COVID-19 og skátastarf
Kæru félagsforingjar, skátaforingjar, stjórnir og starfsfólk
Samkomubanni hefur verið lýst yfir og það tekur gildi á miðnbætti sunnudaginn 15. mars nk. Það á við um STÆRRI samkomur en hefðbundna skátafundi. Miðum við að ekki fleiri en 20 manns séu í hverju rými og miðum skátastarfið okkar við grunnskólana, þeim er EKKI lokað og á meðan svo er þá mælumst við til að skátafundir falli ekki niður. Þó margir skátaforingjar séu í framhaldsskólum þá bætir það stöðu skátafundanna að framhaldsskólum sé lokað, þá er síður hætta á smiti inn á skátafundina. Framhaldsskólanemi er jafn öruggur og fjölskyldumeðlimir.
Fylgjum leiðbeiningum landlæknis um 2ja metra fjarlægð milli skátanna okkar, útbúum aðstöðu fyrir handþvott og handsprittun. Mælst er til að fólk noti aðrar kveðjur en handaband og faðmlög.
Skátafundir
Mikilvægt er að halda hvunndeginum eins óbreyttum og hægt er hjá börnum og ungmennum og á þessu stigi er EKKI mælst til þess að hætt verði að halda skátafundi en lögð áhersla á að farið sé að leiðbeiningum yfirvalda um handþvott og samneyti. Ef til vill má líkja aðstæðum á hefðbundnum skátafundum við skólastarf og mælast til að foringjar og stjórnir skátafélaga séu vakandi yfir leiðbeiningum og tilmælum í sínu skólahverfi.
Skátastarf, verkefni og leikir
Fljótlega eftir helgi munum við senda út hugmyndir að hvað hægt er að gera í skátastarfi í ljósi aðstæðna. Einnig munum við senda út skátapakka fyrir þá sem komast ekki á fundi og þurfa að vera heima.
Útilegur – svo sem sveitarútilegur og innilegur
BÍS mælist til þess að stærri viðburðum verði frestað þar sem fólk kemur úr ólíkum áttum og líkur séu á nánu samneyti. Ef hópurinn sem útilegur/innilegur á við er stærri en á hefðbundnum skátafundi þá er mælst til þess að viðburðinum verði frestað.
Ágætt er að ákveða mánuð fram í tímann fyrir viðburði. Þá er hægt að skoða hálfsmánaðarlega hvort eigi að fresta viðburðum tveim vikum lengur en það sem þegar er búið að fresta.
COVID-19 og börn og ungmenni
Hér eru leiðbeiningar frá Landlækni hvernig vernda má börn og ungmenni fyrir COVID-19 veirunni. Við hvetjum ykkur til að fylgjast með ráðleggingum Landlæknis og annarra stofnana ríkisins því aðstæður geta breyst með litlum fyrirvara.
Ef þið hafið einhverjar spurningar getið þið haft samband við okkur hjá BÍS, skatar@skatar.is eða í síma 550-9800.
Sólstrandarþema og tækifæri til að busla!
Sólstrandarþema og busl í vatnasafarí!
Drekaskátamótið verður haldið 6.-7. júní nk. á Úlfljótsvatni. Salka Guðmundsdóttir hefur verið í mótstjórn drekaskátamóts í
4 ár og er nú orðin mótstjóri. Mótið í ár er með sólstrandarþema og er dagskráin mjög spennandi. Munu drekaskátarnir fá tækifæri
til að busla í vatnadagskránni, klifra í klifurturninum, prufa bogfimi, poppa, keppa í sunnudagsleiknum og margt fleira skemmtilegt.
Lært mikið um skipulagningu og viðburðarstjórnun
Það er rosalega skemmtilegt að skipuleggja drekaskátamót, að sögn Sölku. Þegar hún byrjaði var það svolítið erfitt en eftir því sem hún gerði það oftar þá varð það auðveldara. Mótstjórn hefur fengið mikið frelsi við skipulagningu á mótinu sem þeim finnst frábært. Það hefur kennt Sölku mikið um skipulagningu og viðburðarstjórnun sem hún telur mjög gagnlegt. Salka segist vera rosalega heppin að fá að vinna með frábæru fólki í mótstjórn sem gerir allt skemmtilegra.
