Sjóræningjar tóku yfir Úlfljótsvatn á Skátasumrinu

Mikið líf og fjör var á Úlfljótsvatni um liðna helgi þegar sjóræningjar tóku yfir svæðið.

Tæplega 200 skátar komu saman á Skátasumrinu frá þrettán skátafélögum og settu upp tjaldbúðir á svæðinu.

Þau tóku þátt í fjölbreyttri sjóræningjadagskrá þar sem þau meðal annars lögðu land undir fót og heimsóttu Hengilsvæðið, Þingvelli, Eyrabakka og Knarrarósvita.

Þau tóku einnig þátt í dagskrá á svæðinu í ýmsum þorpum eins og verkstæðinu þar sem skátarnir föndruðu, smíðuðu, og útbjuggi allskyns sjóræningjahluti og reyndu að byggja í skip sem var siglingarhæft.

Þau kynntust alþjóðarstarfi í gegnum WOSM-og Better world þorpið og heimsóttu Svarta Sjóinn sem var risa þrautabraut sem reyndi á samvinnu til að komast undir storminum sem reið yfir Svarta sjó.

,,Mikil gleði og stuð ríkti hjá þáttakendum jafnt sem eldir sjálboðaliðum á mótinu og var gaman að sjá hversu tilbúin öll voru til að hífa upp fána og vera með í sjóræningjaævintýrinu. Það sem stendur mest uppúr er að hafa fengið að fylgjast með skátum allstaðar að af landinu mynda nýjar minningar, kynnast nýjum vinum og upplifa alvöru tjaldbúðar og útilífs stemmningu"  Segir Egle Sipaviciute, mótstjóri Skátasumarsins 2024.

 


Boðið upp á skátastarf í Guluhlíð

 

Í þessari viku er skátavika hjá Guluhlíð sem er frístundaheimili fyrir börn með sérþarfir. Frístundaheimilið er fyrir börn úr Klettaskóla í 1.-4. bekk og yfir sumarmánuðina er boðið upp heilsdags þjónustu fyrir börnin. Yfir vetrartímann sinnir Gulahlíð frístundastarfi barnahópsins eftir að hefðbundnum skóladegi líkur. Skátavikan er fyrsti liðurinn í nýju samstarfi milli Skátanna og Guluhlíðar um skátastarf í frístundaheimilinu. Markmið samstarfsins er að börn með ólíkar stuðningsþarfir fái tækifæri til að upplifa skátastarf á eigin forsendum, verja tíma í náttúrunni og takast á við ævintýraleg skátaverkefni við þeirra hæfi. Þórhildur ný verkefnastýra inngildingar hjá Skátunum hefur umsjón með samstarfinu, ásamt Margréti forstöðukonu Guluhlíðar.

 

Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi, Haraldur Sigurðsson framkvæmdarstjóri Kringlumýri frístundamiðstöðvar og Margrét Halldórsdóttir forstöðukona Guluhlíðar skrifuðu undir samtarfsyfirlýsingu þann 15. Júní í Guluhlíð. Hér eru þau ásamt Elvu Dögg Guðbjörnsdóttur, aðstoðarforstöðukonu Guluhlíðar, Þórhildi Elínardóttur Magnúsdóttur, verkefnastýru inngildingar hjá Skátunum og Helgu Þóreyju Júlíudóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra Skátanna og núverandi starfsmanns Guluhlíðar.

 

Fyrsta daginn í skátavikunni var skátafundur þar sem útilega var á dagskrá. Öll settu upp skátaklúta, tjölduðu samann og prufuðu að verja tíma inn í tjöldunum. Svo var boðið upp á kakó og kleinur fyrir nýju skátana í lok fundarins.

Á næstu dögum verður skynjunar- og náttúrubingó í anda skátastarfs þar sem markmiðið er að skátarnir í Guluhlíð kanni og upplifi náttúruna í kringum frístundaheimilið, ásamt útieldun í lok vikunnar þar sem börnin fá að poppa, baka skátabrauð og grilla pylsur yfir opnum eldi með aðstoð starfsfólksins.

