Drekaskátar breyttust í ninjur í Hveragerði

Laugardaginn 2. mars síðastliðinn stóð Skátafélagið Strókur fyrir hinum árlega Drekaskátadegi þar sem um 160 skátar komu saman  til að efla skátaandann og samheldni. Drekaskátarnir hjá Stróki völdu að hafa Ninja þema og fengu því öll ninja grímur áður en haldið var í dagskrá.

Fálka- og Dróttskátar Stróks sáu um að skipuleggja og stýra dagskrá sem var ekki af verri endanum. Tvö dagskrárbil voru í boði, annarsvegar í Lystigarðinum þar sem boðið var upp á 7 leikjastöðvar með hinum ýmsu hópeflisleikjum, og hinsvegar 7 stöðva ratleik um Hveragerði þar sem skátarnir gengu eftir korti, leystu ninjaþrautir og höfðu gaman. Vinsælasti pósturinn var klárlega póstur númer 5 þar sem grillaðir voru sykurpúðar og ninjaskátasudoku leyst.

   

Í hádeginu voru borðaðar hvorki meira né minna en 380 pylsur og var gott fyrir skátana að komast aðeins inn að hlýja sér á milli dagskrárbila. Eftir að öll höfðu lokið dagskrá var komið saman fyrir utan Bungubrekku þar sem öll fengu ninjamerki fyrir þátttöku, kakó, kex og ís því auðvita borða Drekaskátar ís í -5 stiga frosti. Drekaskátadeginum var slitið með Bræðralagssöngnum og héldu skátarnir svo glaðir heim eftir vel heppnaðan dag.

Skátafélagið Strókur þakkar öllum sem tóku þátt og gerðu þennan dag mögulegan og hlakkar til að hitta öll í næsta skátaævintýri.

Fyrir hönd Skátafélagsins Stróks,
Sjöfn Ingvarsdóttir félagsforingi.


Mælitæki á áhrif æskulýðsstarfs á ungt fólk kynnt á ImpactYouth

Þann 22. febrúar sótti Védís Helgadóttir lokafund MIYO verkefnisins í Belgíu.

MIYO verkefnið (e. Measuring Impact: with, for and by youth organisations) er samstarfsverkefni WOSM, YMCA í Evrópu og Maynooth University og markmið þess er að búa til mælitæki til þess að mæla áhrif ýmissa ungmennahreyfinga, t.d. skátahreyfingarinnar, á ungt fólk.
Á fundinum var þetta mælitæki kynnt en það hefur verið í þróun síðastliðin tvö ár og nokkur bandalög hafa nú þegar tekið þátt í pilot-rannsóknum.

Það er mikilvægt fyrir skátahreyfinguna, og smærri einingar innan hennar, að geta sýnt með sannanlegum hætti hver áhrif starfs hennar er á skátana, t.d. hvaða færni skátarnir öðlast og hvað þeir læra.
Fyrst og fremst er það mikilvægt fyrir hreyfinguna sjálfa, til að vita á hvaða leið hún er, en það er líka mikilvægt að hreyfingin eigi þessi gögn til að geta sýnt almenningi hver áhrif skátastarfs eru, sem og til að kynna fyrir styrktaraðilum sínum.

 

Mælitækið er tvíþætt en miðað hefur verið við að þátttakendur í rannsókninni séu á aldrinum 14-18 ára.
Annars vegar byggist mælitækið á spurningalista og hins vegar á umræðum í rýnihópum. Þannig eiga rýnihóparnir að dýpka svörin úr spurningalistunum.
Spurningalistinn sem lagður er fyrir þátttakendur er tvíþættur; fyrri hlutinn inniheldur lýðfræðilegar spurningar þar sem er spurt um bakgrunnsupplýsingar skátanna, m.a. hve lengi þeir hafa verið starfandi.
Í seinni hlutanum eru fullyrðingar lagðar fyrir og þátttakendur beðnir um að meta á skalanum 1-10 hversu sammála þeir eru fullyrðingunum. Fullyrðingarnar koma alltaf tvær saman og tengjast þær innbyrðis.