Skipuleggur mótið með vinum sínum
Að sögn Sölku er skemmtilegast að fá að skipuleggja mótið með vinum sínum og mæta svo á Úlfljótsvatn og sjá afraksturinn. „Að labba í kringum mótsvæðið og sjá brosandi drekaskáta allt í kringum mig, vitandi það að ég tók þátt í að skipuleggja vel heppnað mót er besta tilfinning í heimi.“
Salka mælir hiklaust með því að prófa að taka þátt í að skipuleggja skátaviðburð. Félagsskapurinn og reynslan sem fæst með því er ómetanleg. Auk þessi bendir hún á að það vanti sjálfboðaliða á drekaskátamótið og hvetur alla til að skrá sig. Skemmtilegt tækfæri fyrir alla og Salka lofar góðu fjöri!
Skráning er í fullum gangi inn á skatar.felog.is
Nýr dagskrárstjóri Úlfljótsvatns
Nýlega var Javier Paniagua Petisco ráðinn dagskrárstjóri hjá Útilífsmiðstöð skáta Úlfljótsvatni. Pani, eins og hann er kallaður, kemur frá Spáni og er með mikla skátareynslu. Undanfarin fjögur ár hefur hann starfað hjá alþjóðlegu skátamiðstöðinni í Kandersteg þar sem hann stýrði og skipulagði ævintýraferðir á svæðinu og var einnig aðstoðar-dagskrárstjóri síðustu tvö árin.
Það er okkur mikil ánægja að fá Pani til starfa hjá ÚSÚ og hann getur örugglega lagt mikið til staðarins af reynslu sinni frá Kandersteg. Útilífsmiðstöðin leggur áherslu á að skipa sér í flokk með öflugum alþjóðlegum skátamiðstöðvum og munum við nýta þekkingu Pani í þeirri vinnu. Við bjóðum Pani hjartanlega velkominn til starfa. Hann er með netfangið pani@skatar.is.
Viðvera í Skátamiðstöðinni vegna veðurviðvörunar
Föstudaginn 14. febrúar verður sími Skátamiðstöðvarinnar lokaður, og lítil eða engin viðvera í húsi.
Starfsmenn okkar vinna flestir heima þennan dag, og hægt að ná í okkur með tölvupósti.
Netföng:
Aðalnetfang Skátamiðstöðvarinnar skatar@skatar.is
Kristinn Ólafsson - Framkvæmdastjóri - kristinn@skatar.is
Sigríður Ágústsdóttir sigridur@skatar.is
Guðmundur Örn Sverrisson -Verkefnastjóri - gudmundurs@skatar.is
Sigurgeir B. Þórisson - Erindreki - sigurgeir@skatar.is
Kolbrún Ósk Pétursdóttir - Erindreki - kolbrun@skatar.is
Hulda María Valgeirsdóttir - Viðburðastjóri - huldamaria@skatar.is
Hulda Mjöll - Þjónustufulltrúi - huldamjoll@skatar.is
Hilda Ösp - Bókari - hilda@skatar.is
Skátarnir sækja í smiðju heimskautafara
Vetraráskorun Crean, sem er samstarfsverkefni írskra og íslenskra skáta, hefur staðið yfir um nokkurn tíma og um síðustu helgi tóku íslensku þátttakendurnir þátt í útilífsnámskeiði í nágrenni Akureyrar og eru meðfylgjandi myndir frá því.
„Íslenski hópurinn er vel undirbúinn,“ segir Silja Þorsteinsdóttir, en hún er í forsvari fyrir hópinn sem stendur að Vetraráskoruninn á Íslandi. „Við höfum farið með íslensku skátana í tvær helgarferðir þar sem við höfum verið að undirbúa hópinn undir komandi verkefni.“ Skátarnir sem taka þátt eru 14 - 15 ára eða á svokölluðum dróttskátaaldri þar sem krefjandi útivistarverkefni eru hluti af starfinu. Vetraráskorunin er tileinkuð Tom Crean írskum heimskautafara og tekur dagskráin mið af því.
