höfðu allir skátar í heiminum eignast 8 ný skátasystkin og nýju drekaskátarnir eignast ótal skátasystkina um allan heim.
Yndislegt, ekki satt?
Drekaskátaklútarnir fóru allir utan um nýja hálsa, kexið kláraðist nánast upp til agna en skyndihjálpartaskan var aldrei opnuð.
Drekaskátar eru öflugir! Ef við foringjar temjum okkur alltaf að hugsa: “Hvernig getum við gert leikinn, verkefnið, fundinn, dagskrárhringinn, dagsferðina eða útileguna enn þá meira krefjandi og spennandi?”, þá náum við að búa til sífellt öflugra og lærdómsríkara skátastarf.
Það ætti ekki að óttast að drekaskátar verði með þessu móti búnir að prófa allt og gera allt þegar þeir koma í fálkaskáta. Það er nóg eftir og það má alltaf byggja ofan á og bæta þrepum við í stigann. Það má alltaf klífa hærri fjöll, vaða fleiri ár, ganga fleiri kílómetra, gista fleiri nætur og fara á fleiri skátamót. Spörum ekki gamanið þar til komið er í róverskáta, byrjum stuðið strax í drekaskátastarfinu!

-Védís Helgadóttir, Júlía Jakobsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir drekaskátaforingjar drekaskátasveitarinnar Hugins og Munins í Landnemum


Helga Þórey er nýr framkvæmdastjóri skátanna

Helga Þórey er nýr framkvæmdastjóri skátanna

Helga Þórey Júlíudóttir tók í dag við sem nýr framkvæmdastjóri hjá skátunum og mun hún leiða breytingar á starfsemi Skátamiðstöðvar til að renna styrkari stoðum undir fræðslu, stuðning við dagskrá, miðlun og þjónustu við skátafélögin í landinu.  

„Þetta er gríðarlega áhugavert starf og við okkur blasa ýmsir spennandi möguleikar,“ segir Helga Þórey. 

Þjónusta skátamiðstöðvar í Hraunbæ og útilífsmiðstöðvar skáta á Úlfljótsvatni verður efld með samstöðu og teymisvinnu starfsmanna og sjálfboðaliða í fagráðum og stjórn Bandalags íslenkra skáta (BÍS). Leiðarljós fyrir þessa sóknarstemningu er sótt í stefnuna Fyrirmynd til framtíðar, sem skátafélögin samþykktu á  Skátaþingi.  

Jákvæð þróun hefur átt sér stað í fjáröflunarstarfi Grænna skáta sem nýtur aukins stuðnings frá almenningi og fyrirtækjum, sem vilja að gefa til skátastarfsins. Kristinn Ólafsson fráfarandi framkvæmdastjóri Skátamiðstöðvar verður framkvæmdastjóri Grænna skáta. 

Útilífsmiðstöðin á Úlfljótsvatni hefur ekki farið varhluta af því ástandi sem heimfaraldurinn færir með sér. Unnið verður með þeim sjálfboðaliðum sem dvelja til lengri og skemmri tíma, sem og stoðum rennt undir rekstur m.a. annars með gefandi skólabúðum og sumarbúðastarfi.

Nánari upplýsingar veitir Helga Þórey Júlíudóttir, framkvæmdastjóri BÍS, netfang: helga@skatarnir.is, sími 6593740.


Fyrsti útivistarskáli Íslands -Væringjaskálinn 100 ára.

Fyrsti útivistarskáli Íslands -Væringjaskálinn 100 ára.

Afmælisathöfn í Árbæjarsafni, sunnudaginn 29. ágúst 2021 kl: 13:00
á vegum Bandalags íslenskra skáta og Skátasambands Reykjavíkur í samstarfi við Árbæjarsafn.

