Nýr leikjavefur skátanna birtur!

Nýtt vefsvæði með leikjum hefur verið birt á heimasíðu Skátanna. En þar er nú hægt að finna safn skemmtilegra og frumlegra leikja sem líklegt þykir að skátar um allt land geti haft gaman af og hafa jafnvel ekki prófað áður.

Á vefnum er reynt að setja skemmtilega táknræna umgjörð í kringum hvern leik eða í hið minnsta gefa skátaforingan fróðleik til að kynna leikin með. Með því að nota þessi þemu er oft hægt að glæða leikina auknu lífi og gefa skátunum tækifærið á að setja sig í hlutverk áður en leikar hefjast.

Hvernig virkar nýr leikjavefur?

Vefurinn hefur hinar ýmsu síur til að auðvelda foringjum að finna leiki fyrir hvert tilefni fyrir sig. Leikir skiptast upp í hina ýmsu flokka s.s. flokkakeppnir, skátaklútaleiki, hópeflisleiki og söng- og hreyfileiki, þá er búið að flokka leiki eftir því hvaða aldursbilum þeir eru taldir henta best, hvaða umhverfi þeir henta best og svo er auðvitað hægt að leita eftir hópastærðum og tímaramma.

Á undirsíðu hvers leiks má svo finna sögu leiksins, hvað þarf fyrir leikinn, leiðbeiningar og hvernig má útfæra leikinn á annan máta til að umbreyta leiknum.

LALALA

Þau sem lögðu hönd á plóg

Vefsvæðið hefur verið unnið í hlutum yfir langt tímabil og því hannað af breiðum hóp bæði fyrrum og starfandi erindreka Skátamiðstöðvarinnar þeim Kolbrúnu, Halldóri, Sigurgeiri og Sædísi. Benedikt Þorgilson hjálpaði svo við tæknilega uppsetningu bakenda og útliti hverrar leikjasíðu fyrir sig en Halldór Valberg setti upp yfirlitssíðuna þar sem hægt er að leita eftir leikjum.

Langar þig að leggja hönd á plóg?

Til að fagna nýjum leikjavef sem getur safnað saman og hýst skemmtilega leiki fyrir skáta viljum við efna til keppni og bjóðum glæsilegt vasaljós í verðlaun!

Ef þú kannt skemmtilegan leik hvetjum við þig til að senda leikinn inn í gegnum formið hér að neðan, þú getur sent miklu fleiri en einn leik og fyrir hvern leik sem er valinn frá þér inn á vefinn kemstu 1 sinni í pottinn. Í hvert sinn sem þú kemst í pottinn eykur þú lýkur þess að þú hreppir vinninginn. Við merkjum svo hvern leik þeim sem sendi hann inn og titlum viðkomandi sem höfund leiksins á leikjavef skátanna um aldur og ævi. Í tilfellum þar sem margir aðilar senda sama eða samskonar leik getur bæði gerst að eingöngu sá fyrsti sem sendi inn leikinn sé titlaður höfundur eða ef útfærslurnar eru ólíkar gæti Skátamiðstöðin sameinað hugmyndirnar á einhvern hátt og eru þá öll titluð sem höfundar.

