Verkefni 42 – Heimsmarkmiðin heima

Í dag er markmiðið að vita meira um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og sjá hvað við getum gert heima hjá okkur til að ná heimsmarkmiðunum. Heimsmarkmiðin eru 17 og hafa skátarnir bætt við 18 markmiðinu sem er Styrkja og virkja ungt fólk.

Það er mikið sem hægt er að gera og hér er listi með 5 atriðum sem þú getur byrjað á. Þegar þú ert tilbúin/n getur þú svo bætt við listann atriðum sem þér finnast mikilvæg.

Heimsmarkmiðin heima:

1. Kynntu þér heimsmarkmiðin

Auðvelt er að finna fullt af upplýsingum um heimsmarkmiðin á netinu og gott er að skoða heimasíðu Stjórnarráðssins um markmiðin en hún segir frá hverju markmiði fyrir sig. Auk þess er verkefnabæklingurinn Byggjum betri heim góð leið til að kynnast markmiðunum í gegnum leik.

2. Segðu vinum þínum og fjölskyldu frá heimsmarkmiðunum

Talaðu um markmiðin við fólkið í kringum þig. Fáðu þau til að ræða með þér um hvað þau snúast, hver uppáhalds markmiðin ykkar eru og þið getið horft saman á kennslumyndbönd um markmiðin.  Þú getur sagt frá þeim í kynningu í skólanum eða spjallað um þau yfir kaffitímanum.

3. Lærðu um hvernig þú getur hjálpað nærumhverfi þínu

Markmiðin eru mörg og oft á tíðum mjög stór og erfið. Skoðaðu hvernig nærumhverfið þitt er að vinna með heimsmarkmiðin og hvað þú getur gert til að hjálpa til við það. Til dæmis getur þú skoðað:

  • Er skólinn þinn að vinna með heimsmarkmiðin? Hvernig?
  • Er hverfið þitt að vinna með heimsmarkmiðin? Hvernig?

4. Tileinkaðu þér heimsmarkmiðin í þínu lífi

Finndu út hvaða heimsmarkmið skipta þig máli og hvernig þú getur hjálpað til við það. Stærstu heimsmarkmiðin sem við getum hjálpað til með snúast um að minnka neysluna sem á sér stað í mörgum samfélögum. Við getum til dæmis fundið leiðir til að endurnýta hlutina okkar, skipst á hlutum/fötum þegar við erum orðin leið á þeim eða þurfum nýtt og fundið út hvernig við hendum sem minnstum mat á heimilunum okkar. Fáðu alla á heimilinu þínu til að vinna saman að því að ná ykkar markmiðum og sjáið hvað þið getið gert flotta hluti heima hjá ykkur.

5. Fáðu skátafélagið þitt til að grípa til aðgerða

Fáðu skátafélagið þitt til að grípa til aðgerða í tengslum við heimskarmiðin. Þið getið til dæmis valið ykkur heimsmarkmið til að vinna eftir, fundið verkefni og boðið svo foreldrum og vinum að koma og sjá. Þið getið líka hjálpað ykkar hverfi í að vinna að heimsmarkmiðunum og dreift út upplýsingum um það sem þið eruð að gera sem hvetur aðra til að gera það líka.

Gangi ykkur vel 😀

#stuðkví #skátarnir