Dæmi um fullyrðingapar:

  • Ég reyni að lifa heilsusamlegu lífi (næring, svefn, hreyfing)
  • Skátastarf hvetur mig til þess að lifa heilsusamlegu lífi

Þannig lýtur fullyrðing A meira að skátanum sjálfum en fullyrðingu B er ætlað að kanna hver bein áhrif af skátastarfinu sjálfu eru.
Þegar fullyrðingarnar fyrir spurningalistann voru samdar var stuðst við SPICES módelið sem WOSM þróaði og hefur hér heima verið kallað þroskasviðin 6 þannig að fullyrðingarnar tengjast allar einhverju þroskasviðanna.

Nokkur þátttökulönd í verkefninu, m.a. Svíar og Tékkar, sögðu á fundinum frá pilot-rannsóknum sem þau höfðu framkvæmt á meðan verið var að þróa mælitækið og það var verulega gagnlegt að heyra frá þeim hvernig mælitækið virkaði í praktík og hvaða hindrunum þau hefðu mætt og hvernig þau hefðu leyst úr þeim, og sömuleiðis var athyglisvert að heyra niðurstöðurnar þeirra sem voru um sumt svipaðar milli landanna.

Það var gaman að sjá hvað mikill metnaður hefur verið lagður í MIYO verkefnið en að því koma líka akademískir starfsmenn úr Maynooth University sem miðluðu á sérlega skýran máta fræðilegum atriðum varðandi mælitækið og sögðu m.a. frá því hvernig á að velja úrtak og hvernig best er að leiða umræður í rýnihóp.

Á fundinum var mælitækið formlega gefið út þannig að núna geta öll bandalög framkvæmt sínar eigin rannsóknir með notkun þess.
Á vefsíðunni impactofyouth.org eru góðar leiðbeiningar um hvernig maður á að snúa sér í því og það verður spennandi að sjá niðurstöður úr frekari rannsóknum.

Eins og áður sagði snýr mælitækið sem nú hefur verið þróað að því hver áhrif skátastarfs eru á einstaklingana sem taka þátt í skátastarfinu.
Hópurinn sem annast hefur MIYO verkefnið ætlar ekki að láta þar við sitja því nú vonast hópurinn til að fá styrk til að geta þróað annað  mælitæki sem rannsakar áhrif skátastarfs á samfélagið. Það verður mjög spennandi að fylgjast með því enda verulega áhugaverð rannsóknarspurning.

Það var verulega gaman og athyglisvert að sitja þennan fund og heyra um þetta mikilvæga verkefni sem mikill metnaður hefur verið lagður í, og það verður gaman að fylgjast með framhaldinu.

