Skátar fjölmenntu á Útilífsnámskeið Skíðasambands skáta

Síðastliðna helgi tóku 43 skátar þátt í Útilífsnámskeiði Skíðasambands skáta á Laugaborg á Hrafnagili.
Námskeiðið er grunnnámskeið í útilífi fyrir ungmenni, með áherslu á vetrarútivist en markmiðið er að auka áhuga þátttakenda og leggja góðan grunn að frekari færni.

Á námskeiðinu fá þátttakendur margvíslega fræðslu, meðal annars um búnað, ferðahegðun, rötun, skyndihjálp og snjóflóð, en mikilvægasti þáttur námskeiðsins felst í reynslunámi þar sem þátttakendur elda úti og gista í tjaldi að vetrarlagi.
Veðrið setti þó sinn svip á námskeiðið á þessu sinni. Appelsínugul viðvörun var á laugardegi sem gerði það að verkum að ekki var hægt að gista í tjaldi seinni nóttina eins og hefð er fyrir. Þá var einnig lítið um snjó sem setti aðeins strik í reikninginn.



Skátarnir létu það þó ekki á sig fá og tóku virkan þátt í ævintýralegri, skemmtilegri og krefjandi dagskrá.
Skíðasamband skáta hefur staðið fyrir námskeiðinu í áraraðir og við hlökkum til að sjá námskeiðið vaxa og dafna á komandi árum.
Takk fyrir gott námskeið!
Ljósmynd/Árni Már Árnason
Fimmtán öflugir skátar hefja Gilwell leiðtogaþjálfun

Gilwell þjálfunin er æðsta leiðtogaþjálfun skáta og er metnaðarfullt 11 mánaða nám fyrir starfandi foringja, stjórnarfólk og aðra fullorðna skáta sem starfa með BÍS eða í skátafélagi.
Eftir 4 ára hlé hófst hin langþráða Gilwell þjálfun á ný á gamalkunnum slóðum á Úflljótsvatni og var því mikil eftirvænting fyrir helginni. Föstudaginn 20. janúar sátu þó bæði skátar og leiðbeinendur stúrin heima í stofu að horfa á handboltaleik í stað þess að sitja við eldinn í Ólafsbúð, þar sem veðurviðvaranir og færð komu í veg fyrir að námskeiðið færi af stað á réttum tíma.
Eldsnemma á laugardagsmorgun var hópurinn mættur með pússaða gönguskó og vel straujaðar skyrtur og klúta og hóf störf við leik og nám. Mesta spennan á hverju Gilwell námskeið er að sjálfsögðu flokkaskiptingin og fengu Uglur, Gaukar, Dúfur og Spætur nýja meðlimi þessa helgina.
Aðal áhersla á fyrsta hluta Gilwell þjálfunarinnar eru gildi skáta, einstaklingsins og hreyfingarinnar. Fyrir mörgum var þetta nýtt viðfangsefni og öðrum nokkuð kunnuglegt.
Í þetta sinn voru gildin vafin inn í þemað á Njáluslóðum og því stóð Hallgerður langbrók fyrir ástríðu, hörku og orku sem Spætuflokkurinn til dæmis samsamaði sig vel við.
Allir Gilwell ungarnir fóru glöð heim með sín fyrstu gilwell einkenni og hugmyndir að spennandi verkefnum til að vinna skátahreyfingunni til eflingar næstu mánuði.
Einn skáti, Karen Öder úr skátafélaginu Fossbúum, kláraði sinn feril um helgina, og fékk hún því sín einkenni. Við óskum henni innilega til hamingju með áfangan.
Næsti hluti þjálfunarinnar hefst í júní en þá mun hópurinn hafast við í tjöldum og rýna í skátastarfið á allt annan hátt.
Við hlökkum til að hitta hópinn aftur!
Nýtt fyrirkomulag námskeiða Æskulýðsvettvangsins

Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Ungmennafélags Íslands. Æskulýðsvettvangurinn vinnur að sameiginlegum hagsmunamálum barna og ungmenna í íþrótta- og æskulýðsstarfi og stuðlar að heilbrigðum, uppbyggjandi, vönduðum og öruggum aðstæðum í slíku starfi.
Eitt af markmiðum Æskulýðsvettvangsins er að stuðla að aukinni fræðslu og forvörnum í íþrótta- og æskulýðsstarfi á Íslandi í þeim tilgangi að gera umhverfi barna og ungmenna í félagsstarfi öruggara. Námskeið Æskulýðsvettvangsins eru liður í því. Áður hafa aðildarfélög ÆV óskað eftir námskeiðunum inn í sínfélög eftir þörfum en nú verður gerð breyting þar á. Námskeiðin verða sameiginleg fyrir öll aðildarfélögin og fara fram eftir námskeiðaáætlun.
Það er mikilvægt að öll sem starfa með börnum og ungmennum séu meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð og viti hvernig á að bregðast við þegar upp koma atvik eða áföll í starfinu. Því hvetjum við sem flest til að sækja námskeiðin en þau eru frí fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna.
NÁMSKEIÐAÁÆTLUN VOR 2023
8. febrúar Hinsegin fræðsla
8. mars Samskipti og siðareglur
29. mars Inngilding og fjölmenning
Skráning er opin á öll námskeiðin hér
Tækifæri mánaðarins í alþjóðastarfi #JANÚAR
Tækifæri mánaðarins í janúar er kynning á öllum erlendum skátamótum sem íslenskir skátar geta heimsótt árið 2023.
Vasalägret Svíþjóð 30.7 - 5.8 2023

Þátttakendaaldur: 8-18 ára
Þátttakendagjald: 1800 SEK (Preliminary)
Áhugaskráning: 31.1.2023
https://vasa2023.scout.se/international-scouts/
Litháen 8.-16. júní 2023

Þátttakendaaldur: 12-17 ára
Þátttökugjald: 225 - 270 evrur, ódýrara ef skráð er snemma
Skráningarfrestur: 31.05.2023
https://skautai.lt/renginiai/113-jubiliejine-stovykla-tarp-triju-vandenu
Austurríki, 7.-16. ágúst 2023

Þátttakendaaldur: 13 - 21 ára
Þátttökugjald: 320 evrur
Skráningarfrestur: 28.02.2023
https://www.together23.at/home-en/
Norður - Makedónía 12.-21. Júlí 2023

Þátttakendaaldur: 11 - 17 ára
Þátttökugjald: 315 evrur
Þátttökugjald: 266 - 326 evrur ódýrara ef skráð er snemma
Starfsmannagjald: 85-95 evrur ódýrara ef skráð er snemma
Skráningarfrestur: 12.07.2023
https://smotra.izvidnici.mk/
Serbía 22.-31. júlí 2023
Þátttökugjald: 315 evrur
Mikið fjör á Neista 2023

