Fjölmennt á fyrsta hringborði haustsins

Fjölmennt var á fyrsta hringborði haustsins sem að þessu sinni var fyrir skátaforingja drekaskáta en 15 skátaforingjar frá 8 skátafélögum mættu auk 1 fulltrúa starfsráðs BÍS og erindreka BÍS.
Á hringborðinu var kynning á nýju verkefnabókinni fyrir könnuðarmerki drekaskáta, hvernig ætti að fara að því að stýra elstu drekaskátunum í vinnu að merkjunum og fengu skátaforingjarnir líka að skoða ofnu merkin sem eru komin í Skátabúðina. Síðan var líka talað um hvernig gott væri að nýta nýju stiku- og hæðarmerkin til að hvetja til aukinnar útivistar í drekaskátunum.
Skátaforingi drekaskáta í Hraunbúum var svo með kynningu á starfinu þar á bæ en starfið hefur verið vel sótt undanfarið auk þess að vera sýnilegt. Þá hafa drekaskátar Hraunbúa fjölmennt á flesta viðburði sem hafa staðið þeim til boða.
Að lokum var umræðan gefin laus og var m.a. rætt um hvernig hátt félög hafa á því að bjóða nýja skáta velkomna á fyrstu fundum ársins, góð ráð þegar kemur að skipulagi og hugmyndavinnu vegna skátafunda. Þá var mikil og góð umræða um hvort félög hyggðust fara bæði á landsmót og drekaskátamót eða eingöngu á drekaskátamótið. Í lokin sögðu gestgjafar drekaskátadagsins 2024 hvers mætti vænta í umgjörð og skipulagi þar.
Hægt er að nálgast frekari útlistun á umræðum hér.
Vegna heimildarmyndar Netflix um Boy Scouts of America (BSA)
BÍS (Bandalag íslenskra skáta) fordæmir viðbrögð stjórnenda BSA og allan málarekstur þess í tengslum við þau brot sem myndin fjallar um.
BÍS vill einnig árétta að þrátt fyrir að þau séu samstarfsaðilar BSA í alheimsbandalagi skáta (WOSM) þá er laga- og regluverk bandalaganna gjörólík auk þess sem sögur þeirra, hefðir og gildi séu ekki þau sömu.
Það að tryggja öryggi barna og ungmenna í skátastarfi er eitt allra mikilvægasta hlutverk BÍS. Skýrir verkferlar eru til staðar til að fjalla um öll þau mál sem upp koma og eru þau afgreidd á faglegan hátt. Þessir verkferlar eru unnir í samstarfi Æskulýðsvettvangsins, sem er samstarfsvettvangur BÍS, KFUM/K, Landsbjargar, og UMFÍ um hagsmunamál barna og ungmenna, og Ráðuneytis barnamála, sem hefur sérstakan samskiptaráðgjafa til að aðstoða í öllum málum sem upp kunna að koma og er þeim vísað í réttan farveg og til þar til bærra yfirvalda eftir atvikum. Öll aðildarfélög Æskulýðsvettvangsins starfa eftir siðareglum sem aðildafélög hans hafa sett sér og öll mál afgreidd skv. sérstakri viðbragðsáætlun.
BÍS vill einnig koma á framfæri að hægt er að tilkynna öll mál sem upp kunna að koma í æskulýðs- og íþróttastarfi á vef samskiptaráðgjafa.
Nánari upplýsingar um málið í heild veitir stjórn BÍS og framkvæmdastjóri.
Skátamiðstöðin fagnaði 20 ára afmæli

Skátamiðstöðin var með opið hús í tilefni 20 ára afmæli þar sem Skátafélagið Árbúar, Bandalag íslenskra skáta, Grænir skátar, Skátaland og Skátasamband Reykjavíkur buðu gestum upp á afmælisköku og léttar veitingar. Skátaland setti upp hoppukastala, klifurturn og svifbraut niður af þaki hússins sem vakti mikla athygli og lukku hjá gestum.
Fjölmargir gestir kíktu í heimsókn, fyrrum skátar frá Árbúum, fyrrum starfsmenn hússins, krakkar úr hverfnu og starfandi skátar frá ýmsum skátafélögum.
Í tilefni afmælisins fékk Skátamiðstöðin tiltekt og fengu veggir miðstöðvarinnar nýjan lit og ásamt því að merki BÍS var málað á vegginn í salnum.