Gott er að nafn leiksins sé lýsandi fyrir leikinn eða tengist sögunni í kringum leikinn.
Skrifaðu nafn þitt í þennan reit til að vera höfundur leiksins í leikjabanka skátanna
Sá fjöldi sem þarf til að leikurinn gangi upp og sé skemmtilegur
Sá fjöldi sem raunhæft er að geti að hámarki tekið þátt þannig að leikurinn gangi upp, sé skemmtilegur og hægt sé að stýra/hafa umsjón með í leiknum án þess að það verði ringulreið
Sá tími sem þarf almennt að lágmarki til að fara í eina umferð af leiknum. Má setja 0 fyrir leiki sem eru á bilinu 0-5 mínútur.
Skynsamlegur tími sem má ætla að hægt sé að spila leikinn að hámarki áður en þátttakendur verða þreyttir á honum.
Hér er ætlast til að höfundur leggi mat á hvaða aldursbilum leikurinn hentar út frá viðfangsefni, erfiðleikastigi, getu þátttakenda á ólíkum aldri og hversu spennandi eða krefjandi hann er fyrir þátttakendur á ólíkum aldri. Gott dæmi er að öll aldursbil geta farið í stórfiskaleik en það er kannski samt ekki jafn spennandi leikur að fara í fyrir þau sem eldri eru. Eins geta leikir með þungri og jafnvel alvarlegri umgjörð eða miklum hasar þar sem fólk þarf að hafa skyn fyrir mörkum annarra verið hentugri fyrir eldri aldursbil en þau yngri.

Skilgreiningar á hinum ólíku flokkum

Eftirfarandi er betri skilgreining á hinum ólíku leikjaflokkum til að einfalda svar við næstu spurningu.

Boltaleikir: Leikir sem nota bolta með einum eða öðrum hætti.

Eltingaleikir: Leikir sem ganga með einum eða öðrum hætti út á að einhverjir elta og aðrir eru að forðast þau.

Flokkakeppnir: Leikir sem auðveldlega má leika í uppskiptum flokkum innan skátasveitarinnar þar sem flokkarnir etja kappi við hvorn annan um sigur.

Hasarleikir: Leikir sem krefjast eða skapa með einum eða öðrum hætti mikinn hasar t.d. leikir með miklum hávaða, mikilli hreyfingu alls hópsins og þar sem gott er að hafa í huga að áhætta sé á árekstrum í.

Hópeflisleikir: Leikir sem eru til þess fallnir að styrkja liðsheild hópa og/eða þjálfa samskipti og samvinnu í hóp.

Ísbrjótar: Leikir sem geta verið góðir til að brjóta ísinn meðal hópa sem þekkjast kannski ekki innbyrgðis. T.d. leikir þar sem fólk lærir nöfnin á hvort öðru eða kynnist betur, leikir sem skapa auðveldlega stuð á meðal leikmanna jafnvel ef fólk í hópnum er feimið.

Kappsleikir: Leikir þar sem þátttakendur etja kappi hvort við annað.

Kimsleikir: Leikir sem reyna á og þjálfa skyn skyn fólks fyrir og minni fyrir smáatriðum. Í Skátahreyfingunni nefnir Baden Powell slíka leiki Kimsleiki sem vísan í sögupersónu Kiplings. Nafnið er því notað af skátum um allan heim fyrir slíka leiki.

Klútaleikir: Leikir sem krefjast þess að þátttakendur nýti skátaklútinn með einhverjum hætti sem skátaforingjar notað reglulega til að hvetja skáta til að mæta með klútinn sinn á fundi.

Kynningarleikir: Leikir sem hafa þann tilgang að þátttakendur kynnist hvor öðrum betur með einhverjum

Lýðræðisleikir: Leikir sem hægt er að nota til að stýra umræðum og vali milli ólíkra valkosta með ungum skátum og stuðla að því að einstaklingar taki sjálfstæðar ákvarðanir fremur en að þau byggi val skoðun sína og val sitt á einhverjum öðrum eða láti stýrast af hópnum.

Næturleikir: Leikir sem ætlaðir eru sem næturleikir í útilegum.

Orðaleikir: Leikir sem fara að mestu framm munnlega eða skriflega og/eða byggja á orðum, skilning á þeim og örva málvöxt.

Spunaleikir: Leikir sem reyna á ímyndunarafl og/eða að þátttakendur beiti spuna í þátttöku sinni.

Stóla-/sætaleikir: Leikir sem byggja á því að þátttakendur eru í stólum eða öðrum tegundum sæta í gegnum leikinn.

Stórleikir: Leikir sem ganga upp í stærri hópum fyrir 50 og fleiri.