Mikið fjör var á Neista sem var haldinn helgina 6.-8. janúar á Úlfljótsvatni. Þar komu saman hátt í 80 skátar, 16 ára og eldri, til að læra nýja hluti, kynnast öðrum skátum og skemmta sér saman.
Á Neista fá þátttakendur að velja sína eigin dagskrá en boðið er upp á margvíslegar smiðjur sem miða að því að efla margvíslega færni í skátastarfi.
Það var einstaklega gaman að ná að halda Neista á Úlfljótsvatni aftur en fárviðri og síðan heimsfaraldur ollu 4 ára fjarveru viðburðarins og tók Undralandið heldur betur vel á móti okkur!
Þema helgarinnar var Vættir Íslands sem var m.a. nýtt í flokksheiti og kvölddagsrká helgarinnar.
Á föstudagskvöldi var póstaleikur þar sem flokkarnir kynnutst betur, bjuggu til grímu fyrir sinn vætt og lærðu íslenska þjóðdansa.
Smiðjurnar voru keyrðar á laugardag og sunnudag en boðið var upp á alls 22 smiðjur yfir helgina, t.d. klifur og sig, birtingarmyndir ólíkra þarfa og hegðunar, verkstæði skátaforingjans, kvöldvökur og gítar og táknmál. Einnig fengu öll fastaráð BÍS tækifæri á því að kynna sitt starf og nýttu Starfsráð, Alþjóðaráð, Útilífsráð og Ungmennaráð það.
Kvölddagsskrá á laugardegi var að sönnum Neista sið þar sem byrjað var á Eldleikum og eftir flugeldasýningu var haldið inn á kraftmikla kvöldvöku frá þátttakendum á kvöldvökustjórnunar smiðjunni.
Sérstakar þakkir fá sjálfboðaliðar viðburðarins sem aðstoðuðu okkur við það að gera þennan viðburð að veruleika.
Takk öll fyrir góðar stundir!
Bandalag íslenskra skáta fær styrk úr samfélagssjóði Landsbankans

Bandalag íslenskra Skáta fékk styrk frá samfélagssjóði Landsbankans að upphæð 250.000 kr. síðast liðin 20.desember. Styrkurinn er fyrir verkefnið Fjölskylduskátadagur fyrir flóttafólk frá Úkraínu en við buðum fjölskyldum flóttafólks frá Úkraínu í dagsferð á Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni. Markmiðið með viðburðinum var að bjóða flóttafólki frá Úkraínu jákvæða, heilbrigða og verðmæta upplifun á Úlfljótsvatni. Þar komu fjölskyldur frá Úkraínu saman, kynntust hver annarri og sköpuðu minningar saman með fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá og nutu samverustundar sem fjölskylda.
Samræmd viðbragðsáætlun lítur dagsins ljós

Föstudaginn 5. nóvember kynnti Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, samræmda viðbragðsáætlun fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf. Um er að ræða leiðbeinandi áætlun til að styðja þau sem standa fyrir slíkri starfsemi þegar upp koma atvik eða áföll í félagsstarfinu. Viðbragðsáætlunin tekur við af þeirri sem Æskulýðsvettvangurinn setti sér að fylgja árið 2018 og byggir ofan á þá áætlun.
