Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #OKTÓBER

ImpactYOUth: measuring youth development together.
Evrópudeild WOSM auglýsir eftir þátttakendum á viðburð sem haldinn verður í Brussel, Belgíu, þann 22. febrúar 2024.
Viðburðurinn miðar að því að deila með skátabandalögum Evrópudeildarinnar kerfi sem hefur verið í uppbyggingu og kallast The MIYO Impact measurement toolkit. Á viðburðinum verður kynning á kerfinu sjálfu og hvernig það virkar ásamt því að prófunarhópur verkefnisins segir frá reynslu sinni af kerfinu. Að lokum verður einnig boðið upp á umræður um framtíð verkefnisins og þátttakendur fá tækifæri á því að styrkja tengslanet sitt við skáta í Evrópu.
Um verkefnið:
Skátahreyfingin og aðrar æskulýðshreyfingar eiga stóran þátt í að móta samfélögin sem þau starfa í með því að efla persónulega færni ungmenna á ýmsum sviðum þar með talið leiðtoga-, samvinnu- og samskiptahæfni. Erfitt er að mæla raunveruleg áhrif æskulýðsstarfs á ungmenni og því þarf að útbúa verkfæri eða tól sem getur mælt áhrif starfsins.
Verkefnið MIYO hefur haft það markmið að skoða hvernig hægt sé að mæla árangur og áhrif æskulýðsstarfs á ungmenni.
Dagsetningar
22. febrúar
Staðsetning
Þingsalur Evrópusambandsins og Thon Hótel Evrópusambandsins í Brussel, Belgíu.
Dagskrá
Dagskráin skiptist í tvennt
- Fyrri helmingur dagsins á sér stað í þingsal Evrópusambandsins og er tileinkaður að kynna verkefnið og fá reynslusögur frá sex þátttakenda þjóðum í verkefninu
- Seinni hluti dagsins verður á Hótelinu þar sem vinnusmiðjur verða um verkfærið og nánari kynningar á hverju það felst.
Tungumál
Viðburðurinn verður á ensku
Hverjir ættu að sækja um
Viðburðurinn er fyrir unga leiðtoga/leiðbeinendur sem hafa áhuga á að gagnaöflun og að fræðast meira um hvernig við getum mælt árangur skátastarfs. Markmiðið er að læra af því sem fram fer á viðburðinum og geta yfirfært það á skátastarfið á Íslandi.
Kostnaður
Viðburðurinn er styrktur og því þátttakendur að kostnaðarlausu. Við fáum styrk fyrir ferðamáta, gistingu og mat á meðan viðburðinum stendur. Innifalið er matur frá kvöldmat 21.febrúar að morgunmat 23.febrúar ásamt gistingu frá 21. - 23. febrúar á Jacques Brel Youth Hostel.
Skráningarfresturinn er út 30. október.
Skráning fer fram með því að fylla út þetta form hér.
30 dróttskátar skemmtu sér í Lækjarbotnum
Helgina 13.-15. október var DróttKraftur haldinn í skátaskálanum í Lækjarbotnum.
DróttKraftur er leiðtogaþjálfun á vegum Leiðbeinendasveitarinnar og er lögð áhersla á að efla leiðtogafærni og samskiptahæfni þátttakenda. Dagskrá DróttKrafts byggist á leikjum, reynslunámi og samvinnu skátanna í flokkum. Þannig fá skátarnir tækifæri á því að kynnast öðrum dróttskátum á landinu, æfa sig í því að vera leiðtogar á meðal jafningja og taka þátt í lýðræðislegu starfi. Að þessu sinni voru þátttakendur 30 talsins og komu frá ólíkum félögum á landinu.

Þátttakendurnir fengu að velja dagskrá helgarinnar og urðu útieldun, flokkakeppni og kappræður fyrir valinu.
Dróttskátarnir létu veðrið ekki hafa áhrif á sig þegar þau elduðu dýrindis tómatsúpu og grillaðar samlokur í hádegismat.
Á kvöldin var svo að sjálfsögðu haldnar kvöldvökur en á laugardags kvöldvökunni voru allir flokkar með skemmtiatriði og skiptust þeir á að stýra kvöldvökunni.


Takk öll fyrir skemmtilega helgi.
Norðurlandaskátar glímdu við fuglaflensu á Go Global

Helgina 6.-8. október komu saman 20 skátar frá Norðurlöndunum saman á stór- Kaupmannahafnar svæðinu í þeim tilgangi að kynnast þeim tækifærum sem sem standa til boða í alþjóðaskátastarfi á heismvísu.
Dagskrá helgarinnar var því með þeim hætti að auka vitneskju þátttakenda um WAGGGS og WOSM ásamt þeim verkefnum og tækifærum sem samtökin standa fyrir og þá var sérstök áhersla lög á að mynda sterk vinatengsl milli skáta á Norðurlöndunum.
Helgin byrjaði með öflugum póstaleik víðsvegar um Kaupmannahöfn þar sem þátttakendur sem skipt var í flokka og fóru um í leit að bæði dönskum sjálfboðaliða og erlendum frá bæði WOSM og WAGGGS og var reynt á vitneskju þátttakenda um heimsbandalögin.