Stjórn BÍS boðar til félagsforingjafundar

Stjórn BÍS boðar til félagsforingjafundar í Skátamiðstöðinni þann 13. september 2023 frá klukkan 19:30-22:00. Boðaðir eru félagsforingjar, dagskrárforingjar, sjálfboðaliðaforingjar eða staðgenglar þeirra. Þá verður að sjálfsögðu hægt að taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað en við biðjum öll sem mögulega geta að mæta í persónu.
Skráning fer fram á skraning.skatarnir.is
Dagskrá fundarins verður eftirfarandi:
- Kynning frá Skátabúðinni (10 mínútur)
Skátabúðin mun upplýsa félögin um helstu verkefni sem snúa að félögunum. Farið verður yfir hvernig staðið er að pöntun á skátabúningnum, félög fá upplýsingar um nýjan innkaupasamning sem BÍS hefur gert við Rekstrarvörur sem skátafélögum býðst einnig að nýta sér, farið verður yfir afsláttarkjör skáta og framtíðar fyrirætlanir í þjónustu til skátafélaga t.d. við búnaðarkaup. - Áskoranir tengdar seinum skráningum á viðburði (10 mínútur)
Ein stærsta áskorun í viðburðarhaldi á vegum BÍS starfsárið 2022-2023 var hversu seint skráningar þátttakenda bárust en dæmi voru um að 70-95% skráninga bárust í síðustu viku skráningarfrests. Stjórn og Skátamiðstöð vilja velta upp nokkrum spurningum með forystu félaganna um hvað geti valdið, hvað megi bæta og fá álit á hugmynd um seinagangs gjöld sem bætist ofan á þátttökugjöld. - Kynning og umræðuhópar um ánægjukönnun (50 mínútur)
Ánægjukönnun var gerð meðal skáta og forráðafólks þeirra fyrir starfsárið 2022-2023. Við viljum kynna niðurstöður hennar en síðan mun fundurinn skiptast í umræðuhópa sem munu skoða afmörkuð svið könnunarinnar, ræða og koma með tillögur um hvernig skátahreyfingin getur þróað þau áfram.Hlé – 5 mínútur - Samhæft átak í rekkaskátastarfi 2023-2024 (15 mínútur)
Félagatal milli ára sýnir að þvert á félög er mikil þörf fyrir eflt rekkaskátastarf á landsvísu. Talsvert brottfall verður á rekkaskátaaldri en þótt fjölmennir árgangar byrji í rekkaskátum er iðulega minna en helmingur þeirra sem gengur upp í gegnum aldursbilið. Erindrekar kynna hvernig reynt verður að stýra samhæfðu átaki yfir komandi ár, hver hlutur félaganna er í því, hvaða stuðning BÍS býður og hvaða markmiðum við viljum ná á komandi ári. - Kynning á smiðju um hvernig skuli fá fleiri fullorðna til starfa (10 mínútur)
Flestum félögum vantar sjálfboðaliða en það getur verið meira en að segja það að afla þeirra. BÍS er tilbúin með smiðju að fyrirmynd þýsku skátanna til keyra með félagsráði skátafélaga þar sem félagið setur sig í stellingar til að skilgreina þörf sína, auglýsa eftir og taka á móti sjálfboðaliðum. Á fundinum kynnum við smiðjuna, hvað hún felur í sér, hvað vonast er til að félagið taki út úr henni og hvernig félög óska eftir henni til sín. - Landsmót skáta 2024 (25 mínútur)
Landsmót skáta fer fram á Úlfljótsvatni næsta sumar og því er mikilvægt að öll skátafélög fari að undirbúa sinn fararhóp. Mótsstýra landsmóts mun kynna alla helstu þætti mótsins, verð, skráningu og fleira. - Alheimsmót skáta 2023 (15 mínútur)
Farið verður stuttlega yfir ferð íslenska fararhópsins á Alheimsmót skáta en fararstjórn gefur nákvæmari skýrslu um ferðina síðar eins og hefð er fyrir. - Önnur mál (10 mínútur)
Niðurstöður frá aðalfundi Æskulýðsvettvangsins
Tvær ákvarðanir voru teknar á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins þann 1. júní sem mikilvægt er að upplýsa forystu skátahreyfingarinnar um.

