Sumardagurinn fyrsti 2020
Sumardagurinn fyrsti 2020
Í ár verður sumardagurinn fyrsti haldinn með breyttu sniði en undanfarin ár. Á flestum stöðum hafa hátíðarhöld verið felld niður en þó hvetjum við alla landsmenn til að nýta daginn með fjölskyldunni, fara út og njóta dagsins (bara muna tveggja metra regluna). Auk þess eru verkefni úr #stuðkví sem þið getið framkvæmt og Skátafélagið Mosverjar munu standa fyrir ratleik í Mosfellsbæ og Skátasamband Reykjavíkur stendur fyrir ratleik í Öskjuhlíðinni.
Leitin að sumrinu – fjölskylduratleikur fyrir alla
Í tilefni sumarkomu stendur Skátafélagið Mosverjar, í samstarfi við Mosfellsbæ, fyrir fjölskylduratleik innan hverfa bæjarins. Leikurinn byrjar kl 10:00 á sumardaginn fyrsta, 23. apríl, og lýkur kl 18:00 sunnudaginn 26. apríl.
Inn á viðburðarsíðu fjölskylduratleiksins verður birt slóð á kort með staðetningu þrautanna en leysa þarf a.mk. 5 þrautir af 10 í því hverfi sem fólk býr í. Þátttakendur birta myndir af þrautunum og hvernig þær voru leystar á Instagram undir myllumerkjunum #leitinadsumrinu og #mosverjar. Frekari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér.


Mörg stuðkví verkefni henta vel fyrir sumardaginn fyrsta og auðvitað kemur út nýtt verkefni á sjálfan daginn sem þið getið kíkt á. Sem dæmi um skemmtilegan dag gætu þið unnið þessi verkefni:
- Byrjið daginn á hláturjóga. Frábær leið til að byrja daginn með bros á vör.
- Þá er gaman að kíkja út þar sem það er komið sumar! (er þá ekki alltaf gott veður?). Hér eru nokkur skemmtileg verkefni sem þið getið unnið að úti:
- Knús og músarhús: Hér er verkefnið að fara út, knúsa tré og búa til músarhús.
- Alvöru gönguferð: Hér er farið yfir hvernig á að skipuleggja gönguferð.
- Náttúrubingó: Hver er fyrst/ur að finna alla hlutina á spjaldinu?
- Eftir góða útiveru er gott að koma inn og fá sér eitthvað gott í gogginn. Þið getið til dæmis skellt í eina örbylgjuskátabollaköku eða bakað bananabrauð!
Af nógu er að taka og þið megið endilega deila því sem þið gerið undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví
Betri tíð – fjölskylduratleikur skátanna
Harpa er orðin mjög þreytt á því að bíða eftir sumrinu, en á sumardaginn fyrsta kveður einmánuður og sumarið hefur loksins innreið sína. Getið þið hjálpað Hörpu að skapa betri tíð með blóm í haga?
Betri tíð, fjölskylduratleikur skátanna, er tilvalinn fyrir fjölskyldur til að vinna saman að á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 23. apríl 2020, leysa verkefni, stunda útivist og lífga upp á lífið. Leikurinn fer fram í Öskjuhlíð og það eina sem þið þurfið er snjallsími og appið Actionbound. Leikurinn verður gerður aðgengilegur á aðfararnótt sumardagsins fyrsta. Appið er hægt að sækja hér: https://en.actionbound.com/download/
Leikurinn er í boði Skátasambands Reykjavíkur. Þátttakendur sem klára ratleikinn geta skráð nafn sitt í pott og unnið skemmtilega vinninga. Frekari upplýsingar um viðburðinn er að finna hér.

Útivistarárskorun og happdrætti á Grundarfirði
Skátafélagið Örninn býður upp á þrjár skemmtilegar útivistaráskoranir þar sem fólk getur sett nafnið sitt í bauk og er dregið úr honum nafn sem vinnur verðlaun!
1. Gönguferð í skógræktarlundinn
Útivist sem hentar yngstu kynslóðinni. Farðu í lautarferð, feluleik og gerðu músarhús, skoðaðu gróðurinn.
Baukurinn er í lundinum.
2. Gönguferð að vitanum við Kirkjufell
Meira krefjandi ferðalag og margt að skoða, sérstaklega undir steinum í flæðarmálinu. Rannsakið það!
Gleymum ekki tækifærinu til að vaða, gera sandkastala og borða nesti við Breiðarfjörðinn. Baukurinn verður við vitann.