Allir velkomnir

Dagskrá:
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri býður gesti velkomna
Upphafsorð, gestir boðnir velkomnir: Ævar Aðalsteinsson.
Ávarp forseta Íslands hr. Guðna Jóhannessonar, verndara skátahreyfingarinnar.
Skátakórinn: Kórsöngur og skátasöngvar.
Sagan talar, Væringjaskáli – Lækjarbotnaskáli: Haukur Haraldsson.
Skátaþrautir og „skátaæfingar“. Umsjón: Skátafélögin.
Skátakakó í tjaldi. Umsjón: Bakhópur Endurfunda skáta.

Skálinn skoðaður og opinn almenningi.
Varðeldurinn tendraður og skátasöngvar hljóma.
Tjöldun og framkvæmd svæðis: SSR og BÍS.

SKÁTASTARF Í LÆKJARBOTNUM  –  VÆRINGJASKÁLI  –  100 ÁR
– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –

Það þótti all mikið þrekvirki fyrir 100 árum þegar Skátafélagið Væringjar í Reykjavík reisti sér veglegan útivistar- og íveruskála við Lækjarbotna austan Reykjavíkur. Væringjaskálinn var byggður af skátunum sjálfum í sjálfboðavinnu en undir stjórn trésmiða. Skálinn hleypti strax miklu lífi í skátastarfið og opnaði skátum nýjan vettvang til útivistar, rötunar og leikja í umhverfi sínu og gerði slíkt alla tíð þar til hann var fluttur í Árbæjarsafn árið 1962 en þá höfðu skátar reist sér nýjan og stærri skála í Lækjarbotnum. Í Árbæjarsafni stendur Væringjaskálinn enn, keikur og fallegur í umsjón safnsins, veglegur minnisvarði um fyrri reisn. Verður svo áfram, en skátastarfið heldur áfram á gamla staðnum, undir Selfjallinu við Lækjarbotna.

Skátahreyfingin vill nú í samvinnu við Árbæjarsafn minnast merkra tímamóta; – frumherja Væringja í Lækjarbotnum og alls skátastarfsins þar í heila öld, með sérstökum viðburði 29. ágúst n.k. við skálann í Árbæjarsafni.
Öllum skátum er boðið að vera viðstaddir, en aðgangur að Árbæjarsafni er ókeypis þennan dag fyrir þá skáta sem bera skátaklútinn við innganginn.
Forseti Íslands, verndari skátahreyfingarinnar og borgarstjórinn i Reykjavík munu heiðra samkomuna með nærveru sinni.  Viðburðurinn hefst kl.13, vinsamlega mætið tímanlega að skálanum.

Athugið að farið verður að gildandi samkomutakmörkunum vegna sóttvarna.


Breytingar hjá Skátamiðstöðinni

Breytingar hjá Skátamiðstöðinni

Vegna aukinna umsvifa Grænna skáta undanfarin ár mun Kristinn Ólafsson sem síðastliðin 4 ár hefur sinnt framkvæmdastjórastöðu BÍS og allra dótturfélaga þess snúa sér alfarið að Grænum skátum og Skátabúðinni.

Kristni og félögum í Grænum skátum hefur tekist að efla starfsemi Grænna skáta töluvert og á undanförnum  fjórum árum hefur fyrirtækið vaxið úr því að vera með 6 starfsmenn í 25 starfsmenn. Félagið er orðið eitt stærsta þjónustufyrirtæki á landinu þegar kemur að söfnun endurvinnanlegra umbúða frá fyrirtækjum og söfnunargámum og jafnframt einn stærsti vinnustaður landsins fyrir fólk með skerta starfsgetu.

Við þökkum Kristni fyrir það yfirgripsmikla starf sem hann hefur unnið í þágu BÍS og hlökkum til að vinna með honum áfram í Grænum skátum.

Stjórn BÍS mun á næstu dögum auglýsa eftir nýjum framkvæmdastjóra BÍS auk þess sem skipulag skátamiðstöðvanna í Hraunbæ og á Úlfljótsvatni verður endurskoðað í ljósi þess að ekki verður lengur einn framkvæmdastjóri yfir öllum einingum BÍS.

