Fálkaskátaflokkur Árbúa Fálkakempur 2025

 

 

Síðastliðna helgi buðu Hraunbúar fálkaskátum landsins í heimsókn í Skátalund við Hvaleyrarvatn þar sem skátarnir hlupu um í póstaleik í kringum vatnið og kepptust um farandviðurkenninguna.

Veðrið lék um fálkaskátana en þau hófu leika með skemmtilegum eltingarleik við skátaskálann áður en lagt var að stað í leit af póstum kringum vatnið. Skátarnir söfnuðu sér inn stigum sem flokkur með samvinnu og góðri frammistöðu í verkefnunum sem meðal annar voru að leysa skátadulmál, rugla í hefðbundnum skátasöngvum, súrra þrífót, leiða hvort annað í gegnum blindrabraut og gera sjúkrabörur úr eigin fötum.

Að lokum söfnuðust allir flokkarnir saman við Skátalund þar sem þau kepptu í lokaþrautinni, að brenna band, en hver flokkur fékk einn skátahníf, einn eldspýtustokk og einn viðardrumb. Skátarnir þurftu síðan að ná upp nægilega stórum loga til þess að ná að brenna band sem var fest þvert yfir hverja stöð.

Fálkaflokkurinn í Árbúum voru fyrst til þess að brenna bandið og báru því sigur úr bítum þetta árið. Þau fengu afhentan farandviðurkenninguna sem nú fær að príða Árbúaheimilið þar til að fálkaskátadagurinn verður haldinn næsta haust.

Svo var að sjálfsögðu sungin nokkur vel valin skátalög til að halda hita í fálkunum á meðan beðið var eftir úrslitum. Eftir kvöldvöku gæddu fálkar og foringjar sér á heitu kakói og kexi að skátasið áður en haldið var heim.


Umsókn þátttakanda á alheimsmóti 2027

LANGAR ÞIG AÐ KOMA MEÐ Á ALHEIMSMÓT SKÁTA Í PÓLLANDI SEM ÞÁTTTAKANDI?

Opið er fyrir umsóknir þátttakanda á alheimsmóti skáta í Póllandi 2027.

 

Hvað felst í því að vera þátttakandi á Alheimsmóti ?

Þátttakendur á alheimsmóti verða vera á aldrinum 14 - 17 ára þegar mótið byrjar 30. júlí 2027 (fædd á bilinu 30. júlí 2009 - 30. júlí 2013). Níu skátum er raðað saman í einn skátaflokk með einum foringja og fjórir flokkar saman mynda eina sveit.

Íslenski fararhópurinn mun fara út með 5 sveitir og því einungis 180 pláss fyrir íslenska þátttakendur. Fararhópurinn mun hittast fyrir ferðina á undirbúningsfundum og í sveitarútilegum þar sem hópnum er hristað saman og einnig verður farið yfir ferðalagið og dagskrá mótsins til að undirbúa þátttakendurna sem best.

Hér eru drög af ferðafyrirkomulagi hópsins með fyrirvara á breytingum þegar nær dregur ferðinni.

  • 27. júlí 2027 - IST flýgur út
  • 29. júlí 2027 - Aðalhópurinn flýgur út
  • 30. júlí 2027 - Mótssetning
  • 8. ágúst 2027 - Mótsslit
  • 9.-13. 2027 - Mótsslit

 

Hvað kostar ?

Verðið fyrir þátttakanda er 572.000 kr. Athugið að þetta er verð án flugs.

Innifalið í verðinu er:

  • Þátttökugjald til mótsins: 215.000 kr.
  • Eftirmótsupplifun í Kraká: 110.000 kr.
  • Einkenni: 35.000 kr.
  • Annar kostnaður 212.000 kr.
    • Sameiginlegur búnaður
    • Sveitarstarf fyrir mótið
    • Fararstjórn
    • Skrifstofu- og ófyrirséður kostnaður

Þau sem vilja taka þátt eru beðin um að lesa vel skilyðrin hér að neðan og fylla síðan út umsóknareyðublaðið. Umsóknarfresturinn er til og með 1. apríl 2026 

 

Ef það eru einhverjar spurningar um hlutverkið þá hvetjum við ykkur til að hafa samband við fararstjórana á netfangið jambo2027@skatarnir.is. 

