26 sæmd forsetamerkinu á 60 ára afmæli þess

Í dag veitti frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, 26 skátum forsetamerkið við hátíðlegar athafnir á Bessastöðum. Þetta er fjölmennasti hópurinn sem hlýtur forsetamerkið síðan árið 2016. Frú Halla Tómasdóttir er verndari skátahreyfingarinnar og veitir forsetamerkið þeim rekkaskátum (16-18 ára) sem hafa stundað metnaðarfullt rekkaskátastarf. Forsetamerkishafarnir Fríða Björg Tómasdóttir, Skátafélaginu Klakki, og Kristófer Njálsson, Skátafélaginu Mosverjum, fluttu ávarp í athöfnunum þar sem þau sögðu frá skátaferli sínum og þeim verkefnum sem þau unnu að í tengslum við forsetamerkisvegferðina.
Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingarinnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátana til persónulegs vaxtar í gegnum 24 fjölbreytt verkefni sem skátarnir þurfa að vinna að.
Í byrjun vegferðarinnar setja skátarnir sér markmið fyrir rekkaskátastarfið sitt og í lok hennar endurmeta þeir síðan vegferðina. Skátarnir þurfa að ljúka verkefnum úr fjórum verkefnaflokkum: Leiðtogafærni, Skapandi hugur, Heimurinn og umhverfið og Tilveran mín. Til þess að öðlast merkið þurfa skátarnir meðal annars að sækja 5 daga skátamót, ferðast 40 kílómetra á eigin afli, sækja helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun og 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið. Að lokum velja skátarnir sér 2 langtímaverkefni sem krefjast virkrar þátttöku þeirra yfir 3-12 mánaða tímabil. Dæmi um þetta eru að vera foringi yngri skáta, taka þátt í skipulagi stórs skátamóts, sitja í stjórn skátafélags, ráði eða vinnuhóp, að taka að sér viðhald skátaheimilis eða skátaskála og margt fleira sem forsetismerkishafar hafa látið sér detta í hug. Hér má lesa nánar um forsetamerkið.
Í ár er 60 ára afmæli forsetamerkisins og síðan merkið var fyrst veitt árið 1965 hafa 1488 skátar verið sæmdir því. Eftir athafnir dagsins var afmæli merkisins fagnað í Jötunheimum, skátaheimili Vífils en þar komu saman nokkrar kynslóðir forsetamerkishafa ásamt öðrum góðum skátum. Elín Richards, forsetamerkishafi 36, ávarpaði gesti veislunnar sem og Jóhanna Björg, forsetamerkishafi nr. 1083 fyrir hönd starfsráðs. Þá fóru Fríða og Kristófer aftur með hugvekjuna sína frá því fyrr um daginn og skátahöfðingi og forsetamerkishafi númer 1000, Harpa Ósk bauð gesti velkomna.

