Skátar frá Norðurlöndunum vinna saman - Norðurlandaþing 2024

Dagana 8.-12. maí tók hópur íslenskra skáta þátt í Norðurlandaþingi sem haldið var í Færeyjum að þessu sinni. Norðurlandaþing er haldið á 3 ára fresti af norrænu skátanefndinni (NSK) sem er samstarfsvettvangur skátasamtaka á Norðurlöndunum. Markmið vettvangsins er að skapa tækifæri til samstarfs, til að miðla reynslu og deila menningu á milli landanna. Hér er hægt að lesa meira um starfsemi NSK.

Allt að 180 skátar frá öllum Norðurlöndunum voru samankomin á ráðstefnunni, þar af 19 manns frá Íslandi. Íslenski hópurinn samanstóð af stjórn og starfsfólki BÍS, fulltrúum frá Alþjóðaráði og fulltrúum ungmenna.

Fyrsta daginn fengu þátttakendur að upplifa náttúruundir Færeyja með vali um ferðir um eyjarnar. Hægt var að fara í fjallgöngu í Klaksvík, gönguferð um Kirkjubø eða göngu um Gásadal og að skoða Múlafoss. Seinna um daginn var þingið sett en þemað að þessu sinni var Tími breytinga. Á opnunarathöfninni fengum við ræður frá Skátahöfðingja og forsætisráðherra Færeyja ásamt tónlistaratriðum, eitt frá ungum skátum í Þórshöfn og svo flutti færeyski tónlistarmaðurinn Marius Ziska nokkur lög.

Á ráðstefnunni var fjölbreytt dagskrá sem samanstóð að mestu af kynningum og vinnusmiðjum ásamt því að þátttakendur fengu tækifæri á því að rýna betur í sýn, stefnu og samstarfsgrundvöll NSK.

Vinnusmiðjurnar komu frá þátttökulöndunum þar sem lögð var áhersla á spennandi og gagnlegar smiðjur til að kynna hin ýmsu verkefni sem bandalögin eru að vinna að. Sem dæmi má nefna smiðju um geðheilbrigðismál í skátastarfi, hvernig hægt er að vekja vitund skáta um veruleika flóttafólks, hvernig dagskrá rekka- og róverskáta lítur út, hvernig sænskir skátar kynna tækifæri til alþjóðastarfs og svo margt margt fleira. Íslensku skátarnir stóðu fyrir þrem smiðjum, einni um sjálfbæra viðburði, aðra um öryggi í skátastarfi og sú þriðja kynnti starfsemi Grænna skáta og hvað það gefur íslensku skátahreyfingunni.

Að lokum ber sérstaklega að nefna að Færeyingar héldu smiðju sem bar heitið Skótahjálpin, þar sem þau sögðu frá góðgerðarstarfi sínu þar sem þau safna peningum fyrir góð málefni. Til að mynda gáfu þau íslenskum skátum 500 þúsund krónur fyrir sumarstarfi grindvískra barna.

Einnig sammældust Norrænu bandalögin um að veita styrk til skáta í Brasilíu sem standa í ströngu um þessar mundir að hjálpa samfélagi sínu að kljást við mikil flóð sem hafa geysað í suðurhluta landsins.

Að sjálfsögðu var svo boðið upp á kvöldvökur að skátasið í lok hvers dags!

Við þökkum frændfólki okkar í Færeyjum fyrir einstaklega vel skipulagða og gagnlega ráðstefnu og erum full tilhlökkunar að innleiða þær hugmyndir sem við fengum á ráðstefnunni í okkar starfsemi.

 


Inngilding og sjálfbærni í brennidepli á Skátaþingi

Um 150 skátar tóku þátt eða stóðu að Skátaþingi sem haldið var á Sólheimum og Úlfljótsvatni helgina 5.-7. apríl. Skátaþing er árleg samkoma þar sem skátahreyfingin kemur saman, heldur aðalfund sinn og rýnir í stöðu skáta á Íslandi. Þingið er einnig ákveðin uppskeruhátíð fyrir fastaráðin enda er það oft vettvangur kynninga á nýjum leiðum í skátastarfi.

Gaman er að fylgjast með þróun í þátttöku ungmenna á Skátaþingi en í ár var slegið met í virkri þátttöku þeirra, en fyrra met var sett á Skátaþingi í fyrra. Í ár voru 36 af 55 fulltrúum þingsins með atkvæðisrét á aldrinum 13-25 ára og því rúmlega 65% atkvæða í höndum ungmenna. Við fögnum því og erum stolt af því að vera ungmennahreyfing sem stýrt er af ungu fólki með stuðningi fullorðinna.