Skilyrði fyrir þátttakendur

  • Vera orðin 14 ára og ekki orðin 18 ára þegar mótið hefst, 30. júlí 2027
  • Hafa farið á a.m.k. fjögurra nátta skátaviðburð og gist í tjaldi allan tímann
  • Hafa unnið sér inn færnimerkin:
    • Skyndihjálp
    • Hnífur
    • Útieldun
  • Vegna víðáttumikils mótsvæðis þarf þátttakandi að vera í góðu líkamlegu formi og geta fengið a.m.k. 10 kílómetra á dag (nema ef um sérstök frávik er að ræða)
  • Meðmæli frá sveitarforingja og einum úr félagaþrennunni þar sem hún er starfandi í félaginu, annars félagsforingja
  • Góð heilsa þar sem að á mótinu er mikil útivera og dagskrá sem krefst mikillar hreyfingar í +25°C hita og því mikilvægt að þátttakendur séu líkamlega hraustir
  • Þekki skátalögin og geti haft þau að leiðarljósi í allri vegferðinni í kringum mótið og í samskiptum við aðra.
  • Taka þátt í undirbúningsfundum og/eða útilegum sveitarinnar og fararhópsins til að tryggja að þátttakandi sé vel upplýstur og undirbúinn fyrir ferðina t.d.:
    • Hittingur fararhópsins á Landsmóti skáta á Hömrum 2026
    • Sveitarútilegur
    • Undirbúningsfundir sveitarinnar
  • Geta borið allan farangurinn sinn í einum bakpoka (18-20 kg) með minni dagspoka í u.þ.b. 30 mínútur (möguleg ganga frá rútunni að tjaldsvæðinu)
  • Hafa andlega burði til að búa þétt við frumstæðar aðstæður í fjölbreyttri mannflóru og miklu áreiti í þrjár vikur fjarri foreldrum/forráðafólki
  • Hafa jákvætt viðhorf gagnvart nýjum reynslum, ólíkum menningarheimum og að kynna íslenskt skátastarf á alþjóðlegum vettvangi

Umsókn fyrir þátttakendur

Vinsamlegast skrifaðu bara þau tungumál sem þú myndir treysta þér að vera í samskiptum við erlenda skátahópa á því tungumáli
Segðu í stuttu máli frá því hvers vegna þú hefur áhuga á að fara á Jamboree 2027.
Setjið inn einn skáta sem meðmælanda, getur verið skátaforingi eða félagsforingi

Lokað yfir verslunarmannahelgina

Lokað verður í Skátamiðstöðinni mánudaginn 4. ágúst vegna frídag verslunarmanna. Skátamiðstöðin opnar aftur þriðjudaginn 5. ágúst.


Íslendingar í Vín: Sjö skáta fararhópur fer á evrópuþing skáta fyrir hönd Íslands:

Í síðustu viku fóru fram Evrópuþing WOSM og WAGGGS og voru haldin í Vínarborg í Austurríki. Fararhópurinn fór út á föstudaginn þann 18. júlí og komu heim á fimmtudaginn þann 24. júlí. Fyrir hönd BÍS fóru sjö skátar út, tvö á WAGGGS þingið og fimm á WOSM þingið.

Á þinginu var margt að gera. Farið var yfir nýjar stefnur Evrópudeildar skátahreyfingunnar sem mun gilda næstu þrjú ár, kosið var í stjórnir Evrópudeildar hreyfinganna WOSM og WAGGGS og svo voru áskoranir á stjórnirnar sem voru fjörugar. Oftast þá komst þingið í gegnum þessar tillögur frekar fljótt, en eins og alltaf þá voru einhverjar tillögur sem rifist var mikið um. Í grunninn starfar Evrópuþing eins og Skátaþing gerir heima á Íslandi nema það er mikið sturlaðra og lengra. Samanlagt voru þrír dagar af þingstörfum en það voru þó ekki aðeins þingstörf heldur voru líka t.d. kynningar frá mismunandi aðilum eins og næstu stjórn fyrir Roverway sem verður haldið í Sviss árið 2028, og svo var einnig heill hellingur af smiðjum og þar má nefna t.d. smiðjur um að búa til stefnur, valdeflingu ungmenna og safe from harm.

Líklega það áhugaverðasta við það að fara í svona ferðir er samspil heimshreyfingana skáta og mismunandi skátabandalaga. Í rauninni voru þetta 3 þing sett saman. WOSM þingið WAGGGS þingið og sameiginlega þingið. Á WOSM og WAGGGS þinginu var rætt um það hefðbundna (áskoranir og skýrslur) en svo á sameiginlega þinginu var aðallega rætt um samstarf bandalaganna og hvernig ætti að styrkja það. Einnig var skemmtilegt að fylgjast með hvernig það sást í tengslanet bandalaga. Líklega besta dæmið um þetta voru Norðurlöndin. Algengt var að sjá hópa af Dönum, Svíum, Norðmönnum og Finnum að spjalla saman á göngunum og styðja við hvort annað í þingsalnum.

Annað sem var rosalegt er hversu mikið af valdamiklu og áhugaverðu fólki var á þinginu, það var frekar súrrealískt að sjá fólk ekki merkt löndum heldur heimshreyfingum eins og til dæmis má nefna WOSM stjórn sem gengur um með fjólubláan klút og í dökkblárri skyrtu. Þetta er fólkið sem tekur sumar af stærstu ákvörðunum innan skátanna sem hafa áhrif á alla skáta í Evrópu, jafnvel heiminum. Ef maður lenti á spjalli við einhvern frá öðru landi voru miklar líkur á að það væri stjórnarmeðlimur, jafnvel skátahöfðingi þess lands. En þrátt fyrir þetta þá tók maður ekki mikið eftir því í raun. Allir þarna hefðu alveg eins getað verið skátar og stjórnarmeðlimir félaga að hittast á Skátaþingi á Íslandi. Þess vegna var svo svalt að sjá einnig mikið af ungmennum á þinginu. Eitt hlutverk innan fararhópanna hét Youth delegate og það var alltaf skemmtilegt þegar þau komu með athugasemdir á umræðuna, oft skemmtilegra að hlusta á þau heldur en þau eldri.

