Verkefni 45 – Moltutunna

Eitt af helstu markmiðum okkar í tengslum við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er að minnka úrganginn sem kemur frá okkur. Til eru margar leiðir til að minnka úrgang; kaupa minna, endurnýta hluti, flokka úrganginn svo hægt sé að endurvinna hann. Svo er líka hægt að molta lífrænan úrgang en það er ferli þar sem lífrænn úrgangur er brotinn niður í mold og honum skilað aftur í jörðina.

Skátamiðstöðin hefur verið að nota bokashi aðferina til að molta en það er japönsk aðferð til heimajarðgerðar sem felst í því að brjóta niður lífræna úrganginn með hjálp örvera sem gerja hann í loftfirrtum aðstæðum. Aðferðin er nánast lyktarlaus og getur skilað næringarríkri og nýtanlegri moltu á einungis 6 vikum.

Það góða við bokashi aðferðina er að hún bindur gróðurhúsalofttegundir sem annars losna í klassískri moltugerð og urðun lífræns úrgangs.

Moltutunna heima

Auðvelt er að búa til moltutunnu sem þið getið notað heima eða verið með í skátaheimilinu ykkar. Mikið af upplýsingum er að finna á netinu um hvernig á að molta og því er gott að afla sér upplýsinga áður en þið byrjið að molta. Ef þið viljið prófa bokashi aðferðina þá er Facebook hópur sem heitir Jarðgerðarfélagið – Bokashi, þar sem þið getið nálgast upplýsinga, fengið ráð og spjallað um hvernig ykkur gengur.

Heimagerð moltutunna

Það sem þú þarf:

  • Tvær fötur
  • Eitt lok
  • Bor
  • Trétappa eða krana (hægt að endurnýta kork t.d.)
  • Bokashi ger (fæst t.d. hjá Jarðgerðarfélaginu)

Aðferð

  1. Boraðu göt í eina fötuna. Boraðu um 20-30 göt og gott er að götin séu um 3-5 mm.
  2. Settu fötuna með götunum ofan í hina fötuna. Þú getur notað taulímband (duct-tape) til að festa föturnar vel saman svo það komist pottþétt ekki loft á milli þeirra.
  3. Settu lokið á fötuna, passaðu að það lokist alveg. Til að úrgangurinn gerjist vel þá þarf að passa að sem minnst af lofti komist inn í föturnar.
  4. Ef þú vilt þá getur þú sett kranann eða trétappann á neðri fötuna. Þá verður auðveldara að losa vökvann sem verður til við jarðgerðina.
  5. Svo getur þú byrjað að búa til þína fyrstu Bokashi jarðgerð!
Leiðbeiningar um bokashi jarðgerð
Leiðbeiningar um bokashi jarðgerð

Gangi ykkur vel, ekki hika við að senda á okkur spurningar eða leita upplýsinga hjá öðrum!

#skátarnir #stuðkví