Einstakt Sumar-Gilwell á Úlfljótsvatni

Blað var brotið í sögu Gilwell á Íslandi síðustu helgi þegar 16 gilwellskátar fengu tækifæri til að hefja vegferð sína að þriðju og fjórðu perlu. Er það í fyrsta skipti sem framhaldsnámskeið með þessu sniði er haldið á Íslandi. Á sama tíma fór fram grunnnámskeið Gilwell, með 10 þátttakendum í tveimur flokkum, Gaukum og Hröfnum.  Grunnnámskeiðið tók forskot á sæluna, og mætti degi fyrr heldur en framhaldsnámskeiðið eða miðvikudaginn 28. maí. Þá gafst þeim tími til að kynnast flokknum sínum og reisa tjaldbúð.

Dagskrá námskeiðanna var fjölbreytt. Báðir hópar fengu tækifæri til að æfa sig í útieldun, taka þátt í póstaleikjum og kvöldvökum og sitja vinnustofur um menningu og gildi og þarfamiðuð samskipti. Á grunnnámskeiðinu einbeittu þátttakendur sér að eigin skátastarfi og starfi skátafélagsins á meðan áhersla framhaldsgilwells er skátastarf á landsvísu; verkefnastjórnun og stefnumótun. Þátttakendur framhalds Gilwell fengu innihaldsríkt örnámskeið í verkefnastjórnun frá Halldóru Guðrúnu Hinriksdóttur og vinnustofu í krísustjórnun frá Hermanni Sigurðssyni. Þá ber að nefna að Gilwell skátinn Valdís Þorkelsdóttir fékk Gilwell einkenni sín afhent 58 árum eftir að hún hóf Gilwell vegferðina sína, eftir að áhuginn kviknaði aftur í kjölfar Gilwell útskriftar barnabarns Valdísar fyrir ekki löngu síðan. Síðan þá hefur Valdís orðið hluti af skátasamfélaginu á ný en viðstödd afhendinguna voru því góðir vinir úr starfinu sem og þátttakendur framhaldsnámskeiðsins ásamt leiðbeinendum þeirra.

Sérstakur gestur á námskeiðinu var Diana Slabu frá Evrópustjórn WOSM en hún kynnti fyrir þátttakendum störf Evrópustjórnarinnar, stefnur og áherslur og uppbyggingu teymisins. Andinn var sérstaklega góður á námskeiðunum og samheldni hópanna áberandi. Þar var hlegið, grátið, sungið og allt þess á milli. Aðspurð um upplifun sína af námskeiðinu lýsti Díana henni eins og að ganga inn í fjölskyldu. Þar hitti hún naglann á höfuðið en samheldnin, samvinnan og samveran var einkennandi fyrir námskeiðið. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig verkefni þátttakendanna þróast og skila sér út í skátastarfið í landinu.