Silja hrósar Skíðasambandi skáta og Skátafélaginu Klakki sem stóðu fyrir útilífsnámskeiðinu fyrir norðan. Það hefði verið verið í alla staði frábært, mikill fjöldi fyrirlesara kom og miðlaði af þekkingu sinni þó að megináherslan hafi að sjálfsögðu verið á útivist og að vinna verkefni utandyra. Stjórnendur Vetraráskoruninnar kunna norðanmönnum bestu þakkir fyrir að taka vel á móti hópnum og Silja hvetur alla skáta til að hafa augun opin fyrir komandi útilífsnámskeiðum hjá Skíðasambandinu og Klakki.
Í Vetraráskoruninni fá þátttakendur góða þjálfun og fræðslu um búnað og rétta ferðahegðun. Farið hefur verið í gegnum mikið af fræðslunni hvernig eigi að bjarga sér við krefjandi aðstæður og kynnast því hvar mörkin liggja. Verkefni skátanna eru t.d. að sofa í tjöldum, elda mat utandyra og taka þátt í krefjandi gönguferð sem reynir á færni þeirra í rötun og leiðarvali.
Nú um helgina koma írsku skátarnir til landsins og hitta íslensku félaga sína í fyrsta sinn. Eins og í góðum heimskautaleiðöngrum þarf að taka mið af breyttum aðstæðum. Fllug þeirra á föstudag var fellt niður vegna veðurs og þau koma á laugardag og þá heldur hópurinn á Úlfljótsvatn. Eftir helgi verður haldið á Hellisheiði til að kynnast í raun vetraraðstæðum.
Nánari upplýsingar um Vetraráskorun skáta veitir Silja Þorsteinsdóttir, s. 8411575, netfang silja@skatar.is
Ungmennaþing og skátajörm
Síðastliðna helgi fór fram Ungmennaþing í Grundarfirði. Fyrir þessum viðburði stendur Ungmennaráð BÍS en þau hafa unnið hörðum höndum að skipulagningu undanfarnar vikur. Ungmennaþing er haldið á ári hverju, og var nú opið fyrir alla skáta á aldrinum 15-25 ára. Á Ungmennaþingi er farið yfir fyrirkomulag Skátaþings, almenn þingsköp, málefni sem skipta ungmenni í skátastarfi máli, ásamt því að fara í ýmsa umræðuhópa og leiki.

Helgin hófst á ratleik um Grundarfjörð en eftir hann settust þátttakendur niður og spjölluðu og spiluðu. Á laugardeginum var ýmislegt gert, en meðal annars var farið í leiki í svokallaðri stuðstund, kynningar voru á hinum ýmsu viðburðum, farið var yfir skátajörm, ásamt því að kynnast hvort öðru.
Þá var sjálft þingið haldið og var það vel útskýrt og vel sett fram samkvæmt Ísold Völu, meðlimi í Ungmennaráði. Þá var tekin kennsla um almenn þingstörf svo þátttakendur myndu skilja betur hvað færi fram á Skátaþingi.
Um helgina var mikið rætt um hinu
ýmsu málefni og verður spennandi að sjá hvað gerist á næsta Skátaþingi. Það fóru fram miklar umræður um lög BÍS, og munu líklegast koma fram allt að þrjár lagabreytingartillögur á næstkomandi Skátaþingi. Þær munu meðal annars innihalda breytingu á kosningakerfi, kosningu í Ungmennaráð og öðrum starfsháttum Ungmennaráðs. Einnig var farið í dagskrárlið sem kallaðist Okkar eigin markmið, en þar voru þátttakendur að reyna að tengja skátastarfið og heimsmarkmiðin meira saman. „Mér fannst helgin bara heppnast mjög vel“ segir Ísold Vala. Þátttakendur voru almennt ánægðir með helgina og er það klárt mál að skátahreyfingin er með mjög flotta unga einstaklinga í starfi.
