Umsókn þátttakanda á alheimsmóti 2027
LANGAR ÞIG AÐ KOMA MEÐ Á ALHEIMSMÓT SKÁTA Í PÓLLANDI SEM ÞÁTTTAKANDI?
Opið er fyrir umsóknir þátttakanda á alheimsmóti skáta í Póllandi 2027.
Hvað felst í því að vera þátttakandi á Alheimsmóti ?
Þátttakendur á alheimsmóti verða vera á aldrinum 14 - 17 ára þegar mótið byrjar 30. júlí 2027 (fædd á bilinu 30. júlí 2009 - 30. júlí 2013). Níu skátum er raðað saman í einn skátaflokk með einum foringja og fjórir flokkar saman mynda eina sveit.
Íslenski fararhópurinn mun fara út með 5 sveitir og því einungis 180 pláss fyrir íslenska þátttakendur. Fararhópurinn mun hittast fyrir ferðina á undirbúningsfundum og í sveitarútilegum þar sem hópnum er hristað saman og einnig verður farið yfir ferðalagið og dagskrá mótsins til að undirbúa þátttakendurna sem best.
Hér eru drög af ferðafyrirkomulagi hópsins með fyrirvara á breytingum þegar nær dregur ferðinni.
- 27. júlí 2027 - IST flýgur út
- 29. júlí 2027 - Aðalhópurinn flýgur út
- 30. júlí 2027 - Mótssetning
- 8. ágúst 2027 - Mótsslit
- 9.-13. 2027 - Mótsslit
Hvað kostar ?
Verðið fyrir þátttakanda er 572.000 kr. Athugið að þetta er verð án flugs.
Innifalið í verðinu er:
- Þátttökugjald til mótsins: 215.000 kr.
- Eftirmótsupplifun í Kraká: 110.000 kr.
- Einkenni: 35.000 kr.
- Annar kostnaður 212.000 kr.
- Sameiginlegur búnaður
- Sveitarstarf fyrir mótið
- Fararstjórn
- Skrifstofu- og ófyrirséður kostnaður
Þau sem vilja taka þátt eru beðin um að lesa vel skilyðrin hér að neðan og fylla síðan út umsóknareyðublaðið. Umsóknarfresturinn er til og með 1. apríl 2026
Ef það eru einhverjar spurningar um hlutverkið þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við fararstjórana á netfangið jambo2027@skatarnir.is.
Skilyrði fyrir þátttakendur
- Vera orðin 14 ára og ekki orðin 18 ára þegar mótið hefst, 30. júlí 2027
- Hafa farið á a.m.k. fjögurra nátta skátaviðburð og gist í tjaldi allan tímann
- Hafa unnið sér inn færnimerkin:
- Skyndihjálp
- Hnífur
- Útieldun
- Vegna víðáttumikils mótsvæðis þarf þátttakandi að vera í góðu líkamlegu formi og geta fengið a.m.k. 10 kílómetra á dag (nema ef um sérstök frávik er að ræða)
- Meðmæli frá sveitarforingja og einum úr félagaþrennunni þar sem hún er starfandi í félaginu, annars félagsforingja
- Góð heilsa þar sem að á mótinu er mikil útivera og dagskrá sem krefst mikillar hreyfingar í +25°C hita og því mikilvægt að þátttakendur séu líkamlega hraustir
- Þekki skátalögin og geti haft þau að leiðarljósi í allri vegferðinni í kringum mótið og í samskiptum við aðra.
- Hafa kynnt sér siðareglur Æskulýðsvettvangsins
- Hafa kynnt sér samskipta - og siðareglur þátttakanda mótsins sem allir þátttakendur þurfa að lesa yfir og samþykkja áður en þau fara á mótið
- Hafa kynnt sér 2. grein reglugerðar Bandalags íslenskra skáta um utanferðir skáta.
- Taka þátt í undirbúningsfundum og/eða útilegum sveitarinnar og fararhópsins til að tryggja að þátttakandi sé vel upplýstur og undirbúinn fyrir ferðina t.d.:
- Hittingur fararhópsins á Landsmóti skáta á Hömrum 2026
- Sveitarútilegur
- Undirbúningsfundir sveitarinnar
- Geta borið allan farangurinn sinn í einum bakpoka (18-20 kg) með minni dagspoka í u.þ.b. 30 mínútur (möguleg ganga frá rútunni að tjaldsvæðinu)