Breytingar á siðarreglum
Siðareglur Æskulýðsvettvangsins tóku breytingum í júní síðastliðnum en samkvæmt 2. grein laga BÍS eru siðareglur Æskulýðsvettvangsins þær siðareglur sem gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna.
Mikilvægt er fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Siðareglur þessar snúa annars vegar að samskiptum og hins vegar að rekstri og ábyrgð. Gerist aðili brotlegur við reglurnar er heimilt að vísa honum úr starfi, tímabundið eða að fullu.
Eins og forysta skátahreyfingarinnar kann að muna eftir voru siðareglurnar uppfærðar árið 2022 en þær breytingar byggðu á tillögu sem Skátarnir lögðu fram á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins, og voru í framhaldi unnar áfram af ráðgjafahópi Æskulýðsvettvangsins og loks samþykktar í stjórn ÆV. Hægt er að sjá frétt um þær breytingar frá síðasta ári hér.
Eftir að þessar tillögur höfðu verið unnar í samvinnu allra samtakanna á Æskulýðsvettvanginum og samþykktar á öllum skipulagsstigum þess lagðist stjórn UMFÍ hins vegar gegn einni breytingunni og taldi þessar breytingar hafa verið gerðar án samþykkis samtakanna, þótt að fulltrúar UMFÍ hefðu setið aðalfundinn í húsakynnum UMFÍ, starfsmaður UMFÍ sitji í ráðgjafahópnum og framkvæmdastýra UMFÍ sitji í stjórn ÆV en eins og áður hefur verið sagt voru þessar tillögur unnar og samþykktar á öllum þessum stigum. Á aðalfundi 2023 lagði stjórn ÆV fram þá tillögu að fella síðustu setninguna út úr eftirfarandi ákvæði til að skapa sátt innan allra samtaka um siðareglurnar:
17. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart. Komi til gagnkvæms ástarsambands er það á ábyrgð þess sem gegnir valdastöðu að gera stjórnendum sínum kunnugt um það.
Fulltrúi skátanna á fundinum mældi gegn tillögunni og minnti á að auk alls samráðsins og að fulltrúar UMFÍ hefðu samþykkt tillöguna á öllum vettvöngum sem hún var borin upp þá væri þetta ákvæði heldur ekki úr lausu lofti gripið. Það byggði á tillögu sem innfluttur sérfræðingur Håvard Øvegård kynnti sem gagnlegt verkfæri til að bregðast við tælingu og kynferðislegu ofbeldi á grundvelli valdamisræmis á ráðstefnu sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að samhliða Reykjavíkurleikunum 2019 undir yfirskriftinni "Eru íþróttir leikvangur ofbeldis". Upptöku frá kynningu hans má horfa á hér en hann talar um sambærilegt ákvæði á 19. mínútu og 40. sekúndu í myndbandinu. Þá væri líka furðulegt að UMFÍ legðist gegn ákvæðinu þegar mörg aðildarfélög þeirra í Reykjavík tilheyra einnig Íþróttabandalagi Reykjavíkur sem lét ekki kyrrt við sitja að flytja Håvard Øvegård inn á ráðstefnu heldur fór að tillögum hans og inleiddi álíka ákvæði í í sérstakar siðareglur um kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem má finna hér.

Aðalfundur ÆV samþykkti engu að síður að fella út ákvæðið en 2 af 3 fulltrúum skátanna kusu gegn því en 1 fulltrúi landsbjargar og 1 fulltrúi KFUM/K sátu hjá við atkvæðagreiðslu. Ákvæðið er því nú svohljóðandi:
17. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart.
Staðfesting viðbragðsáætlunar samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs
Ný viðbragðsáætlun var gefin út í nóvember 2022 en grunnurinn að henni byggir á fyrri viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins en fulltrúar ráðgjafahópsins sátu í vinnuhóp um nýja viðbragðsáætlun auk samskiptaráðgjafa, starfsfólki Íþróttabandalags Reykjavíkur og Íþróttasambandi Íslands.
Þrátt fyrir vilayfirlýsingu í verki og þrátt fyrir að lógó samtaknna væru á viðbragðsáætluninni þótti skátunum mikilvægt að aðalfundur staðfesti formlega að öll félög Æskulýðsvettvangsins störfuðu eftir viðbragðsáætlun samskiptaráðgjafa. Var tillagan samþykkt samhljóða.
Siðareglur og viðbragðsáætlun áfram á sínum stað
Eftir sem áður eru siðareglur í gildandi útgáfu og viðbragðsáætlunin alltaf að finna á sérstöku vefsvæði um Æskulýðsvettvanginn.
Sjóræningjar tóku yfir Úlfljótsvatn á Skátasumrinu
Mikið líf og fjör var á Úlfljótsvatni um liðna helgi þegar sjóræningjar tóku yfir svæðið.