Söng- og hreyfileikir: Leikir þar sem skemmtunin er fólgin í söng eða ákveðnum hreyfingum sem þáttakendur gera saman eða herma eftir stjórnanda.

Traustleikir: Leikir sem reiða á að þátttakendur treysti á hvort annað til að ná settu markmiði.

Þrautaleikir: Leikir sem byggja á þrautum og lausn þeirra.

Merkið við allt sem við á, sjá skilgreiningar hér að ofan
Flesta leiki er hægt að fara í á öllum þremur stöðunum með góðum vilja. Hér biðjum við ykkur að merkja bara innileikir ef leikurinn krefst þess einhverra hluta vegna að hann fari fram innandyra.
Hér er óskað eftir upplýsingum um allan efnivið, dagskrárefnið og annað sem þarf til að láta leikinn ganga upp.
Leikir eru gerðir skemmtilegri með táknrænni umgjörð, einhverri sögu sem skýrir af hverju skátarnir eru að fara að fást við það sem framundan er og reyna að ná þeim markmiðum sem leikurinn krefst af þeim. Þetta getur líka gert það auðveldara fyrir mörg að lifa sig inn í leikinn því þau geta séð fyrir sér persónu, hlut, dýr eða annað sem þau eru að leika eftir. Ef þú þekkir enga sögu í kringum leikinn hvetjum við þig að nota ímyndunaraflið en annars getur þú skilið reitinn eftir auðan og leyft Skátamiðstöðinni að skálda í eyðuna.
Setjið fram leiðbeiningar í skýru máli, skýrið öll atriði sem þarf að skýra til að aðrir geti leikið leikinn eftir.
Það er alltaf hægt að breyta litlum smáatriðum í leikjum og skapa þannig nánast nýjan stórskemmtilegan leik. Iðulega má breyta reglum um hreyfingar, sjón, samskipti, endamarkmið, fjölga og fækka ólíkum hlutverkum,
Er eitthvað sem er gott fyrir leikjastjórnanda að huga að s.s. áskorun í samskiptum, áhætta á árekstrum, eitthvað sem er gott að viðkomandi viti en þátttakendur mega ekki vita, eitthvað annað?

Yfir 100 mættu á skátadag fyrir úkraínskar fjölskyldur á Úlfljótsvatni

Þann 30. september héldu Skátarnir skátadag á Úlfljótsvatni fyrir fjölskyldur frá Úkraínu. Dagurinn byrjaði á því að rútur ferjuðu hópinn frá Skátamiðstöðinni á Úlfljótsvatn um morguninn. Um leið og komið var austur hófst spennandi skátadagskrá sem starfsfólk Úlfljótsvatns hafði sett saman. Klifur, bogfimi, útieldun, leikir og fjör voru á meðal dagskrárliða. Í hádeginu voru grillaðar pulsur ofan í hópinn, og voru sum að smakka þennan íslenska ‚þjóðarrétt‘ í fyrsta sinn. Yfir 100 einstaklingar tóku þátt í deginum og ríkti mikil gleði í hópnum í skátadagskránni allri, þrátt fyrir smá vætu.

Dagurinn var styrktur af mennta- og barnamálaráðuneytinu, ásamt European Solidarity Corps, og var þátttakendum alveg að kostnaðarlausu. Það var gaman að geta boðið þessum hópi upp á skemmtilega dagsferð með fjölskyldum sínum þar sem þau fengu tækifæri til að upplifa ævintýralega skátadagskrá saman umkringd töfrum Úlfljótsvatns. Skátamiðstöðin vinnur nú að því að kynna fjölskylduskátastarf fyrir Úkraínskum fjölskyldum og við hlökkum til að bjóða þau sérstaklega velkomin í skátana á komandi misserum.