- Hafa andlega burði til að búa þétt við frumstæðar aðstæður í fjölbreyttri mannflóru og miklu áreiti í þrjár vikur fjarri foreldrum/forráðafólki
- Hafa jákvætt viðhorf gagnvart nýjum reynslum, ólíkum menningarheimum og að kynna íslenskt skátastarf á alþjóðlegum vettvangi
Umsókn fyrir þátttakendur
Íslendingar í Vín: Sjö skáta fararhópur fer á evrópuþing skáta fyrir hönd Íslands:
Í síðustu viku fóru fram Evrópuþing WOSM og WAGGGS og voru haldin í Vínarborg í Austurríki. Fararhópurinn fór út á föstudaginn þann 18. júlí og komu heim á fimmtudaginn þann 24. júlí. Fyrir hönd BÍS fóru sjö skátar út, tvö á WAGGGS þingið og fimm á WOSM þingið.
Á þinginu var margt að gera. Farið var yfir nýjar stefnur Evrópudeildar skátahreyfingunnar sem mun gilda næstu þrjú ár, kosið var í stjórnir Evrópudeildar hreyfinganna WOSM og WAGGGS og svo voru áskoranir á stjórnirnar sem voru fjörugar. Oftast þá komst þingið í gegnum þessar tillögur frekar fljótt, en eins og alltaf þá voru einhverjar tillögur sem rifist var mikið um. Í grunninn starfar Evrópuþing eins og Skátaþing gerir heima á Íslandi nema það er mikið sturlaðra og lengra. Samanlagt voru þrír dagar af þingstörfum en það voru þó ekki aðeins þingstörf heldur voru líka t.d. kynningar frá mismunandi aðilum eins og næstu stjórn fyrir Roverway sem verður haldið í Sviss árið 2028, og svo var einnig heill hellingur af smiðjum og þar má nefna t.d. smiðjur um að búa til stefnur, valdeflingu ungmenna og safe from harm.
Líklega það áhugaverðasta við það að fara í svona ferðir er samspil heimshreyfingana skáta og mismunandi skátabandalaga. Í rauninni voru þetta 3 þing sett saman. WOSM þingið WAGGGS þingið og sameiginlega þingið. Á WOSM og WAGGGS þinginu var rætt um það hefðbundna (áskoranir og skýrslur) en svo á sameiginlega þinginu var aðallega rætt um samstarf bandalaganna og hvernig ætti að styrkja það. Einnig var skemmtilegt að fylgjast með hvernig það sást í tengslanet bandalaga. Líklega besta dæmið um þetta voru Norðurlöndin. Algengt var að sjá hópa af Dönum, Svíum, Norðmönnum og Finnum að spjalla saman á göngunum og styðja við hvort annað í þingsalnum.
Annað sem var rosalegt er hversu mikið af valdamiklu og áhugaverðu fólki var á þinginu, það var frekar súrrealískt að sjá fólk ekki merkt löndum heldur heimshreyfingum eins og til dæmis má nefna WOSM stjórn sem gengur um með fjólubláan klút og í dökkblárri skyrtu. Þetta er fólkið sem tekur sumar af stærstu ákvörðunum innan skátanna sem hafa áhrif á alla skáta í Evrópu, jafnvel heiminum. Ef maður lenti á spjalli við einhvern frá öðru landi voru miklar líkur á að það væri stjórnarmeðlimur, jafnvel skátahöfðingi þess lands. En þrátt fyrir þetta þá tók maður ekki mikið eftir því í raun. Allir þarna hefðu alveg eins getað verið skátar og stjórnarmeðlimir félaga að hittast á Skátaþingi á Íslandi. Þess vegna var svo svalt að sjá einnig mikið af ungmennum á þinginu. Eitt hlutverk innan fararhópanna hét Youth delegate og það var alltaf skemmtilegt þegar þau komu með athugasemdir á umræðuna, oft skemmtilegra að hlusta á þau heldur en þau eldri.
Næsta Evrópuþing verður haldið í Flórens og við hlökkum til að sjá sem flest sækja um fyrir það!
-Helgi Þórir Sigurðsson, skátafélagið Vífill
Hægt er að lesa um stefnuna sem var kosin hjá WOSM næstu þrjú ár hér
Róvervikan í Kandersteg