Kyntu heitapottinn með eldi og gistu í tjöldum
Vetrarmót Reykjavíkurskáta var haldið í sjötta sinn um liðna helgi á Úlfljótsvatni og að þessu sinni tóku 170 skátar úr Reykjavík þátt í mótinu. 130 sem þátttakendur í fjölbreyttri dagskrá og meira en 40 sem sjálfboðaliðar fylgdu ungu skátunum í dagskrá, sinntu matseld og héldu uppi dagskrá helgarinnar.
„Við viljum fyrst og fremst að kenna ungum skátum að takast á við fjölbreyttar áskoranir að vetrarlagi og að efla samstarf milli skátafélaganna í Reykjavík,“ segir Jón Andri Helgason hjá Skátasambandi Reykjavíkur.
Dagskránni var skipt eftir aldursstigum skátastarfsins. Dagskrá yngstu skátanna á mótinu fór að mestu fram í kringum skátaskálana á svæðinu þar sem þau kepptu við tímann og hvort annað í æsispennandi stórleikjum. Eldri skátarnir voru síðan í hinum enda skálabyggðarinnar þar sem þau fóru meðal annars í vetrargöngu í snjónum út af svæðinu. Þau elstu á mótinu unnu síðan saman að því að smíða heitan pott sem hægt væri að hita upp með varðeldi, þegar sólin var sest og verulega fór að kólna gátu þau því notið stjörnuhimins í notalegu baði.
Skátaíþróttir á Ólympíuári
Í tilefni Ólympíuleikanna í sumar voru þeir notaðir sem þema mótsins, en hluta af dagskránni var skipt í sumar-, vetrar- forn- og skátaólympíuleika. Þar reyndu skátarnir á sig í klifri og bogfimi, kepptu í snjóðsleðaakstri, pokahlaupi og folfdiskakasti ásamt því að fara í hefðbundnari skátadagskrá þar sem þau lærðu góða siði í varðeldagerð.

En yfir helgina voru líka ýmsir aðrir dagskrárliðir.
Dróttskátarnir komust t.d. á föstudagskvöldinu að því að farangur þeirra hefði orðið dagskránni að bráð. Í snjó og kolniðamyrkri þurftu þau að vinna saman og ráða úr ýmsum þrautum til finn að svefnpoka sína og hlý föt.
Vetrarmótið er skipulagt í sameiningu af öllum skátafélögunum átta úr Reykjavík og hefur fest sig í sessi og er beðið með eftirvæntingu á hverju ári, að sögn Jóns Andra.
Ólöf Jónasdóttir, nýr mótstjóri Landsmóts skáta 2020

Ólöf Jónasdóttir tók nýlega við sem mótstjóri Landsmóts skáta 2020. Ólöf hefur þekkt skátastarfið lengi vel en hún starfaði eitt ár í Kvenskátafélaginu Valkyrjunni þegar hún var 12 ára. Hún tók svo aftur upp þráðinn 2011 þegar eldri dóttir hennar byrjaði í skátunum en þá í Þrándheimi í Noregi. Í dag starfa þær báðar með Klakki á Akureyri þar sem Ólöf er rekka- og róverskátaforingi. Auk þess er Ólöf verkefnastjóri tvítyngismála í leikskólanum Iðavelli á Akureyri.
Kom Klakki til Noregs
Ólöf fór á sitt fyrsta stórmót árið 2013, en það var landsmót norskra skáta og sá Ólöf um að skipuleggja dagskrá fyrir börn foringja og um gestamóttökuna. Hún tók svo þátt á landsmótum hér á landi árin 2014 og 2016. Hún hélt svo aftur til Noregs á landsmótið árið 2017 en þá fékk hún flottan hóp úr Klakki með sér.

