Íslensku skátarnir kveðja mótssvæðið í Suður Kóreu

Ákveðið hefur verið að rýma mótsvæðið í suður Kóreu á hádegi á morgun að kóreskum tíma. Þessar fréttir bárust fararstjórn hópsins í nótt.  Þessi skyndilega breyting á mótshaldinu kemur til vegna breytinga á stefnu fellibyls sem hefur leikið Japan grátt undanfarna daga, en nú stefnir hann beint á mótssvæðið. Áætlað er að veðrið skelli á seinnipart fimmtudags og  þarf þá að vera búið að fjarlægja allt lauslegt af svæðinu.  

Sunset at the WSJ2023

Íslenski hópurinn tekur þessum fréttum af yfirvegun en hefur tekið ákvörðun um að yfirgefa svæðið strax í kvöld til að forðast mögulega óreiðu sem gæti skapast á morgun. Það hentar hópnum einnig betur að pakka og ganga frá þegar sólin er ekki eins hátt á lofti.  

Íslenska fararstjórnin með aðstoð frá Bandalagi íslenskra skáta hefur verið með frátekin herbergi á heimavist í Seoul frá því að tvísýnt var hvort hægt var að klára mótið á Jamboree svæðinu. Þau herbergi koma nú að góðum notum. Það var því auðvelt að fá rútur til þess að sækja hópinn og koma honum á áfangastað sem er sama heimavist og hópurinn gisti sína fyrstu daga á eftir komuna til Seoul.  

Engan bilbug er að finna á íslensku skátunum enda gríðarlega flottur hópur þar á ferð. Fararstjórnir Íslands, Noregs og Danmerkur vinna náið saman í flutningi af svæðinu en þjóðirnar munu halda hópinn í Seoul og halda áfram hinni fjölþjóðlega upplifun og ævintýrum.  

Mynd 1 ©WSBureau Inc. – Jonathan Law Yan Lun  (https://media.scout.org/preview/320953)
Mynd 2 Selma Björk Hauksdóttir.  Skátinn heitir Reynir Ólafsson og kemur úr skátafélaginu Skjöldungum