Nú gefst rekka- og róverskátum frá aldrinum 18 til 26 ára tækifæri á að fara til Kandersteg skátamiðstöðinnar og upplifa áramótin í svissnesku Ölpunum.
Róvervikan (e. Roverweek) er haldin dagana 28. desember 2024 - 4. janúar 2025. Á viðburðinum fá skátar að upplifa þá vetrardagskrá sem er í boði í skátamiðstöðinni, kynnast erlendum skátavinum og læra alls konar sniðugar nýjungar til að nýta í skátastarfi.
Verðið á viðburðinn er 300 CHF (um 48.500 ISK) en þátttakendur þurfa einnig að borga ferðakostnað sjálf og skipuleggja hvernig þau ferðast til Kandersteg.
Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu viðburðarins en senda þarf inn umsókn til að fara á viðburðinn.
Umsóknarfrestur er til og með 16. ágúst!
Vakin er athygli á reglugerð BÍS um utanferðir skáta, forvarnarstefnu skáta og siðareglur Æskulýðsvettvangsins.
Skátar frá Norðurlöndunum vinna saman - Norðurlandaþing 2024

Dagana 8.-12. maí tók hópur íslenskra skáta þátt í Norðurlandaþingi sem haldið var í Færeyjum að þessu sinni. Norðurlandaþing er haldið á 3 ára fresti af norrænu skátanefndinni (NSK) sem er samstarfsvettvangur skátasamtaka á Norðurlöndunum. Markmið vettvangsins er að skapa tækifæri til samstarfs, til að miðla reynslu og deila menningu á milli landanna. Hér er hægt að lesa meira um starfsemi NSK.
Allt að 180 skátar frá öllum Norðurlöndunum voru samankomin á ráðstefnunni, þar af 19 manns frá Íslandi. Íslenski hópurinn samanstóð af stjórn og starfsfólki BÍS, fulltrúum frá Alþjóðaráði og fulltrúum ungmenna.

Fyrsta daginn fengu þátttakendur að upplifa náttúruundir Færeyja með vali um ferðir um eyjarnar. Hægt var að fara í fjallgöngu í Klaksvík, gönguferð um Kirkjubø eða göngu um Gásadal og að skoða Múlafoss. Seinna um daginn var þingið sett en þemað að þessu sinni var Tími breytinga. Á opnunarathöfninni fengum við ræður frá Skátahöfðingja og forsætisráðherra Færeyja ásamt tónlistaratriðum, eitt frá ungum skátum í Þórshöfn og svo flutti færeyski tónlistarmaðurinn Marius Ziska nokkur lög.
Á ráðstefnunni var fjölbreytt dagskrá sem samanstóð að mestu af kynningum og vinnusmiðjum ásamt því að þátttakendur fengu tækifæri á því að rýna betur í sýn, stefnu og samstarfsgrundvöll NSK.