Fálkaskátaforingjar köfuðu ofan í könnuðarmerkjabók

Hringborð fálkaskátaforingja fór fram í Skátamiðstöðinni þriðjudaginn 19. september en hringborðin eru vettvangur fyrir sjálfboðaliða um land allt í samskonar hlutverkum að kynnast innbyrðis, ræða sín á milli þær áskoranir sem þau mæta í sínu starfi og deila á milli sín lausnum og góðum aðferðum.

19 skátaforingjar fálkaskáta úr 10 skátafélögum, þar af 3 sem tóku virkan þátt úr 2 skátafélögum utan af landi, mættu að hringborðinu og fór fram skemmtileg umræða um hin ýmsu málefni. Mestum tíma var varið í umræður um nýju könnuðarmerkin sem ætluð eru elstu fálkaskátunum, hvaða kröfur liggja að baki merkinu og hvernig sé best að leiðbeina hópi fálkaskáta á sinni vegferð að því. Þá sköpuðust afar gagnlegar umræður um praktísk atriði á hlið skátaforingjanna. Þá var einnig rætt um nýju stiku- og hæðarmerkin sem ætlað eru að styðja við aukna útivist í skátastarfi meðal yngri aldursbilanna jafnt sem þeirra eldri. Þau eru svo ný af nálinni að skátaforingjar hafa enn ekki fengið tækifæri til að nýta þau en ljóst var að mikil ánægja var með að svona merki væru komin og öll hyggðust nýta þau á komandi ári.

Kvöldið var líka nýtt til kynninga en Skátaskólinn kynnti tilboð til félaga um að koma með Fálkakraft dagskránna á vettvang félaganna og svo voru öll minnt á fálkaskátadaginn í nóvember og hvött til að fjölmenna.

Í opnum umræðum var rætt um mikilvægi þess að fara í útilegur og ferðir með fálkaskáta en ánægjulegt var að heyra að þau mál voru í lagi hjá öllum sveitum við hringborðið sem sum eru á leið í fystu útilegu ársins um komandi helgi. Flokkakerfið fékk sinn sess og hve gagnlegt sú umgjörð væri til að reka gott fálkaskátastarf, margir foringjar eru í fyrsta sinn að afla sér reynslu í að stýra slíku starfi og önnur á fundinum sem nota það ekki virtust sannfærast um að láta á það reyna líka í sínum sveitum sem lausn við vissum áskorunum í starfinu. Rætt var um mikilvægi þess að setja sér starfsáætlun sem væri síðan miðlað áfram til forráðafólks svo að skátaforingjar, skátarnir og forráðafólk þeirra væru öll með sömu væntingar til starfsins. Í lokin fengu foringjunum lampa með anda sem veitti þeim eina ósk um stuðningsefni sem myndi gagnast þeim í starfi og komu allskonar spennandi hugmyndir fram sem spennandi verður að skoða betur.

Hringborðin virðast sannarlega hafa markað sér sess en þetta er annað árið sem þessum vettvangi er haldið úti og því ánægjulegt að þau reynist eins fjölmenn og lífleg og raun ber vitni.

Næst er það hringborð dróttskátaforingja sunnudaginn 24. september og verður spennandi að sjá hvað kemur úr því.


Vel sótt foringjanámskeið í Búðardal

Helgina 1.-3. september stóð Leiðbeinendasveitin fyrir foringjanámskeiði í Búðardal en námskeiðið sóttu á fjórða tug sveitar- og aðstoðarsveitarforingja úr ýmsum skátafélögum.

Þema námskeiðsins var “Sjáðu tindinn” og alla helgina voru þátttakendur á leiðinni á tindinn; að sjálfu foringjahlutverkinu. Af nógu var að taka og í gegnum lausnaleitaræfingar, fyrirlestra, umræðuhópa og leiki lærðu foringjarnir um hlutverk skátaforingja, ólíka leiðtogastíla, skátaaðferðina, flokkakerfið, dagskrárrammann, markmiðaflokkana, PGM, ÆSKA, hvatakerfið og vígslugrunninn. Þá lærðu foringjarnir um hegðun barna, öryggi í skátastarfi, Æskulýðsvettvanginn og viðbragðsáætlun íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þátttakendur störfuðu í flokkum á námskeiðinu og á hverjum degi námskeiðsins var haldinn sveitarráðsfundur þar sem flokks- og aðstoðarflokksforingjar hittust og komu á framfæri skilaboðum frá sínum flokkum.