Inngilding og sjálfbærni voru í brennidepli á Skátaþingi að þessu sinni og var því tilvalið að halda þingið á Sólheimum. Starfsemi Sólheima og skátastarf byggja einmitt bæði á hugsjónastarfsemi og miða að því að bæta þann heim sem við búum í. Þema þingsins að þessu sinni var Leiðtogar í 100 ár í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá því að Bandalag íslenskra skáta var stofnað.

Í upphafi voru flutt ávörp frá gestum þingsins en Ása Valdísar Árnadóttur Oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps flutti opnunarávarp þingsins. Þar fjallaði hún um sveitarfélagið og sagði frá reynslu sinni af því að hitta þátttakendur á Gilwell leiðtogaþjálfuninni þegar þau komu í heimsókn á bæinn sem hún ólst upp á. Ólafur Hauksson og Valgeir F. Backman fluttu ávarp fyrir hönd skátafélagsins Sólheima þar sem þeir buðu skátana velkomna og minntust á að almennt svifi skátaandinn yfir Sólheimum og íbúum þar. Að lokum fór Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Grænna skáta,  yfir starfsemi þeirra og hvernig hún styður við skátastarf í landinu ásamt því að gefa þátttakendum þingsins gjöf frá fyrirtækinu. 

Einnig voru kynningar á þinginu en þar byrjaði Huldar Hlynsson, meðstjórnandi í stjórn BÍS, á því að fara yfir stöðuna í Stefnu BÍS og hvernig hægt sé að vinna að því að markmiðum hennar sé náð fyrir lok árs 2025. Helga Þórey Júlíudóttir, sveitaforingi og skátaforingi skátastarfs í Guluhlíð, og Margrét Rannveig Halldórsdóttir, forstöðukona Guluhlíðar sögðu frá Skátastarfi fyrir öll í Guluhlíð en síðastliðið ár hefur verið unnið að því að auka tækifæri fyrir öll börn að stunda skátastarf, óháð færni og getu. Loks kom Rebecca Craske, sérfræðingur bresku skátahreyfingarinnar í sjálfbærni málefnum og talaði um þær breytingar sem eru að eiga sér stað í samfélaginu okkar í dag og þau tækifæri sem standa okkur til boða til að gera lifnaðarhætti okkar sjálfbærari.

Á Skátaþingi tíðkast að veita öflugum skátum þakkir fyrir vel unnin störf. Að þessu sinni ber helst að nefna að fararstjórn, sveitarforingjar og sjálfboðaliðar sem fóru á Alheimsmót skáta fengu öll heiðursmerki fyrir að hafa staðið sig vel í erfiðum aðstæðum í Suður-Kóreu.

Eftir að hefðbundnum aðalfundastörfum lauk var boðið upp á smiðjur þar sem þátttakendur gátu kynnt sér betur starfsemi Sólheima, sjálfbærni næstu 100 árin, könnuðamerki BÍS, leiðir til að minnka skjánotkun, leiðtogaþjálfunarleik og hvernig við aukum alþjóðastarf í skátunum.

Á sunnudag var haldið á Úlfljótsvatn þar sem boðið var upp á dagskrá til að undirbúa Landsmót skáta sem haldið verður í sumar. Þar voru lögð drög að mótsbókinni, rekka- og róverdagskráin var skoðuð og opið var í Skátasafnið. Loks var svo boðið upp á karnival þar sem félögin sýndu frá því sem hefur gefist vel í þeirra tjaldbúðum á Landsmótum.

Við þökkum öllum þátttakendum fyrir skemmtilega og gagnlega helgi á Skátaþingi og hlökkum til þess næsta!


Tilkynning frá uppstillingarnefnd BÍS vegna Skátaþings 2024

Sækja tilkynningu á pdf formi

Á Skátaþingi helgina 5.-7. apríl n.k. verður kosið í neðangreind embætti í samræmi við lög BÍS. Uppstillingarnefnd hvetur skáta sem hafa áhuga og hugsjónir fyrir skátastarfi í landinu að skoða þau embætti sem eru laus til kjörs, að gefa kost á sér til starfa og hvetja aðra til þess. Lýsingar á þeim embættum sem kosið er í má finna neðst í þessari tilkynningu.
Athygli skal vakin á eftirfarandi:

  • Kosið er í öll embætti annað hvert ár til tveggja ára.
  • Við kosningu í stjórn BÍS er kosið sérstaklega um skátahöfðingja og gjaldkera en fimm meðstjórnendur eru kjörnir í einni kosningu.
  • Kosið er í fjögur fastaráð: starfsráð, alþjóðaráð, útilífsráð og stjórn Skátaskólans.
  • Kosið er í ungmennaráð (16 - 25 ára) og áheyrnarfulltrúa ungmenna í stjórn BÍS á ungmennaþingi 2 - 4. febrúar. Áhugasamir eru hvattir til að fylgjast með undirbúningi ungmennaþings, sækja þingið og bjóða sig fram.
  • Kosið er um fimm sæti í uppstillingarnefnd, þrjá félagslega skoðunarmenn og löggiltan endurskoðanda.
  • Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa fyrir Bandalag íslenskra skáta samkvæmt því sem fram kemur í 16. grein, 19. grein, 23. grein, 26. grein og 27. grein laga þessara og tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi.
  • Stjórn hefur ákveðið fjölda fulltrúa í fastaráðum sbr 26. grein laga, sjá upptalningu að neðan.