Þá fóru þátttakendur á kynningu hjá Signe Marie Obel, sem nýlega var kjörin í heimsstjórn WAGGGS, sem kynnti verkefnui WAGGGS og "Speak Out For Her World" verkfærakistuna um hvernig skuli tala fyrir málstað á alþjóðavísu.

í framhaldi af þessu kom Susanne Kolle fyrir hönd kvenskátaráðs danmerkur og hélt smiðju þar sem hún kynnti félagslegt nýsköpunarverkefni sem þau stýra.

Þegar kom að norræna kvöldinu, þar sem allir komu með besta snarlið frá sínum heimalöndum, komu skátar frá danska viðburðarteyminu KROPT og héldu óvæntan ævintýra-skáta næturleik sem kom öllum rækilega á óvart. Táknræn umgjörð leiksins var að skálinn, þar sem viðburðurinn fór fram, var skyndilega ógnað vegna skæðrar veiru. Þá kom ekki annað til greina en að veita starfsmönnum heilbrigðisstofnunarinnar hjálp við að stöðva útbreiðslu veirunnar og var því haldið út í skóg í leit að bóluefninu. Leikurinn var framkvæmdur þannig að upplifunin væri sem raunverulegust en þátttakendur þurftu m.a. að klæða sig upp í sóttvarnarbúning. Í gegnum leikinn fengu þátttakendur að kynnast þessari ævintýra-skátun sem er hefð hjá dönsku skátahreyfingunum en svo var líka sérstök kynning að leik loknum.

Eftir þennan stórkostlega viðburð eru þátttakendurnir nú spenntir að komast í kynni við ný alþjóðatækifæri og að vonandi þau muni öll hittast á norðurlanda ráðstefnunni í Færeyjum, Roverway eða í ævintýra-skátun í Danmörku.
Myndir í þessari frétt eru teknar af Margrethe Grønvold Friis.
Daði Már úr Árbúum og Signý Ósk frá Skjöldungum tóku þátt fyrir hönd BÍS.
8 Rekkaskátar fengu forsetamerkið

Forsetamerkið var afhent átta ungmennum laugardaginn 7. október 2023 við fallega og skemmtilega athöfn á Bessastöðum.
Forsetamerkið er hvatamerki sem rekkaskátar, 16-18 ára, geta valið sér að vinna að samhliða starfi sínu. Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingunnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátanna til persónulegs vaxtar með því að skipuleggja, framkvæma og endurmeta 20 minni verkefni sem öll þurfa að falla undir ein fjögurra flokka,:
- Heimurinn, ferðalög og alþjóðastarf
- Útivist og útilífsáskoranir
- Samfélagsþátttaka
- Lífið, tilveran og menning
Auk þeirra verkefna þurfa öll sem vinna að forsetamerkinu að sækja 5 daga alþjóðlegt skátamót, ferðast 40 kílómetra á eigin afli, sækja helgarnámskeið í leiðtogaþjálfun og sækja 12 klukkustunda skyndihjálparnámskeið. Að lokum velja skátarnir sér 2 langtímaverkefni sem krefst virkrar þátttöku þeirra yfir 3-12 mánaða tímabil, dæmi um þetta er að vera foringi yngri skáta, taka þátt í skipulagi stórs skátamóts, sitja í stjórn félags, ráði eða vinnuhóp, að taka að sér viðhald skátaheimilis eða skátaheimili og margt fleira sem forsetismerkishafar hafa látið sér detta í hug.

Forsetamerkishafarnir 8 sem luku vegferðinni þetta árið eru úr 5 skátafélögum og bætast þar með í hóp 1446 forsetismerkishafa frá upphafi. Þau voru í röð númers forsetamerkis þeirra:
nr. 1439 - Davíð Þrastarson - Skátafélagið Garðbúar
nr. 1440 - Reynir Tómas Reynisson - Skátafélagið Garðbúar
nr. 1441 - Elías Dýrfjörð - Skátafélagið Klakkur
nr. 1442 - Franz Halldór Eydal - Skátafélagið Klakkur
nr. 1443 - Bengta Kristín Methúsalemsdóttir - Skátafélagið Mosverjar
nr. 1444 - Matthiludur Ósk Guðbjörnsdóttir - Skátafélagið Mosverjar
nr. 1445 - Valur Kári Óskarsson - Skátafélagið Skjöldungar
nr. 1446 - Dagur Sverrisson - Skátafélagið Ægisbúar

Við það tilefni bauð forsetaembættið rekkaskátunum og fjölskyldum þeirra til hátíðlegrar móttöku á Bessastöðum þar sem Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti þeim forsetamerkið. Við afhendinguna var samsöngur, tónlistaratriði flutt og Guðni ávarpaði samkomuna. Að lokum fluttu tvö úr hópi forsetamerkishafa stutta ræðu sem má horfa á í spilaranum hér að neðan:
https://youtu.be/jQ04MtQsZTY
Að lokinni afhendingu var haldið til Bessastaðastofu þar sem skátahöfðingi sagði nokkur orð áður en boðið var upp á veitingar.