Tæplega 200 skátar komu saman á Skátasumrinu frá þrettán skátafélögum og settu upp tjaldbúðir á svæðinu.

Þau tóku þátt í fjölbreyttri sjóræningjadagskrá þar sem þau meðal annars lögðu land undir fót og heimsóttu Hengilsvæðið, Þingvelli, Eyrabakka og Knarrarósvita.

Þau tóku einnig þátt í dagskrá á svæðinu í ýmsum þorpum eins og verkstæðinu þar sem skátarnir föndruðu, smíðuðu, og útbjuggi allskyns sjóræningjahluti og reyndu að byggja í skip sem var siglingarhæft.

Þau kynntust alþjóðarstarfi í gegnum WOSM-og Better world þorpið og heimsóttu Svarta Sjóinn sem var risa þrautabraut sem reyndi á samvinnu til að komast undir storminum sem reið yfir Svarta sjó.

Sumarskátafundir - Dróttskátasveitin Ramus

Skátasveitin DS. Ramus mun starfa í sumar á höfuðborgarsvæðinu og er öllum dróttskátum velkomið að taka þátt. Krakkar sem ekki hafa verið í skátunum eru einnig velkomin að koma og vera með í sumar.
Hvar og hvenær
Skátafundir munu fara fram víðsvegar um höfuðborgarsvæðið milli 17:00 og 19:00 á þriðjudögum og fimmtudögum frá og með 20. júní til 10. ágúst.
Hvað
Starfið byggist að mestu á flokkastarfi og gefst skátunum færi á að skapa sín eigin sumarævintýr með öðrum jafningjum á ýmsum útivistarsvæðum á höfuðborgarsvæðinu og þar í kring. Þeir skátar sem ekki skrá sig með flokk munu fá aðstoð við að finna flokk sem hentar þeim.
Fyrstu fundir
Fyrstu fundir munu fara fram í Elliðaárdalnum en mæting er við Árbæjarsafnið klukkan 17:00 á fyrsta fundinn þann 20. júní.
Skráning
Til að taka þátt þarf að skrá sig inn á skraning.skatarnir.is og kostar 3000 kr fyrir hvern skáta að taka þátt í allt sumar. Ef skátinn hættir við er ekki endurgreitt staðfestingargjaldið sem er 10% af heildarverðinu.
Þátttakendur sem vegna ferðalaga eða annars komast ekki á alla fundi, eru engu að síður hvött til að taka þátt.
Mikilvægt er síðan að fylgjast vel með upplýsingum á Sportabler. Einnig þarf að láta vita fyrir hvern fund hvort skáti mætir eða ekki. Ef lágmarksmæting (4 skátar) næst ekki á fund fyrir hádegi sama dag fellur fundurinn þann daginn niður.
Skátakveðjur og hlökkum til að sjá sem flesta í sumar,
Sveitarforingjar Ds. Ramus.
Ragnheiður Silja Kristjánsdóttir (ragnheidursilja@gmail.com) dróttskátaforingi Garðbúa
Salka Guðmundsdóttir (salkagu97@gmail.com) dróttskátaforingi Mosverja
Nýir meðlimir í fastaráðum BÍS

Á Skátaþingi í lok mars var samþykkt af þingi breyting á 26.grein laga sem fjallar um að láti einhver meðlimur fastaráða af störfum á miðju tímabili skal stjórn BÍS í samráði við uppstillinganefnd manna stöðuna fram að næsta aðalfundi. Stjórn BÍS hefur því skipað tvo nýja meðlimi í Útilífsráði, þær Önnu Margréti Tómasdóttur og Hrafnhildi Sigurðardóttir. Þær byrjuðu að starfa með ráðinu í byrjun árs þar sem ráðið einblínir að því að stuðla að aukinni útivist skáta á Íslandi.
Á ungmennaþingi 2023 auglýsti ungmennaþing allar stöður lausar og voru eftirfarandi kjörin í ráðið á ungmennaþingi: Arnbjörg Ýr Sigurðardóttir, Högni Gylfason, Jóhann Thomasson og Svava Dröfn Davíðsdóttir. Skátaþing samþykkti síðan þessa skipun.
Sumardagurinn fyrsti 2023

