Verkefni 41 – Dagur umhverfisins

Stóri plokkdagurinn

Í dag blæs Félagsskapurinn Plokk á Íslandi til Stóra plokkdagsins til stuðnings heilbrigðisstarfsfólki með þakklæti og virðingu og er því markmið sett á heilbrigðisstofnanir landsins, sjúkrahús, heilsugæslustöðvar og dvalar- og hjúkrunarheimili. Með því erum við að sýna þakklæti í verki, enda hefur okkar heilbrigðisstarfsfólk verið undir miklu álagi í langan tíma.

Terra og Krónan aðstoða plokkara

Terra umhverfisþjónusta og verslunarkeðjan Krónan munu í sameiningu bjóða íbúum höfuðborgarsvæðisins að koma með óflokkað plokk í gáma frá Terra sem staðsettir eru á eftirfarandi Krónuverslunum á höfuðborgarsvæðinu:
Krónan í Mosfellsbæ, Háholti 13-15.
Krónan á Granda, Fiskislóð 15-21 í Reykjavík.
Krónan á Höfða, í Húsgagnahöllinni í Reykjavík.
Krónan í Kórahverfi, Kópavogi.
Krónan í Flatahrauni, Hafnarfirði

Tvær plokkvaktir

Deginum skiptum við upp í tvær plokkvaktir. Sú fyrri byrjar klukkan 10:00 að morgni og sú síðari klukkan 13:00. Öllum er frjálst að taka þátt í hluta skipulagðra aðgerða eða deginum öllum, allt eftir því hvað hentar hverjum og einum. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar inn á PLOKK Á ÍSLANDI á Facebook og á samfélagsmiðlum eða heimasíðum sveitarfélaganna.
Nokkrir af virkustu plokkurum landsins munu standa vaktina við heilbrigðisstofnanir og aðstoða byrjendur við að koma sér af stað. Hægt er að fá nánari upplýsingar á facebook-síðunni Plokk á Íslandi.

Félagsskapurinn Plokk segir frá plokktrixunum í bókinni: 

1. Finna sér svæði til að plokka á og hvetja fjölskylduna til að taka þátt.
2. Stofna viðburð eða tengja sig inn á stofnaðan viðburð.
3. Útvega sér ruslapoka, hanska og plokktöng.
4. Klæða sig eftir aðstæðum.
5. Virða samkomubannið og gæta að tveggja metra reglunni.
6. Koma afrakstrinum á viðeigandi stofnun.
7. Hringja eða senda tölvupóst á sveitarfélagið sitt og láta sækja ef magnið er mikið.
8. Gæta fyllstu varúðar og brýna fyrir börnum að láta nálar og aðra hættulega hluti vera, en tilkynna til foreldra eða umsjónarmanna svo mögulegt sé að fjarlægja þá.

Verkefni dagsins er því að taka þátt og leggja okkar af mörkum í að plokka. Við hvetjum ykkur til að mæta með skátaklút og hvetja alla í kringum ykkur til að taka þátt. Ef þið komist ekki á þá staði sem voru taldir hér upp að ofan þá má auðvitað bara fara út í nágrenni og plokka þar. Allt hjálpar 😀

#stuðkví #skátarnir