Hugvekja nýtta forsetamerkishafa
Kristófer: Virðulegi forseti, ágætu skátavinir og aðrir góðir gestir
Það er ekki oft sem maður fær tækifæri líkt þessu, að standa frammi fyrir forseta Íslands, - hvað þá í höfuðstöð hennar þar sem tilefnið er að fagna okkar afreki. Mér finnst því frábært að geta nýtt þessa hugvekju til þess að miðla þakklæti mínu fyrir hönd okkar sem fyrir örfáum mínútum sátum í þessu herbergi með sveittar hendur, ólm í að öðlast þessa fögru nælu og heiðurinn sem henni fylgir.
Nú sitjum við saman með misslitnar og krumpaðar bækur sem hafa öðlast líf eftir traust verk sitt sem fylgifiskar í verkefnum okkar. Það er mikilvægt að sjá hvernig hver bók endurspeglar fjölbreytnina í persónuleika og vinnubrögðum okkar. Því það er sama fjölbreytnin í huga, sálu og líkama hvers og eins okkar sem kjósa að vinna okkar hlut í að halda skátahreyfingunni lifandi sem málar þennan einstaka lit hennar.
Fríða: Ég hef oft verið spurð hvað það er eiginlega sem við gerum í skátunum. Fólk virðist halda að við séum að kveikja eld og hnýta hnúta alla fundi en öll hér inni vitum við að skátastarfið er svo miklu meira en það. Skátahreyfingin er eina æskulýðshreyfingin, svo ég best viti, sem er með eitt inntökuskilyrði: Að leggja sitt af mörkum til þess að bæta samfélagið. Þótt við kveikjum vissulega marga elda þá áttar maður sig á því að skátastarfið snýst ekki bara um eldinn sjálfann, heldur um það að kveikja eld innra með sér og öðrum. Að verða forvitin, þrautseig, opin fyrir ævintýrum og tilbúin að takast á við áskoranir. Núna, þegar ég stend hér í dag, finnst mér eins og þessi eldur logi aðeins skærar.
Nú veit ég ekki með ykkur en ég ætla að vera alveg hreinskilin og segja að ég byrjaði ekki í skátunum vegna einhverjar djúprar köllunar til að þjóna samfélaginu eða bjarga heiminum, heldur einfaldlega vegna þess að vinir mínir voru í skátunum og þetta virtist skemmtilegt. Ég held að flest okkar geti samt verið sammála um að það hafi kannski ekki alveg verið fyrsti dagurinn sem breytti lífinu, en einhvern veginn, án þess að maður tók eftir því fór þetta starf að festa rætur í hjartanu mans og varð að gríðarstórum hluta af manni. Það hafa verið ótal skipti þar sem ég hef hugsað ,,af hverju er ég að gera þetta“ hvort sem ég hafi verið í skafrenningi að reyna að tjalda eða á landsmóti blaut alveg inn að beini.
Kristófer: En það eru einmitt þessi augnablik sem kenna manni hvað samvinna og jákvætt hugarfar þýða í raun.
Fríða: Að þrautseigja þýði ekki að gefast aldrei upp, heldur að halda áfram jafnvel þegar maður þarf að taka smá hlé, draga andann djúpt og reyna aftur. Á milli þess að frjósa, hlæja og reyna að muna hvernig í ósköpunum maður gerir fánahnút, lærir maður eitthvað meira, um sjálfan sig, um aðra og um það hvað það þýðir að standa saman.
Kristófer: Talandi um samvinnu. Ég myndi segja að ferðin til Kóreu hafi sett mestan svip á ferlið mitt. Ég hafði fjarlægst skátahreyfingunni mikið þegar ég ákvað að slást í fararhópinn okkar á Alheimsmót skáta. Þar upplifði ég eitt, ef ekki besta ævintýri lífs míns. Ég hef aldrei verið hluti af jafn stórum hópi fólks - skáta alls staðar af úr heiminum - jafnvel frá löndum sem ég hafði ekki einu sinni heyrt um. Ég hef aldrei fengið jafn gullið tækifæri til að vera jafn frjáls í anda og þá. Það var endalaust hægt að fíflast í og með fólki. Skemmtilegastir voru Indverjarnir. Þeir kunnu æstustu leikina en sýndu líka yndislega gestrisni sem ég miða nú sjálfur við þegar ég býð fólki heim til mín. Einnig var samheldnin og samvinnan í verki svo einstaklega góð meðal íslenska fararhópsins. Svo góð að ást mín fyrir skátastarfinu vaknaði úr blundi sínum.
Fríða: Hér í dag eru líka mörg kunnugleg andlit úr ferðinni. Saman sköpuðum við ógleymanlegar minningar og erum nú aftur saman komin til að deila öðrum merkum áfanga í lífi okkar.
Kristófer: Skátastarfið er svo sannarlega ólgandi sjór. Í því myndast vinabönd og upplifanir sem annað hvort haldast eða enda en öldurnar draga mann alltaf aftur til minninganna. Eins og í dag hafa þær dregið okkur saman til að heiðra allar þær einstöku minningar sem við höfum myndað saman eða sér.
Fríða: Það er eitthvað alveg einstakt við það hvað skátarnir draga fram það besta í fólki. Maður hittir fullt af mismunandi einstaklingum í skátunum en ég held að ég geti fullyrt það að fólkið í skátunum er eitt það besta og skemmtilegasta sem ég hef nokkurn tímann hitt. Ég hef bæði eignast nýja vini og tengst þeim ég átti fyrir á hátt sem erfitt er að útskýra. Þetta er fólkið sem hlær með manni, stundum að manni en hjálpar manni samt alltaf á fætur sem minnir okkur á það hvers vegna þetta er allt þess virði.
Í ár fagnar forsetamerkið 60 ára afmæli. Það er svolítið sérstök tilfinning að standa hér í dag og hugsa til allra 1473 forsetamerkishafana sem hafa staðið hér á undan mér. 60 ár af skátum sem hafa tekið við þessu merkilega merki, hver og einn með sína sögu, sín ævintýri og sínar áskoranir. Þó tíminn hafi breyst, þá held ég að kjarninn sé sá sami. Við höfum öll á okkar hátt, lofað því sama: Að leggja okkar að mörkum í samfélaginu, að sýna gott fordæmi og að lifa eftir skátalögunum.
Kristófer: Eða eins og Baden Powell orðaði það “Gerum okkar besta til að skilja við heiminn örlítið betri en þegar við komum í hann.”
Fríða: Það er fallegt að hugsa til þess að við erum nú orðinn hluti af þessum hópi, þessari keðju fólks sem sér til þess að skátaandinn lifi áfram, hvort sem það er meðvitað eða ekki. Forsetamerkið er nefnilega ekki bara viðurkenning fyrir það sem við höfum gert, heldur áminning um að halda áfram að lifa eftir skátalögunum. Að halda áfram að vera forvitin, hjálpsöm og hugrökk. Kæru skátar, innilega til hamingju með þetta afrek. Munið að forsetamerkið er ekki lokaverkefni, heldur byrjun á nýjum kafla.
Skátar úr 9 félögum
Eftirfarandi rekkaskátar úr 9 skátafélögum hlutu forsetamerkið á Bessastöðum 2. nóvember 2025 og bættust í hóp 1488 forsetamerkishafa frá upphafi.
Úr Árbúum:
Daníel Þröstur Pálsson
Úr Faxa:
María Fönn Frostadóttir
Úr Fossbúum:
Vigdís Jóna Árnadóttir
Úr Hraunbúum:
Dagný Lind Pálsdóttir
Inga Dís Guðjónsdóttir
Logi Friðriksson
Úr Klakki
Anton Bjarni Bjarkason
Anton Dagur Björgvinsson
Ásbjörn Garðar Yngvason
Birkir Kári Gíslason
Birkir Kári Helgason
Fríða Björg Tómasdóttir
Hörður Andri Baldursson
Snædís Hanna Jensdóttir
Úr Kópum:
Eva Rut Tryggvadóttir
Silja Líf Eiðsdóttir
Úr Mosverjum:
Eberg Óttarr Elefsen
Kristófer Njálsson
Pétur Jón Árnason
Unnur Elísa Sigurgísladóttir
Úr Víflum:
Elí Hrönn Hákonar
Helgi Þórir Sigurðsson
Ingvar Jarl Eineborg
Úr Ægisbúum:
Aðalsteinn Ingi
Andri Rafn Ævarsson
Berglind Anna Magnúsdóttir
Einstakt Sumar-Gilwell á Úlfljótsvatni

