KISC - Sviss

Alþjóðlega skátamiðstöðin í Kandersteg, í Sviss, var stofnuð af Baden Powell með það að markmiði að allt árið um kring væri í boði að taka þátt í skátastarfi. Skátamiðstöðin hefur vaxið og dafnað í gegnum árin og er í dag frábært tækifæri fyrir skáta að prófa að vinna í skátamiðstöð sem sjálfboðaliði.

Í KISC er hægt að sækja um að vera “Pinkie” en það eru þriggja mánaða sjálfboðaliðastarf sem eru í boði fyrir allar árstíðir. Þau verkefni sem Pinkies taka að sér eru fjölbreytt, skemmtileg og lærdómsík. Þar má nefna útivistatengda dagskrá, kvöldvökur, þrif og matreiðsla og vinna á tjaldsvæði svo eitthvað sé nefnt. En hér má finna nánari upplýsingar um KISC.


141 íslenskir skátar lagt af stað á 25. Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu

Nú hafa um 141 íslenskir skátar lagt af stað á 25. Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu!

Frá 1.-12. ágúst mun Saemangeum á vesturströnd Suður Kóreu taka á móti um 55.000 skátum frá mismunandi löndum alls staðar úr heiminum og byggja upp tjaldbúð með þemanu ,,teiknaðu þinn draum".

Við óskum íslenska fararhópnum góðrar ferðar og við vitum að þau munu njóta sín í þessari ævintýraferð og eignast einstaka lífsreynslu.

Til að fylgjast nánar með hópnum getið þið fylgt aðgangnum á instagram og facebook.


Skátamiðstöðin verður lokuð dagana 17.-28. júlí

 

Skátamiðstöðin verður lokuð dagana 17.-28. júlí.
Ef erindið er brýnt er hægt að senda tölvupóst á skatarnir@skatarnir.is, við óskum ykkur góðs sumars!


Boðið upp á skátastarf í Guluhlíð

 

Í þessari viku er skátavika hjá Guluhlíð sem er frístundaheimili fyrir börn með sérþarfir. Frístundaheimilið er fyrir börn úr Klettaskóla í 1.-4. bekk og yfir sumarmánuðina er boðið upp heilsdags þjónustu fyrir börnin. Yfir vetrartímann sinnir Gulahlíð frístundastarfi barnahópsins eftir að hefðbundnum skóladegi líkur. Skátavikan er fyrsti liðurinn í nýju samstarfi milli Skátanna og Guluhlíðar um skátastarf í frístundaheimilinu. Markmið samstarfsins er að börn með ólíkar stuðningsþarfir fái tækifæri til að upplifa skátastarf á eigin forsendum, verja tíma í náttúrunni og takast á við ævintýraleg skátaverkefni við þeirra hæfi. Þórhildur ný verkefnastýra inngildingar hjá Skátunum hefur umsjón með samstarfinu, ásamt Margréti forstöðukonu Guluhlíðar.

 

Harpa Ósk Valgeirsdóttir skátahöfðingi, Haraldur Sigurðsson framkvæmdarstjóri Kringlumýri frístundamiðstöðvar og Margrét Halldórsdóttir forstöðukona Guluhlíðar skrifuðu undir samtarfsyfirlýsingu þann 15. Júní í Guluhlíð. Hér eru þau ásamt Elvu Dögg Guðbjörnsdóttur, aðstoðarforstöðukonu Guluhlíðar, Þórhildi Elínardóttur Magnúsdóttur, verkefnastýru inngildingar hjá Skátunum og Helgu Þóreyju Júlíudóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra Skátanna og núverandi starfsmanns Guluhlíðar.

 

Fyrsta daginn í skátavikunni var skátafundur þar sem útilega var á dagskrá. Öll settu upp skátaklúta, tjölduðu samann og prufuðu að verja tíma inn í tjöldunum. Svo var boðið upp á kakó og kleinur fyrir nýju skátana í lok fundarins.

Á næstu dögum verður skynjunar- og náttúrubingó í anda skátastarfs þar sem markmiðið er að skátarnir í Guluhlíð kanni og upplifi náttúruna í kringum frístundaheimilið, ásamt útieldun í lok vikunnar þar sem börnin fá að poppa, baka skátabrauð og grilla pylsur yfir opnum eldi með aðstoð starfsfólksins.

Þetta nýja samstarf Skátanna og Guluhlíðar er fyrsta skrefið í verkefninu Skátastarf fyrir alla sem snýr að því að auka aðgengi að skátastarfi fyrir börn í viðkvæmri stöðu, með áherslu á börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir. Verkefnið fékk styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu sem verkefni í þágu farsældar barna. Hluti af verkefninu er að stuðla að innleiðingu skátastarfs í frístundaheimilum svo fleiri börn hafi tækifæri til að upplifa skátastarf í sínu umhverfi.