Þá má ekki gleymast að söng- og leiklistarhæfileikar þátttakenda fengu heldur betur að njóta sín á námskeiðinu, því á laugardagskvöldinu var haldin kröftug kvöldvaka með framúrskarandi skemmtiatriðum frá öllum flokkum, svo að eftir var tekið!

Afar fjölbreyttur hópur foringja sótti námskeiðið; þau voru ýmist að stíga sín fyrstu skref sem skátaforingjar eða búin að starfa í lengri tíma, enda er mikilvægt og gott fyrir foringja að sækja sér þjálfun og fræðslu reglulega, sérstaklega núna þegar ýmis ný tól hafa bæst í verkfærakistu foringa: könnuðamerkin, hæða- og stikumerkin og markmiðaflokkarnir, svo fátt eitt sé nefnt.

Á námskeiðinu öllu spunnust sérlega góðar umræður um allt það er viðkemur foringjastarfinu og foringjarnir skiptust á reynslusögum og hugmyndum og veittu hver öðrum innblástur. Eftir göngu helgarinnar á tindinn héldu skátaforingjarnir heim á leið með gott veganesti í farteskinu, tilbúnir fyrir foringjastörf starfsársins!


Fjölmennt á fyrsta hringborði haustsins

Fjölmennt var á fyrsta hringborði haustsins sem að þessu sinni var fyrir skátaforingja drekaskáta en 15 skátaforingjar frá 8 skátafélögum mættu auk 1 fulltrúa starfsráðs BÍS og erindreka BÍS.

Á hringborðinu var kynning á nýju verkefnabókinni fyrir könnuðarmerki drekaskáta, hvernig ætti að fara að því að stýra elstu drekaskátunum í vinnu að merkjunum og fengu skátaforingjarnir líka að skoða ofnu merkin sem eru komin í Skátabúðina. Síðan var líka talað um hvernig gott væri að nýta nýju stiku- og hæðarmerkin til að hvetja til aukinnar útivistar í drekaskátunum.

Skátaforingi drekaskáta í Hraunbúum var svo með kynningu á starfinu þar á bæ en starfið hefur verið vel sótt undanfarið auk þess að vera sýnilegt. Þá hafa drekaskátar Hraunbúa fjölmennt á flesta viðburði sem hafa staðið þeim til boða.

Að lokum var umræðan gefin laus og var m.a. rætt um hvernig hátt félög hafa á því að bjóða nýja skáta velkomna á fyrstu fundum ársins, góð ráð þegar kemur að skipulagi og hugmyndavinnu vegna skátafunda. Þá var mikil og góð umræða um hvort félög hyggðust fara bæði á landsmót og drekaskátamót eða eingöngu á drekaskátamótið. Í lokin sögðu gestgjafar drekaskátadagsins 2024 hvers mætti vænta í umgjörð og skipulagi þar.

Hægt er að nálgast frekari útlistun á umræðum hér.


Skátamiðstöðin fagnaði 20 ára afmæli

Skátamiðstöðin var með opið hús í tilefni 20 ára afmæli þar sem Skátafélagið Árbúar, Bandalag íslenskra skáta, Grænir skátar, Skátaland og Skátasamband Reykjavíkur buðu gestum upp á afmælisköku og léttar veitingar. Skátaland setti upp hoppukastala, klifurturn og svifbraut niður af þaki hússins sem vakti mikla athygli og lukku hjá gestum.

