Könnuðamerkin eru mætt!

Könnuðamerkin eru nýjung í skátastarfi sem byggja á forsetamerkinu. Merkin eru hvatakerfi fyrir skáta og veitir þeim endamarkmið til að vinna að á síðasta ári hvers aldursbils.

Dreka-, fálka-, og dróttskátar sem eru að ljúka sínu aldursbili fá tækifæri á því að gerast könnuðir. Sem könnuðir þurfa þau að vinna að sérstökum verkefnum yfir starfsárið og halda utan um þau í könnuðamerkjabókinni sinni.

Verkefnin eru allt frá því að vinna að færnimerkjum, fara í útilegur og skipuleggja gönguferð yfir í að vinna að verkefnum sem þau velja sjálf og vinna að með flokknum eða sveitinni sinni. Skátarnir vinna sjálf að þessum verkefnum en njóta stuðnings sveitarforingja sinna.

Könnuðamerkjabækurnar er hægt að kaupa í Skátabúðinni eða prenta út sjálf í skátaheimilinu.

Könnuðamerkin sjálf fást svo í Skátabúðinni.


Læst inni í Garðbúaheimilinu

Síðastliðinn þriðjudag spreyttu róverskátar sig á nýju flóttarými (escape room) í Garðbúaheimilinu. Flóttarýmið var sett upp sem dagskrá fyrir róverskáta og eldri skáta og fékk styrk frá Evrópusambandinu. Þetta flóttarými, Föst á fjöllum, var með skátaþema þar sem skátaflokkur í fortíðinni fór í útilegu í fjallaskála og dularfullir atburðir áttu sér stað. Skátarnir sem prófuðu flóttarýmið leystu svo þrautir og gátur til að komast að því hvað hefði gerst og opna lásinn á herberginu til að komast sjálf út.

Viðburðurinn var vel heppnaður og er nú hægt að fá allan búnað í flóttarýmið lánaðan til að setja upp í sínu skátafélagi. Þeir sem hafa áhuga á að setja upp flóttarýmið fyrir dróttskáta, rekkaskáta, róverskáta eða eldri hafið samband við skatarnir@skatarnir.is


Crean þátttakendur gengu frá sólarupprás til sólseturs

Á laugardaginn síðasta skunduðu af stað hressir skátar í fjallgöngu. Þetta var þriðja undirbúningsferðin í Crean Vetraráskoruninni ´23-´24. Í fyrri undirbúningsferðum hafa þau gengið að Hafravatni og einnig gengið um Hvaleyrarvatn.
Að þessu sinni var gengið frá Kjósinni upp á Trönu og þaðan yfir á Móskarðshnúka. Síðan lauk göngunni niðri við skátaskálann Þrist.

Þátttakendurnir byrjuðu gönguna á því að skoða bestu gönguleiðina á kortum og skipuleggja sig. Svo lagði hópurinn af stað við sólarupprás. Létt var yfir hópnum og öll í góðu skapi, skátarnir styttu sér stundir við gönguna með léttum orðaleikjum og spjalli á meðan þau nutu útsýnisins. Víðtækt landslag var í göngunni eins og tún, grjótaslóðar og sandsteinar en svo var einnig smávægis snjór og klaki á toppi Móskarðshnúka og Trönu. Þegar hópurinn var kominn að Móskarðshnúkum var sólin byrjuð að lækka á lofti og gengu þau niður hlíðina við sólsetrið.

Gangan tók um það bil 7 klukkustundir og gengið var 12.5 km. með 1.137m. hækkum.

Hópurinn byrjaði að elda sér verðskuldaðan kvöldmat þegar komið var niður af Móskarðshnúkum og svo var hugguleg kvöldstund með söng, eld í arninum og spjalli. Þau fóru sæl í háttinn bæði inni í Þrist og einnig úti í tjaldi. Haldið var heim á leið fyrir hádegi á sunnudegi.

 


Skátamiðstöðin lokuð 21. nóvember

Starfsfólk skátamiðstöðvarinnar er úti í dag á árlegum starfsmannadegi og er Skátamiðstöðin því lokuð.

Jólatrésalan er opin, verið velkomin í heimsókn í Hraunbæ 123.