EFTIRTALIN EMBÆTTI ERU LAUS TIL KJÖRS Á SKÁTAÞINGI

STJÓRN

Skátahöfðingi
Gjaldkeri
Fimm meðstjórnendur

FASTARÁÐ

Fjögur sæti í alþjóðaráði
Fjögur sæti í starfsráði
Fimm sæti í stjórn Skátaskólans
Þrjú sæti í útilífsráði

ANNAÐ

Fimm sæti í uppstillingarnefnd
Þrír félagslegir skoðunarmenn reikninga
Löggiltur endurskoðandi

KJÖRIN Á UNGMENNAÞINGI

Áheyrnarfulltrúi ungmenna í stjórn BÍS
Fimm sæti í ungmennaráði

Framboðstilkynningar og tillögur um fólk í þessi embætti óskast sendar uppstillingarnefnd hið fyrsta og eigi síðar en 15. mars kl. 12:00.
Tilkynningar um framboð þurfa að berast í tölvupósti á netfang uppstillingarnefndar.
Sérstök athygli er vakin á því að ekki er hægt að skila framboðum á þinginu sjálfu.

UPPSTILLINGARNEFND SKIPA:

Berglind Lilja Björnsdóttir, form s. +45 50 18 13 25 berglind@skatarnir.is
Hafdís Bára Kristmundsdóttir s. 617-1591 barahafdis@gmail.com
Jón Ingvar Bragason s. 699-3642 joningvarbragason@gmail.com
Reynir Tómas Reynisson s. 698-6226 reynirtomas@gmail.com
Sædís Ósk Helgadóttir s. 661-6433 saedis@skatarnir.is

LÝSING EMBÆTTA

Hér eru skýringar um helstu verkefni sem þau embætti sinna sem kosið verður í á Skátaþingi. Athugið að þetta eru ekki tæmandi listar og verkefnin geta verið jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Ennfremur starfa ráð oft saman að ýmsum verkefnum.

STJÓRN

Skátahöfðingi er formaður sjórnar BÍS og leiðtogi alls skátasarfs á landinu.

Gjaldkeri situr í stjórn BÍS. Hann ber m.a. ábyrgð á fjármálum BÍS og vinnur náið með framkvæmdastjóra hreyfingarinnar að stjórn þeirra, framkvæmd fjáraflana, vinnslu bókhalds, áætlanagerð o.þ.h.

Meðstjórnendur (5) sitja í stjórn BÍS sem skiptir með sér verkum og ber m.a. sameiginlega ábyrgð á starfi stjórnar, ráða og nefnda. Sitja eftir atvikum í fastaráðum samkvæmt ákvörðun stjórnar.

Áheyrnarfulltrúi ungmenna hefur áheyrnarrétt í stjórn BÍS en ekki atkvæðisrétt. Kosið er í embættið á ungmennaþingi.

FASTARÁÐ OG FLEIRI EMBÆTTI

Hlutverk starfsráðs er að styðja við og efla starf skátafélaganna í samráði við stjórnir skátafélaga, sveitarforingja og flokksforingja.

Hlutverk alþjóðaráðs er að stuðla að því að að BÍS fylgi stefnum og nýti sér stuðningsefni frá alþjóðasamtökum skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt því að annast samskipti við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.

Hlutverk stjórnar Skátaskólans er að stuðla að þjálfun með skipulagningu námskeiða, er taki mið af Grunngildum Bandalags íslenskra skáta.

Hlutverk útilífsráðs er að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja við þá útilífsviðburði sem bæði skátafélög og BÍS standa fyrir.

Hlutverk ungmennaráðs er að hvetja til og auka ungmennalýðræði innan stjórnkerfis hreyfingarinnar og stuðla að virkri þátttöku ungmenna við stefnumótun eigin skátastarfs og hreyfingarinnar. Kosið er í ráðið á ungmennaþingi.

Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa í stjórn og fastaráð fyrir Bandalag íslenskra skáta. Við störf sín skal nefndin ávallt leita eftir sem hæfustum frambjóðendum og gæta þess, eftir því sem hægt er, að jafnræði sé með kynjunum í stjórn, nefndum og ráðum BÍS.

Félagslegir skoðunarmenn reikninga Félagsleg skoðun reikninga BÍS og dótturfélaga er í höndum þriggja manna félagslegrar skoðunarnefndar sem Skátaþing kýs. Félagslegir skoðunarmenn reikninga mega ekki sinna öðrum störfum fyrir BÍS sem snerta fjármál. Þeir bera ábyrgð gagnvart Skátaþingi og skulu eiga greiðan aðgang að öllu bókhaldi BÍS og er stjórninni skylt að veita þeim allar nauðsynlegar upplýsingar um fjármál og reikningshald þess.

Löggiltur endurskoðandi Reikningar BÍS og dótturfélaga skulu skoðaðir ár hvert af löggiltum endurskoðanda, kosnum af Skátaþingi.

 


Ógleymanlegt Gilwell-ævintýri í Slóveníu

Íslenski fararhópurinn. Frá vinstri: Elín (Fossbúum), Tero (Úlfljótsvatni), Steinar Logi (Kópum), Hinrik (Vogabúum), Sebastian (Klakki), Hjálmar (Kópum) og Thelma (Hraunbúum).

Síðustu helgina í febrúar fóru sex skátaforingjar frá Íslandi, og einn leiðbeinandi, til Postojna í Slóveníu til að taka þátt í seinni hluta Gilwell-námskeiðs. Ferðin var hin eftirminnilegasta í alla staði og á námskeiðinu fengu foringjarnir gott veganesti fyrir foringjastörf sín, og fyrir síðasta hluta þjálfunarinnar – Gilwell-verkefnið.

Þetta er í annað sinn sem íslenskur hópur fer á Gilwell í Slóveníu, en um er að ræða fjölþjóðlegt námskeið sem styrkt er af Erasmus+, og hét fullu nafni International Wood Badge course - Bohinj 2023. Samhliða fjölþjóðlega námskeiðinu eru keyrð tvö önnur námskeið á sama tíma og undir sama hatti. Á þeim er lögð áhersla á dagskrármál annars vegar og stjórnun skátafélaga og viðburða hins vegar. Á alþjóðlega námskeiðinu er áherslan hins vegar á að foringinn læri að þekkja sjálfan sig – hver gildi hans eru og hvernig þau nýtast í leiðtogastörfum.

Fyrri hluti námskeiðsins fór fram í skátamiðstöð við Bohinj-vatn í ágúst á síðasta ári. Auk Íslendinga og Slóvena sóttu foringjar frá Svartfjallalandi og Serbíu námskeiðið líka. Gilwell-námskeið eru alltaf mikil upplifun, en að sitja slíkt námskeið í suður-evrópskri náttúruperlu og fá í leiðinni tækifæri til að kynnast vel skátaforingjum með allt annan bakgrunn, það er ævintýri líkast!

 

Fyrri hluti námskeiðsins fór fram í Bohinj í ágúst sl. Hér má sjá Tero og Sebastian vinna verkefni með flokknum sínum, úti í skógi.

Hópurinn flaug út á fimmtudegi. Eftir stutt næturstopp í höfuðborginni Ljubljana var farið með lest til Postojna-borgar, sem er hvað frægust fyrir samnefndan helli sem er alls um 23 km langur og fullur af dropsteinum. Fyrir námskeiðið gafst hópnum tími til að fara í skoðunarferð um hellinn, sem var sannarlega fyrirhafnarinnar virði.

Íslensku þátttakendurnir fóru að sjálfsögðu í Postojna-helli, sem er ævintýraheimur út af fyrir sig.

Á námskeiðinu sjálfu var að þessu sinni kafað dýpra ofan í verkefnastjórnun, fullorðna í skátastarfi, leiðtogahlutverkið, sögu Gilwell-námskeiða og fleira. Auk þess var sérstök vinnustofa þar sem þátttakendur reyndu að festa hönd á því hvað þeir höfðu lært á fyrri hluta námskeiðsins. Það getur nefnilega verið auðveldara að átta sig á slíku þegar smá tími hefur liðið og reynsla er komin á að nýta fróðleikinn af námskeiðinu.

Seinni hluti námskeiðsins fór fram í hosteli sem er líka menntaskóli fyrir verðandi skógfræðinga.

Eftir slit á sunnudegi beið svo leigubíll eftir hópnum. Leiðin lá í Predjama kastala, sem er steinsnar frá Postojna. Kastalans er fyrst getið í heimildum árið 1274, en hann er byggður að hluta inni í kletti. Eftir stutta en mjög áhugaverða heimsókn til miðalda lá leiðin aftur til Ljubljana og beint upp í flugvél.

