Vegna heimildarmyndar Netflix um Boy Scouts of America (BSA)

BÍS (Bandalag íslenskra skáta) fordæmir viðbrögð stjórnenda BSA og allan málarekstur þess í tengslum við þau brot sem myndin fjallar um.

BÍS vill einnig árétta að þrátt fyrir að þau séu samstarfsaðilar BSA í alheimsbandalagi skáta (WOSM) þá er laga- og regluverk bandalaganna gjörólík auk þess sem sögur þeirra, hefðir og gildi séu ekki þau sömu.
Það að tryggja öryggi barna og ungmenna í skátastarfi er eitt allra mikilvægasta hlutverk BÍS. Skýrir verkferlar eru til staðar til að fjalla um öll þau mál sem upp koma og eru þau afgreidd á faglegan hátt. Þessir verkferlar eru unnir í samstarfi Æskulýðsvettvangsins, sem er samstarfsvettvangur BÍS, KFUM/K, Landsbjargar, og UMFÍ um hagsmunamál barna og ungmenna, og Ráðuneytis barnamála, sem hefur sérstakan samskiptaráðgjafa til að aðstoða í öllum málum sem upp kunna að koma og er þeim vísað í réttan farveg og til þar til bærra yfirvalda eftir atvikum. Öll aðildarfélög Æskulýðsvettvangsins starfa eftir siðareglum sem aðildafélög hans hafa sett sér og öll mál afgreidd skv. sérstakri viðbragðsáætlun.

BÍS vill einnig koma á framfæri að hægt er að tilkynna öll mál sem upp kunna að koma í æskulýðs- og íþróttastarfi á vef samskiptaráðgjafa.
Nánari upplýsingar um málið í heild veitir stjórn BÍS og framkvæmdastjóri.