Þetta nýja samstarf Skátanna og Guluhlíðar er fyrsta skrefið í verkefninu Skátastarf fyrir alla sem snýr að því að auka aðgengi að skátastarfi fyrir börn í viðkvæmri stöðu, með áherslu á börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir. Verkefnið fékk styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu sem verkefni í þágu farsældar barna. Hluti af verkefninu er að stuðla að innleiðingu skátastarfs í frístundaheimilum svo fleiri börn hafi tækifæri til að upplifa skátastarf í sínu umhverfi.


160 drekaskátar dönsuðu diskó á Úlfljótsvatni

Diskódrekar fylktu liði á Úlfljótsvatn um helgina þegar 160 drekaskátar á aldrinum 8-10 ára reistu tjaldbúð, dönsuðu diskó og skemmtu sér að skáta sið.
Ný mótsstjórn lék listir sínar í fyrsta sinn, með stuðningi 25 starfsmanna mótsins á aldrinum 16-28 ára.

Veðrið lék við hópinn á föstudaginn og var því auðvelt að tjalda og koma sér fyrir. Um 260 skátar tóku þátt í mótinu í heild sinni auk þess voru fjölskyldur drekanna sjáanlegar á tjaldsvæðinu.  Laugardagurinn gekk vel, dagskrá fór fram víðsvegar um Úlfljótsvatn, á vatnasvæðinu við KSÚ, í klifurturni og bogfimi auk þess sem mótið gróðursetti skjólbelti við stallaflatirnar undir handleiðslu Skógræktarfélags Íslands. Drekagleðin skein úr andlitum skátanna við heimför á sunnudag og voru öll sammála um að mótið hefði verið afskaplega vel heppnað og hlakka til að koma aftur að ári.


Nýja útgáfan af Forsetamerkisbókinni er loksins komin!

Ný uppfærð útgáfa af Vegabréfi rekkaskáta á leið að Forsetamerkinu er nú loksins komin úr prentun!
Bókin hefur verið uppfærð í samræmi við starfsgrunninn og fengið yfirhalningu til að endast betur.
Nú geta allir rekkaskátar haldið glaðir inn í sumarið og byrjað að skipleggja næstu ævintýri í Vegabréfinu.
Bókin er fáanleg í Skátabúðinni og í vefverslun.


Sumardagurinn fyrsti 2023

Sumardagurinn fyrsti 2023 er haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 20. apríl um land allt og hafa skátar skipulagt og standa að glæsilegum og stórskemmtilegum hátíðarhöldum fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra.

 

Í Reykjavík

Skátafélagið Árbúar í Árbæ

Staðsetning: Árbæjarsafn
Tímasetning: 12:30-16:00

Skátafélagið Árbúar leiðir skrúðgöngu frá Árseli að Árbæjarsafni en þar tekur við póstaleikur, útieldun og fleira. Veitingasala verður á staðnum sem fjáröflun fyrir félagið. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.

Skátafélögin Garðbúar í Fossvogi, Landnemar í Hlíðunum og Skjöldungar í Laugardal

Staðsetning: Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Tímasetning: 14:00-17:00

Skátafélögin þrjú ætla að sameina krafta sína og standa fyrir miklu sumarfjöri í fjölskyldu og húsdýragarðinum. Dagskráin verður í gangi á milli 14:00 og 17:00 þar sem hoppukastalar, klifurveggur og skátaþrautir verða í boði. Á staðnum verður sölutjald þar sem ýmis góðgæti verður til sölu sem fjáröflun fyrir unga skáta sem stefna á Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu 2023. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.

Skátafélagið Vogarbúar í Grafarvogi

Staðsetning: Skátaheimili Vogabúa, Logafold 106
Tímasetning: 13:00-16:00

Skátafélagið Vogabúar munu standa fyrir skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna við skátaheimilið sitt. Í boði verða leiktæki, hoppukastalar og ýmis skemmtun með skátaívafi. En síðan verða sirkúsatriði og mun trúbadorinn Jón Sigurðsson halda uppi stuðinu. Á staðnum verður veitingasala og candylfoss sem fjáröflun fyrir skátafélagið. Fá frekari upplýsingar á facebook auglýsingu.

