Mikið fjör á Neista 2023

 

Mikið fjör var á Neista sem var haldinn helgina 6.-8. janúar á Úlfljótsvatni. Þar komu saman hátt í 80 skátar, 16 ára og eldri, til að læra nýja hluti, kynnast öðrum skátum og skemmta sér saman.

Á Neista fá þátttakendur að velja sína eigin dagskrá en boðið er upp á margvíslegar smiðjur sem miða að því að efla margvíslega færni í skátastarfi.

Það var einstaklega gaman að ná að halda Neista á Úlfljótsvatni aftur en fárviðri og síðan heimsfaraldur ollu 4 ára fjarveru viðburðarins og tók Undralandið heldur betur vel á móti okkur!

Þema helgarinnar var Vættir Íslands sem var m.a. nýtt í flokksheiti og kvölddagsrká helgarinnar.

Á föstudagskvöldi var póstaleikur þar sem flokkarnir kynnutst betur, bjuggu til grímu fyrir sinn vætt og lærðu íslenska þjóðdansa.

Smiðjurnar voru keyrðar á laugardag og sunnudag en boðið var upp á alls 22 smiðjur yfir helgina, t.d. klifur og sig, birtingarmyndir ólíkra þarfa og hegðunar, verkstæði skátaforingjans, kvöldvökur og gítar og táknmál. Einnig fengu öll fastaráð BÍS tækifæri á því að kynna sitt starf og nýttu Starfsráð, Alþjóðaráð, Útilífsráð og Ungmennaráð það.

Kvölddagsskrá á laugardegi var að sönnum Neista sið þar sem byrjað var á Eldleikum og eftir flugeldasýningu var haldið inn á kraftmikla kvöldvöku frá þátttakendum á kvöldvökustjórnunar smiðjunni.

Sérstakar þakkir fá sjálfboðaliðar viðburðarins sem aðstoðuðu okkur við það að gera þennan viðburð að veruleika.

Takk öll fyrir góðar stundir!