„Við erum að stuðla að bættu öryggi, erum að vinna gegn ofbeldi og mismunun og erum að sýna ábyrgð okkar gagnvart samfélaginu. Þessi sameiginlega áætlun gerir það að verkum að öll félög geta notið leiðsagnar og stuðnings í glímunni við þau mál sem koma upp,‟ segir Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs.
Viðstödd kynninguna voru fulltrúar þeirra félaga sem komu að gerð viðbragðsáætlunarinnar, Ásmundur Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, sérfræðingar ráðuneytisins ásamt þeim Lárusi Blöndal, forseta ÍSÍ, skátahöfðingjanum Hörpu Ósk Valgeirsdóttur og Jóhanni Steinari Ingimundarsyni, formanni UMFÍ.
Margsannað mikilvægi viðbragðsáætlunar
Skátarnir hófu vinnu að viðbragðsáætlun árið 2010 og kom fyrsta útgáfa hennar út 2011. Hún var uppfærð tvisvar, 2013 og 2015, en árið 2018 var hún bæði uppfærð og tekin upp á víðari vettvangi Æskulýðsvettvangsins sem sú áætlun sem þau samtök settu sér að fylgja í þeim málum sem hún náði til. Það var á stefnu að sú áætlun yrði endurskoðuð og uppfærð árið 2020 en um sama leiti nálgaðist embætti samskiptaráðgjafa samtökin um að taka þátt í að gera samræmda áætlun og var því átaki tekið fagnandi. Enda hafa skátarnir ásamt samtökunum sem mynda Æskulýðsvettvanginn löngum talað af reynslu fyrir mikilvægi þess að hafa til staðar viðbragðsáætlun sem tryggir fagleg og samkvæm viðbrögð í hinum ýmsu atvikum óháð því hver á í hlut og á hvaða vettvangi atvikið verður.
Viðbragðsáætlunin byggir því ofan á þær góðu áætlanir sem voru til fyrir. Í henni er því að finna hvernig félög bregðist við ofbeldi af nokkru tagi, agabrotum, slysum, sjúkdómum, málum sem ber að tilkynna barnavernd og ýmsu sem áður var að finna í áætluninni en nú af enn meiri nákvæmni. En nú er þar líka að ýmsa nýja kafla um hvernig félög búa til öruggt umhverfi m.t.t. inngildingar, hinseginleika og fjölmenningar ásamt viðbrögðum við fordómum í félagsstarfi. Þá er einnig að finna nýjan kafla um andlega líðan og viðbrögð við atvikum sem geta komið upp tengt því.
„Þessi áætlun telur til flestra þeirra atvika sem við teljum að geti komið upp í íþrótta- og æskulýðsstarfi,‟ sagði Sigurbjörg og taldi upp sem dæmi handleggsbrot á æfingu, barnaverndartilkynningu sem þurfi að senda út, kynferðisbrot eða annað sem getur komið upp í starfi íþrótta- og æskulýðsfélaga.
„Þarna eru leiðbeiningar sem leiða félögin áfram. Stuðningur við það er svo hjá samskiptaráðgjafa,‟ bætti Sigurbjörg við og hvatti forráðafólk í öllum íþrótta og æskulýðsfélögum landsins til að sækja viðbragðsáætlunina, birta hana á heimasíðum sínum eða setja hlekki á miðla.
„Ekki síst þarf að kynna hana fyrir sínu starfsfólki, stjórnum, sjálfboðaliðum, þátttakendum og forsjáraðilum og bara öllum sem þetta við kemur.“