Skátafélagið Ægisbúar í Vesturbænum

Staðsetning: Skátaheimili Ægisbúa, Neshaga 3
Tímasetning: 11:00-14:00

Skátafélagið Ægisbúar blæs til sumarhátíðar á sumardeginum fyrsta við skátaheimili sitt. Á staðnum verða hoppukastalar auk annarar skemmtunar. Á staðnum verða sölutjöld með góðgæti og ýmis matarkyns sem fjáröflun fyrir félagið. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.

Í Kópavogi

Skátafélagið Kópar

Staðsetning: Skátaheimili Kópa
Tímasetning: 14:00-17:00

Skátafélagið Kópar bjóða öllum Kópum og fjölskyldum þeirra í skátaheimilið sitt í opið hús. Veitt verða heiðursmerki til sjálfboðaliða kópa og í boði verður ratleikur um dalinn ásamt heitu kakói og vöfflur. Hægt er að sjá frekari upplýsingar hér á facebook viðburðinum.

Í Garðabæ

Skátafélagið Svanir og Skátafélagið Vífill

Staðsetning: Vídalínskirkju og Miðgarði
Tímasetning: 13:00-16:00

Skátafélögin Svanir og Vífill verða með skrúðgöngu frá Hofsstaðaskóla kl. 14 sem gengur að Miðgarði íþróttamiðstöð og þar tekur skemmtidagskrá við stútfull af tónlistarfólki, töframönnum, andlitsmálun, hoppuköstulum, veltibíl og candyfloss.

Frekari upplýsingar má finna á upplýsingasíðu Garðabæjar. Eða á facebook viðburði hátíðarinnar hér.

Í Hafnarfirði

Skátafélagið Hraunbúar

Staðsetning: Víðistaðakirkju og Thorsplani
Tímasetning: 13:30-16:00

Skátafélagið Hraunbúar tekur þátt í hátíðarhöldunum og verður með skemmtilega og fjölbreytta skátadagskrá fyrir alla fjölskylduna á Víðistaðatúni og við skátamiðstöðina Hraunbyrgi. Í boði verður kassaklifur, klifurveggur, útieldun þar sem grillaðir eru sykurpúðar og hike-brauð, hoppukastalar, bátar og risa hengirúm. Í Hraunbyrgi verður kaffisala og á Víðistaðatúni verður söluhús með ullarsykur, krap og popp. Hægt er að skoða frekari upplýsingar á heimasíðu Hafnafjarðar hér eða á facebook viðburði hátíðarinnar hér.

Í Mosfellsbæ

Skátafélagið Mosverjar

Staðsetning: Miðbæjartorgi og Varmá
Tímasetning: 13:00-16:00

Skátafélagið Mosverjar mun leiða skrúðgöngu frá Miðbæjartorgi að Varmá þar sem skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngunni með sumartónum. Að skrúðgöngu lokinni hefst dagskrá á Varmá með hoppuköstulum, kassaklifri, leikjum, og þrautum. . Frekari upplýsingar má finna á facebook viðburði hátíðarinnar.

Í Reykjanesbæ

Skátafélagið Heiðabúar

Staðsetning: Keflavíkurkirkju og skátaheimili Heiðabúa, Hringbraut 101
Tímasetning: 12:30-17:30

Skátafélagið Heiðabúar mun leiða skrúðgöngu frá skátaheimilinu að Keflavíkurkirkju þar sem skátafélagið kemur að hátíðarmessu þar sem nýjir skátar verða vígðir. Hægt er að fylgjast með Heiðabúum á facebook síðu þeirra hér.

