Skátamiðstöðin fagnaði 20 ára afmæli

Skátamiðstöðin var með opið hús í tilefni 20 ára afmæli þar sem Skátafélagið Árbúar, Bandalag íslenskra skáta, Grænir skátar, Skátaland og Skátasamband Reykjavíkur buðu gestum upp á afmælisköku og léttar veitingar. Skátaland setti upp hoppukastala, klifurturn og svifbraut niður af þaki hússins sem vakti mikla athygli og lukku hjá gestum.

Fjölmargir gestir kíktu í heimsókn, fyrrum skátar frá Árbúum, fyrrum starfsmenn hússins, krakkar úr hverfnu og starfandi skátar frá ýmsum skátafélögum.

Í tilefni afmælisins fékk Skátamiðstöðin tiltekt og fengu veggir miðstöðvarinnar nýjan lit og ásamt því að merki BÍS var málað á vegginn í salnum.


Námskeiðaáætlun Æskulýðsvettvangsins fyrir starfsárið 2023-2024

Námskeiðaáætlun Æskulýðsvettvangsins fyrir starfsárið 2023-2024 hefur verið birt!

Eitt af markmiðum Æskulýðsvettvangsins er að stuðla að aukinni fræðslu og forvörnum í íþrótta- og æskulýðsstarfi á Íslandi í þeim tilgangi að gera umhverfi barna og ungmenna í félagsstarfi öruggara. Námskeið Æskulýðsvettvangsins eru liður í því.

Það er mikilvægt að öll sem starfa með börnum og ungmennum séu meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð og viti hvernig á að bregðast við þegar upp koma atvik eða áföll í starfinu. Því hvetjum við öll sem starfa fyrir Skátana, sjálfboðaliða og starfsfólk að skrá sig á námskeið Æskulýðsvettvangsins.
Námskeiðin eru þátttakendum að kostnaðarlausu!

Námskeið starfsársins 2023-2024 eru eftirfarandi:

21. ágúst - Verndum þau
15. nóvember - Samskipti og siðareglur
7. febrúar - Hinsegin fræðsla
20. mars - Verndum þau

Stjórn BÍS boðar til félagsforingjafundar

Stjórn BÍS boðar til félagsforingjafundar í Skátamiðstöðinni þann 13. september 2023 frá klukkan 19:30-22:00. Boðaðir eru félagsforingjar, dagskrárforingjar, sjálfboðaliðaforingjar eða staðgenglar þeirra. Þá verður að sjálfsögðu hægt að taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað en við biðjum öll sem mögulega geta að mæta í persónu.

Skráning fer fram á skraning.skatarnir.is

Dagskrá fundarins verður eftirfarandi:

  1. Kynning frá Skátabúðinni (10 mínútur)   
    Skátabúðin mun upplýsa félögin um helstu verkefni sem snúa að félögunum. Farið verður yfir hvernig staðið er að pöntun á skátabúningnum, félög fá upplýsingar um nýjan innkaupasamning sem BÍS hefur gert við Rekstrarvörur sem skátafélögum býðst einnig að nýta sér, farið verður yfir afsláttarkjör skáta og framtíðar fyrirætlanir í þjónustu til skátafélaga t.d. við búnaðarkaup.
  2. Áskoranir tengdar seinum skráningum á viðburði (10 mínútur)
    Ein stærsta áskorun í viðburðarhaldi á vegum BÍS starfsárið 2022-2023 var hversu seint skráningar þátttakenda bárust en dæmi voru um að 70-95% skráninga bárust í síðustu viku skráningarfrests. Stjórn og Skátamiðstöð vilja velta upp nokkrum spurningum með forystu félaganna um hvað geti valdið, hvað megi bæta og fá álit á hugmynd um seinagangs gjöld sem bætist ofan á þátttökugjöld.
  3. Kynning og umræðuhópar um ánægjukönnun (50 mínútur)
    Ánægjukönnun var gerð meðal skáta og forráðafólks þeirra fyrir starfsárið 2022-2023. Við viljum kynna niðurstöður hennar en síðan mun fundurinn skiptast í umræðuhópa sem munu skoða afmörkuð svið könnunarinnar, ræða og koma með tillögur um hvernig skátahreyfingin getur þróað þau áfram.Hlé – 5 mínútur    
  4. Samhæft átak í rekkaskátastarfi 2023-2024 (15 mínútur)
    Félagatal milli ára sýnir að þvert á félög er mikil þörf fyrir eflt rekkaskátastarf á landsvísu. Talsvert brottfall verður á rekkaskátaaldri en þótt fjölmennir árgangar byrji í rekkaskátum er iðulega minna en helmingur þeirra sem gengur upp í gegnum aldursbilið. Erindrekar kynna hvernig reynt verður að stýra samhæfðu átaki yfir komandi ár, hver hlutur félaganna er í því, hvaða stuðning BÍS býður og hvaða markmiðum við viljum ná á komandi ári.
  5. Kynning á smiðju um hvernig skuli fá fleiri fullorðna til starfa (10 mínútur)
    Flestum félögum vantar sjálfboðaliða en það getur verið meira en að segja það að afla þeirra. BÍS er tilbúin með smiðju að fyrirmynd þýsku skátanna til keyra með félagsráði skátafélaga þar sem félagið setur sig í stellingar til að skilgreina þörf sína, auglýsa eftir og taka á móti sjálfboðaliðum. Á fundinum kynnum við smiðjuna, hvað hún felur í sér, hvað vonast er til að félagið taki út úr henni og hvernig félög óska eftir henni til sín.
  6. Landsmót skáta 2024 (25 mínútur)
    Landsmót skáta fer fram á Úlfljótsvatni næsta sumar og því er mikilvægt að öll skátafélög fari að undirbúa sinn fararhóp. Mótsstýra landsmóts mun kynna alla helstu þætti mótsins, verð, skráningu og fleira.
  7. Alheimsmót skáta 2023 (15 mínútur)
    Farið verður stuttlega yfir ferð íslenska fararhópsins á Alheimsmót skáta en fararstjórn gefur nákvæmari skýrslu um ferðina síðar eins og hefð er fyrir.
  8. Önnur mál (10 mínútur)

Sækja fundarboð á .pdf formi


Íslensku skátarnir kveðja mótssvæðið í Suður Kóreu

Ákveðið hefur verið að rýma mótsvæðið í suður Kóreu á hádegi á morgun að kóreskum tíma. Þessar fréttir bárust fararstjórn hópsins í nótt.  Þessi skyndilega breyting á mótshaldinu kemur til vegna breytinga á stefnu fellibyls sem hefur leikið Japan grátt undanfarna daga, en nú stefnir hann beint á mótssvæðið. Áætlað er að veðrið skelli á seinnipart fimmtudags og  þarf þá að vera búið að fjarlægja allt lauslegt af svæðinu.  

Sunset at the WSJ2023

Íslenski hópurinn tekur þessum fréttum af yfirvegun en hefur tekið ákvörðun um að yfirgefa svæðið strax í kvöld til að forðast mögulega óreiðu sem gæti skapast á morgun. Það hentar hópnum einnig betur að pakka og ganga frá þegar sólin er ekki eins hátt á lofti.  

Íslenska fararstjórnin með aðstoð frá Bandalagi íslenskra skáta hefur verið með frátekin herbergi á heimavist í Seoul frá því að tvísýnt var hvort hægt var að klára mótið á Jamboree svæðinu. Þau herbergi koma nú að góðum notum. Það var því auðvelt að fá rútur til þess að sækja hópinn og koma honum á áfangastað sem er sama heimavist og hópurinn gisti sína fyrstu daga á eftir komuna til Seoul.  

Engan bilbug er að finna á íslensku skátunum enda gríðarlega flottur hópur þar á ferð. Fararstjórnir Íslands, Noregs og Danmerkur vinna náið saman í flutningi af svæðinu en þjóðirnar munu halda hópinn í Seoul og halda áfram hinni fjölþjóðlega upplifun og ævintýrum.  

