Fréttatilkynning frá Bandalagi íslenskra skáta vegna Alheimsmóts skáta í Suður Kóreu

Þessa stundina taka 140 íslenskir skátar þátt í Alheimsmóti skáta í suður Kóreu sem stendur dagana 1-12.ágúst. Á mótssvæðinu eru nú um 50.000 skátar við leik og störf. Fréttir hafa borist af bágum aðstæðum á svæðinu, en í upphafi vikunnar hófst mikil uppbygging á aðstöðunni sem seinkaði vegna rigninga og bleytu vikunni áður.

 

Þeir íslensku skátar sem taka þátt í vinnubúðum á mótinu mættu á svæðið þegar uppbygging var að hefjast, en vegna bleytu og byrjandi hitabylgju einkenndust fyrstu dagarnir af upplýsingaskorti og aðföng eins og vatn og matur voru lengi að berast. 

Þegar ljóst var að uppbygging gekk hægt var sendur mikill mannafli á staðinn, frá Suður Kóreska hernum, Rauða Krossinum og öðrum sjálfboðaliðum. Íslenski fararhópurinn seinkaði komu sinni á mótið um sólahring á meðan nauðsynlegar úrbætur fóru fram.

Síðustu dagar hafa litast af hitabylgjunni sem gengur yfir. Breytingar hafa verið gerðar á dagskrá svo ungmennin séu ekki undir berum himni á heitasta tíma dagsins, aðgengi að vatni og kælitjöldum hefur verið stórbætt og heilbrigðisstarfsfólki fjölgað.

Íslenski hópurinn ber sig vel, sú dagskrá sem hefur verið í boði verið vel sótt og ótal tækifæri boðist til þess að kynnast skátum frá öllum heimshornum enda eru alheimsmót skáta eitt mesta ævintýri sem skátar fá tækifæri til að taka þátt í. Þátttakendur eru á aldrinum 14-18 ára og hafa undirbúið sig fyrir þátttöku í mótinu síðastliðin tvö ár.

Íslensku þátttakendurnir hafa líkt og aðrir, sótt heilbrigðisþjónustu vegna hita og skordýrabita en engin alvarleg óhöpp hafa átt sér stað. Hópur 4.000 breskra skáta hefur ákveðið að færa sig um set til að minnka álag á mótssvæðinu. Dvöl íslenska hópsins á svæðinu er metin daglega og hefur ekki verið tekin ákvörðun um að færa hópinn enn sem komið er.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Þór Þrastarson, framkvæmdastjóri BÍS á ragnar@skatarnir.is

Fyrir beint samband við skáta stadda í Suður Kóreu má hafa samband við

Guðjón Sveinsson fararstjóra á guðjon@skatarnir.is

Myndasmiður er Sigrún María Bjarnadóttir