Ferðin endaði svo á heimsókn í Predjama-kastala. Þetta væri nú ágætis skátaheimili!

Við tekur vinna við Gilwell-verkefnin, en hver þátttakandi þarf að klára verkefni sem reynir á verkefnastjórnunar- og leiðtogahæfileika viðkomandi. Verkefnin eru fjölbreytt, allt frá því að skipuleggja útilegu fyrir dróttskáta í tveimur félögum, yfir í viðamiklar rannsóknir eða bókaútgáfu.

Fyrir hvern og einn þátttakanda er ferð eins og þessi ógleymanlegt ævintýri. Fyrir utan það sem hægt er að læra á svona námskeiði fara skátaforingjarnir heim af því með nýja vini frá öðrum heimshornum. Slík vinátta getur enst alla ævi og býður upp á alls konar samstarf, skoðanaskipti, ferðalög og fleira. Þetta vita allir skátar sem hafa ferðast. Balkanlöndin kunna að virðast óralangt frá Íslandi, bæði menningarlega og landafræðilega, en eftir stutt kynni kemur auðvitað í ljós að fólk er meira og minna eins alls staðar. Við borðum morgunmat á morgnanna og kvöldmat á kvöldin.

Fyrir hreyfinguna sjálfa er svo dýrmætt að foringjar sækji sér þjálfun og reynslu sem víðast. Það auðgar flóruna heima við og kemur í veg fyrir stöðnun og fábreytni. Áherslurnar á þessu námskeiði eru enda býsna frábrugðnar þeim á íslenska námskeiðinu, þó svo að unnið sé að sama markmiði. Þess háttar fjölbreytni styrkir hreyfinguna og meðlmi hennar.

Það ætti því að vera keppikefli fyrir skátafélög og -bandalög að senda foringja sína vítt og breytt um heiminn. Þátttaka í Slóveníu-Gilwelli er einmitt ein birtingarmynd þeirrar stefnu.

Í ágúst byrjar nýtt námskeið, sem Íslendingar taka ekki þátt í, en þess í stað fara íslenskir þátttakendur á norrænt Gilwell-námskeið. Það verður spennandi að sjá hvað þau læra þar!


Fundarboð Skátaþings 2024

Sækja fundarboð í pdf formi

Stjórn Bandalags íslenskra skáta boðar til Skátaþings 2024.

Þingið verður haldið dagana 5.-7. apríl á Sóleimum í Grímsnesi og á Úlfljótsvatni. Þingið hefst með setningu kl. 19:00 föstudaginn 5. apríl á Sólheimum og lýkur sunnudaginn 7. apríl kl. 13:00 á Úlfljótsvatni. Aðstaðan opnar kl. 18:00 og frá þeim tíma er hægt að fá þinggögn afhent. Vakin er athygli á að ekki verður boðið upp á kvöldmat á föstudegi af þinginu. Hægt verður að kaupa kvöldmat í kaffihúsinu á Sólheimum fyrir setningu þingsins á föstudag. Maturinn kostar 3.000 krónur og fer skráning fram í Sportabler viðburði.

Dagskrá þingsins er skv. 21. grein laga BÍS og er sérstök athygli vakin á því að skv. 17. grein laga BÍS er kosningaár.

Einnig er rétt að vekja athygli á greinum 18.-20. í lögum BÍS sem fjalla um Skátaþing. Starfandi skátar hafa rétt til að sitja Skátaþing með málfrelsi og tillögurétt óháð aðildarleið. Fulltrúar skátafélaga með aðild A fara með 4 atkvæði, þar af skal eitt atkvæði bundið félagsforingja eða öðrum stjórnarmeðlim skátafélagsins í hans stað og æskilegt er að minnst eitt atkvæði sé í höndum einstaklings á aldrinum 13-25 ára.

Öll sem hyggjast taka þátt skulu skv. 18. grein laga BÍS skrá sig á skraning.skatarnir.is fyrir 29. mars klukkan 19:00. Félagsforingjar eða annað stjórnarfólk skátafélaganna skal skila kjörbréfum rafrænt fyrir setningu þar sem tilgreindir eru aðal- og varafulltrúar skátafélags á þinginu.

Þátttökugjald er 9.500 kr., innifalin eru þinggögn, léttar veitingar á föstudagskvöldi, morgunverður og  hádegisverður á laugardegi og sunnudegi ásamt almennri dagskrá sem verður boðið upp á samhliða þinginu.

Skátafélag Sólheima er gestgjafi þingsins.