Tölvupóstum verður svarað á miðvikudag. Ef erindið er mjög brýnt - vinsamlegast merkið það svo og við munum gera okkar besta að svara. Við afsökum óþægindin sem kunna verða vegna þessa.


Boð um aðstoð til Grindvíkinga

Skáti er hjálpsamur og mörg skátafélaganna vilja bjóða Grindvíkingum aðstoð ef á þarf að halda og hafa þegar auglýst eða látið Rauða krossinn vita af því. Í þeim hafsjó upplýsinga sem internetið getur verið er samantektin til að einfalda þeim sem þurfa að finna upplýsingar á einum stað. Athugið að samantektin tekur breytingum eftir því sem upplýsingar um fleiri boð berast og ef einhver úrræða eru nýtt þannig þau standa ekki lengur öðrum til boða.

SKÁTAFÉLAGIÐ GARÐBÚAR

Skátaheimili Garðbúa í Hólmgarði

Afnot af húsnæði

Skátafélagið Garðbúar bjóða Grindvíkingum sem vantar enn húsaskjól afnot af húsnæði félagsins að Hólmgarði 34, 108 Reykjavík. Einnig bjóðum við fram skátaskálann okkar Lækjarbotna undir hlíðum Selfjalls ofan við Heiðmörk, ca 14 km út fyrir bæjarmörk.

Skátaheimilið

Í húsnæði Garðbúa er einn stór salur sem tekur um 50 manneskjur. Inn af salnum er annað rými sem er hálfgerð setustofa og salerni með aðgengi fyrir fatlaða og sturta. Það eru 3 herbergi (föndur-, spila- og flokkaherbergi). Skátafélagið á töluvert magn af dýnum sem er velkomið að nota. Það er góð eldhúsaðstaða, tvö salerni eru við forstofu og lítið þvottahús. Skátaheimilið er staðsett í fjölbýli og þarf að taka tillit til nágranna okkar varðandi hávaða og ónæði. Lágmarka þarf hávaða eftir kl. 22:00. Ef fólk frá Grindavík vill einhverjar frekari upplýsingar um Skátaheimilið Garðbúa má hafa samband við Aldísi Líf í síma 848-6167 og netfangið gardbuar@gardbuar.com.

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar, skátaskálinn er mjög rúmgóður og hann er á tveimur hæðum með anddyri, matsal og eldhús á neðri hæðinni. Í eldhúsinu er eldavél og bakaraofn svo er einnig gasgrill á staðnum. Á efri hæðinni er síðan svefnloft með rúmgóðum tveggja manna kojum þar sem 30 manns (fullorðnir) geta gist. Inn fyrir svefnloftið er síðan lítið “foringja”herbergi þar sem fjórir fullorðnir geta gist í kojum. Ef fólk frá Grindavík vill frekari upplýsingar um Lækjarbotna má hafa samband við Svavar í síma 896-6056 og netfangið svavar321@gmail.com.

Fyrirvari um neyslu áfengis/vímuefna og tóbaks

Í skátaheimilinu og Lækjarbotnum er neysla áfengis/vímuefna og tóbaks bönnuð.

SKÁTAFÉLAGIÐ HEIÐABÚAR

Skátaheimili Heiðabúa er staðsett á Hringbraut 101, 230 Reykjanesbæ

Nauðsynjasöfnun

Skátafélagið Heiðabúar opnaði skátafélagið sitt fyrir nauðsynjasöfnun fyrir Grindvíkinga. Hægt er að fylgjast með facebook síðu Heiðabúa fyrir nánari upplýsingar um hvar og hvenær er hægt að nálgast munina sem hafa safnast.

Frítt á skátafundi

Skátafélagið Heiðabúar bjóða Grindvíkingum frítt á skátafundi fram að jólafríi að minnsta kosti. Heiðabúar halda úti starfi fyrir börn frá 8-19 ára aldri. Fundartímanna má finna einnig finna á facebooksíðu félagsins hér.

 

SKÁTAFÉLAGIÐ HRAUNBÚAR

Skátaheimili Hraunbúa í Hafnarfirði

Frítt á skátafundi

Skátafélagið Hraunbúar í Hafnarfirði bjóða Grindvíkingum að mæta frítt á skátafundi fram að jólafríi skátastarfs í félaginu sem hefst 20. desember. Fundartíma má finna á www.hraunbuar.is/sveitirnar.