Blað var brotið í sögu Gilwell á Íslandi síðustu helgi þegar 16 gilwellskátar fengu tækifæri til að hefja vegferð sína að þriðju og fjórðu perlu. Er það í fyrsta skipti sem framhaldsnámskeið með þessu sniði er haldið á Íslandi. Á sama tíma fór fram grunnnámskeið Gilwell, með 10 þátttakendum í tveimur flokkum, Gaukum og Hröfnum. Grunnnámskeiðið tók forskot á sæluna, og mætti degi fyrr heldur en framhaldsnámskeiðið eða miðvikudaginn 28. maí. Þá gafst þeim tími til að kynnast flokknum sínum og reisa tjaldbúð.
Dagskrá námskeiðanna var fjölbreytt. Báðir hópar fengu tækifæri til að æfa sig í útieldun, taka þátt í póstaleikjum og kvöldvökum og sitja vinnustofur um menningu og gildi og þarfamiðuð samskipti. Á grunnnámskeiðinu einbeittu þátttakendur sér að eigin skátastarfi og starfi skátafélagsins á meðan áhersla framhaldsgilwells er skátastarf á landsvísu; verkefnastjórnun og stefnumótun. Þátttakendur framhalds Gilwell fengu innihaldsríkt örnámskeið í verkefnastjórnun frá Halldóru Guðrúnu Hinriksdóttur og vinnustofu í krísustjórnun frá Hermanni Sigurðssyni. Þá ber að nefna að Gilwell skátinn Valdís Þorkelsdóttir fékk Gilwell einkenni sín afhent 58 árum eftir að hún hóf Gilwell vegferðina sína, eftir að áhuginn kviknaði aftur í kjölfar Gilwell útskriftar barnabarns Valdísar fyrir ekki löngu síðan. Síðan þá hefur Valdís orðið hluti af skátasamfélaginu á ný en viðstödd afhendinguna voru því góðir vinir úr starfinu sem og þátttakendur framhaldsnámskeiðsins ásamt leiðbeinendum þeirra.
Sérstakur gestur á námskeiðinu var Diana Slabu frá Evrópustjórn WOSM en hún kynnti fyrir þátttakendum störf Evrópustjórnarinnar, stefnur og áherslur og uppbyggingu teymisins. Andinn var sérstaklega góður á námskeiðunum og samheldni hópanna áberandi. Þar var hlegið, grátið, sungið og allt þess á milli. Aðspurð um upplifun sína af námskeiðinu lýsti Díana henni eins og að ganga inn í fjölskyldu. Þar hitti hún naglann á höfuðið en samheldnin, samvinnan og samveran var einkennandi fyrir námskeiðið. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig verkefni þátttakendanna þróast og skila sér út í skátastarfið í landinu.
16 rekkaskátar sæmdir forsetamerkinu

