Boðið upp á skátastarf í Guluhlíð

 

Í þessari viku er skátavika hjá Guluhlíð sem er frístundaheimili fyrir börn með sérþarfir. Frístundaheimilið er fyrir börn úr Klettaskóla í 1.-4. bekk og yfir sumarmánuðina er boðið upp heilsdags þjónustu fyrir börnin. Yfir vetrartímann sinnir Gulahlíð frístundastarfi barnahópsins eftir að hefðbundnum skóladegi líkur. Skátavikan er fyrsti liðurinn í nýju samstarfi milli Skátanna og Guluhlíðar um skátastarf í frístundaheimilinu. Markmið samstarfsins er að börn með ólíkar stuðningsþarfir fái tækifæri til að upplifa skátastarf á eigin forsendum, verja tíma í náttúrunni og takast á við ævintýraleg skátaverkefni við þeirra hæfi. Þórhildur ný verkefnastýra inngildingar hjá Skátunum hefur umsjón með samstarfinu, ásamt Margréti forstöðukonu Guluhlíðar.

 

Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi, Haraldur Sigurðsson framkvæmdarstjóri Kringlumýri frístundamiðstöðvar og Margrét Halldórsdóttir forstöðukona Guluhlíðar skrifuðu undir samtarfsyfirlýsingu þann 15. Júní í Guluhlíð. Hér eru þau ásamt Elvu Dögg Guðbjörnsdóttur, aðstoðarforstöðukonu Guluhlíðar, Þórhildi Elínardóttur Magnúsdóttur, verkefnastýru inngildingar hjá Skátunum og Helgu Þóreyju Júlíudóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra Skátanna og núverandi starfsmanns Guluhlíðar.

 

Fyrsta daginn í skátavikunni var skátafundur þar sem útilega var á dagskrá. Öll settu upp skátaklúta, tjölduðu samann og prufuðu að verja tíma inn í tjöldunum. Svo var boðið upp á kakó og kleinur fyrir nýju skátana í lok fundarins.

Á næstu dögum verður skynjunar- og náttúrubingó í anda skátastarfs þar sem markmiðið er að skátarnir í Guluhlíð kanni og upplifi náttúruna í kringum frístundaheimilið, ásamt útieldun í lok vikunnar þar sem börnin fá að poppa, baka skátabrauð og grilla pylsur yfir opnum eldi með aðstoð starfsfólksins.

Þetta nýja samstarf Skátanna og Guluhlíðar er fyrsta skrefið í verkefninu Skátastarf fyrir alla sem snýr að því að auka aðgengi að skátastarfi fyrir börn í viðkvæmri stöðu, með áherslu á börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir. Verkefnið fékk styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu sem verkefni í þágu farsældar barna. Hluti af verkefninu er að stuðla að innleiðingu skátastarfs í frístundaheimilum svo fleiri börn hafi tækifæri til að upplifa skátastarf í sínu umhverfi.