Í Hveragerði

Skátafélag Strókur

Staðsetning: Hveragerðiskirkja
Tímasetning: 11:00

Skátafélagið Strókur verður með skátamessu í Hveragerðiskirkju og að henni lokinni verður Strókur með sumarskemmtun barnanna á planinu fyrir frmaan kirkjuna kl. 13. Þar verður ýmislegt í boði eins og hoppukastalar, tónlist, ullarsykur og fleira. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Hveragerðis hér.

Á Selfossi

Skátafélagið Fossbúar

Staðsetning: Skátaheimilinu Glaðheimum, Tryggvagötu 36
Tímasetning: 13:00-16:00

Nóg verður um að vera á Selfossi þar sem skátafélagið Fossbúar taka þátt í hátíðinni Vor í Árborg. Skrúðganga leggur af stað frá miðbæ Selfoss að Glaðheimum, skátaheimili Fossbúa þar sem skátaverkefni að ýmsu tagi verður í boði  og er hluti af stimplaleik hátíðarinnar.   Frekari upplýsingar um hátíðina má finna á upplýsingasíðu Árborgar. Einnig er hægt að fylgjast með facebook viðburði frá Fossbúum.

Á Akranesi

Skátafélag Akraness

Staðsetning: Skátahúsið og Akraneskirkja
Tímasetning: 10:30

Skátafélagið Akraness verður með skrúðgöngu frá skátahúsinu að Akranesskirkju þar sem við tekur sumarhátíð.

Í Dalabyggð

Skátafélag Stígandi

Staðsetning: Laugar í Sælingsdal
Tímasetning: 13:00 - 15:00

Skátafélagið Stígandi tekur þátt í Jörfahátíð Dalabyggðar og bjóða alla velkomna á Lauga í Sælingsdal þar sem þau verða með leiki og fjör. Frekari upplýsingar er hægt að sjá á heimasíðu Dalabyggðar hér.

Á Akureyri

Skátafélagið Klakkur

Staðsetning: Skátaheimili Klakks, Þórunnarstræti, Glerárkirkja og tjaldsvæðinu á Hömrum
Tímasetning: 10:40-15:00

Skátafélagið Klakkur mun vera með skrúðgöngu frá Giljaskóla kl. 10:40 að Akureyrarkirkju þar sem skátafélagið kemur að messu sem hefst kl. 11:00 en að henni lokinni er öllum boðið að koma í sumarhátíð að tjaldsvæðinu á Hömrum. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Klakks.

 


Metþátttaka ungmenna á Skátaþingi

Það var mikil gleði og góður andi í hópnum sem mætti á Skátaþing um helgina. Flestir skátar bíða eftir skátaþingi með eftirvæntingu þar sem það er helsti vettvangur nýrra hugmynda og skoðanaskipta. Hópurinn sem mætti á föstudagskvöld var með endæmum hress enda höfðu margir tekið þátt í bílabingó og öðrum þrautum á leiðinni norður. Rúmlega 150 skátar tóku þátt í eða stóðu að framkvæmd Skátaþings þetta árið og fór það fram 24.-26. mars í Háskólanum á Akureyri.

Skátaþing er árleg samkomu þar sem skátahreyfingin kemur saman, heldur aðalfund sinn og rýnir í stöðu skáta á Íslandi. Þingið er einnig ákveðin uppskeruhátíð fyrir fastaráðin enda er það oft vettvangur kynninga á nýjum leiðum í skátastarfi. Það sem helst var á döfinni að þessu sinni var útgáfa endurnýjaðs starfsgrunns skáta, ný útivistarmerki sem hvetja til þátttöku í gönguferðum og fjallaferðum og að sjálfsögðu upphitun fyrir Landsmót skáta 2024.

Þingið um helgina var afskaplega vel sótt og þá hefur þátttaka ungs fólks aldrei verið meiri en 47 róverskátar, 29 rekkaskátar og 8 dróttskátar sóttu Skátaþing þetta árið og þannig voru 84 fulltrúa á þinginu á þátttakanda aldri í skátastarfi. Ekki nóg með þessa stórgóðu þátttöku ungmenna í þinginu, heldur voru einnig 53% atkvæða í höndum ungmenna og er það met frá upphafi skátaþings.