Sögulegt samstarf!
Vinna að viðbragðsáætluninni hefur staðið yfir í tvö ár, en stuttu eftir að embætti samskiptaráðgjafa var sett á fót var leitað til hagaðila á vettvangi íþrótta- og æskulýðsstarfs um að koma að þessari vinnu. Að borðinu komu samtökin sem mynda Æskulýðsvettvanginn þ.e. Bandalag íslenskra skáta, KFUM/KFUK, Landsbjörg, Ungmennafélag Íslands ásamt íþróttabandalagi Reykjavíkur og Íþrótta- og ólympíusamband Íslands. Sigurgeir B. Þórisson erindreki BÍS sat í vinnuhópnum fyrir hönd skátanna.
Innleiðingarstarf framundan og áframhaldandi framþróun
Bandalag íslenskra skáta fer nú af stað með innleiðingu nýrrar áætlunar, það mun fela í sér kynningar á innihaldi nýrrar áætlunar ásamt þjálfunar í notkun hennar á foringjanámskeiðum BÍS og á Skátaþingi 2023.
Reynslan hefur líka sýnt að vinnu sem þessari er aldrei lokið að fullu. Það er mikilvægt að hafa áætlanir og að starfa eftir þeim en síðan þarf að rýna í reynsluna af þeim viðbrögðum og nota hana til að gera verkfærin og ferlana enn betri til framtíðar.
Nálgast viðbragðsáætlun
Sækja: Viðbragðsáætlun Íþrótta- og æskulýðsstarfs
Hátíðarkvöldvaka 2. nóvember
Hátíðarkvöldvaka 2. nóvember
Hróp og söngur dundu um samkomusal Ráðhúss Reykjavíkur þann 2. nóvember síðastliðinn þegar kátir skátar á öllum aldri komu saman til að fagna 110 árum frá upphafi skátastarfs á Íslandi og 100 árum frá upphafi kvennskátastarfs á Íslandi.
Skátasamband Reykjavíkur ásamt Bandalagi íslenskra skáta héldu utan um hátíðarkvöldvöku í tilefnis tímamótanna. Skátar komu víða að á eigin vegum eða með sínu félagi. Skátahöfðingi setti kvöldvökuna og Helena Sif Gunnarsdóttir fulltrúi 100 ára afmælisnefndar kvennskáta kynnti upphaf kvennskátastarfs fyrir kvöldvökugestum. Dróttskátar frá skátafélaginu Hraunbúum stigu á stokk með tjald skemmtiatriði og skátaflokkurinn Hrefnurnar komu með eitt gamalt og gott skemmtiatriði um hann lata Gvend. Að lokinni kvöldvöku var boðið upp á kakó og kex að skáta sið og rabbað var um skemmtilegar minningar úr starfinu.
Hægt er að nálgast upptöku kvöldvökunnar hér:
Sérstakar þakkir fá kvöldvökustjórarnir Agnes, Gunnhildur Ósk, Magnea og Sunna Dís. Undirleikararnir Eðvald Einar, Guðmundur Páls, Harpa Ósk og Sigurður Viktor.
Undirleikarar í rólegu lögunum Ragnheiður Silja og Védís
Hljóð og mynd: Haukur Harðarson (Hljóðx)
Kröftugar konur Íslandssögunnar þema Fálkaskátadagasinns í ár
Sunnudaginn 6.nóvember tóku um 80 vaskir 10-12 ára skátar þátt í fálkaskátadeginum sem að þessu sinni var tileinkaður 100 ára afmæli kvennskátastarfs. Skátafélagið Mosverjar í Mosfellsbæ voru umsjónarfélag dagsins og settu upp 12 spennandi verkefnapósta þar sem varpað var ljósi á konur sem hafa skarað fram úr á sínu sviði á Íslandi allt frá Hallgerði Langbrók til Vigdísar Finnbogadóttur og Annie Mist.
Dagskráin hófst á miðbæjartorgi Mosfellsbæjar þar sem skátafélög mættu með vel búna skáta enda veðrið nokkuð kalt. Hópurinn fékk kynningu á lífi og störfum Lady Olive Baden-Powell og upphafi skátahreyfingarinnar.
Dagskrárpóstum hafði verið dreift um bæinn og þurfti hver flokkur að velja sér sína leið. Ratleikurinn gekk út á að stofnandi kvennskátastarfs í heiminum Lady Baden-Powell væri að safna saman kröftugum íslensku konunum í skátaflokkinn sinn og þurftu flokkarnir að takast á við áskoranir í nafni þekkra kvenna. Til dæmis þurftu þau að draga einn stærsta björgunarsveitarbíl landsins í nafni Annie Mist og búa til grímu úr náttúrulegum efnum í anda Bjarkar Guðmundsdóttur. Auk þess voru verkefni í ætt við kassaklifur, baka pönnukökur á kókdós og semja skátalag.
Í lok dags hópuðust flokkarnir aftur saman á miðbæjartorginu þar sem heitt kakó beið þeirra og farið varið í nokkra leiki áður en farið var heimleiðis.
100 ára afmælisár kvenskáta á Íslandi

Í tilefni af 100 ára afmæli kvenskátastarfs á Íslandi ætlum við að varpa sérststöku ljósi á sérstöðu kvenskátastarfs í heiminum:
Nóvember - sameiginleg hátíðarkvöldvaka með SSR 2.nóvember í ráðhúsi Reykjavíkur.
Sérstaklega miðuð að skátafélögunum, börnum og ungmennum en allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.
Desember - Vörpum ljósi á Friðarloga verkefnið á vegum st. Georgs gildanna og hvetjum til þátttöku
Janúar - Kynnum sérstaklega leiðtogamódel WAGGGS á Neista og á fyrstu helgi Gilwell.
Febrúar - Thinking day dagskrárpakki WAGGGS verður unninn í öllum skátafélögum. Sérstök hátíðardagskrá tileinkuð sögu kvenskátastarfs og sýning á munum tengdum starfinu verður haldin 19.febrúar
































