Fjölmargir gestir kíktu í heimsókn, fyrrum skátar frá Árbúum, fyrrum starfsmenn hússins, krakkar úr hverfnu og starfandi skátar frá ýmsum skátafélögum.

Í tilefni afmælisins fékk Skátamiðstöðin tiltekt og fengu veggir miðstöðvarinnar nýjan lit og ásamt því að merki BÍS var málað á vegginn í salnum.


Íslensku skátarnir kveðja mótssvæðið í Suður Kóreu

Ákveðið hefur verið að rýma mótsvæðið í suður Kóreu á hádegi á morgun að kóreskum tíma. Þessar fréttir bárust fararstjórn hópsins í nótt.  Þessi skyndilega breyting á mótshaldinu kemur til vegna breytinga á stefnu fellibyls sem hefur leikið Japan grátt undanfarna daga, en nú stefnir hann beint á mótssvæðið. Áætlað er að veðrið skelli á seinnipart fimmtudags og  þarf þá að vera búið að fjarlægja allt lauslegt af svæðinu.  

Sunset at the WSJ2023

Íslenski hópurinn tekur þessum fréttum af yfirvegun en hefur tekið ákvörðun um að yfirgefa svæðið strax í kvöld til að forðast mögulega óreiðu sem gæti skapast á morgun. Það hentar hópnum einnig betur að pakka og ganga frá þegar sólin er ekki eins hátt á lofti.  

Íslenska fararstjórnin með aðstoð frá Bandalagi íslenskra skáta hefur verið með frátekin herbergi á heimavist í Seoul frá því að tvísýnt var hvort hægt var að klára mótið á Jamboree svæðinu. Þau herbergi koma nú að góðum notum. Það var því auðvelt að fá rútur til þess að sækja hópinn og koma honum á áfangastað sem er sama heimavist og hópurinn gisti sína fyrstu daga á eftir komuna til Seoul.  

Engan bilbug er að finna á íslensku skátunum enda gríðarlega flottur hópur þar á ferð. Fararstjórnir Íslands, Noregs og Danmerkur vinna náið saman í flutningi af svæðinu en þjóðirnar munu halda hópinn í Seoul og halda áfram hinni fjölþjóðlega upplifun og ævintýrum.  

Mynd 1 ©WSBureau Inc. - Jonathan Law Yan Lun  (https://media.scout.org/preview/320953)
Mynd 2 Selma Björk Hauksdóttir.  Skátinn heitir Reynir Ólafsson og kemur úr skátafélaginu Skjöldungum

Fréttatilkynning frá Bandalagi íslenskra skáta vegna Alheimsmóts skáta í Suður Kóreu

Þessa stundina taka 140 íslenskir skátar þátt í Alheimsmóti skáta í suður Kóreu sem stendur dagana 1-12.ágúst. Á mótssvæðinu eru nú um 50.000 skátar við leik og störf. Fréttir hafa borist af bágum aðstæðum á svæðinu, en í upphafi vikunnar hófst mikil uppbygging á aðstöðunni sem seinkaði vegna rigninga og bleytu vikunni áður.

 

Þeir íslensku skátar sem taka þátt í vinnubúðum á mótinu mættu á svæðið þegar uppbygging var að hefjast, en vegna bleytu og byrjandi hitabylgju einkenndust fyrstu dagarnir af upplýsingaskorti og aðföng eins og vatn og matur voru lengi að berast. 

Þegar ljóst var að uppbygging gekk hægt var sendur mikill mannafli á staðinn, frá Suður Kóreska hernum, Rauða Krossinum og öðrum sjálfboðaliðum. Íslenski fararhópurinn seinkaði komu sinni á mótið um sólahring á meðan nauðsynlegar úrbætur fóru fram.

Síðustu dagar hafa litast af hitabylgjunni sem gengur yfir. Breytingar hafa verið gerðar á dagskrá svo ungmennin séu ekki undir berum himni á heitasta tíma dagsins, aðgengi að vatni og kælitjöldum hefur verið stórbætt og heilbrigðisstarfsfólki fjölgað.