Stjórn BÍS vill með þessum breytingum styrkja grunnstoðir skátastarfs með aukinni áherslu skátamiðstöðvarinnar á dagskrá, fræðslu og stuðningi við skátafélögin. Þegar nánari útfærsla verður tilbúin í samstarfi með nýjum framkvæmdastjóra mun stjórn boða til félagsforingjafundar til kynningar.

Með skátakveðju,

Stjórn BÍS

Marta, Harpa, Jón Halldór, Björk, Laddi, Sævar og Huldar


Hefð að hjóla á skátamót

Hefð að hjóla á skátamót

Tjaldflatirnar við Úlfljótsvatn eru nú að fyllast af skátum sem setja upp tjaldbúð og taka þátt í Skátasumrinu 2021. Mótið, sem var sett á miðvikudag, er eitt þriggja sambærilegra minni móta sem haldin verða á Úlfljótsvatni í sumar, í stað eins risavaxins Landsmóts skáta. Þetta var gert til að tryggja að hægt væri að bregðast við þeim samkomutakmörkunum sem kynnu að eiga við. Flestir skátarnir komu sér á áfangastað með hefðbundnum hætti — í rútum eða á einkabílum — en nokkrir vaskir skátar úr Skátafélaginu Vífli úr Garðabæ ákváðu að halda í gamla hefð og hjóla á mótið.  

 

Héldu að þetta yrði ekkert mál

„Það er gömul hefð í skátafélaginu okkar að dróttskátar hjóli á Landsmót. Ég held að hún sé frá 2002, þegar mótið var á Akureyri,“ segir Birgir Óli Guðmannsson, einn af skátunum sem hjóluðu. Hjólaferðin tók 5 og hálfan tíma, en skátarnir hjóluðu 56 km, frá Garðabæ til Úlfljótsvatns um Nesjavelli. „Ég hélt þetta yrði ekkert mál,“ segir Hreiðar Örn Hlynsson, annar úr hópnum, „en ég hafði ekki rétt fyrir mér. Lokaspretturinn var ógeðslegur“. Á leiðinni eru þrjár 15% brekkur en strákarnir sjá ekki eftir þessu. „Það eru ekki allir sem geta sagst hafa hjólað 56 kílómetra!“ segir Birgir Óli. 

 

Þórey Lovísa er ein af skipuleggjendum mótsins og segir það fara vel af stað.

Hlakka til að hitta gamla vini

Drengirnir úr Vífli eru spenntir fyrir mótinu, enda langt síðan skátar máttu koma saman í hundraða tali. „Eftir þessa hjólaferð —  ef þetta verður ekki skemmtilegasti hlutur í heimi verð ég svekktur!“ segir Kári Kjartansson, einn úr hjólahópnum. Það er lítil hætta á að Kári verði fyrir vonbrigðum, enda er þétt dagskrá í boði fram á sunnudag. Hreiðar segist spenntastur fyrir því að hitta gamla vini úr fararhópnum á heimsmótið fyrir tveimur árum. „Svo er líka bara gott að vera mættur aftur, eftir svona langt hlé frá skátaviðburðum,“ bætir hann við. 

 

Tækifæri felast í heimsfaraldri

Þórey Lovísa Sigurmundsdóttir, ein af skipuleggjendum mótsins, segir að mótið fari vel af stað. „Það eru ákveðin forréttindi að fá að keyra mótið þrisvar, því við munum vafalausts læra mikið á leiðinni,“ segir Þórey Lovísa og bætir því við að svona mót hafi ekki verið haldin áður. „Í raun er heimsfaraldurinn að gefa okkur tækifæri til að prófa nýja hluti sem við höfum ekki gert áður,“ segir Þórey Lovísa. 

Skátasumarið 2021 stendur yfir næstu þrjár vikur og eru tæplega 200 þátttakendur á svæðinu hverju sinni. 