Texti: Védís Helgadóttir


Nýr framkvæmdastjóri Grænna skáta

Jón Ingvar Bragason hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Grænna skáta. Jón Ingvar tekur við af Kristni Ólafssyni sem óskaði eftir starfslokum þar sem hann tekur sér nýtt starf fyrir hendur á sumarmánuðum. Nýr framkvæmdastjóri mun byrja með vorinu eftir nánara samkomulagi. Grænir skátar þakka Kristni kærlega fyrir vel unnin störf í uppbyggingu félagsins undanfarin ár.
Stjórn Grænna skáta hóf ráðningarferli á nýjum framkvæmdastjóra í byrjun janúar og var starfið auglýst í aldreifingu prentmiðla, á vefsíðu, Alfreð og samskiptamiðlum sem skátahreyfingin notar. Viðtöl við umsækjendur fóru fram í febrúar.
Jón Ingvar er viðskiptafræðingur og hefur verið skáti frá unga aldri. Síðastliðin þrjú ár starfaði hann sem rekstrarstjóri Heimaleigu sem er með um 400 íbúðir í skammtímaleigu fyrir ferðamenn. Jón Ingvar hefur unnið í fjölbreyttum störfum innan skátahreyfingarinnar lengst af sem viðburðastjóri, var framkvæmdastjóri World Scout Moot 2017 sem haldið var á Íslandi.
Um Græna skáta
Grænir skátar er endurvinnslufyrirtæki í eigu Skátahreyfingarinnar á Íslandi. Helstu verkefni þess er söfnun skilagjaldsskyldra umbúða frá fólki og fyrirtækjum. Fyrirtækið rekur 150 söfnunargáma á stór-höfuðborgarsvæðinu, móttökustöð fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir auk söfnunar- og flokkunarstöðvar. Hjá fyrirtækinu starfa 40 starfsmenn í 20 stöðugildum. Fyrirtækið hefur langa sögu af því að bjóða fólki með skerta starfsgetu atvinnu. Allur ágóði af starfsemi félagsins fer til uppbyggingar skátastarfs á Íslandi. Fjölmörg skátafélög nýta jafnframt Græna skáta til fjáröflunar.


Skátapósturinn snýr aftur!

Mánaðarlega fréttabréfið okkar eða skátapósturinn snýr aftur!
Í skátapóstinum geta skátar og öll sem hafa áhuga séð yfirlit yfir helstu fréttir, viðburði, útköll og margt fleira spennandi sem er að gerast í skátastarfi á Íslandi.
Hér er hægt að lesa febrúar skátapóstinn og skrá sig á póstlistann til að fá pósta næstkomandi mánuði.


Nýtt ungmennaráð kjörið á Ungmennaþingi á Akranesi

Helgina 3.- 4. febrúar var haldið ungmennaþing fyrir skáta 25 ára og yngri í skátaheimili Skátafélags Akraness. Á þinginu var talað um hvernig ungmenni geta haft áhrif, ásamt því hvernig þing virka. Þau mál sem kosið var um á ungmennaþingi munu síðan vera borin fram á Skátaþingi. Það var mikið fjör, skemmtilegur félagsskapur og æðislegur matur. Saddir skátar eru sáttir skátar!

Upphaflega átti þingið að vera á Sauðárkróki en vegna vandræða með rútu var það fært á Akranes. Einnig frestaðist þingið um einn dag vegna veðurs. Það gekk misvel hjá fólki að komast á þingið, ferðin hjá sumum var vandræðalaus en aðrir áttu í veseni með bilaða bíla. Til þess að komast á þingið, sameinaðist fólk í bíla og notfærði sér strætó og voru þá komin klukkan 10:00 á laugardagsmorgni. Fólk kom sér og dótinu sínu fyrir og það tók ekki langan tíma fyrir masið að byrja!

Þingstörf hófust með stæl klukkan 11:00 og kosið var um fundarstjóra, fundarritara og dagskránna. Næst var framsaga, umræður og afgreiðsla áskoranna. Þær voru margar og fjölbreyttar til dæmis kom sú áskorun um aukna vetrarskátun á höfuðborgarsvæðinu ásamt áskoruninni um nýja útgáfu skátahandbókar.

Lagabreytingartillögurnar fóru fram á sama hátt og áskoranirnar. Dæmi um lagabreytingartillögu sem borinn var fram á þinginu er: Að bæta skildi við efnisyfirliti í lög BÍS.

Nokkur met voru sleginn í ár! Fleiri buðu sig fram í ungmennaráð í ár en nokkru sinni fyrr, eða tíu frábærir skátar. Í núverandi og splunkunýja ungmennaráðinu er yngsti meðlimur í sögu ungmennaþings, sem er fæddur árið 2009. Fjórir af fimm meðlimum ungmennaráðs eru staðsettir utan Höfuðborgarsvæðisins og hafa þeir aldrei verið svo margir. Einnig er það í fyrsta sinn sem ein manneskja hlýtur hlutverk bæði sem meðlimur ungmennaráðs og sem áheyrnarfulltrúi ungmenna.