Skemmtileg og óhefðbundin fyrsta athöfn nýs forseta
16 ungir skátar hlutu forsetamerkið laugardaginn síðastliðinn , 29. mars, við skemmtilega og einlæga athöfn í Bessastaðastofu . Er þetta í fyrsta sinn sem Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, afhendir forsetamerkið en hún er verndari skátahreyfingarinnar á Íslandi. Því afhenti Harpa Ósk Valgeirsdóttir, skátahöfðingi, Höllu gullmerki Bandalags íslenskra skáta en í þakkarorðum Hörpu sagði hún það mikinn heiður fyrir skáta að Halla hafi fallist á það að vera verndari skátahreyfingarinnar og þannig viðhalda þeirri hefð sem afhending forsetamerkisins hefur verið í skátastarfinu. Í athöfninni fluttu tvö úr hópi forsetamerkishafa, Alma Sól Pétursdóttir og Viktor Nói Bergs stutta hugvekju þar sem þau stikluðu á stóru gegnum vegferð sína að forsetamerkinu. Hugvekjuna má finna hér að neðan.
Forsetamerkið er veitt rekkaskátum, 16-18 ára, sem hafa valið að vinna að merkinu samhliða starfi sínu. Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingunnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátanna til persónulegs vaxtar í gegnum 20 fjölbreytt verkefni.
Auk þess þurfa skátarnir að sækja 5 daga alþjóðlegt skátamót, ferðast 40 kílómetra á eigin afli, sækja helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun og 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið. Að lokum velja skátarnir sér 2 langtímaverkefni sem krefst virkrar þátttöku þeirra yfir 3-12 mánaða tímabil, dæmi um þetta er að vera foringi yngri skáta, taka þátt í skipulagi stórs skátamóts, sitja í stjórn félags, ráði eða vinnuhóp, að taka að sér viðhald skátaheimilis eða skátaskála og margt fleira sem forsetismerkishafar hafa látið sér detta í hug. Hér má lesa nánar um forsetamerkið.