Skátasumarið er hafið

Skátasumarið er hafið

Síðasta sumar stóð til að halda stórt Landsmót skáta en vegna heimsfaraldursins var því frestað. Þess í stað verða haldin þrjú minni skátamót í sumar, sem ganga undir nafninu Skátasumarið. Fyrsta mótið var sett síðasta miðvikudag á Úlfljótsvatni og stendur fram á næsta sunnudag. Næstu mót verða svo sett næstu tvo miðvikudaga á eftir líka á Úlfljótsvatni.

Mikið er lagt upp úr því að hafa dagskránna sem fjölbreyttasta og að allir finni sér eitthvað við sitt hæfi. Þátttakendur fá sjálfir að velja sína dagskrá og reyna verkefnin bæði á samvinnu skátaflokksins sem og hugmyndaflug, hæfni og reynslu hvers þátttakanda.

Heimsbandalag kvennskáta hefur útbúið dagskrárefni sem er ætlað að stuðla að jákvæðu líkamsöryggi og valdefla börn og ungmenni. Allir þátttakendur munu fara í gegnum það ásamt því að kynnast heimsmarkmiðunum, fara í gönguferðir og taka þátt í hefðbundinni skátadagskrá.

Reiknað er með yfir 1.000 – 1.500 manns verði á mótssvæðinu í hverri viku, þátttakendur og gestir í fjölskyldubúðum. Fjölskyldubúðir er rótgróinn þáttur á stærri skátamótum, þar sem foreldrar, gamlir skátar og allir þeir sem hafa áhuga geta komið og notið útivistar, samveru og um leið upplifað töfra skátastarfsins.

Bandalag íslenskra skáta stendur að mótinu. Skátastarf stuðlar að heilbrigðri æsku og virðingu fyrir samfélaginu og náttúrunni. Þannig byggjum við upp öfluga og ábyrga einstaklinga


Auðveldara verði að ná í hæfa skátaforingja

Auðveldara verði að ná í hæfa skátaforingja

Kynningarfundur þróunarverkefnis um launaða starfsmenn skátafélaga sem haldinn var í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ í gærkvöldi var ákaflega vel sóttur. Alls mættu fulltrúar frá níu skátafélögum til fundarins í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ.  Fram kom á fundinum að flest félaganna íhuga þátttöku. „Þessar undirtektir skátafélaganna eru mun betri en við gerðum ráð fyrir,“ segir Jón Halldór Jónasson, í stjórn BÍS og formaður stýrihóps verkefnisins.

„Við efnum til þessa verkefnis með það í huga að auðvelda skátafélögunum að finna hæfa foringja og ná að halda þeim lengur í starfi,“ segir Jón Halldór, en hann kynnti hugmyndirnar ásamt Helga Þór Guðmundssyni úr skátafélaginu Vogabúum og formanni Skátasambands Reykjavíkur.

Tvö launuð hlutverk

Þróunarverkefnið gerir ráð fyrir tveimur launuðum hlutverkum hjá skátafélagi, annars vegar starfi framkvæmdastjóra sem fær aukið vægi miðað við fyrirkomulag hjá flestum skátafélögum í dag og hins vegar fá sveitarforingjar laun fyrir sín störf. Með þessu nýja fyrirkomulagi á að fást meiri festa í starfið, en eins og staðan er í dag keppir skátahreyfingin um tíma ungs fólks í foringjastörfum og eru dæmi um að vaktaplanið hafi betur á kostnað skátafundarins.

Helgi Þór segir mikilvægt að skátafélögin sníði sér stakk eftir vexti og í því rekstrarlíkani sem var kynnt er starfshlutfall framkvæmdastjóra breytilegt eftir stærð skátafélags. Það sé auðvelt að auka það þegar félagið vex og að sama skapi minnka ef fækkar í félaginu. Mikilvægt sé að ráða framkvæmdastjóra sem hafi reynslu af rekstri, með brennandi áhuga á skátastarfi og frumkvæði. Margvíslegir möguleikar opnist með öflugu fólki og skátafélög hafi ríkt erindi við samfélagið, en þurfi svigrúm til að fylgja því eftir.