Vinnusmiðjurnar komu frá þátttökulöndunum þar sem lögð var áhersla á spennandi og gagnlegar smiðjur til að kynna hin ýmsu verkefni sem bandalögin eru að vinna að. Sem dæmi má nefna smiðju um geðheilbrigðismál í skátastarfi, hvernig hægt er að vekja vitund skáta um veruleika flóttafólks, hvernig dagskrá rekka- og róverskáta lítur út, hvernig sænskir skátar kynna tækifæri til alþjóðastarfs og svo margt margt fleira. Íslensku skátarnir stóðu fyrir þrem smiðjum, einni um sjálfbæra viðburði, aðra um öryggi í skátastarfi og sú þriðja kynnti starfsemi Grænna skáta og hvað það gefur íslensku skátahreyfingunni.


Að lokum ber sérstaklega að nefna að Færeyingar héldu smiðju sem bar heitið Skótahjálpin, þar sem þau sögðu frá góðgerðarstarfi sínu þar sem þau safna peningum fyrir góð málefni. Til að mynda gáfu þau íslenskum skátum 500 þúsund krónur fyrir sumarstarfi grindvískra barna.

Einnig sammældust Norrænu bandalögin um að veita styrk til skáta í Brasilíu sem standa í ströngu um þessar mundir að hjálpa samfélagi sínu að kljást við mikil flóð sem hafa geysað í suðurhluta landsins.
Að sjálfsögðu var svo boðið upp á kvöldvökur að skátasið í lok hvers dags!
Við þökkum frændfólki okkar í Færeyjum fyrir einstaklega vel skipulagða og gagnlega ráðstefnu og erum full tilhlökkunar að innleiða þær hugmyndir sem við fengum á ráðstefnunni í okkar starfsemi.
Mælitæki á áhrif æskulýðsstarfs á ungt fólk kynnt á ImpactYouth

Þann 22. febrúar sótti Védís Helgadóttir lokafund MIYO verkefnisins í Belgíu.
MIYO verkefnið (e. Measuring Impact: with, for and by youth organisations) er samstarfsverkefni WOSM, YMCA í Evrópu og Maynooth University og markmið þess er að búa til mælitæki til þess að mæla áhrif ýmissa ungmennahreyfinga, t.d. skátahreyfingarinnar, á ungt fólk.
Á fundinum var þetta mælitæki kynnt en það hefur verið í þróun síðastliðin tvö ár og nokkur bandalög hafa nú þegar tekið þátt í pilot-rannsóknum.
Það er mikilvægt fyrir skátahreyfinguna, og smærri einingar innan hennar, að geta sýnt með sannanlegum hætti hver áhrif starfs hennar er á skátana, t.d. hvaða færni skátarnir öðlast og hvað þeir læra.
Fyrst og fremst er það mikilvægt fyrir hreyfinguna sjálfa, til að vita á hvaða leið hún er, en það er líka mikilvægt að hreyfingin eigi þessi gögn til að geta sýnt almenningi hver áhrif skátastarfs eru, sem og til að kynna fyrir styrktaraðilum sínum.