Hugvekja nýrra forsetamerkishafa
Alma Sól Pétursdóttir og Viktor Nói Bergs
Alma: Frú forseti, ágætu skátar og kæru aðstandendur.
Í dag rennur upp skemmtilegur og merkilegur dagur í skátalífi okkar þar sem við erum hér til að taka við viðurkenningu fyrir að hafa stundað þróttmikið skátastarf og leyst samvisku- samlegan lista af verkefnum. Venjulega er þessi athöfn haldin í Bessastaðakirkju en í dag fáum við að standa hérna í stofu forsetans. Sumir munu reyna telja ykkur trú um að þetta sé bara neyðarráðstöfun, en ég er viss um að forestanum þyki bara svo vænt um okkur að hún vilji hafa okkur í stofunni sinni.
Verkefni forsetaembættisins eru fjölbreytt og margvísleg, en ég held að við getum öll verið sammála um að það mikilvægasta sé að vera verndari Skátahreyfingarinnar.
Litla bláa bókin sem hefur fylgt okkur í vasanum alla þessa ferð, eins og bakpoki fyrir hugmyndir og minningar, er eflaust fremur krumpuð og sjúskuð eftir fjögurra ára ferð. Nema náttúrulega hjá þeim sem skrifuðu allt í bókina daginn fyrir skil. Þær bækur eru með mjög sléttar og fínar blaðsíður. Það verður gaman að geta flett í gegnum bókina og að geta munað eftir öllum spennandi (og skrítnu) hlutunum sem maður hefur gert í nafni skátanna.
Viktor: Þetta er tíminn þar sem við fáum að prófa sjálf. Leggja í ferðalög eins okkar liðs sem við skipuleggjum kannski með öðrum jafnöldrum. Það sem er pínu frábrugðið mínu ferli frá öðrum er að ég vann stóran part af mínu úti í Danmörku. Ferðalagið sem ég lærði mest af var þegar við héldum út í skóg og ætluðum að kveikja saklausan eld sem endaði heldur betur ekki svoleiðis. Eldurinn hætti bara ekki að stækka og hann var orðin það stór að ég hringdi í Halldór, gamla skátaforingjann minn, í algjöru paniki að spurja hvað í andskotanum ég ætti að gera næst.
Alma: Ef þú hefðir sagt mér fyrir fjórum árum að ég myndi fara í fimm daga ferð sem væri plönuð aftan á kexpakka daginn eftir að við skipulögðum hana, eða hjólað 50 kílometra hefði ég líklega- dáið úr hjartaáfalli. Skipulagða litla ég hefði aldrei trúað því að ég gæti gert nokkuð án fyrirvara.
Viktor: Það er í þessum ferðalögunum sem maður skipuleggur sjálfur og sérstaklega þegar eitthvað fer úrskeiðis sem maður lærir mest, hvernig fór ferðin og hvað hefði mátt fara betur, við lærum að axla ábyrgð og standa á eigin fótum. En þessi ferð er auðvitað æfing í því að stíga út fyrir þægindaramman.
Alma: Fyrir mörg okkar er Skátahreyfingin griðastaður í hversdeginum. Vettvangur vináttu, þar sem við vinnum saman að því að efla okkur sem einstaklingar með því að gera okkar besta, samfélaginu til heilla.
Viktor: Hinsvegar væri ekkert af þessu hægt ef við værum ekki með þennan frábæra foringja hóp sem alltaf er hægt að leita til og verð ég að fá að þakka Halldóri Valberg fyrir að gefa mér fullt af ógleymanlegum minningum, og auðvitað fyrir að hjálpa mér að sauma merkin á skyrtuna mína í gærkvöldi. Það er nefnilega ótrúleg vinna sem fer í foringja starf og nú þekkjum við það flest sjálf, það er ótrúlega gefandi að fá að kenna litlu skátunum okkar það sem við höfum lært á skáta árunum okkar. Og eins og rannsóknir hafa sýnt fram á eru sjálfboðaliðar að meðaltali hamingjusamari en aðrir.
Alma: Og elsku foreldrar, takk fyrir þolinmæði ykkar gagnvart skrítnum verkefnum og unglingastælum.
Viktor: Þetta ferli hefur verið ótrúlega skemmtilegt og ef ekki skemmtilegasti tími lífs míns, en það er magnað hvað þetta getur gleymst hratt og þess vegna er svo einstakt að eiga þessa bók og getað rifjað upp allt þetta ferli.
Alma: Einhver gæti spurt: Hvernig í ósköpunum gerum við heiminn betri með því að ferðast 40 kílómetra undir eigin afli, eða ganga á jökli en með því að gera slíka hluti lærum við að vinna saman, setja okkur markmið og fylgja þeim eftir. Og auðvitað verður þetta pínulítil keppni. Og eins og allar keppnir sem skipta einhverju máli er þetta keppni við okkur sjálf. Sem við keppum samt í með aðstoð annara. Til þess að gera samfélagið okkar betra þurfum við að byrja á því að vinna í okkur sjálfum. Svo að við getum tekist á við áskoranir saman, og vinna til góðs.
Viktor: Að segja fólki að þú sért skáti getur verið erfitt. Fólk hefur mjög skýra steríótýpu teiknaða í hausnum sem eiga líklega uppruna sinn úr amerískum bíómyndum. Ofurskátinn sem bindir hnúta, tálgar spítur og hjálpar gömlum konum yfir götur. Þetta er ekki endilega staðalímynd sem að margir skátar tengja við í dag, en er jú að vissu leyti hluti af því sem að við gerum í skátastarfi, nema við gerum oft svo miklu meira. Í skátastarfi kynnist maður frábæru fólki og eignast vini til eilífðar. Vináttan er ástæðan fyrir því að við höldum áfram að mæta á fundi og bíðum spennt vikum saman eftir næsta viðburði. Ég er handviss um að flestum þætti mjög gaman í skátunum eða allavega eftir að þú fattar þennan aula húmor. Það sem ég elska við skátana er að ég fæ að vera ég sjálfur, það er enginn hér til þess að dæma einn né neinn og allir eru bara eins og þeir eru.
Í skátunum hef ég þroskast mikið en á sama tíma fengið að leika mér eins og barn. Það er svo mikilvægt að hætta aldrei að leika sér því fyrst þá nær aldurinn þér og þú verður gamall lúinn og fúll. Höldum áfram að leika okkur, höldum áfram að vera vinir. Því saman getum við gert heiminn að betri stað.
Forsetamerkishafar úr 6 félögum
Eftirfarandi rekkaskátar úr 6 skátafélögum hlutu forsetamerkið á Bessastöðum 29. mars 2025 og bættust í hóp 1462 forsetamerkishafa frá upphafi.
Úr Árbúum:
Jón Björn Richardsson Yeo
Úr Garðbúum:
Brynjar Ingi Ágústsson
Daníel Eiríksson
Tinna María Antonsdóttir
Úr Hraunbúum:
Brynhildur Þorbjörg Þórhallsdóttir
Guðni Hannesson
Gunnsteinn Hjalti Jónsson
Kjartan Ingólfsson
Sara Elísabet Jónsdóttir
Úr Vífli:
Arnar Freyr Hallgrímsson
Jóhann Thomasson Viderö
Úr Svönum:
Birta Dís Gunnarsdóttir
Viktor Nói Bergs
Úr Ægisbúum:
Alma Sól Pétursdóttir
Hildur Þórey Sigurbjörnsdóttir
Höfni Gylfason ( Rs. Snúði)