Skátafélögin með svipaðar hugmyndir

Ástæðan fyrir því hve fundurinn í gær var vel sóttur er að mörg skátafélög voru með svipaðar hugmyndir í skoðun þegar boð um hann barst frá Skátamiðstöðinni. Líklegt er að þau hefðu farið í þessa átt hvort sem er, en með samfloti skátafélaga innan þróunarverkefnisins næstu þrjú árin fengist aukinn kraftur. Kristinn Ólafsson framkvæmdastjóri BÍS segir að Skátamiðstöðin komi inn í verkefnið til að gefa því enn meiri kraft. Hægt er að létta stjórnum félaganna lífið með margvíslegum hætti þannig að krafturinn fari í skátastarfið en ekki skrifstofurekstur.

Eins og áður segir mættu fulltrúar frá níu skátafélögum: Fossbúar á Selfossi, Heiðabúar í Reykjanesbæ, Skátafélag Akraness, Vífill í Garðabæ og úr Reykjavík komu fulltrúar fimm félaga, frá Skjöldungum, Garðbúum, Vogabúum, Árbúum og Haförnum.

Næstu skref

Flest skátafélaganna sem mættu á fundinn vilja skoða möguleika á að fara í þróunarverkefnið strax í haust. Sum þeirra hafa þegar tilkynnt formlega þátttöku og önnur láta heyra í sér á næstu dögum eftir að hafa rætt innan sinna stjórna.

Gert er ráð fyrir vinnustofum með þeim skátafélögum sem koma inn í verkefnið og ræðst það á næstu vikum hvernig fyrirkomulag þeirra verður, en það tekur að sjálfsögðu mið af þátttöku.

Verkefni skátamiðstöðvar og stýrihóps skv. erindisbréfi stjórnar BÍS verða þessi:

  • Fullmóta rekstrarlíkan fyrir skátafélög með launaða starfsmenn
  • Vinna með skátafélögum sem ákveða að taka þátt í þróunarverkefninu
  • Ganga frá starfslýsingum fyrir framkvæmdastjóra og skátaforingja.
  • Vera talsmenn verkefnisins innan skátahreyfingarinnar
  • Skoða gildi stuðnings og hvatningar sem skátaforingjar fá í starfi.
  • Miðla upplýsingum um framvindu verkefnisins til áhugasamra
  • Vera til ráðgjafar vegna samninga við sveitarfélög
  • Fylgjast með gæðum þess skátastarfs sem boðið er
  • Skoða og vinna með leiðir til að ná til nýrra skátaforingja

 

Rakel Ýr Sigurðardóttir verkefnastjóri í Skátamiðstöð mun leiða verkefnið ásamt stýrihópi. Formaður stýrihóps er Jón Halldór Jónasson úr stjórn BÍS og auk hans eru í hópnum Birgir Ómarsson, skátafélaginu Garðbúum, Helgi Þór Guðmundsson, skátafélaginu Vogabúum, Jóhanna Másdóttir, fulltrúi starfsráðs, Ragnheiður Silja Kristjánsdóttir, skátafélaginu Garðbúum og Þórhallur Helgason, fulltrúi Skátaskólans.


Drekaskátamótin 2021

Drekaskátamót 2020 2021

DREKASKÁTAMÓT Á TÍMUM HEIMSFARALDURS

Drekaskátamót 2020 2021 fór fram á Úlfljótsvatni 5. og 6. júní síðastliðinn. Mótið er árlegur liður í starfi 7 – 9 ára skáta og ekki óvanalegt að þess sé beðið með mikilli eftirvæntingu. En í ár var eftirvæntingin jafnvel meiri en áður því ekki var mögulegt að halda mótið sumarið 2020 vegna heimsfaraldurs og því höfðu mörg beðið í tvö ár eftir því að komast á mótið.