Sumardagurinn fyrsti 2023 er haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 20. apríl um land allt og hafa skátar skipulagt og standa að glæsilegum og stórskemmtilegum hátíðarhöldum fyrir börn, ungmenni og fjölskyldur þeirra.
Í Reykjavík
Skátafélagið Árbúar í Árbæ
Staðsetning: Árbæjarsafn
Tímasetning: 12:30-16:00
Skátafélagið Árbúar leiðir skrúðgöngu frá Árseli að Árbæjarsafni en þar tekur við póstaleikur, útieldun og fleira. Veitingasala verður á staðnum sem fjáröflun fyrir félagið. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.
Skátafélögin Garðbúar í Fossvogi, Landnemar í Hlíðunum og Skjöldungar í Laugardal
Staðsetning: Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn
Tímasetning: 14:00-17:00
Skátafélögin þrjú ætla að sameina krafta sína og standa fyrir miklu sumarfjöri í fjölskyldu og húsdýragarðinum. Dagskráin verður í gangi á milli 14:00 og 17:00 þar sem hoppukastalar, klifurveggur og skátaþrautir verða í boði. Á staðnum verður sölutjald þar sem ýmis góðgæti verður til sölu sem fjáröflun fyrir unga skáta sem stefna á Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu 2023. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.
Skátafélagið Vogarbúar í Grafarvogi
Staðsetning: Skátaheimili Vogabúa, Logafold 106
Tímasetning: 13:00-16:00
Skátafélagið Vogabúar munu standa fyrir skemmtidagskrá fyrir alla fjölskylduna við skátaheimilið sitt. Í boði verða leiktæki, hoppukastalar og ýmis skemmtun með skátaívafi. En síðan verða sirkúsatriði og mun trúbadorinn Jón Sigurðsson halda uppi stuðinu. Á staðnum verður veitingasala og candylfoss sem fjáröflun fyrir skátafélagið. Fá frekari upplýsingar á facebook auglýsingu.
Skátafélagið Ægisbúar í Vesturbænum
Staðsetning: Skátaheimili Ægisbúa, Neshaga 3
Tímasetning: 11:00-14:00
Skátafélagið Ægisbúar blæs til sumarhátíðar á sumardeginum fyrsta við skátaheimili sitt. Á staðnum verða hoppukastalar auk annarar skemmtunar. Á staðnum verða sölutjöld með góðgæti og ýmis matarkyns sem fjáröflun fyrir félagið. Fá frekari upplýsingar á facebook viðburðarsíðu.
Í Kópavogi
Skátafélagið Kópar
Staðsetning: Skátaheimili Kópa
Tímasetning: 14:00-17:00
Skátafélagið Kópar bjóða öllum Kópum og fjölskyldum þeirra í skátaheimilið sitt í opið hús. Veitt verða heiðursmerki til sjálfboðaliða kópa og í boði verður ratleikur um dalinn ásamt heitu kakói og vöfflur. Hægt er að sjá frekari upplýsingar hér á facebook viðburðinum.
Í Garðabæ
Skátafélagið Svanir og Skátafélagið Vífill
Staðsetning: Vídalínskirkju og Miðgarði
Tímasetning: 13:00-16:00
Skátafélögin Svanir og Vífill verða með skrúðgöngu frá Hofsstaðaskóla kl. 14 sem gengur að Miðgarði íþróttamiðstöð og þar tekur skemmtidagskrá við stútfull af tónlistarfólki, töframönnum, andlitsmálun, hoppuköstulum, veltibíl og candyfloss.
Frekari upplýsingar má finna á upplýsingasíðu Garðabæjar. Eða á facebook viðburði hátíðarinnar hér.
Í Hafnarfirði
Skátafélagið Hraunbúar
Staðsetning: Víðistaðakirkju og Thorsplani
Tímasetning: 13:30-16:00
Skátafélagið Hraunbúar tekur þátt í hátíðarhöldunum og verður með skemmtilega og fjölbreytta skátadagskrá fyrir alla fjölskylduna á Víðistaðatúni og við skátamiðstöðina Hraunbyrgi. Í boði verður kassaklifur, klifurveggur, útieldun þar sem grillaðir eru sykurpúðar og hike-brauð, hoppukastalar, bátar og risa hengirúm. Í Hraunbyrgi verður kaffisala og á Víðistaðatúni verður söluhús með ullarsykur, krap og popp. Hægt er að skoða frekari upplýsingar á heimasíðu Hafnafjarðar hér eða á facebook viðburði hátíðarinnar hér.