Næsti dagur fór í það að skemmta sér og njóta síðustu stundanna. Gerðar voru smiðjur fyrir ungmennin: eitt um fyrrverandi ungmennaþing sem Högni Gylfason sá um, hvernig á að skipuleggja viðburð? sem Jóhann Thomasson Viderö sá um og smiðja um svefn og mikilvægi þess sem Huldar Hlynsson sá um. Einnig var farið í menningarferð upp í Akranesveita og sund áður en við kvöddum hópinn sem við höfðum eytt skemmtilegri helgi með!

Ps. pítsan var æðisleg

Texti: Ungmennaráð


Skátar halda upp á 22. febrúar - Þankadaginn

Víðsvegar um heiminn er haldið upp á 22. febrúar en hann er kallaður Þankadagur og Stofnendadagurinn (e. Founder's day).

Íslenskir skátar héldu upp á þennan dag á ýmsan hátt, sumir báru skátaklútinn eða skiptu um prófílmynd á facebook. Einnig fóru Harpa Ósk skátahöfðingi og Kolbrún Ósk Landsmótsstýra í skemmtilegt viðtal á Rás 1.
Harpa Ósk skrifaði grein um mikilvægi skátastarfs og geðheilbrigði barna og birtist hún á vísi. Skátafélagið Mosverjar hélt hátíðarkvöldvöku og skátafélagið Kópar og Gildi héldu saman kvöldvöku sem var vel sótt.


Framkvæmdastjóri & Skátahöfðingi sóttu fund í Gilwell park

Helgina 9.-11. febrúar síðastliðinn sóttu Ragnar og Harpa fund skátahöfðingja og framkvæmdastjóra Evrópu í Gilwell Park á vegum Evrópustjórnar WOSM. Yfirskrift fundarins var sjálfbærni í skátastarfi og voru vinnulotur og fundir helgarinnar tileinkaðar því mest alla helgina. Í Gilwell park er góð aðstaða fyrir samkomur af þessu tagi, mörg skemmtileg og óhefðbundin rými í boði og hópurinn gisti í hefðbundnum skátaskálum á svæðinu. Fundinn sóttu yfir 50 fulltrúar 26 Evrópulanda auk fulltrúa Evrópustjórnar WOSM.

Fundir helgarinnar voru samkeyrðir að nokkru leiti á milli skátahöfðingja og framkvæmdastjóra en einnig voru vinnustofur sértaklega tileinkaðar öðrum hvorum hópnum. Það er frábært tækifæri að fá að mæta á fund þar sem aðrir einstaklingar sem sinna sömu stöðu í öðrum bandalögum ná að hittast og kynnast, deila hugmyndum og fá speglun á vandamál þvert á menningu og landsvæði.

Meðal fyrirlestra og vinnusmiðja voru
· Innleiðing sjálfbærnihugsjónar í skátastarf
· Seigla bandalaga
· Gagnadrivin ákvarðanataka
· Geðræn heils
· Sjálfbærni í rekstri
· Skautun í þjóðfélögum í Evrópu
· Gegnsæji í stjórnun bandalaga
· Þátttaka ungmenna í stjórnun bandalaga

Umræður um stefnumótun lituðu stóran hluta föstudags og laugardags og komu þá fram að mikilvægustu þættir flestra bandalaga voru vöxtur, dagskrármál, fjárhagslegur stöðugleiki, efling sjálfboðaliða og sjálfbærni.