 


Í upphafi þingsins fluttu gestir ávörp, forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar Heimir Örn Árnason ræddi um mikilvægi samvinnu sveitarfélaga og skátafélaga í uppbyggingu æskulýðsstarfs. Rektor Háskóla Akureyrar Eyjólfur Guðmundsson flutti einnig ávarp og fjallaði um mikilvægi skátastarfs og þá sérstaklega hvað skátar væru á góðri leið með að byggja upp sjálfstæða einstaklinga með nýju markmiðaflokkunum í starfsgrunninum, Leiðtogafærni, Tilveran mín, Heimurinn og umhverfið, og Skapandi hugur og segir Rektor mikinn samhljóm með þessum markmiðaflokkum og endurnýjaðri stefnu háskólans á Akureyri. Að lokum fjallaði Anna Kristjana, skátafélaginu Klakki,  um 100 ára afmæli Valkyrjunar á Akureyri og sett var upp sýning um sögu félagsins á göngum háskólans.

Á aðalfundinum tíðkast að veita viðurkenningar og að þessu sinni var m.a. afhentur Hetjuðdáðarmerkið úr gulli sem veitt er þeim sem hefur hætt lífi sínu við að bjarga öðrum úr lífsháska. Handhafi merkisins var Þórhallur Helgason úr skátafélaginu Segli, en árið 1997 bjargaði hann skátaflokk út úr skálanum Vífilsbúð sem brann eftir að gaskútur gaf sig.
Þórhallur kom öllum út úr skálanum heilum og höldnu en slasaðist sjálfur á hendi í brennandi skálanum. Hlaut Þóhallur standandi lófaklapp allra viðstaddra við afhendinguna.

Aðrar viðurkenningar voru afhentar öflugum skátaforingjum sem hlutu þórshamarinn úr bronsi fyrir sín öflugu störf.
Jón Halldór Jónasson var tilnefndur til skátakveðjunar úr bronsi eftir störf sín í stjórn BÍS og Hrefna Hjálmarsdóttir hlaut skátakveðjuna úr gulli fyrir ævistarf sitt fyrir skátahreyfinguna á Akureyri.



Það vakti mikla ánægju meðal þinggesta að ný stofnað skátafélag var tekið inn í Bandalag íslenskra skáta, en skátafélagið Farfuglar var stofnað síðasta vor. Félagið starfar á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði og mættu nánast öll börn bæjarfélagsins með félaginu á skátamót síðastliðið sumar. Stofnun félagsins blæs okkur öllum byr undir báða vængi og munu stjórn BÍS og erindrekar setja áherslu á landsbyggðina næstu árin.

Í lok aðalfundar tóku við umræðuhópar og smiðjur. Þátttakendur lögðu meðal annars drög að sóknaráætlun skáta fyrir vor og haustmánuði, rýndu í stöðu húsa á Úlfljótsvatni, kynntu sér nýja þætti í hvatakerfinu og kynntust fjölmörgum möguleikum sem standa ungu fólki til boði í alþjóðastarfi.

Það var þreyttur og glaður hópur sem kvaddist að Hömrum á sunndaginn, með innblástur í farteskinu aftur heim og brennandi sóknaranda í brjósti fyrir uppbyggingu skátastarfs.


Yfir 100 drekaskátar komu saman á drekaskátadegi Svana

Drekaskátadagurinn að hefjast, drekarnir standa í félagaröð að bíða eftir fyrirmælum. Mynd eftir Guðna Gíslason, Hraunbúa

Drekaskátadagurinn 2023 var haldinn á laugardaginn seinast liðinn þann 4. mars. Dagurinn var haldinn af Skátafélaginu Svönum og fór dagskráin fram á Álftanesi í stórumhverfinu í kringum skátaheimili þeirra á Bjarnastöðum. Dagurinn gekk frábærlega fyrir sig, og fengu drekarnir ljómandi gott veður, þó það hafi verið örlítið kal, skein sólinn allan daginn og gerði leiki og dagskrá skemmtilega og létta.