Hægt verður að bóka svefnpláss í herbergjum á Sólheimum og Úlfljótsvatni fyrir einstaklinga eða hópa. Verður það auglýst sérstaklega þegar lokatala á laus gistirými er komin. Þá verður sérstakur hátíðarkvöldverður á laugardegi þingsins. Öll skráning fyrir slíkt mun fara fram í Sportabler og verður eingöngu aðgengileg þeim sem eru þegar skráð á Skátaþing.

Eftirfarandi embætti eru laus til kjörs á Skátaþingi 2024:

Stjórn

Skátahöfðingi
Gjaldkeri
Fimm meðstjórnendur

Fastaráð

Fjögur sæti í alþjóðaráði
Fjögur sæti í starfsráði
Fimm sæti í stjórn Skátaskólans
Þrjú sæti í útilífsráði

Annað

Fimm sæti í uppstillingarnefnd
Þrír félagslegir skoðunarmenn reikninga
Löggiltur endurskoðandi

Kjörin á Ungmennaþingi 2024

Áheyrnarfulltrúi ungmenna í stjórn BÍS
Fimm sæti í ungmennaráði

Framboðstilkynningar og tillögur um fólk í þessi hlutverk óskast sendar hið fyrsta og eigi síðar en 15. mars kl. 12:00 á netfangið uppstillingarnefnd@skatarnir.is. Með fundarboði fylgir tilkynning frá Uppstillingarnefnd þar sem má finna nánari upplýsingar og lýsingu á hverju hlutverki fyrir sig.

Sérstök athygli er vakin á því að ekki er hægt að skila framboðum á þinginu sjálfu.

Uppstillingarnefnd skipa:
Berglind Lilja Björnsdóttir, form s. +45 50 18 13 25 berglind@skatarnir.is
Hafdís Bára Kristmundsdóttir s. 617-1591 barahafdis@gmail.com
Jón Ingvar Bragason s. 699-3642 joningvarbragason@gmail.com
Reynir Tómas Reynisson s. 698-6226 reynirtomas@gmail.com
Sædís Ósk Helgadóttir s. 661-6433 saedis@skatarnir.is

Mikilvægar dagsetningar fram að Skátaþingi:

Rétt er að vekja athygli á eftirfarandi dagsetningum fram að þingi samkvæmt gildandi lögum BÍS.  

8. mars kl. 19:00– Fresti til að skila tillögum að lagabreytingum til stjórnar BÍS lýkur.
15. mars kl. 19:00– Fresti til að skila beiðnum um upptöku mála á Skátaþingi til stjórnar BÍS lýkur.
15. mars kl. 12:00 – Framboðsfrestur í stjórn og fastaráð BÍS rennur út.
22. mars kl. 19:00 – Fresti stjórnar BÍS til að senda félagsforingjum þinggögn og drög að dagskrá Skátaþings lýkur.
29. mars kl. 19:00 Fresti til að skila athugasemdum um útsend gögn til Skátamiðstöðvarinnar lýkur.
29. mars kl. 19:00  – Skráning á Skátaþing lýkur.
5. apríl kl. 19:00 Fresti skátafélaga til að skila gögnum og kjörbréfum til skrifstofu BÍS lýkur.
5. apríl kl. 19:00
  – Skátaþing er sett.

Upplýsingasíðu Skátaþings má finna á skatarnir.is/skatathing en þar má finna allar upplýsingar um Skátaþing í rauntíma, þangað verður gögnum hlaðið upp þegar þau berast og í síðasta lagi fyrir tilgreindan frest samkvæmt lögum. Öll þinggögn verða aðgengileg þar á rafrænu formi þegar Skátaþing verður sett.

Reykjavík,  21. febrúar 2024
Fyrir hönd stjórnar BÍS

Harpa Ósk Valgeirsdóttir
Skátahöfðingi

 


Skátaævintýri á Útilífsnámskeiði

Helgina 9.-11. febrúar síðastliðinn stóðu Skíðasamband skáta og skátafélagið Klakkur fyrir Útilífsnámskeiði í Eyjafirði fyrir drótt- og rekkaskáta.

Námskeiðið er haldið árlega og að þessu sinni voru 20 þátttakendur á námskeiðinu, 11 skátar frá Klakki og 9 skátar af höfuðborgarsvæðinu ásamt foringjum.

Hópurinn að sunnan lagði af stað með rútu frá Skátamiðstöðinni í hádeginu föstudaginn 9. febrúar og voru mætt í Valhöll tilbúin í verkefni helgarinnar þegar námskeiðið var sett klukkan 18.

Markmið námskeiðsins er að vera hvatning til skátanna að stunda útivist að vetri til og kenna þeim hvernig best er að undirbúa sig fyrir slík ævintýri.