 

Það var góð tilfinning og heilmikil upplifun að funda og ræða við alþjóðlega kollega á stað sem hefur mikla þýðingu fyrir upphaf skátastarfs í heiminum. Ekki skemmdi fyrir að við fengum að sjá Kúdúhornið fræga og silfurúlf BP sjálfs. Samkoman skilaði okkur miklum innblæstri og nýjum hugmyndum, auk þess var gott að fá staðfestingu að íslenskt skátastarf er á góðri leið í samanburði við nágrannaþjóðir okkar. Einnig er mikilvægt að átta sig á því að sameiginlegar áskoranir skátastarfs í Evrópu, hvort sem þátttakendafjöldi landsins sé 1000 eða 100.000. Frábær og vel skipulögð helgi að baki þar sem skátahöfðingi og framkvæmdastjóri koma til baka innblásin og betur tengdari en fyrir fund.

 

 


Sex dróttskátar feta fótspor Suðurskautsfara

Sex dróttskátar frá félögunum Árbúum, Fossbúum, Garðbúum og Kópum sóttu um síðastliðinn ágúst um á fá að taka þátt í Vetraráskorun Crean, þá hófust 4 undirbúningshelgar þar sem krakkarnir fengu allan þann grunn sem þau þurftu fyrir aðalvikuna.

Þann 9. febrúar byrjaði aðalvikan með því að allir mættu á úlfljótsvatn, Íslendingarnir hittu loks Írana og kepptust við að ná að tala við alla.

Yfir vikuna var farið í æfingargöngur, fyrst upp í Fossbúð svo Írarnir gætu áttað sig á aðstæðum og veðri, seinni gangan var stór hringur gegnum skóglendi, meðfram vatni, yfir tún og fjall.

Þess á milli var ýmis konar kennsla og fræðsla, veðurfræði, hvernig á að ganga í línu í fjallafæri og sagt frá ferðum Tom Crean.

Miðvikudagsmorgunn 14. febrúar vöknuðu allir eldsnemma til að klæða sig upp og borða morgunmat. 4 flokkar biðu eftir því að byrja að ganga, kl 07:00 fór fyrsti flokkurinn, kl 07:20 fór næsti flokkur, kl 07:40 fór þriðji flokkurinn og kl 08:00 fór síðasti flokkurinn. Flokkarnir gengu með flokksforingjum og björgunarsveitarmönnum, héldu fyrst upp að Fossbúð og þaðan í Grafningsrétt upp í fjöll og að hellisheiðinni. Stefnan var tekin á skátaskálana 3 sem eru saman á heiðinni: Þrym, Kút og Bæli.

Gangan var krefjandi og þegar komið var niður að skálunum um kl 17:00, fögnuðu margir þeim risastóra áfanga sem þau höfðu náð, mánuðir af þjálfun hafði þarna skilað sér í risastóru afreki sem var að feta fótspor Tom Crean. Allir elduðu sér kvöldmat og fóru þreytt og sátt að sofa eftir viðburðaríkan dag. Daginn eftir var allur búnaður tekinn saman og hópuðu sér allir saman fyrir framan Kút til að taka hópmyndir. Eftir fallegar pósur héldu allir af stað í áttina að Hellisheiðavirkjun þar sem rútan myndi taka alla í bæinn. Þegar komið var að virkjuninni tóku allir bakpokana sína af sér, fengu sér að borða og nutu þess að setjast niður. Þegar komið var í bæinn tóku allir sundfötin sín og haldið af stað í laugardalslaug enda fátt betra eftir slíka göngu.

Lokadaginn fóru allir í menningargöngu um Reykjavík, þegar líða fór að kvöldi var komið að loka athöfninni, Harpa Ósk Skátahöfðingi kom þá í heimsókn og afhenti viðurkenningarnar fyrir þátttöku á vetraráskorun Crean, allir þátttakendur hlutu viðurkenningu, enda óstöðvandi hópur.

Fagnað var með pizzaveislu og síðan var kveðjustundin mikla og haldið var heim á leið eftir langa, krefjandi og góða viku.

 

Við þökkum írsku skátunum frá Crean Challenge fyrir þennan magnaða viðburð.


Privacy Preference Center