Landsmót skáta með gjörbreyttu sniði

Hugmyndasamkeppni um nafn á stefnu BÍS
Stjórn BÍS óskar eftir hugmyndum að nafni á stefnu BÍS til næstu fimm ára. Færni til framtíðar er höfundarréttarvarið og getum við því ekki notað það.
Fræðasetur skáta fékk styrk úr Styrktarsjóði skáta
Styrktarsjóður skáta styrkti Fræðasetur skáta um 100.000 krónur til efniskaupa en í sumar flutti Fræðasetrið sýningu sína og starfsaðstöðu í KSÚ á Úlfljótsvatni. Flutningarnir og uppsetning sýningarinnar gekk vel. Að sögn Atla Bachmann nýttist styrkurinn vel og var nýttur m.a. til kaupa á hillum sem notaðar eru í geymslum Skátasafnsins og plexigleri fyrir sýningarborð.

Skátasafnið er ekki með reglulegan opnunartíma á veturna en tilkynnt er á Facebook síðu safnsins hvenær opið er hverju sinni. Skátar geta þó alltaf óskað eftir opnun fyrir hópa til að skoða setrið og jafnvel halda endurfundi gamla skátaflokksins.
Hægt er að sækja um styrki á síðu styrktarsjóðsins.
Rafrænt skátastarf
Við stoppum ekki skátastarf -> Við færum það á netið!
Þegar Covid-19 byrjaði að færast aftur í aukana í seinustu viku var ákveðið að hvetja öll skátafélög til að færa starfið sitt á netið. Þetta átti sérstaklega við fyrir eldri skáta sem eiga flest auðvelt með að eiga samskipti við aðra á netinu. Ákveðið var að setja áherslu á rafræna viðburði fyrir drótt-, rekka- og róverskáta og tókum við það að okkur, við verandi Ásgerður og Kolbrún. Þetta hefur verið skemmtileg áskorun fyrir okkur og höfum við lært margt í ferlinu, t.d. vissum við ekki hvað Discord-server er.. en við vitum það svona sirka núna!
Rafrænir viðburðir
Mörg skátafélög hafa verið að nota Discord-servera sem vettvang fyrir skátafundi og var því ákveðið að nýta þann vettvang og búa til svæði fyrir drótt-, rekka- og róverskáta. Við vissum lítið um þennan server og fengum því góða hjálp frá skátum sem kunnu vel á forritið (skáti er svo sannarlega hjálpsamur! Takk!).
Fyrsti viðburðurinn sem var haldinn var rafrænt spilakvöld. Við vissum í raun ekkert hversu mörgum við áttum að búast við og fór það fram úr öllum væntingum þar sem hátt í 60 skátar mættu, spjölluðu saman og spiluðu. Flestir fóru í leikinn Among us, sem svipar til Varúlfs sem margir þekkja úr skátastarfi. Skemmtilegur andi var yfir öllu og gaman hversu vel til tókst!

Nýir samfélagsmiðlar prófaðir
Við settum okkur í skó yngri kynslóðanna og þá var auðvitað ekki annað hægt en að skella í TikTok áskorun! Fyrsta áskorunin sem var sett fram er #klútaflipp og hvetjum við alla til að taka þátt! Við vekjum athygli á því að ekki þarf að eiga TikTok til að taka þátt, það má einfaldlega taka myndband og senda á Kolbrúnu 🙂
Swisskviss
Auðvitað var svo skellt í skemmtilegar spurningakeppnir, önnur sem var sérstaklega beint að fjölskyldum og hin að drótt-, rekka- og róverskátum. Mætingin var mjög góð og einstaklega skemmtilegt að “hitta” svona marga skáta og eiga góða kvöldstund saman 🙂 Það mátti sjá kakóbolla hjá mörgum, gleðin var allsráðandi og miklar pælingar í gangi! Takk allir fyrir þátttökuna!
Höldum stuðinu gangandi
Framundan eru spennandi viðburðir og má til dæmis nefna Minecraft og PowerPoint kynningar. Fyrir ykkur sem finnst það ekki hljóma spennandi, þá mælum við með að fylgjast vel með því! Þetta verða sko ekki venjulegar PowerPoint kynningar…
Við látum ykkur vita hvað er í gangi á samfélagsmiðlum skátanna og hvetjum ykkur til að fylgjast með okkur þar! Skátarnir á Facebook, Instagram og TikTok!
Hlökkum til að sjá ykkur á netinu á næstu dögum! Fylgist vel með hvað kemur næst!
Kveðja,
Ásgerður og Kolbrún
Útkall - framboð í fastaráð BÍS
Frá uppstillingarnefnd BÍS fyrir Skátaþing 2020,
Vegna forfalla köllum við eftir framboðum í tvö fastaráð BÍS, alþjóðaráð og starfsráð, eitt sæti í hvort ráð til tveggja ára. Um er að ræða spennandi verkefni í ráðunum og tækifæri til að hafa með skemmtilegu fólki, áhrif á skátastarf landsvísu á sviðum dagskrármála annars vegar og alþjóðamála hins vegar.
Hlutverk ráðanna skv. lögum BÍS:
- Hlutverk starfsráðs er að styðja við og efla starf skátafélaganna í samráði við stjórnir skátafélaga, sveitarforingja og flokksforingja.
- Hlutverk alþjóðaráðs er að stuðla að því að BÍS fylgi stefnum og nýti sér stuðningsefni frá alþjóðasamtökum skáta, WOSM og WAGGGS, ásamt því að annast samskipti við erlend skátabandalög, kynningu á erlendu skátastarfi á Íslandi og íslensku skátastarfi erlendis.
Framboðsfrestur er til hádegis næsta miðvikudag, 21. október 2020.
Framboð berist á netfang uppstillingarnefndar: uppstilling@skatar.is.
Nánari upplýsingar veitir Sigurður Viktor Úlfarsson formaður uppstillingarnefndar | n. siggiulfars@gmail.com | s. 854-0074.
Rafrænt Skátaþing 2020
Sökum þjóðfélagsaðstæðna vegna COVID-19 fer skátaþing 2020 fram með rafrænum hætti. Þingið verður haldið með notkun Microsoft Teams og fá skráðir fundargestir innskráningarhlekk sendan í tölvupósti eftir að skráningarfresti lýkur. Kosningar verða rafrænar og innskráing á kosningasvæði er með rafrænum skilríkjum.
Afhending þinggagna verður með rafrænum hætti á: https://skatarnir.is/skatathing.