Til þess fá þau fræðslu um ýmislegt sem nauðsynlegt er að vita, meðal annars um viðeigandi klæðnað og búnað ásamt því að þjálfast í rötun og á gönguskíðum.

Að auki gerðu þátttakendur eldhús úr snjónum, sem nóg var af, en þar elduðu þau og borðuðu flestar máltíðir á meðan námskeiðinu stóð.

Einnig tjölduðu þau í snjónum og létu kuldan ekki á sig fá þegar þau gistu í tjöldunum seinni nóttina.

Það voru sáttir skátar sem héldu heim á sunnudegi.

 

 

 

 


Öflugir skátar hefja Gilwell vegferðina

Nýlega héldu 14 öflugir skátar af stað í Gilwell vegferðina en þau luku fyrsta þrepi af þremur helgina 2-4. febrúar og bera núna stolt Gilwell hnútinn eftirsótta.

Á námskeiðið mættu skátar víðsvegar að, frá Búðardal, Reykjavík, Mosfellsdal og Kópavogi, sum ný á Gilwell vegferðinni en önnur eru að koma aftur til að klára. 

Hópurinn lét ekki ófærð og vont veður á sig fá og hóf námskeiðið í Mosverjaheimilinu þar sem farið var yfir helstu leiðtogastíla og hvernig leiðtogar við viljum vera, bæði í skátastarfi sem og í eigin lífi.

Á laugardeginum lá leiðin austur á Úlfljótsvatn og hófst þar með námskeiðið og flokkarnir litu dagsins ljós. Dagskráin hófst með stórskemmtilegum póstaleik þar sem skátaaðferðin var í fyrirrúmi. Dagskrá laugardagsins miðaði svo að gildum í skátastarfi og leiðtogaþjálfun. 

Hefðbundin Gilwell kvöldvaka var á sínum stað, þátttakendur slógu í gegn með frumsömdum skemmtiatriðum þar sem persónur úr Njálu skelltu sér á Gilwell!  Kvöldinu lauk svo í Ólafsbúð þar sem við ornuðum okkur við eldinn og grilluðum smors og pylsur.

Á sunnudag var rýnt í leiðtogalilju WOSM sem stefnumótunar og verkefnastjórnunartæki. Nú tekur við spennandi tími þar sem Gilwell nemarnir fara að skapa verkefnin sín og var því sunnudagurinn nýttur undir hugarflug og rýni á það hvernig hægt sé að bæta skátastarf á Íslandi. 

Þátttakendahópurinn var einstaklega samstilltur og til í allar þrautir og verkefni sem leiðbeinendum datt í hug að leggja fyrir þau. Það gerði helgina sérlega skemmtilega fyrir okkur öll. Yndislegi Gilwell skálinn heldur vel utan um hópinn þar sem sagan og táknræna umgjörðin eru í aðalhlutverki og koma okkur í Gilwell stemminguna.

Næsta þrep verður í júní þar sem við munum búa í tjaldbúð og reynir þá meira á hópastarf og samvinnu.


Egle verður næsti alþjóðafulltrúi WAGGGS

Stjórn BÍS hefur skipað Egle Sipaviciute sem næsta alþjóðafulltrúa fyrir WAGGGS. Egle verður tengiliður BÍS við alþjóðasamtök kvenskátahreyfingarinnar og á norrænum samstarfsvettvangi skáta ásamt því að vinna náið með alþjóðaráði BÍS. Egle tekur formlega við hlutverkinu frá Sunnu Líf á Skátaþingi en þangað til fylgist Egle með störfum Sunnu til að fá innsýn í þau verkefni sem alþjóðafulltrúi sinnir.  Stjórn BÍS óskar Egle innilega til hamingju með stöðuna og hlakkar til að starfa með henni í nýju hlutverki.

EN:

The board of Bandalag Íslenskra Skáta has appointed Egle Sipaviciute as the next International Commissioner for WAGGGS. Egle will represent BÍS within the World Association of Girl Guides and Girl Scout abroad and within the Nordisk Speiderkomité as well as working with BÍS's council on international scouting. Egle will take over the role from Sunna Líf at the next annual meeting but will be in training with Sunna until then. The board of BÍS would like to congratulate Egle on her new position and looks forward to working with her.

 


Neistinn kveiktur fyrir 2024

Síðastliðna helgi komu hátt í 80 manns saman á Neista sem haldinn er árlega í upphafi janúar á Úlfljótsvatni. Þátttakendur voru skátar, 16 ára og eldri, sem lærðu nýja færni, kynntust öðrum skátum og byrjuðu skátaárið á skemmtilegan hátt.

Neisti er færninámskeið þar sem boðið er upp á margvíslegar smiðjur og fá þátttakendur að velja sína eigin dagskrá.