Mynd 1 ©WSBureau Inc. - Jonathan Law Yan Lun  (https://media.scout.org/preview/320953)
Mynd 2 Selma Björk Hauksdóttir.  Skátinn heitir Reynir Ólafsson og kemur úr skátafélaginu Skjöldungum

Fréttatilkynning frá Bandalagi íslenskra skáta vegna Alheimsmóts skáta í Suður Kóreu

Þessa stundina taka 140 íslenskir skátar þátt í Alheimsmóti skáta í suður Kóreu sem stendur dagana 1-12.ágúst. Á mótssvæðinu eru nú um 50.000 skátar við leik og störf. Fréttir hafa borist af bágum aðstæðum á svæðinu, en í upphafi vikunnar hófst mikil uppbygging á aðstöðunni sem seinkaði vegna rigninga og bleytu vikunni áður.

 

Þeir íslensku skátar sem taka þátt í vinnubúðum á mótinu mættu á svæðið þegar uppbygging var að hefjast, en vegna bleytu og byrjandi hitabylgju einkenndust fyrstu dagarnir af upplýsingaskorti og aðföng eins og vatn og matur voru lengi að berast. 

Þegar ljóst var að uppbygging gekk hægt var sendur mikill mannafli á staðinn, frá Suður Kóreska hernum, Rauða Krossinum og öðrum sjálfboðaliðum. Íslenski fararhópurinn seinkaði komu sinni á mótið um sólahring á meðan nauðsynlegar úrbætur fóru fram.

Síðustu dagar hafa litast af hitabylgjunni sem gengur yfir. Breytingar hafa verið gerðar á dagskrá svo ungmennin séu ekki undir berum himni á heitasta tíma dagsins, aðgengi að vatni og kælitjöldum hefur verið stórbætt og heilbrigðisstarfsfólki fjölgað.

Íslenski hópurinn ber sig vel, sú dagskrá sem hefur verið í boði verið vel sótt og ótal tækifæri boðist til þess að kynnast skátum frá öllum heimshornum enda eru alheimsmót skáta eitt mesta ævintýri sem skátar fá tækifæri til að taka þátt í. Þátttakendur eru á aldrinum 14-18 ára og hafa undirbúið sig fyrir þátttöku í mótinu síðastliðin tvö ár.

Íslensku þátttakendurnir hafa líkt og aðrir, sótt heilbrigðisþjónustu vegna hita og skordýrabita en engin alvarleg óhöpp hafa átt sér stað. Hópur 4.000 breskra skáta hefur ákveðið að færa sig um set til að minnka álag á mótssvæðinu. Dvöl íslenska hópsins á svæðinu er metin daglega og hefur ekki verið tekin ákvörðun um að færa hópinn enn sem komið er.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Þór Þrastarson, framkvæmdastjóri BÍS á ragnar@skatarnir.is

Fyrir beint samband við skáta stadda í Suður Kóreu má hafa samband við

Guðjón Sveinsson fararstjóra á guðjon@skatarnir.is

Myndasmiður er Sigrún María Bjarnadóttir


Niðurstöður frá aðalfundi Æskulýðsvettvangsins

Tvær ákvarðanir voru teknar á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins þann 1. júní sem mikilvægt er að upplýsa forystu skátahreyfingarinnar um.

Fulltrúar Bandalags íslenskra skáta, KFUM/K, Landsbjargar og UMFÍ á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins 2023

Breytingar á siðarreglum

Siðareglur Æskulýðsvettvangsins tóku breytingum í júní síðastliðnum en samkvæmt 2. grein laga BÍS eru siðareglur Æskulýðsvettvangsins þær siðareglur sem gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna.

Mikilvægt er fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Siðareglur þessar snúa annars vegar að samskiptum og hins vegar að rekstri og ábyrgð. Gerist aðili brotlegur við reglurnar er heimilt að vísa honum úr starfi, tímabundið eða að fullu.

Eins og forysta skátahreyfingarinnar kann að muna eftir voru siðareglurnar uppfærðar árið 2022 en þær breytingar byggðu á tillögu sem Skátarnir lögðu fram á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins, og voru í framhaldi unnar áfram af ráðgjafahópi Æskulýðsvettvangsins og loks samþykktar í stjórn ÆV. Hægt er að sjá frétt um þær breytingar frá síðasta ári hér.