Í Mosfellsbæ
Skátafélagið Mosverjar
Staðsetning: Miðbæjartorgi og Varmá
Tímasetning: 13:00-16:00
Skátafélagið Mosverjar mun leiða skrúðgöngu frá Miðbæjartorgi að Varmá þar sem skólahljómsveit Mosfellsbæjar tekur á móti skrúðgöngunni með sumartónum. Að skrúðgöngu lokinni hefst dagskrá á Varmá með hoppuköstulum, kassaklifri, leikjum, og þrautum. . Frekari upplýsingar má finna á facebook viðburði hátíðarinnar.
Í Reykjanesbæ
Skátafélagið Heiðabúar
Staðsetning: Keflavíkurkirkju og skátaheimili Heiðabúa, Hringbraut 101
Tímasetning: 12:30-17:30
Skátafélagið Heiðabúar mun leiða skrúðgöngu frá skátaheimilinu að Keflavíkurkirkju þar sem skátafélagið kemur að hátíðarmessu þar sem nýjir skátar verða vígðir. Hægt er að fylgjast með Heiðabúum á facebook síðu þeirra hér.
Í Hveragerði
Skátafélag Strókur
Staðsetning: Hveragerðiskirkja
Tímasetning: 11:00
Skátafélagið Strókur verður með skátamessu í Hveragerðiskirkju og að henni lokinni verður Strókur með sumarskemmtun barnanna á planinu fyrir frmaan kirkjuna kl. 13. Þar verður ýmislegt í boði eins og hoppukastalar, tónlist, ullarsykur og fleira. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Hveragerðis hér.
Á Selfossi
Skátafélagið Fossbúar
Staðsetning: Skátaheimilinu Glaðheimum, Tryggvagötu 36
Tímasetning: 13:00-16:00
Nóg verður um að vera á Selfossi þar sem skátafélagið Fossbúar taka þátt í hátíðinni Vor í Árborg. Skrúðganga leggur af stað frá miðbæ Selfoss að Glaðheimum, skátaheimili Fossbúa þar sem skátaverkefni að ýmsu tagi verður í boði og er hluti af stimplaleik hátíðarinnar. Frekari upplýsingar um hátíðina má finna á upplýsingasíðu Árborgar. Einnig er hægt að fylgjast með facebook viðburði frá Fossbúum.
Á Akranesi
Skátafélag Akraness
Staðsetning: Skátahúsið og Akraneskirkja
Tímasetning: 10:30
Skátafélagið Akraness verður með skrúðgöngu frá skátahúsinu að Akranesskirkju þar sem við tekur sumarhátíð.
Í Dalabyggð
Skátafélag Stígandi
Staðsetning: Laugar í Sælingsdal
Tímasetning: 13:00 - 15:00
Skátafélagið Stígandi tekur þátt í Jörfahátíð Dalabyggðar og bjóða alla velkomna á Lauga í Sælingsdal þar sem þau verða með leiki og fjör. Frekari upplýsingar er hægt að sjá á heimasíðu Dalabyggðar hér.
Á Akureyri
Skátafélagið Klakkur
Staðsetning: Skátaheimili Klakks, Þórunnarstræti, Glerárkirkja og tjaldsvæðinu á Hömrum
Tímasetning: 10:40-15:00
Skátafélagið Klakkur mun vera með skrúðgöngu frá Giljaskóla kl. 10:40 að Akureyrarkirkju þar sem skátafélagið kemur að messu sem hefst kl. 11:00 en að henni lokinni er öllum boðið að koma í sumarhátíð að tjaldsvæðinu á Hömrum. Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Klakks.
Skátamiðstöðin lokuð vegna Skátaþings

Skátamiðstöðin verður lokuð fimmtudaginn 23. mars, föstudaginn 24. mars, mánudaginn 27. mars og þriðjudaginn 28. mars sökum vinnu starfsmanna skátamiðstöðvarinnar að Skátaþingi sem fer fram helgina 24.-26. mars.
Þau sem þurfa að ná af starfsfólki geta það á vinnutíma fimmtudaginn, föstudaginn og mánudaginn með að senda viðkomandi starfsmanni tölvupóst en póstföng má finna hér. Þriðjudaginn 28. mars verður allt starfsfólk í fríi frá vinnu.
Öll almenn og minna áríðandi erindi má senda á á póstfangið okkar skatarnir@skatarnir.is og verður þeim svarað 29. mars.