Þórhildur ný verkefnastýra inngildingar

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir hefur verið ráðin verkefnastýra inngildingar hjá Bandalagi íslenskra skáta. Þórhildur hefur starfað með Skátafélaginu Kópum frá 8 ára aldri og er núverandi dagskrárforingi félagsins. Hún er með B.A. gráðu frá Háskólanum á Bifröst í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði, diplómu í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands, og lauk nýverið meistaragráðu í kynjafræði frá Linköping Háskóla. Áður starfaði Þórhildur í félagsmiðstöðvum í Reykjavík, síðast sem aðstoðarforstöðukona félagsmiðstöðvar í Grafarvogi.

Sem verkefnastýra inngildingar hefur Þórhildur umsjón með verkefninu „Skátastarf fyrir alla“ sem snýr að því að auka aðgengi að skátastarfi fyrir börn í viðkvæmri stöðu, með áherslu á börn af erlendum uppruna og börn með fatlanir. Verkefnið fékk styrk frá mennta- og barnamálaráðuneytinu sem verkefni í þágu farsældar barna.

Hluti af verkefninu er að stuðla að innleiðingu skátastarfs í frístundaheimilum svo fleiri börn hafi tækifæri til að upplifa skátastarf í sínu umhverfi. Fræðsluefni um skátastarf verður útbúið fyrir starfsfólk frístundaheimilanna svo þau séu í stakk búin til að framkvæma ævintýralegt skátastarf á sínum starfsstað.

Til að auka aðgengi barna og fullorðinna af erlendum uppruna að skátastarfi verður fræðslu og dagskrárefni skátanna þýtt yfir á önnur tungumál, ásamt því að leitast verður eftir því að fullorðnir skátar af erlendum uppruna sem búa hérlendis verði virkjaðir til þátttöku í skátastarfi. Innifalið í verkefninu er einnig að þróa fræðsluefni fyrir skátaforingja og aðra sjálfboðaliða innan skátahreyfingarinnar um hvernig skal taka á móti börnum með fjölbreyttar þarfir og bakgrunn í skátastarfið.

Verkefnið er nú þegar farið af stað og mun til dæmis frístundaheimilið Gulahlíð við Klettaskóla bjóða upp á skátadagskrá í sumar þar sem börn prófa að tjalda, elda yfir opnum eldi og kynnast náttúrunni við frístundaheimilið sitt nánar.


160 drekaskátar dönsuðu diskó á Úlfljótsvatni

Diskódrekar fylktu liði á Úlfljótsvatn um helgina þegar 160 drekaskátar á aldrinum 8-10 ára reistu tjaldbúð, dönsuðu diskó og skemmtu sér að skáta sið.
Ný mótsstjórn lék listir sínar í fyrsta sinn, með stuðningi 25 starfsmanna mótsins á aldrinum 16-28 ára.

Veðrið lék við hópinn á föstudaginn og var því auðvelt að tjalda og koma sér fyrir. Um 260 skátar tóku þátt í mótinu í heild sinni auk þess voru fjölskyldur drekanna sjáanlegar á tjaldsvæðinu.  Laugardagurinn gekk vel, dagskrá fór fram víðsvegar um Úlfljótsvatn, á vatnasvæðinu við KSÚ, í klifurturni og bogfimi auk þess sem mótið gróðursetti skjólbelti við stallaflatirnar undir handleiðslu Skógræktarfélags Íslands. Drekagleðin skein úr andlitum skátanna við heimför á sunnudag og voru öll sammála um að mótið hefði verið afskaplega vel heppnað og hlakka til að koma aftur að ári.


Nýja útgáfan af Forsetamerkisbókinni er loksins komin!

Ný uppfærð útgáfa af Vegabréfi rekkaskáta á leið að Forsetamerkinu er nú loksins komin úr prentun!
Bókin hefur verið uppfærð í samræmi við starfsgrunninn og fengið yfirhalningu til að endast betur.
Nú geta allir rekkaskátar haldið glaðir inn í sumarið og byrjað að skipleggja næstu ævintýri í Vegabréfinu.
Bókin er fáanleg í Skátabúðinni og í vefverslun.


Nýr framkvæmdastjóri væntanlegur til starfa

Ragnar Þór Þrastarson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri BÍS og mun hefja störf í byrjun maí.

Raggi er skáti úr Vestmanneyjum og hefur víðtækan grunn í  fjalla og ferðamennsku, rekstri og í uppbyggingu fræðslumála. Við bjóðum hann hjartanlega velkominn og hlökkum til að fá nýjan liðsmann í teymið í Skátamiðstöðinni.

 


Skátamiðstöðin verður lokuð yfir páskana

Skátamiðstöðin er komin í páskafrí. Lokað verður hjá okkur yfir páskana frá fimmtudeginum 6. apríl. Við opnum aftur 11. apríl. Erindi mega berast á póstfangið okkar skatarnir@skatarnir.is sem svarað verður 11. apríl.

Gleðilega páska!