Mikilvægt að hafa gott teymi og upplýsingaflæði
“Mér finnst alltaf svo frábært að upplifa stemninguna og sjá samstarfið hjá skátunum á mótum”, segir Ólöf, aðspurð um hvað heilli hana við landsmót. Mikil vinna er fólgin í því að skipuleggja Landsmót skáta og þarf öflugt teymi til þess að hlutirnir gangi upp að sögn Ólafar. “Ég kem í verkefnið um áramótin og tek við góðu búi ef svo má segja. Undirbúningurinn gengur mjög vel og ég hlakka til að starfa með mótstjórninni fram yfir Landsmót. Þetta væri hins vegar ekki hægt án allra þeirra starfsmanna og sjálfboðaliða sem taka þátt í þessu með okkur - þeirra framlag er ómetanlegt!” Ólöf minnir á mikilvægi þess að hafa gott teymi, öflugan starfsmannahóp og gott upplýsingaflæði til að svona stórmót verði að veruleika og virðist ekki vera skortur á góðu fólki í kringum Ólöfu að vinnu Landsmótsins.
Frábær aðstaða og nálægð við Akureyri
Ólöf hlakkar mikið til að sjá Landsmót skáta verða að veruleika og ekki skemmir fyrir hvað aðstaðan á Hömrum er frábær og nálægðin við Akureyri eykur valmöguleika á dagskránni mikið. Landsmót er stærsti reglulegi viðburðurinn á vegum Bandalags íslenskra skáta og fer fram á Hömrum í þetta skiptið. Ólöf hvetur alla skáta til að sameinast á landsmóti - nú þarf bara hressa skáta og frábærar fararstjórnir og foringja til að mæta og hafa gaman á Landsmóti skáta 2020. “Sjáumst á Landsmóti skáta á Hömrum!”
Ungmennaþingið verður peppað
Ungmennaþing skáta verður haldið um helgina á Grundarfirði. „Þetta verður mjög skemmtilegt þing og mjög peppað fólk sem er búið að skrá sig,“ segir Ásgerður Magnúsdóttir, formaður ungmennaráðs.
Markmiðið þingsins er að þjálfa ungt fólk í lýðræðislegum vinnubrögðum og ræða þau málefni sem skipta ungmenni í skátastarfi máli. Einnig vill unga fólkið kynnast fyrirkomulagi Skátaþings sem haldið verður í lok mars og undirbúa sig fyrir það. „Kannski kemur einhver grilluð þingsályktunartillaga um helgina sem við förum með á Skátaþing,“ segir Ása.
Þingið er opið fyrir skáta sem eru á elsta árið í dróttskátum, alla rekkaskáta og róverskáta. Lokað hefur verið fyrir skráningu og segir Ása að þeir sem hafi gleymt sér verði að biðja mjög mjög fallega.
Vel sótt námskeið – Verndum þau
Námskeiðið Verndum þau var haldið í Skátamiðstöðinni þann 22. Janúar síðastliðinn. Þátttaka var nokkuð góð og tóku þrjátíuogfimm einstaklingar þátt, annað hvort á staðnum eða í gegn um fjarfundabúnað. Mikilvægt er fyrir alla þá sem starfa með börnum og unglingum að vera meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð, geta lesið í vísbendingar um að vanræksla eða ofbeldi eigi sér stað, hvort sem það er andlegt, líkamlegt eða kynferðislegt og vita hvernig bregðast á við ef grunsemdir vakan um slíkt misferli.
Æskulýðsvettvangurinn (ÆV) hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu Verndum þau. Námskeiðið er byggt á efni bókarinnar Verndum þau og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og unglingum. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem starfa með börnum og ungmennum og öðrum sem áhuga hafa. Æskulýðsvettvangurinn gerir kröfu um að allir starfsmenn og sjálfboðaliðar innan aðildarfélaga ÆV sæki námskeiðið og geta félögin fengið námskeiðið sér að kostnaðarlausu.
Næsta námskeið verður haldið fimmtudaginn 6. febrúar í Reykjanesbæ. Fleiri námskeið eru svo áætluð á næstunni, á Akureyri, í Borgarnesi og í Reykjavík.
Ef áhugi er fyrir námskeiði í þinni heimabyggð má hafa samband við Sigurgeir í Skátamiðstöðina.