Íslenski hópurinn ber sig vel, sú dagskrá sem hefur verið í boði verið vel sótt og ótal tækifæri boðist til þess að kynnast skátum frá öllum heimshornum enda eru alheimsmót skáta eitt mesta ævintýri sem skátar fá tækifæri til að taka þátt í. Þátttakendur eru á aldrinum 14-18 ára og hafa undirbúið sig fyrir þátttöku í mótinu síðastliðin tvö ár.

Íslensku þátttakendurnir hafa líkt og aðrir, sótt heilbrigðisþjónustu vegna hita og skordýrabita en engin alvarleg óhöpp hafa átt sér stað. Hópur 4.000 breskra skáta hefur ákveðið að færa sig um set til að minnka álag á mótssvæðinu. Dvöl íslenska hópsins á svæðinu er metin daglega og hefur ekki verið tekin ákvörðun um að færa hópinn enn sem komið er.

Nánari upplýsingar veitir Ragnar Þór Þrastarson, framkvæmdastjóri BÍS á ragnar@skatarnir.is

Fyrir beint samband við skáta stadda í Suður Kóreu má hafa samband við

Guðjón Sveinsson fararstjóra á guðjon@skatarnir.is

Myndasmiður er Sigrún María Bjarnadóttir


Niðurstöður frá aðalfundi Æskulýðsvettvangsins

Tvær ákvarðanir voru teknar á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins þann 1. júní sem mikilvægt er að upplýsa forystu skátahreyfingarinnar um.

Fulltrúar Bandalags íslenskra skáta, KFUM/K, Landsbjargar og UMFÍ á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins 2023

Breytingar á siðarreglum

Siðareglur Æskulýðsvettvangsins tóku breytingum í júní síðastliðnum en samkvæmt 2. grein laga BÍS eru siðareglur Æskulýðsvettvangsins þær siðareglur sem gilda fyrir allt starfsfólk og sjálfboðaliða Skátanna.

Mikilvægt er fyrir öll sem starfa með börnum og ungmennum að vera meðvituð um skyldur sínar og ábyrgð. Siðareglur þessar snúa annars vegar að samskiptum og hins vegar að rekstri og ábyrgð. Gerist aðili brotlegur við reglurnar er heimilt að vísa honum úr starfi, tímabundið eða að fullu.

Eins og forysta skátahreyfingarinnar kann að muna eftir voru siðareglurnar uppfærðar árið 2022 en þær breytingar byggðu á tillögu sem Skátarnir lögðu fram á aðalfundi Æskulýðsvettvangsins, og voru í framhaldi unnar áfram af ráðgjafahópi Æskulýðsvettvangsins og loks samþykktar í stjórn ÆV. Hægt er að sjá frétt um þær breytingar frá síðasta ári hér.

Eftir að þessar tillögur höfðu verið unnar í samvinnu allra samtakanna á Æskulýðsvettvanginum og samþykktar á öllum skipulagsstigum þess lagðist stjórn UMFÍ hins vegar gegn einni breytingunni og taldi þessar breytingar hafa verið gerðar án samþykkis samtakanna, þótt að fulltrúar UMFÍ hefðu setið aðalfundinn í húsakynnum UMFÍ, starfsmaður UMFÍ sitji í ráðgjafahópnum og framkvæmdastýra UMFÍ sitji í stjórn ÆV en eins og áður hefur verið sagt voru þessar tillögur unnar og samþykktar á öllum þessum stigum. Á aðalfundi 2023 lagði stjórn ÆV fram þá tillögu að fella síðustu setninguna út úr eftirfarandi ákvæði til að skapa sátt innan allra samtaka um siðareglurnar:

17. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart. Komi til gagnkvæms ástarsambands er það á ábyrgð þess sem gegnir valdastöðu að gera stjórnendum sínum kunnugt um það.