Mælitækið er tvíþætt en miðað hefur verið við að þátttakendur í rannsókninni séu á aldrinum 14-18 ára.
Annars vegar byggist mælitækið á spurningalista og hins vegar á umræðum í rýnihópum. Þannig eiga rýnihóparnir að dýpka svörin úr spurningalistunum.
Spurningalistinn sem lagður er fyrir þátttakendur er tvíþættur; fyrri hlutinn inniheldur lýðfræðilegar spurningar þar sem er spurt um bakgrunnsupplýsingar skátanna, m.a. hve lengi þeir hafa verið starfandi.
Í seinni hlutanum eru fullyrðingar lagðar fyrir og þátttakendur beðnir um að meta á skalanum 1-10 hversu sammála þeir eru fullyrðingunum. Fullyrðingarnar koma alltaf tvær saman og tengjast þær innbyrðis.
Dæmi um fullyrðingapar:
- Ég reyni að lifa heilsusamlegu lífi (næring, svefn, hreyfing)
- Skátastarf hvetur mig til þess að lifa heilsusamlegu lífi
Þannig lýtur fullyrðing A meira að skátanum sjálfum en fullyrðingu B er ætlað að kanna hver bein áhrif af skátastarfinu sjálfu eru.
Þegar fullyrðingarnar fyrir spurningalistann voru samdar var stuðst við SPICES módelið sem WOSM þróaði og hefur hér heima verið kallað þroskasviðin 6 þannig að fullyrðingarnar tengjast allar einhverju þroskasviðanna.
Nokkur þátttökulönd í verkefninu, m.a. Svíar og Tékkar, sögðu á fundinum frá pilot-rannsóknum sem þau höfðu framkvæmt á meðan verið var að þróa mælitækið og það var verulega gagnlegt að heyra frá þeim hvernig mælitækið virkaði í praktík og hvaða hindrunum þau hefðu mætt og hvernig þau hefðu leyst úr þeim, og sömuleiðis var athyglisvert að heyra niðurstöðurnar þeirra sem voru um sumt svipaðar milli landanna.
Það var gaman að sjá hvað mikill metnaður hefur verið lagður í MIYO verkefnið en að því koma líka akademískir starfsmenn úr Maynooth University sem miðluðu á sérlega skýran máta fræðilegum atriðum varðandi mælitækið og sögðu m.a. frá því hvernig á að velja úrtak og hvernig best er að leiða umræður í rýnihóp.
Á fundinum var mælitækið formlega gefið út þannig að núna geta öll bandalög framkvæmt sínar eigin rannsóknir með notkun þess.
Á vefsíðunni impactofyouth.org eru góðar leiðbeiningar um hvernig maður á að snúa sér í því og það verður spennandi að sjá niðurstöður úr frekari rannsóknum.
Eins og áður sagði snýr mælitækið sem nú hefur verið þróað að því hver áhrif skátastarfs eru á einstaklingana sem taka þátt í skátastarfinu.
Hópurinn sem annast hefur MIYO verkefnið ætlar ekki að láta þar við sitja því nú vonast hópurinn til að fá styrk til að geta þróað annað mælitæki sem rannsakar áhrif skátastarfs á samfélagið. Það verður mjög spennandi að fylgjast með því enda verulega áhugaverð rannsóknarspurning.
Það var verulega gaman og athyglisvert að sitja þennan fund og heyra um þetta mikilvæga verkefni sem mikill metnaður hefur verið lagður í, og það verður gaman að fylgjast með framhaldinu.
Texti: Védís Helgadóttir
Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #OKTÓBER

ImpactYOUth: measuring youth development together.
Evrópudeild WOSM auglýsir eftir þátttakendum á viðburð sem haldinn verður í Brussel, Belgíu, þann 22. febrúar 2024.
Viðburðurinn miðar að því að deila með skátabandalögum Evrópudeildarinnar kerfi sem hefur verið í uppbyggingu og kallast The MIYO Impact measurement toolkit. Á viðburðinum verður kynning á kerfinu sjálfu og hvernig það virkar ásamt því að prófunarhópur verkefnisins segir frá reynslu sinni af kerfinu. Að lokum verður einnig boðið upp á umræður um framtíð verkefnisins og þátttakendur fá tækifæri á því að styrkja tengslanet sitt við skáta í Evrópu.
Um verkefnið:
Skátahreyfingin og aðrar æskulýðshreyfingar eiga stóran þátt í að móta samfélögin sem þau starfa í með því að efla persónulega færni ungmenna á ýmsum sviðum þar með talið leiðtoga-, samvinnu- og samskiptahæfni. Erfitt er að mæla raunveruleg áhrif æskulýðsstarfs á ungmenni og því þarf að útbúa verkfæri eða tól sem getur mælt áhrif starfsins.
Verkefnið MIYO hefur haft það markmið að skoða hvernig hægt sé að mæla árangur og áhrif æskulýðsstarfs á ungmenni.
Dagsetningar
22. febrúar
Staðsetning
Þingsalur Evrópusambandsins og Thon Hótel Evrópusambandsins í Brussel, Belgíu.
Dagskrá
Dagskráin skiptist í tvennt
- Fyrri helmingur dagsins á sér stað í þingsal Evrópusambandsins og er tileinkaður að kynna verkefnið og fá reynslusögur frá sex þátttakenda þjóðum í verkefninu
- Seinni hluti dagsins verður á Hótelinu þar sem vinnusmiðjur verða um verkfærið og nánari kynningar á hverju það felst.
Tungumál
Viðburðurinn verður á ensku
Hverjir ættu að sækja um
Viðburðurinn er fyrir unga leiðtoga/leiðbeinendur sem hafa áhuga á að gagnaöflun og að fræðast meira um hvernig við getum mælt árangur skátastarfs. Markmiðið er að læra af því sem fram fer á viðburðinum og geta yfirfært það á skátastarfið á Íslandi.
Kostnaður
Viðburðurinn er styrktur og því þátttakendur að kostnaðarlausu. Við fáum styrk fyrir ferðamáta, gistingu og mat á meðan viðburðinum stendur. Innifalið er matur frá kvöldmat 21.febrúar að morgunmat 23.febrúar ásamt gistingu frá 21. - 23. febrúar á Jacques Brel Youth Hostel.
Skráningarfresturinn er út 30. október.
Skráning fer fram með því að fylla út þetta form hér.
Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #MARS