Lán á húsnæði til hýbílis

Hraunbúar opnuðu gistiheimilið sem við höfum í rekstri á sumrin fyrir Grindvíkinga. 5 herbergi eru til staðar sem verið er að nýta þessa stundina. Salurinn hefur verið innréttaður sem setustofu og matsalur fyrir þau sem dvelja á gistiheimilinu og tjaldsvæðinu.

Kostnaðarlaus dvöl fyrir húsbíla og hjólhýsi með aðgang að eldhúsi, sal og salerni.

Tjaldsvæðið á Víðistaðatúni er opið fyrir Grindvíkinga sem vilja dvelja í húsbílnum eða hjólhýsinu sínu sér að kostnaðarlausu.  Þeir sem dvelja á tjaldsvæðinu hafa aðgang að eldhúsi, salnum og salerni í skátaheimlinu okkar.

Samverustund fyrir Grindvíkinga

Hraunbúar og St. Georgs gildið ætla að opna salinn fyrir Grindvíkingar þann 17 nóvember klukkan 16-20 og allir Grindvíkingar eru velkomnir að nýta sér það, til að koma saman og spjallað, fengið sér kaffi og með því. Börnin leikið sér í ótalmörgum spilum og dóti sem er í boði eða horft á sjónvarpið. Ef áhugi er fyrir því verður félagið með fleiri slíka viðburði.

Hafa samband við Hraunbúa

Ef fólk frá Grindavík vill einhverjar frekari upplýsingar má hafa samband við brynjar@hraunbuar.is og í síma 895-0906.

SKÁTAFÉLAGIÐ LANDNEMAR

Skátaheimili Landnema í Háuhlíð 9

Frítt á skátafundi fyrir unglinga

Skátafélagið Landnemar bjóða Grindvíkingum á aldrinum 13-15 ára að mæta frítt á skátafundi fram að jólafríi skátastarfs í félaginu sem hefst 13. desember. Fundartímar eru á fimmtudögum frá 17:45-19:45 í Háuhlíð 9. Því miður er fullt og ekki mannskapur til að taka á móti fleirum á öðrum aldursbilum.

Afnot af húsnæði fyrir einstaklinga eða skipulagða starfsemi

Þeim sem vantar enn húsaskjól geta fengið afnot af húsnæði félagsins en í húsinu eru dýnur til afnota. Í húsnæðinu eru fimm lítil herbergi, salur, fjögur baðherbergi og eldhús. Í garðinum er frábært útisvæði og hefur húsið verið nýtt í fortíð sem frístundaheimili. Húsið er tilvalið til að nýta í samkomur eða aðra skipulagða starfsemi á dagtíma.

Ef fólk frá Grindavík vill einhverjar frekari upplýsingar má hafa samband með tölvupósti í landnemi@landnemi.is.

SKÁTAFÉLAGIÐ KÓPAR

Skátaheimili Kópa á Digranesvegi

Frítt á skátafundi

Skátafélagið Kópar bjóða Grindvíkingum frítt á skátafundi fram að jólafríi að minnstakosti sem hefst 19.desember með kvöldvöku það kvöld. Kópar halda úti starfi fyrir börn frá 8-19 ára aldri. Fundartímanna má finna á kopar.is

Afnot yfir daginn af húsnæði fyrir barnastarf eða aðra starfsemi

Skátafélagið Kópar tilbúið að bjóða fram húsnæðið sitt til afnota fyrir starfsemi á daginn svo sem leik- og grunnskóla eða aðra starfsemi sem er á daginn. Húsnæðið er rúmgott og bjart með mörgum herbergjum, mjög vel útbúnu eldhúsi og veislusal sem rúmar tugi manns í sitjandi borðhaldi.  Ef fólk vill frekari upplýsingar þá er hægt að hafa samband við félagsforingjann Heiðu Hrönn með að senda póst á heidahronn@kopar.is eða í síma 693-8042.

SKÁTAFÉLAGIÐ STRÓKUR

Staðsett í Breiðumörk 22, 810 Hveragerði,  Netfang: skatafelagidstrokur@gmail.com

Nauðsynjasöfnun

Skátafélagið Stókur opnaði skátafélagið sitt fyrir nauðsynjasöfnun fyrir Grindvíkinga. Hægt er að fylgjast með facebook aðgangi Stróks hér fyrir frekari upplýsingar um hvernig hægt sé að nálgast söfnunina.