Fulltrúi skátanna á fundinum mældi gegn tillögunni og minnti á að auk alls samráðsins og að fulltrúar UMFÍ hefðu samþykkt tillöguna á öllum vettvöngum sem hún var borin upp þá væri þetta ákvæði heldur ekki úr lausu lofti gripið. Það byggði á tillögu sem innfluttur sérfræðingur Håvard Øvegård kynnti sem gagnlegt verkfæri til að bregðast við tælingu og kynferðislegu ofbeldi á grundvelli valdamisræmis á ráðstefnu sem UMFÍ og ÍSÍ stóðu að samhliða Reykjavíkurleikunum 2019 undir yfirskriftinni "Eru íþróttir leikvangur ofbeldis". Upptöku frá kynningu hans má horfa á hér en hann talar um sambærilegt ákvæði á 19. mínútu og 40. sekúndu í myndbandinu. Þá væri líka furðulegt að UMFÍ legðist gegn ákvæðinu þegar mörg aðildarfélög þeirra í Reykjavík tilheyra einnig Íþróttabandalagi Reykjavíkur sem lét ekki kyrrt við sitja að flytja Håvard Øvegård inn á ráðstefnu heldur fór að tillögum hans og inleiddi álíka ákvæði í í sérstakar siðareglur um kynferðislegt ofbeldi og áreitni sem má finna hér.

Håvard Øvegård kynnir hvernig samtök geti beitt umgjörð sem forvörnum og verkfærum gegn ofbeldi á ráðstefnu á vegum ÍSÍ og UMFÍ

Aðalfundur ÆV samþykkti engu að síður að fella út ákvæðið en 2 af 3 fulltrúum skátanna kusu gegn því en 1 fulltrúi landsbjargar og 1 fulltrúi KFUM/K sátu hjá við atkvæðagreiðslu. Ákvæðið er því nú svohljóðandi:

17. Forðast skal kynferðislegt daður, orðbragð eða samband við sjálfráða þátttakendur, samstarfsfólk eða aðra aðila sem ábyrgðaraðilar gegna valdastöðu gagnvart.

Staðfesting viðbragðsáætlunar samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs

Ný viðbragðsáætlun var gefin út í nóvember 2022 en grunnurinn að henni byggir á fyrri viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins en fulltrúar ráðgjafahópsins sátu í vinnuhóp um nýja viðbragðsáætlun auk samskiptaráðgjafa, starfsfólki Íþróttabandalags Reykjavíkur og Íþróttasambandi Íslands.

Þrátt fyrir vilayfirlýsingu í verki og þrátt fyrir að lógó samtaknna væru á viðbragðsáætluninni þótti skátunum mikilvægt að aðalfundur staðfesti formlega að öll félög Æskulýðsvettvangsins störfuðu eftir viðbragðsáætlun samskiptaráðgjafa. Var tillagan samþykkt samhljóða.

Siðareglur og viðbragðsáætlun áfram á sínum stað

Eftir sem áður eru siðareglur í gildandi útgáfu og viðbragðsáætlunin alltaf að finna á sérstöku vefsvæði um Æskulýðsvettvanginn.


141 íslenskir skátar lagt af stað á 25. Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu

Nú hafa um 141 íslenskir skátar lagt af stað á 25. Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu!

Frá 1.-12. ágúst mun Saemangeum á vesturströnd Suður Kóreu taka á móti um 55.000 skátum frá mismunandi löndum alls staðar úr heiminum og byggja upp tjaldbúð með þemanu ,,teiknaðu þinn draum".

Við óskum íslenska fararhópnum góðrar ferðar og við vitum að þau munu njóta sín í þessari ævintýraferð og eignast einstaka lífsreynslu.

Til að fylgjast nánar með hópnum getið þið fylgt aðgangnum á instagram og facebook.


Privacy Preference Center