Vel lukkuð skátagleði í samstarfi við Rauða krossinn
Laugardaginn 15. febrúar síðastliðinn var haldin fjölmenn og vel lukkuð skátagleði fyrir fjölskyldur á flótta. Verkefnið hlaut styrk úr Æskulýðssjóði og er samstarfsverkefni BÍS, Rauða krossins og Skátafélagsins Landnema. Á svæðinu voru hátt í 80 þátttakendur, sjálfboðaliðar, túlkar og aðrir sem komu að deginum. Dagskráin fór öll fram í og við skátaheimili Landnema en þar var m.a. súrrað, föndrað og grillað brauð. Boðið var upp á hádegisverð en dagskrá lauk með leikjum og skátasöng.
BÍS og Rauði Krossinn þakka kærlega öllum þeim sem stóðu að deginum og þátttakendum fyrir að mæta, taka þátt og skemmta sér með okkur.

Leiðarendi
Nú er fyrsta vikan að líða undir lok hjá hópnum okkar á Roverway og þátttakendur byrjaðir að fjölmenna á mótssvæðið í Stavanger. Hóparnir hafa farið í þvílíkt fjölbreyttar ferðir og fengið að upplifa hina ýmsu hluti.
Einn fararhópurinn fór á hefðbundið danskt landsmót, þar sem var gengið 75km, farið í zipline garð og fjöldan allan af leikjum með hinum þátttakendunum. Danirnir voru æstir í að fá að deila sínum hefðum og dagskrá með hópnum og eru Íslendingarnir okkar heldur betur þreytt eftir þetta ferðalag. Hver mínúta var skipulögð í þaula, en hópurinn náði að taka lest, sem gerði gæfu muninn fyrir þau sem fengu að upplifa það í fyrsta skipti.

Annar hópur fór í Rypetoppen, sem er þrautagarður í háloftunum, þar eru zipline ferðir yfir vötn, brýr sem eru strengdar yfir gil og stöðuvötn þar sem þátttakendurnir fengu að prófa sig áfram á standbretti. Íslenski fararhópurinn gerði gott betur en dagskráin sagði til um og skipulögðu göngu til Svíþjóðar sem var í um 3 klukkustunda fjarlægð, fengu leyfi frá ábyrgðaraðila ferðarinnar og gengu þetta í sameiningu.

Einn hópurinn fór í bæjarferð, gönguferð og vatnadagskrá þar sem hver dagur var nýtt ævintýri. Ásamt því að taka þátt í dagskráliðum, eignaðist hópurinn fjölda vina, upplifði norskt skordýralíf og böðuðu sig lækjunum í kring.

Nú halda allir 11 hóparnir okkar á mótssvæðið þar sem verður í boði fjölbreytt skemmtidagskrá með þemum á borð við; sjálfbærni, vatnaveröld, og hæfni í útivist. Þátttakendur fá að velja sjálf hvað þau vilja gera og veðurspáin fyrir komandi viku ætti að þerra alla þá skáta sem eru að skila sér blautir til baka.
Tæplega 90 skátar mættir á Roverway í Noregi
Síðustu helgi lögðu tæplega 90 íslenskir skátar af stað á vit ævintýranna til Noregs á Roverway. Stór hluti hópsins aðstoðaði og tók þátt þátt í Landsmóti skáta 2024 sem lauk fyrir helgi, því aðeins nokkrum dögum áður en flogið var út.

Roverway byrjar á því að flokkar fara í leiðir (e: paths) sem þau eru búin að velja og því byrja þau á mismunandi stöðum áður en þau enda öll saman í Stavanger. Hluti hópsins fór því til Osló á meðan restin hélt áfram til Stavanger og gisti því hópurinn í tvennu lagi fyrstu nóttina.

Við komu til Stavanger var gríðarleg rigning og var íslenska fararstjórnin stoppuð þrisvar af starfsfólki mótsins til þess að segja þeim frá því hversu góður andir er yfir hópnum þrátt fyrir að öll væru gengsósa og þreytt eftir 20 tíma ferðalag. Má segja að þau séu orðin vön þessari rigningu og láta hana ekkert stoppa sig.

Frábært veður var um kvöldið í Osló, tjaldað í blíðu og fór hópur saman í kvöldmat í golfskála. Þau fengu þó að upplifa þessa sömu rigningu morguninn eftir, þegar þau pökkuðu saman búnaðinum sínum til að halda áfram á sína leið.