Alheimssamtök skáta, WOSM, leitar að ungu talsfólki í að taka þátt í vinnusmiðjum um hvernig á að verða talsfólk málefnis. Vinnusmiðjan fer fram dagana 24.-28. apríl 2023 í Brussel, Belgíu. Þátttakendur læra um hvað það felst í að vera talsfólk skátastarfs, læra um þátttöku á opinberum vettvangi, framsetningu og hvernig þessum málum er háttað í Evrópu.
Þátttakendur þurfa að vera á aldrinum 18-30 ára og með áhuga á samræðum við stjórnmálafólk varðandi málefni sem eru mikilvæg ungu fólki..
Skráninguna má finna hér.
Skráningarfresturinn rennur út 10. Mars.
Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #FEBRÚAR

Agora rekka og róverskátaviburður haldin 12.-16. apríl 2023 í Portúgal.
Vissir þú að Agora er stýrt af hópi rekka og róverskáta?
Ísland á fjögur sæti og opnað verður fyrir skráningu fljótlega!
Ekki láta þetta tækifæri framhjá þér fara!
Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #JANÚAR
Tækifæri mánaðarins í janúar er kynning á öllum erlendum skátamótum sem íslenskir skátar geta heimsótt árið 2023.
Vasalägret Svíþjóð 30.7 - 5.8 2023

Þátttakendaaldur: 8-18 ára
Þátttakendagjald: 1800 SEK (Preliminary)
Áhugaskráning: 31.1.2023
https://vasa2023.scout.se/international-scouts/
Litháen 8.-16. júní 2023

Þátttakendaaldur: 12-17 ára
Þátttökugjald: 225 - 270 evrur, ódýrara ef skráð er snemma
Skráningarfrestur: 31.05.2023
https://skautai.lt/renginiai/113-jubiliejine-stovykla-tarp-triju-vandenu
Austurríki, 7.-16. ágúst 2023

Þátttakendaaldur: 13 - 21 ára
Þátttökugjald: 320 evrur
Skráningarfrestur: 28.02.2023
https://www.together23.at/home-en/
Norður - Makedónía 12.-21. Júlí 2023

Þátttakendaaldur: 11 - 17 ára
Þátttökugjald: 315 evrur
Þátttökugjald: 266 - 326 evrur ódýrara ef skráð er snemma
Starfsmannagjald: 85-95 evrur ódýrara ef skráð er snemma
Skráningarfrestur: 12.07.2023
https://smotra.izvidnici.mk/
Serbía 22.-31. júlí 2023
Þátttökugjald: 315 evrur