Táknræn umgjörð dagsins var „Sjóræningjar og geimverur“ þar sem skátarnir tóku hlutverk sjóræningja sem voru að endurheimta kex og kakó sem geimverurnar höfðu stolið af þeim. Skátarnir gengu á milli pósta sem voru að finna dreift um stóran hluta Álftanes. Á hverjum póst tókust skátarnir á áskorunum geimveranna, í formi leikja og verkefna.

Að lokum, þegar drekarnir náðu að sigra geimverurnar, settust skátarnir niður við Bjarnastaði, skátaheimili Svana, og drukku kakó og kjömsuðu á kexi.

 

Drekaskátar í leik, mynd eftir Guðna Gíslason, Hraunbúa„Það var einstaklega skemmtilegt að sjá fjörið í krökkunum og foringjum“ segir Halldór Valberg, félagsforingi Svana. „Við vorum heppin með veður, sólin lék við okkur. Þegar við héldum fálkaskátadaginn fyrir nokkrum árum var svo mikið rok að við vorum hrædd um að krakkar gætu farið að fjúka, en núna fengum við þetta dásamlega veður og nýttum það vel.“

Foringjar og sjálfboðaliðar Svana þakka kærlega frábæra þátttöku og einstaklega góðan anda í þátttakendum og foringjum.

 

 


Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #MARS

Alheimssamtök skáta, WOSM, leitar að ungu talsfólki í að taka þátt í vinnusmiðjum um hvernig á að verða talsfólk málefnis. Vinnusmiðjan fer fram dagana 24.-28. apríl 2023 í Brussel, Belgíu. Þátttakendur læra um hvað það felst í að vera talsfólk skátastarfs, læra um þátttöku á opinberum vettvangi, framsetningu og hvernig þessum málum er háttað í Evrópu.

Þátttakendur þurfa að vera á aldrinum 18-30 ára og með áhuga á samræðum við stjórnmálafólk varðandi málefni sem eru mikilvæg ungu fólki..

Skráninguna má finna hér.

Skráningarfresturinn rennur út 10. Mars.


Skátaflokkurinn Valkyrjur héldu kökubasar

Við í fálkaskátaflokknum Valkyrjum í Landnemum héldum kökubasar þann 12. febrúar í Landnemaheimilinu. Við undirbjuggum okkur með því að plana frá 17. janúar næstu fjóra skátafundi og nýttum þessa fjóra skátafundi til að undirbúa markaðinn. Við skipulögðum til dæmis hvað við ætluðum að selja á kökubasarnum, hver ætti að baka hvað og bjuggum til auglýsingar. Síðan reiknuðum við verðið á hráefnum varanna og seldum allt bakkelsið á útreiknuðu verði.

Við seldum sjónvarpskökur, skinkuhorn, ostaslaufur, bollakökur, smákökur, súkkulaðikökur, brownies, kókoskúlur og kanilsnúða. Allt seldist upp hjá okkur og við söfnuðum rúmlega 50.000 kr fyrir Rauða krossinn. Okkur fannst þetta vera mjög skemmtilegt verkefni.

Valkyrjur eru fálkaskátaflokkur í Landnemum. Flokkinn skipa:

Birna Signý Valdimarsdóttir
Kristín Kolbrún Hákonardóttir
Margrét Álfdís Huldudóttir
Melkorka Björk Iversen
Una Signý Sigurðardóttir
Unnur Álfrún Huldudóttir


Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #FEBRÚAR

Agora rekka og róverskátaviburður haldin 12.-16. apríl 2023 í Portúgal.
Vissir þú að Agora er stýrt af hópi rekka og róverskáta?

Ísland á fjögur sæti og opnað verður fyrir skráningu fljótlega!
Ekki láta þetta tækifæri framhjá þér fara!


Privacy Preference Center