Hóparnir eru núna á víð og dreif um Noreg (og einn í Danmörku) að leggja af stað í 11 mismunandi ferðalög sem standa fram á föstudag. Eftir það sameinast allir þátttakendur Roverway í Stavanger fyrir meiriháttar skemmtidagskrá.
Ekki bara fengum við frábærann hóp til þess að ferðast með heldur erum við með framúrskarandi IST sem að taka þátt á mótinu sem starfsmannastuðningur. Það hefur gert gæfumuninn í þessari ferð hvað skátaandinn er sterkur, grunnt liggur á hjálpseminni, og allar töskur með góða skapinu virðast hafa skilað sér.

Hægt er að fylgjast með hópnum á Instagram reikningingi þeirra roverway.iceland og mælum við með því!
Mótssöngurinn er kominn á netið!
Mótssöngur Landsmótsskáta er nú kominn á netið, og er á leiðinni inn á YouTube, Gítargrip og fleiri vettvanga. Mótssöngurinn er saminn af þeim Degi Sverrissyni og Högna Gylfasyni og textann sömdu Inga Auðbjörg K. Straumland og Jökull Jónsson. Jökull gerði svo undirspilið og fékk Ragnheiði Silju Kristjánsdóttur til að syngja lagið inn. Lagið fjallar um það hvernig við getum tekið höndum saman til að sigrast á erfiðleikum okkar og sundrung.
Mótssöngur Landsmóts skáta 2024
Hlaða niður MP3 // Gítargrip.is
Hlaða niður MP3 // Gítargrip.is
Úr alls konar áttum
Lag: Dagur Sverrisson og Högni Gylfason
Texti: Inga Auðbjörg K. Straumland og Jökull Jónsson
Einn daginn opnuðust öll hlið
Hittumst við
Vináttan var velkomin
Í fjölbreytni okkar fundum við
Loksins frið
Sambúðin var fullkomin
Úr alls konar áttum,
Og misjöfn í háttum
Svo ólík að utan,
Að innan við við erum eins
Ég finn hvernig kallað er á mig
Hvað með þig?
Togar í mig innan frá
Vegferðin okkar hún hefst hér
Hér hjá mér
Hugrökk munum markinu ná
Úr alls konar áttum,
Og misjöfn í háttum
Svo ólík að utan,
Að innan við erum eins
Bergheimur: Við bjóðum allan okkar mátt!
Loftheimur: Við fljúgum frjáls um loftið blátt!
Eldheimur: Í okkur bálið brennur dátt!
Vatnaheimur: Vatnsflauminn fangað fær svo fátt!
Jurtaheimur: Við græðum sárin ósjálfrátt!
Syngjum hátt!
Svo ólík, samt í fullri sátt!
Upp á gátt!
Fjölbreytileikinn færir fjöll
Hlustið öll,
Komið saman, allt um kring!
Saman við sigrum þessa vá,
Innan frá
Svarið það er sameining
Úr alls konar áttum,
Og misjöfn í háttum
Svo ólík að utan,
Að innan við erum eins
Alveg eins!
Úr alls konar áttum,
Og misjöfn í háttum
Svo ólík að utan,
Að innan erum eins
Alveg eins
We’re the same
Melody: Dagur Sverrisson and Högni Gylfason
Lyrics: Inga Auðbjörg K. Straumland and Jökull Jónsson
Way back, when our discovery
Set us free
Leading us to live this way,
For ages, we lived in harmony,
happily,
Side by side, day by day
Progress, and portals
On parallel planets
Our worlds might be different
But inside, we’re the same
You hear how it’s calling you and me,
Quietly,
Urging us to find the cause
Equipped by our hope and bravery,
You and me,
Greatest force that ever was!
Progress, and portals
On parallel planets
Our worlds might be different
But inside, we’re the same
Lava World: Our strength is our strategy!
Air World: We won’t be tamed by gravity!
Fire World: Our flames are forged from energy!
Water World: And underwater we are free!
Plant World: Bring evil down with botany!
One two three!
Our gift is our diversity!
Jamboree
Only in solidarity
We’ll be free
Take my hand and join the fight
Our triumph is our destiny,
Dream with me,
Together our future is bright
Progress, and portals
On parallel planets
Our worlds might be different
But inside, we’re the same
We’re the same!
Progress, and portals
On parallel planets
Our worlds might be different
But inside, we’re the same
We’re the same
Áhugaskráning á MOOT 2025
Hefur þú áhuga á að fara á MOOT 2025 í Portúgal 25. júlí-3. ágúst? Ert þú fætt á bilinu 26. júlí 1999 - 25. júlí 2007? Þá hvetjum við þig til að forskráðu þig á mótið á Sportabler fyrir 25. janúar!
Við höfum opnað áhugaskráningu til að áætla stærð íslenska fararhópsins. Athugið að skráningin er ekki bindandi og ítarlegri upplýsingar um ferðina og verð verður sent út áður en formleg skráning opnar.