3. Gönguferð upp á Klakk
Mest krefjandi gangan og mikilvægt að taka með sér orkuríkt nesti og vökva.
Slóðin er vel stikuð frá bílastæðinu við Bárarfoss. Baukurinn verður við Klakkstjörn uppi á fjallinu.
Það sem þarf að gera:
Ákveða hvaða gönguferð á að fara í – Búa til miða með nöfnum allra – Gera nesti, allir taka þátt – Búa sig eftir veðri – Leggja af stað
Takið myndir og póstið undir myllumerkinu #grundosumar
Fylgist með útdrætti kl 18:00 á Facebook hópnum: Umræðu- og hugmyndabanki Grunarfjarðar.
Skátamiðstöðin óskar öllum gleðilegs sumars!
Verkefni 37 - Kort til að gróðursetja
Verkefni 37 – Kort til að gróðusetja
Verkefni dagins er að búa til kort sem viðtakandi getur gróðursett og fengið fallegt blóm í staðinn. Kortið er hægt að nota sem afmæliskort, jólakort, senda vinum eða ættingjum póstkort eða til að senda vinum góðar kveðjur. Þetta er auðveld leið til að nýta afganga af pappír sem fellur til á heimilum og minnka úrgang sem kemur úr keyptum kortum. Þetta tengist vel inn á heimsmarkmið 12 (Ábyrg framleiðsla) og heimsmarkmið 15 (Líf á landi). Þið getið lesið um heimsmarkmiðin og undirmarkið þeirra hér.
Kort sem hægt er að gróðursetja
Fyrsta skref: Finna pappír
Til að byrja verkefnið þarf að finna góðan pappír til að nota í kortagerðina. Þú þarft að finna fullt af endurvinnanlegum pappír. Góður pappír til að nota í verkið er til dæmis dagblöð, eggjabakki, bréfpoki úr búðinni eða hvít blöð. Þegar þú ert búin að finna góðan bunka af blöðum þá skalt rífa þau niður í mjög litla bita. Settu bitana í blandara þangað til þú ert búin að fylla upp að helmingi.
Annað skref: Blanda saman við vatn
Næst skalt þú hella volgu vatni yfir blöðin og fylla eins mikið og blandarinn leyfir. Svo skaltu setja blandarann í gang á lága stillingu og blanda í um 10 sekúndur. Svo skaltu auka hraðann og blanda í 30 sekúndur í viðbót. Þá ætti pappírinn að hafa blandast vel við vatnið og engar pappír flygsur að sjást.
Þriðja skref: Blanda fræ við pappírinn
Nú er komið að því að setja inn fræ. Við mælum með að nota kál, en kál er fljótt að vaxa og miklar líkur á að þau spíri og því gaman að fylgjast með því vaxa. Settu teskeið af fræjum og hrærðu. Ekki nota blandara í þetta verk heldur notaðu skeið og hrærðu fræunum rólega við. Þegar þú ert búin að blanda fræunum við, sigtaðu blönduna og reyndu að losna við eins mikið vatn og þú getur. Þú getur notað skeið eða sleif til að þrýsta á blönduna til að ná sem mestu vatni úr.
Fjórða skref: Þerra pappírskvoðann
Nú þarftu að leggja gróft handklæði, míkrófíber klúta eða annað svipað efni á flatt yfirborð. Settu pappírskvoðann (því sem þú varst að blanda saman) á efnið og notaðu skeið eða sleif til að dreifa pappírskvoðanum um efnið. Þú getur búið til hvaða form sem þú vilt, kassa, hring eða jafnvel hjarta. Eina sem þú þarft að passa er að reyna að dreifa því eins þunnt og þú getur svo það þorni fljótt og vel. Þegar formið er tilbúið getur þú notað svamp til að tryggja að yfirborðið á pappírskvoðanum sé eins flatt og mögulegt er og til að þerra vatn ef það er enn í pappírskvoðanum. Þegar pappírskvoðinn er alveg þurr á einni hliðinni, snúðu honum þá við til að leyfa hinni hliðinni að þorna alveg. Þegar báðar hliðarnar eru orðnar alveg þurrar, þá er kortið þitt tilbúið.
Nú getur þú skreytt kortið þitt eins og þú vilt. Þessi kort eru sniðug sem boðskort, afmæliskort, jólakort og gjafamiða. Mundu bara að láta viðtakanda vita að þau geta sett kortin í mold og vökvað þau og þá byrja fræin að vaxa og dafna.
Sýndu okkur þín kort undir myllumerkjunum #skátarnir og #stuðkví