 

SKÁTAFÉLAGIÐ VÍFLAR

Húsnæði skátafélagsins Vífils og Hjálparsveit skáta í Garðabæ.

Frítt á skátafundi

Vífill býður ungmennum frítt á skátafundi fram að jólafríi, félagið heldur úti starfi fyrir börn og ungmenni 7-19 ára. Hægt er að finna upplýsingar á vifill.is.

SKÁTAFÉLAGIÐ VOGABÚAR

Skátaheimili Vogabúa í Logafoldi

Skátafélagið Vogabúar hefur opnað skátaheimilið sitt fyrir Grindvíkingum og hefur fólki þegar verið komið fyrir í því.

ÚTILÍFSMIÐSTÖÐ SKÁTA Á ÚLFLJÓTSVATNI

Aðstaða skátanna á Úlfljótsvatni

Lán á aðstöðu:

Útilífsmiðstöð skáta býður Grindvíkingum og stjórnvöldum afnot af svæði Skátamiðstöðvarinnar á Úlfljótsvatni. Boðin eru 60 gistirými, sameiginleg eldhúsaðstaða, matssalur og salur ásamt þeirrar náttúru og leiksvæða sem svæðið hefur uppá að bjóða. Útilífsmiðstöðin er staðsett við Úlfljótsvatn og má skoða betur á ulfljotsvatn.is. Taka má fram að einnig er hægt að fullnýta aðstöðuna fyrir leikskóla/skóla árgang. Ef fólk frá Grindavík og/eða stjórnvöld/bæjarfélag Grindavíkur vill frekari upplýsingar má hafa samband við Ragnar í síma 869-7817 og netfangið ragnar@skatarnir.is


Íslenskir skátar fordæma stríðsrekstur á Gaza


Bandalag íslenskra skáta skorar á íslensk stjórnvöld að fordæma allan stríðsrekstur á Gaza og kalla eftir tafarlausu vopnahléi af mannúðaraðstæðum. Skátar eru skelfingu lostnir yfir þeim hörmulegu aðstæðum sem ríkja nú á Gaza og því gífurlega manntjón sem þar hefur orðið. Yfir 11.000 hafa þegar týnt lífi, þar á meðal þúsundir barna og tala látinna á eftir að hækka.

Skátarnir eru stærsta friðarhreyfing heimsins og fordæma allt ofbeldi. Við hvetjum þjóðir heims til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að binda enda á öll stríðsátök og tryggja öryggi óbreyttra borgara.

www.unwomen.is
www.unicef.is
www.amnesty.is


Hæða- og Stikumerkjavefurinn uppfærður

Hugmyndir að gönguleiðum fyrir hæða- og stikumerki komnar inn í Verkfærakistu BÍS

Við erum búin að uppfæra vefinn fyrir hæða- og stikumerkin með listum yfir gönguleiðir víðsvegar um landið. Það er mikið úrval af gönguleiðum fyrir hvert merki og eru leiðirnar flokkaðar eftir bæði hæð og lengd svo það er þægilegt að finna þá gönguleið sem hentar best fyrir hvert merki. Það er líka hægt að smella á sumar gönguleiðir til að fá nánari lýsingar á gönguleiðunum.

Vefinn er að finna undir „Verkfærakista“ – „Ferðir og Útilegur“ – „Hæða og stikumerki“. Einnig er hægt að smella hér.

Hugmyndabankinn er í stöðugri þróun svo við hvetjum öll sem fara í ferðir til að segja okkur frá þeim. Ef þú ert með hugmyndir um ferðir sem hægt er að fara til að vinna að merkjunum má senda þær á skatarnir@skatarnir.is.


Fálkaskátar könnuðu allan Grafarvog á Fálkaskátadegi 2023

Skátafélagið Vogabúar bauð fálkaskátum Íslands í heimsókn til sín í Grafarvoginn að taka þátt í ratleik um allt hverfið. Fálkaskátarnir fengu ýmsar vísbendingar um áhugaverða staði í Grafarvoginum sem þau áttu að finna til að  kynna sér staðinn nánar eða leysa einhver verkefni á staðnum. Kalt var í veðri og mikill vindur en fálkarnir létu það ekkert á sig fá og héldu ótrauð áfram að skoða hverfið allt hverfið. Flokkarnir völdu sína eigin leið og fóru hóparnir meðal annars á Geldingarnes, í Hallsteinagarð, í Gufunes og að Korpúlfsstöðum áður en allir hóparnir hittust í skátaheimili Vogabúa.