Íslensku skátarnir kveðja mótssvæðið í Suður Kóreu
Ákveðið hefur verið að rýma mótsvæðið í suður Kóreu á hádegi á morgun að kóreskum tíma. Þessar fréttir bárust fararstjórn hópsins í nótt. Þessi skyndilega breyting á mótshaldinu kemur til vegna breytinga á stefnu fellibyls sem hefur leikið Japan grátt undanfarna daga, en nú stefnir hann beint á mótssvæðið. Áætlað er að veðrið skelli á seinnipart fimmtudags og þarf þá að vera búið að fjarlægja allt lauslegt af svæðinu.

Íslenski hópurinn tekur þessum fréttum af yfirvegun en hefur tekið ákvörðun um að yfirgefa svæðið strax í kvöld til að forðast mögulega óreiðu sem gæti skapast á morgun. Það hentar hópnum einnig betur að pakka og ganga frá þegar sólin er ekki eins hátt á lofti.
Íslenska fararstjórnin með aðstoð frá Bandalagi íslenskra skáta hefur verið með frátekin herbergi á heimavist í Seoul frá því að tvísýnt var hvort hægt var að klára mótið á Jamboree svæðinu. Þau herbergi koma nú að góðum notum. Það var því auðvelt að fá rútur til þess að sækja hópinn og koma honum á áfangastað sem er sama heimavist og hópurinn gisti sína fyrstu daga á eftir komuna til Seoul.

Engan bilbug er að finna á íslensku skátunum enda gríðarlega flottur hópur þar á ferð. Fararstjórnir Íslands, Noregs og Danmerkur vinna náið saman í flutningi af svæðinu en þjóðirnar munu halda hópinn í Seoul og halda áfram hinni fjölþjóðlega upplifun og ævintýrum.
Fréttatilkynning frá Bandalagi íslenskra skáta vegna Alheimsmóts skáta í Suður Kóreu
Þessa stundina taka 140 íslenskir skátar þátt í Alheimsmóti skáta í suður Kóreu sem stendur dagana 1-12.ágúst. Á mótssvæðinu eru nú um 50.000 skátar við leik og störf. Fréttir hafa borist af bágum aðstæðum á svæðinu, en í upphafi vikunnar hófst mikil uppbygging á aðstöðunni sem seinkaði vegna rigninga og bleytu vikunni áður.

Þeir íslensku skátar sem taka þátt í vinnubúðum á mótinu mættu á svæðið þegar uppbygging var að hefjast, en vegna bleytu og byrjandi hitabylgju einkenndust fyrstu dagarnir af upplýsingaskorti og aðföng eins og vatn og matur voru lengi að berast.

Þegar ljóst var að uppbygging gekk hægt var sendur mikill mannafli á staðinn, frá Suður Kóreska hernum, Rauða Krossinum og öðrum sjálfboðaliðum. Íslenski fararhópurinn seinkaði komu sinni á mótið um sólahring á meðan nauðsynlegar úrbætur fóru fram.
Síðustu dagar hafa litast af hitabylgjunni sem gengur yfir. Breytingar hafa verið gerðar á dagskrá svo ungmennin séu ekki undir berum himni á heitasta tíma dagsins, aðgengi að vatni og kælitjöldum hefur verið stórbætt og heilbrigðisstarfsfólki fjölgað.

Íslenski hópurinn ber sig vel, sú dagskrá sem hefur verið í boði verið vel sótt og ótal tækifæri boðist til þess að kynnast skátum frá öllum heimshornum enda eru alheimsmót skáta eitt mesta ævintýri sem skátar fá tækifæri til að taka þátt í. Þátttakendur eru á aldrinum 14-18 ára og hafa undirbúið sig fyrir þátttöku í mótinu síðastliðin tvö ár.

Íslensku þátttakendurnir hafa líkt og aðrir, sótt heilbrigðisþjónustu vegna hita og skordýrabita en engin alvarleg óhöpp hafa átt sér stað. Hópur 4.000 breskra skáta hefur ákveðið að færa sig um set til að minnka álag á mótssvæðinu. Dvöl íslenska hópsins á svæðinu er metin daglega og hefur ekki verið tekin ákvörðun um að færa hópinn enn sem komið er.
Nánari upplýsingar veitir Ragnar Þór Þrastarson, framkvæmdastjóri BÍS á ragnar@skatarnir.is
Fyrir beint samband við skáta stadda í Suður Kóreu má hafa samband við
Guðjón Sveinsson fararstjóra á guðjon@skatarnir.is
Myndasmiður er Sigrún María Bjarnadóttir

