Þema Neista að þessu sinni var Landsmóts  þar sem styttist í Landsmót skáta í sumar. Þemað var nýtt í flokkaskiptingu þar sem flokkar helgarinnar voru félög á leið á landsmót en einnig hafði þemað áhrif á dagskrá helgarinnar.

Á föstudegi var setningarathöfn þar sem skipt var í flokka og héldu þau svo af stað í póstaleik. Í póstaleiknum gafst flokkunum tækifæri á því að kynnast betur, þau bjuggu til verndargrip fyrir félagið sitt og tókust á við ýmis verkefni, meðal annars að búa til fallhlíf fyrir egg svo það gæti fallið úr klifurturninum og lent í heilu lagi.

Smiðjurnar voru svo keyrðar á laugardegi og fyrir hádegi á sunnudag en boðið var alls upp á 18 smiðjur yfir helgina. Smiðjurnar voru fjölbreyttar en m.a. var í boði smiðjur um öryggi í skátastarfi, snjallgöngur, landsmóts tjaldbúðina, leikjastjórnun og valdeflingu fálkaskáta.

Að sjálfsögðu voru Eldleikarnir á sínum stað á laugardagskvöldi ásamt kvöldvöku sem nýjir kvöldvökustjórar stýrðu eftir að hafa verið þátttakendur á smiðju um slagverk og kvöldvökur.

Eftir hádegi á sunnudegi kom mótsstjórn Landsmóts skáta 2024 og sá um póstaleik sem gaf þátttakendum innsýn í það við hverju má búast í sumar.

Sérstakar þakkir fá allir þeir sjálfboðaliðar sem komu að helginni og gerðu þennan viðburð að veruleika.

Við hlökkum til að sjá ykkur á Landsmóti í sumar!

 


ESC verkefni - Aðgengilegt skátastarf

Starfsárið 2023-2024 vinnum við að verkefni sem snýr að því að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í skátastarfi. Þetta er okkur mjög mikilvægt verkefni, við höfum verið að leggja aukna áherslu á innglindingu í skátastarfi og er þetta einn liður í því að gefa öllum börnum tækifæri á að kynnast skátastarfi.

Verkefnið hefur hlotið styrk úr samfélagsverkefnahluta Erasmus+ áætlunarinnar og eru verkþættir verkefnisins eftirfarandi:

  • Bjóða starfsfólki og sjálfboðaliðum hreyfingarinnar upp á fræðslu
  • Þýða dagskrárefni skáta
  • Þýða bókina “Hvað er skátastarf?” ætlað börnum, foreldrum og starfsfólki til kynningar
  • Koma á tengslaneti fullorðinna skáta með erlendan uppruna búsett á Íslandi og hvetja þau til þátttöku.

Forsenda þess að verkefnið takist vel er að við sem hreyfing leggjumst öll á eitt að gera starfið aðgengilegt, á vettvangi bandalagsins en einnig á vettvangi skátafélaganna.

Því er fyrsti verkþátturinn fræðsla fyrir sjálfboðaliða, starfsfólk og önnur áhugasöm þar sem við fáum tækifæri á því að öðlast innsýn í reynsluheim fólks af erlendum uppruna á Íslandi og hvað aftrar þátttöku þeirra í æskulýðsstarfi.

FJÖLMENNINGARFRÆÐSLA MANNFLÓRUNNAR

Fyrsta fræðsluerindið var haldið í nóvember en þá kom Chanel Björk Sturludóttir, stofnandi Mannflórunnar, til okkar og hélt fræðslu um fjölmenningu.

Chanel kom með ýmsan fróðleik og upplýsingar um hvernig íslenskt samfélag er byggt upp með þátttöku einstaklinga með ólíkan bakgrunn, fjölda ólíkra og sameiginlegra uppruna og einnig einstaklingar sem tilheyra mörgum fjölbreyttum menningarheimum.

Hún kom einnig með fræðslu varðandi ýmiss hugtök sem snertir fjölmenningu og mikilvægt fyrir virka einstaklinga í samfélagi að vera meðvituð um eins og

  • Staðalímyndir
  • Kynþátttafordóma
  • Menningarfordóma
  • Öráreiti
  • Hvítleika
  • Forréttindi
  • Forréttindi hvítra

Við hvetjum öll að fræðast um þessi mikilvægu málefni en þau sem ekki komust á fræðsluna hjá Chanel geta nálgast ítarefni hjá starfsmanni síns skátafélags.

Við vonum að sem flest sjái sér fært um að mæta á aðrar fræðslur á vorönn.

Ef þið hafið hugmyndir að áhugaverðum fræðsluerinudm má endilega senda þær á skatarnir@skatarnir.is.

 


Privacy Preference Center