Metþátttaka ungmenna á Skátaþingi

Það var mikil gleði og góður andi í hópnum sem mætti á Skátaþing um helgina. Flestir skátar bíða eftir skátaþingi með eftirvæntingu þar sem það er helsti vettvangur nýrra hugmynda og skoðanaskipta. Hópurinn sem mætti á föstudagskvöld var með endæmum hress enda höfðu margir tekið þátt í bílabingó og öðrum þrautum á leiðinni norður. Rúmlega 150 skátar tóku þátt í eða stóðu að framkvæmd Skátaþings þetta árið og fór það fram 24.-26. mars í Háskólanum á Akureyri.

Skátaþing er árleg samkomu þar sem skátahreyfingin kemur saman, heldur aðalfund sinn og rýnir í stöðu skáta á Íslandi. Þingið er einnig ákveðin uppskeruhátíð fyrir fastaráðin enda er það oft vettvangur kynninga á nýjum leiðum í skátastarfi. Það sem helst var á döfinni að þessu sinni var útgáfa endurnýjaðs starfsgrunns skáta, ný útivistarmerki sem hvetja til þátttöku í gönguferðum og fjallaferðum og að sjálfsögðu upphitun fyrir Landsmót skáta 2024.

Þingið um helgina var afskaplega vel sótt og þá hefur þátttaka ungs fólks aldrei verið meiri en 47 róverskátar, 29 rekkaskátar og 8 dróttskátar sóttu Skátaþing þetta árið og þannig voru 84 fulltrúa á þinginu á þátttakanda aldri í skátastarfi. Ekki nóg með þessa stórgóðu þátttöku ungmenna í þinginu, heldur voru einnig 53% atkvæða í höndum ungmenna og er það met frá upphafi skátaþings.

 


Í upphafi þingsins fluttu gestir ávörp, forseti bæjarstjórnar Akureyrarbæjar Heimir Örn Árnason ræddi um mikilvægi samvinnu sveitarfélaga og skátafélaga í uppbyggingu æskulýðsstarfs. Rektor Háskóla Akureyrar Eyjólfur Guðmundsson flutti einnig ávarp og fjallaði um mikilvægi skátastarfs og þá sérstaklega hvað skátar væru á góðri leið með að byggja upp sjálfstæða einstaklinga með nýju markmiðaflokkunum í starfsgrunninum, Leiðtogafærni, Tilveran mín, Heimurinn og umhverfið, og Skapandi hugur og segir Rektor mikinn samhljóm með þessum markmiðaflokkum og endurnýjaðri stefnu háskólans á Akureyri. Að lokum fjallaði Anna Kristjana, skátafélaginu Klakki,  um 100 ára afmæli Valkyrjunar á Akureyri og sett var upp sýning um sögu félagsins á göngum háskólans.

Á aðalfundinum tíðkast að veita viðurkenningar og að þessu sinni var m.a. afhentur Hetjuðdáðarmerkið úr gulli sem veitt er þeim sem hefur hætt lífi sínu við að bjarga öðrum úr lífsháska. Handhafi merkisins var Þórhallur Helgason úr skátafélaginu Segli, en árið 1997 bjargaði hann skátaflokk út úr skálanum Vífilsbúð sem brann eftir að gaskútur gaf sig.
Þórhallur kom öllum út úr skálanum heilum og höldnu en slasaðist sjálfur á hendi í brennandi skálanum. Hlaut Þóhallur standandi lófaklapp allra viðstaddra við afhendinguna.

Aðrar viðurkenningar voru afhentar öflugum skátaforingjum sem hlutu þórshamarinn úr bronsi fyrir sín öflugu störf.
Jón Halldór Jónasson var tilnefndur til skátakveðjunar úr bronsi eftir störf sín í stjórn BÍS og Hrefna Hjálmarsdóttir hlaut skátakveðjuna úr gulli fyrir ævistarf sitt fyrir skátahreyfinguna á Akureyri.



Það vakti mikla ánægju meðal þinggesta að ný stofnað skátafélag var tekið inn í Bandalag íslenskra skáta, en skátafélagið Farfuglar var stofnað síðasta vor. Félagið starfar á Breiðdalsvík og Stöðvarfirði og mættu nánast öll börn bæjarfélagsins með félaginu á skátamót síðastliðið sumar. Stofnun félagsins blæs okkur öllum byr undir báða vængi og munu stjórn BÍS og erindrekar setja áherslu á landsbyggðina næstu árin.

Í lok aðalfundar tóku við umræðuhópar og smiðjur. Þátttakendur lögðu meðal annars drög að sóknaráætlun skáta fyrir vor og haustmánuði, rýndu í stöðu húsa á Úlfljótsvatni, kynntu sér nýja þætti í hvatakerfinu og kynntust fjölmörgum möguleikum sem standa ungu fólki til boði í alþjóðastarfi.

Það var þreyttur og glaður hópur sem kvaddist að Hömrum á sunndaginn, með innblástur í farteskinu aftur heim og brennandi sóknaranda í brjósti fyrir uppbyggingu skátastarfs.


Privacy Preference Center