Þótt Covid hafi ekki komið í veg fyrir mótið þetta sumarið, minnti heimsfaraldurinn samt á sig. Vegna samkomutakmarkanna var ekki mögulegt að allir þátttakendur og sjálfboðaliðar kæmu á Úlfljótsvatn í einu og gistu yfir nótt og því brugðið á það ráð að halda tvö styttri mót sitt hvorn daginn í staðin.

Þessa ákvörðun þurfti að taka þegar rúm vika var í mót og því þurfti mótstjórnin að leggja gífurlega vinnu í að aðlaga mótið út frá aðstæðum.

EINS MÓT ÓLÍK VEÐRÁTTA

Það var sólstrandarþema á Drekaskátamóti 2020 2021 og sólin var svo sannarlega á sínum stað, en því miður var hrúga af skýjum á milli hennar og skátanna á mótinu. En það kom ekki í veg fyrir að 150 þátttakendur og sjálfboðaliðar ættu fjörugan dag á Úlfljótsvatni á laugardeginum og gekk rigningunni ekki betur að stöðva gleðina hjá hinum 150 þátttakendunum og sjálfboðaliðunum sem komu á mótið á sunnudegi.

Drekaskátarnir nýttu aðstöðuna til fulls og sigldu bátum, sigruðu vatnasafaríið, mátuðu gamla skátabúninga, náðu toppi klifurturnsins, spenntu boga og þöndu lungun á kvöldvöku í lok dags.

ÁVALLT VIÐBÚIN

Þátttakendur voru ekki ein í hópi þeirra sem skemmtu sér um helgina, reynsluboltarnir í mótstjórn og starfsmannahópnum höfðu ekki síður gaman af. „Það er búið að vera mjög skemmtilegt að prófa að gera þetta á nýjan máta og takast á við nýjar áskoranir.“ sagði einn mótstjórnenda og holdgervingur skátamottósins Ísak Árni Eiríksson Hjartar sem var í miðju kafi að sauma efstu töluna aftur á Hawai skyrtuna sína.

LEARNING BY DOING

En ekki voru öll að gera þetta í annað, þriðja eða fjórða sinn því þrjú ný tóku sæti í mótstjórn öll á rekkaskátaaldri, 16 – 19 ára. „Það er gaman að sjá yngri skátana vera tilbúna til að taka við keflinu og að sjá eldmóðinn hjá ungum mótstjórnarmeðlimum, foringjum og starfsfólki. Ég er allavega stolt af drekaskátamóti fyrir að gefa yngri skátum tækifæri til að spreyta sig í viðburðarhaldi og sjálf lærði ég mikið af þessu og er enn að.“ sagði Unnur Líf úr mótstjórn og bar svo á sig sólarvörn í þriðja skiptið svo að rigningin héldi áfram að renna af henni eins og nýbónuðum bíl.

DÝRMÆTT AÐ GETA KOMIÐ SAMAN

Þrátt fyrir aukið álag á mótstjórn og starfsfólk mótsins þótti þeim vel þess að virði að geta fundið lausn svo hægt væri að halda mótið. „Þrátt fyrir að ekki hafi verið hægt að bjóða þátttakendum öllum í einu í tjaldútilegu eins og vanalega var mjög dýrmætt og þarft fyrir bæði skáta og foringja þeirra að komast loksins á almennilegan skáta og útivistarviðburð.“ Sagði Salka Guðmundsdóttir leiðtogi mótstjórnar á meðan hún réri brimbrettinu sínu um vatnasafaríið.

AFTUR STÆRRA AÐ ÁRI

Sumarið 2022 verður landsmót á hverju aldursbili skátanna og verður drekaskátamótið auðvitað á sínum stað og jafnvel stærra en nú og áður.


Privacy Preference Center