Eftir að þessar tillögur höfðu verið unnar í samvinnu allra samtakanna á Æskulýðsvettvanginum og samþykktar á öllum skipulagsstigum þess lagðist stjórn UMFÍ hins vegar gegn einni breytingunni og taldi þessar breytingar hafa verið gerðar án samþykkis samtakanna, þótt að fulltrúar UMFÍ hefðu setið aðalfundinn í húsakynnum UMFÍ, starfsmaður UMFÍ sitji í ráðgjafahópnum og framkvæmdastýra UMFÍ sitji í stjórn ÆV en eins og áður hefur verið sagt voru þessar tillögur unnar og samþykktar á öllum þessum stigum. Á aðalfundi 2023 lagði stjórn ÆV fram þá tillögu að fella síðustu setninguna út úr eftirfarandi ákvæði til að skapa sátt innan allra samtaka um siðareglurnar:

17. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart. Komi til gagnkvæms ástarsambands er það á ábyrgð þess sem gegnir valdastöðu að gera stjórnendum sínum kunnugt um það.

Fulltrúi skátanna á fundinum mældi gegn tillögunni og minnti á að auk alls samráðsins og að fulltrúar UMFÍ hefðu samþykkt tillöguna á öllum vettvöngum sem hún var borin upp þá væri þetta ákvæði heldur ekki úr lausu lofti gripið. Það byggði á tillögu sem innfluttur sérfræðingur Håvard Øvegård kynnti sem gagnlegt verkfæri til að bregðast við tælingu og kynferðislegu ofbeldi á grundvelli valdamisræmis á ráðstefnu sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að samhliða Reykjavíkurleikunum 2019 undir yfirskriftinni "Eru íþróttir leikvangur ofbeldis". Upptöku frá kynningu hans má horfa á hér en hann talar um sambærilegt ákvæði á 19. mínútu og 40. sekúndu í myndbandinu. Þá væri líka furðulegt að UMFÍ legðist gegn ákvæðinu þegar mörg aðildarfélög þeirra í Reykjavík tilheyra einnig Íþróttabandalagi Reykjavíkur sem lét ekki kyrrt við sitja að flytja Håvard Øvegård inn á ráðstefnu heldur fór að tillögum hans og inleiddi álíka ákvæði í í sérstakar siðareglur um kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem má finna hér.

Håvard Øvegård kynnir hvernig samtök geti beitt umgjörð sem forvörnum og verkfærum gegn ofbeldi á ráðstefnu á vegum ÍSÍ og UMFÍ

Aðalfundur ÆV samþykkti engu að síður að fella út ákvæðið en 2 af 3 fulltrúum skátanna kusu gegn því en 1 fulltrúi landsbjargar og 1 fulltrúi KFUM/K sátu hjá við atkvæðagreiðslu. Ákvæðið er því nú svohljóðandi:

17. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart.

Staðfesting viðbragðsáætlunar samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs

Ný viðbragðsáætlun var gefin út í nóvember 2022 en grunnurinn að henni byggir á fyrri viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins en fulltrúar ráðgjafahópsins sátu í vinnuhóp um nýja viðbragðsáætlun auk samskiptaráðgjafa, starfsfólki Íþróttabandalags Reykjavíkur og Íþróttasambandi Íslands.

Þrátt fyrir vilayfirlýsingu í verki og þrátt fyrir að lógó samtaknna væru á viðbragðsáætluninni þótti skátunum mikilvægt að aðalfundur staðfesti formlega að öll félög Æskulýðsvettvangsins störfuðu eftir viðbragðsáætlun samskiptaráðgjafa. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Siðareglur og viðbragðsáætlun áfram á sínum stað

Eftir sem áður eru siðareglur í gildandi útgáfu og viðbragðsáætlunin alltaf að finna á sérstöku vefsvæði um Æskulýðsvettvanginn.


Privacy Preference Center