Vetrarskátun á Úlfljótsvatni
Vetrarmót Reykjavíkurskáta var haldið í níunda sinn í útivistarparadísinni á Úlfljótsvatni um helgina. Þema mótsins að þessu sinni var heimskautaferðalangar.
Um 150 skátar skemmtu sér konunglega í frábæru veðri. Á föstudagskvöldið var setning þar sem skátarnir bjuggu til kyndla og kveiktu upp í stórum varðeld og kyrjuðu skátalög.
Að því loknu fóru eldri skátarnir að reisa tjaldbúðir til að gista í og á meðan fóru yngri skátarnir í dýrindis skátakakó og kex.
Á laugardeginum var fjölbreytt skátadagskrá þar sem tekist var á við klifurturninn, eldað hikebrauð yfir opnum eldi, byggt snjóhús, grunnur í snjóflóðafræðum var kennd en það sem stóð uppúr hjá skátunum var sleðabrekkan þar sem var rennt sér niður á öllu því sem hendi var næst. Gleðin var á hverju andliti þegar þau renndu sér niður brekkuna í frábærum vetraraðstæðum.
Fálkaskátar komu í dagsferð á laugardeginum en vegna slæmrar færðar á leiðinni austur var farið góða skoðunarferð um suðurlandið í gegnum Laugarvatn á leiðinni á Úlfljótsvatn en Fálkaskátarnir voru hamingjusamir þegar loksins var komið á Úlfljótsvatn og tóku þátt í póstaleiknum og í lok dagsferðar var kvöldvaka með skátakakó, snúðum og gómsætum kökum.
Boðið var upp á glæsilegan kvöldverð að hætti Arthurs gjaldkera SSR og eftir hann tók við næturleikur þar sem skátarnir þurftu að fanga góðar mörgæsir og forðast vondar mörgæsir til þess að fá hráefni til þess að búa til risa skilti til þess að senda neyðarboð til þess að komast aftur heim frá suðurskautinu.
Á sunnudaginn var frágangur á staðnum og stórleikur þar sem skátarnir tókust á í „capture the flag“ en sleðabrekkan var áfram afar vinsæl. Mótinu var síðan slitið með Bræðralagssöng og félögin fengu þátttökuviðurkenningar sem voru glæsilegir skildir í tilefni 10 ára afmælis vetrarmóts. Við brottför fengu skátarnir svo afhent mótsmerki fyrir vel unnin skátastörf um helgina.
Markmið með Vetrarmóti Reykjavíkurskáta er fyrst og fremst að kenna ungum skátum að takast á við fjölbreyttar áskoranir að vetrarlagi og að efla samstarf milli skátafélaganna í Reykjavík. Sjálfboðaliðar úr skátafélögunum sjá um undirbúning og framkvæmd mótsins og eiga þau hrós skilið fyrir frábært vetrarmót og spennandi dagskrá.