Neistinn kveiktur fyrir 2024

Síðastliðna helgi komu hátt í 80 manns saman á Neista sem haldinn er árlega í upphafi janúar á Úlfljótsvatni. Þátttakendur voru skátar, 16 ára og eldri, sem lærðu nýja færni, kynntust öðrum skátum og byrjuðu skátaárið á skemmtilegan hátt.

Neisti er færninámskeið þar sem boðið er upp á margvíslegar smiðjur og fá þátttakendur að velja sína eigin dagskrá.

Þema Neista að þessu sinni var Landsmóts  þar sem styttist í Landsmót skáta í sumar. Þemað var nýtt í flokkaskiptingu þar sem flokkar helgarinnar voru félög á leið á landsmót en einnig hafði þemað áhrif á dagskrá helgarinnar.

Á föstudegi var setningarathöfn þar sem skipt var í flokka og héldu þau svo af stað í póstaleik. Í póstaleiknum gafst flokkunum tækifæri á því að kynnast betur, þau bjuggu til verndargrip fyrir félagið sitt og tókust á við ýmis verkefni, meðal annars að búa til fallhlíf fyrir egg svo það gæti fallið úr klifurturninum og lent í heilu lagi.

Smiðjurnar voru svo keyrðar á laugardegi og fyrir hádegi á sunnudag en boðið var alls upp á 18 smiðjur yfir helgina. Smiðjurnar voru fjölbreyttar en m.a. var í boði smiðjur um öryggi í skátastarfi, snjallgöngur, landsmóts tjaldbúðina, leikjastjórnun og valdeflingu fálkaskáta.

Að sjálfsögðu voru Eldleikarnir á sínum stað á laugardagskvöldi ásamt kvöldvöku sem nýjir kvöldvökustjórar stýrðu eftir að hafa verið þátttakendur á smiðju um slagverk og kvöldvökur.

Eftir hádegi á sunnudegi kom mótsstjórn Landsmóts skáta 2024 og sá um póstaleik sem gaf þátttakendum innsýn í það við hverju má búast í sumar.

Sérstakar þakkir fá allir þeir sjálfboðaliðar sem komu að helginni og gerðu þennan viðburð að veruleika.

Við hlökkum til að sjá ykkur á Landsmóti í sumar!