Að lokinni athöfn var mótttaka fyrir forsetamerkishafa og gesti þeirra á Bessastaðastofu, að neðan má sjá myndir frá deginum.
Nýr leikjavefur skátanna birtur!
Nýtt vefsvæði með leikjum hefur verið birt á heimasíðu Skátanna. En þar er nú hægt að finna safn skemmtilegra og frumlegra leikja sem líklegt þykir að skátar um allt land geti haft gaman af og hafa jafnvel ekki prófað áður.
Á vefnum er reynt að setja skemmtilega táknræna umgjörð í kringum hvern leik eða í hið minnsta gefa skátaforingan fróðleik til að kynna leikin með. Með því að nota þessi þemu er oft hægt að glæða leikina auknu lífi og gefa skátunum tækifærið á að setja sig í hlutverk áður en leikar hefjast.
Hvernig virkar nýr leikjavefur?
Vefurinn hefur hinar ýmsu síur til að auðvelda foringjum að finna leiki fyrir hvert tilefni fyrir sig. Leikir skiptast upp í hina ýmsu flokka s.s. flokkakeppnir, skátaklútaleiki, hópeflisleiki og söng- og hreyfileiki, þá er búið að flokka leiki eftir því hvaða aldursbilum þeir eru taldir henta best, hvaða umhverfi þeir henta best og svo er auðvitað hægt að leita eftir hópastærðum og tímaramma.
Á undirsíðu hvers leiks má svo finna sögu leiksins, hvað þarf fyrir leikinn, leiðbeiningar og hvernig má útfæra leikinn á annan máta til að umbreyta leiknum.

Þau sem lögðu hönd á plóg
Vefsvæðið hefur verið unnið í hlutum yfir langt tímabil og því hannað af breiðum hóp bæði fyrrum og starfandi erindreka Skátamiðstöðvarinnar þeim Kolbrúnu, Halldóri, Sigurgeiri og Sædísi. Benedikt Þorgilson hjálpaði svo við tæknilega uppsetningu bakenda og útliti hverrar leikjasíðu fyrir sig en Halldór Valberg setti upp yfirlitssíðuna þar sem hægt er að leita eftir leikjum.
Langar þig að leggja hönd á plóg?
Til að fagna nýjum leikjavef sem getur safnað saman og hýst skemmtilega leiki fyrir skáta viljum við efna til keppni og bjóðum glæsilegt vasaljós í verðlaun!
Ef þú kannt skemmtilegan leik hvetjum við þig til að senda leikinn inn í gegnum formið hér að neðan, þú getur sent miklu fleiri en einn leik og fyrir hvern leik sem er valinn frá þér inn á vefinn kemstu 1 sinni í pottinn. Í hvert sinn sem þú kemst í pottinn eykur þú lýkur þess að þú hreppir vinninginn. Við merkjum svo hvern leik þeim sem sendi hann inn og titlum viðkomandi sem höfund leiksins á leikjavef skátanna um aldur og ævi. Í tilfellum þar sem margir aðilar senda sama eða samskonar leik getur bæði gerst að eingöngu sá fyrsti sem sendi inn leikinn sé titlaður höfundur eða ef útfærslurnar eru ólíkar gæti Skátamiðstöðin sameinað hugmyndirnar á einhvern hátt og eru þá öll titluð sem höfundar.
Yfir 100 mættu á skátadag fyrir úkraínskar fjölskyldur á Úlfljótsvatni

Þann 30. september héldu Skátarnir skátadag á Úlfljótsvatni fyrir fjölskyldur frá Úkraínu. Dagurinn byrjaði á því að rútur ferjuðu hópinn frá Skátamiðstöðinni á Úlfljótsvatn um morguninn. Um leið og komið var austur hófst spennandi skátadagskrá sem starfsfólk Úlfljótsvatns hafði sett saman. Klifur, bogfimi, útieldun, leikir og fjör voru á meðal dagskrárliða. Í hádeginu voru grillaðar pulsur ofan í hópinn, og voru sum að smakka þennan íslenska ‚þjóðarrétt‘ í fyrsta sinn. Yfir 100 einstaklingar tóku þátt í deginum og ríkti mikil gleði í hópnum í skátadagskránni allri, þrátt fyrir smá vætu.
Dagurinn var styrktur af mennta- og barnamálaráðuneytinu, ásamt European Solidarity Corps, og var þátttakendum alveg að kostnaðarlausu. Það var gaman að geta boðið þessum hópi upp á skemmtilega dagsferð með fjölskyldum sínum þar sem þau fengu tækifæri til að upplifa ævintýralega skátadagskrá saman umkringd töfrum Úlfljótsvatns. Skátamiðstöðin vinnur nú að því að kynna fjölskylduskátastarf fyrir Úkraínskum fjölskyldum og við hlökkum til að bjóða þau sérstaklega velkomin í skátana á komandi misserum.



























