Þar fengu þau sér verðskuldað heitt kakó að launum og skoðuðu sig um skátaheimili Vogabúa. Myndasýning frá deginum var sýnd á skjávarpa í salnum og skátarnir léku sér fyrir utan á meðan þau gæddu sér á kakói, kexi og kleinum. Að deginum loknum voru nokkrir hreyfisöngvar sungnir og var slitið með stórri hópmynd.

 

 


11 öflugir leiðtogar luku Gilwell þjálfun um helgina

Sunnudaginn 5.nóvember síðastliðinn fengu 11 kraftmiklir leiðtogar í skátahreyfingunni afhent Gilwell einkennin sín.  Þessi öflugi og samheldni hópur hefur unnið hörðum höndum að þessu takmarki frá því í byrjun árs.  Markmið Gilwell þjálfunarinnar er að gera skáta að betri og meðvitaðri leiðtogum, bæði í skátastarfi og í eigin lífi. Vegferðin hófst í janúar þar sem áhersla var lögð á gildi skátahreyfingarinnar og eigin gildi þátttakenda. 

Í júní gisti hópurinn í tjöldum á Úlfljótsvatni í 5 daga þar sem þjálfun fór fram bæði úti og inni. Hópurinn sinnti verklegum þáttum sem tengdust tjaldbúð og útivist en einnig voru huglægari þættir eins og lýðræði í barna og ungmennastarfi og leiðir til að leysa ágreining og samskiptareglur í þéttum vinnuhópum.

Nú um helgina var svo lagður lokaásetningur um að bæta heiminn í gegn um skátastarf og að verða betri leiðtogi. Við fengum mjög áhugaverða gesti sem fræddu okkur um áhrif skátastarfs á þeirra líf og leiðtogahæfni og þökkum þeim fyrir innilitið. Það voru stoltir og metnaðarfullir skátaforingjar sem luku námskeiðinu og ekki síður stoltir leiðbeinendur.

Námskeiðaröðinni hefur nú verið lokið og við bíðum spennt eftir næsta hóp sem byrjar í febrúar 2024.  

Við óskum þessum flottu Gilwell skátum innilega til hamingju með þennan merka áfanga og bjóðum þau velkomin í stærstu skátasveit í heimi.
Við hlökkum til að sjá afrek þeirra og næstu skref í skátastarfi.  

Gilwell 2024

Næsta Gilwell námskeið hefst þann 2. febrúar og er skráning á það hafin.
Áhugasöm mega senda umsókn með lýsingu á þeirra skátastarfi á gilwell@skatarnir.is


15 þátttakendur á skyndihjálparnámskeiði

Skyndihjálparnámskeið var haldið fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna á 3 kvöldstundum, dagana 23., 26. og 31. október. Námskeiðið var 12 kennslustunda námskeið og var í umsjón hinnar þaulreyndu Laufeyjar Elísabetar Gissurardóttur sem hefur kennt skyndihjálp í þrjá áratugi.

Að þessu sinni voru 15 skátar sem sátu námskeiðið, þar af voru 9 sem sátu allt námskeiðið og 6 sem þurftu aðeins að mæta fyrsta kvöldið í endurnýjun á skyndihjálparskírteininu. Rauði Krossinn mælir með endurmenntun í skyndihjálp annað hvert ár.

Þátttakendur námskeiðsins að þessu sinni sinna öll sjálfboðaliðastörfum fyrir Skátanna, annað hvort sem skátaforingjar eða í stjórn skátafélags, en öll sátu námskeiðið í þeim tilgangi að vera betur búin til að bregðast við ef slys ber að garði. Öryggi er mikilvægur þáttur skátastarfs og er skyndihjálp ein leið til þess að auka öryggi allra sem taka þátt í starfinu.

Er kominn tími fyrir þig að sækja skyndihjálparnámskeið, taktu þá frá dagana 25. og 26. maí 2024 en þá höldum við aftur skyndihjálparnámskeið!


Privacy Preference Center