Næsta Evrópuþing verður haldið í Flórens og við hlökkum til að sjá sem flest sækja um fyrir það!

 

-Helgi Þórir Sigurðsson, skátafélagið Vífill

 

Hægt er að lesa um stefnuna sem var kosin hjá WOSM næstu þrjú ár hér


Frá Bifröst til Búðardals

Þann 14. júlí 2025 hófst ferðalag sem átti eftir að verða mikið ævintýri fyrir þátttakendur og skipuleggjendur. Þetta ævintýri var Landsmót rekka- og róverskáta sem haldið er fyrir skáta á aldrinum 16-25 ára um landið allt, mótið skiptist upp í gönguhluta og tjaldbúðarhluta. Að þessu sinni var ákveðið að ganga Vatnaleiðina frá Bifröst til Hlíðarvatns og hafa þar tjaldbúð við Hallkelsstaðahlíð. 

Eftir góða sundferð í Borgarnesi safnaðist gönguhópurinn saman við Bifröst þar sem gist var við háskólann og smurt nesti fyrir fyrsta göngudag. Frá Bifröst lögðu að stað 21 göngugarpar frá Garðbúum, Landnemum, Klakki, Skjöldungum og Ægisbúum, þriðjudaginn 15. júlí. Þar af voru fjórir skipuleggjendur mótsins og tveir sjálfboðaliðar með gríðarlega reynslu og flotta kálfa. Þessum hóp til halds og trausts voru þrír sjálfboðaliðar sem sáu meðal annars um að flytja farangur, hlúa að þreyttum löppum eftir langan dag og leyfa latari hluta skipuleggjanda að gista í fortjaldinu hjá sér.

Þar sem þátttakendur fengu að ráða eigin ræsi var lagt að stað aðeins á eftir áætlun á fyrsta degi göngunnar. Gengið var fram hjá Hreðavatni, upp Vikrafell og að Langavatni. Fjölbreytt landslag einkenndi fyrsta dag göngunnar sem var virkilega fallegur með  óvenju há tré, grýtt fjöll, mosagræna hóla, grasbrekkur, mýrlendi og falleg vötn. Skátarnir nýttu ótrúlega gott veður til þess að sóla sig, synda í vötnum og gengu í stuttbuxum og stuttermabolum alla leið. Helstu vandamálin á fyrsta degi voru tómir vatnsbrúsar, sólbruni og mýflugur sem eltu skátana upp holt og hæðir og áttu eftir að herja þau alla gönguna. Nestið var fjölbreytt og metnaðarfullt hjá skátunum, á göngunni voru flatkökurnar vinsælar ásamt hágæða hnetublöndum og í kvöldmat voru gerðar flottar núðlusúpur, bakaðar pizzur og pasta með ljúffengum ostum.

Göngudagur tvö var sá lengsti og lá um 23 kílómetra frá Langavatni til Hítarvatns. Á leiðinni þurftu skátarnir að vaða yfir á, klífa brattar brekkur í gegnum skarð, berjast við flugur og halda sér vel vökvuðum á heitum degi. Sumir skátanna ákváðu að skella sér á toppinn á Ok og fengu þar að njóta frábærs útsýnis áður en ský dró fyrir. Vatnaleiðin var ekki sú besta þegar kom að stikum og merkingum en skátarnir voru með hamar með í för til að laga skakkar stikur sem þau sáu, oftar en ekki þurftu þau að finna sína eigin leið með því að treysta á kort og kennileiti á leiðinni. Eftir langan dag komu þreyttir og vel teipaðir fætur, í boði Hansaplast, að skálanum við Hítarvatn. Þegar búið var að tjalda, teygja og borða dýrindis kvöldmat var tekinn stöðufundur með hópnum en veðurfræðingur hópsins spáði mikilli rigningu næsta dag og var ákveðið að vakna snemma til að reyna að sleppa við sem mest af henni.

Vekjaraklukkur byrjuðu að hringja klukkan sex næsta morgun og skátarnir komu hoppandi glaðir úr tjöldum sínum tilbúin að takast á við daginn. Síðasti göngudagurinn var 10 kílómetra leið frá Hítarvatni til Hallkellsstaðahlíðar við Hlíðarvatn. Eftir myndatöku stopp við magnað landslag Hítarvatns tók við mýri og löng brekka sem var öll hækkun dagsins. Hópurinn var kominn upp hálfa brekkuna þegar rigning og þoka mætti þeim en skátarnir gáfu þá bara í og drápu tímann með því að syngja skátasöngva og reyna að komast að því hver maðurinn var. Nokkrir skátar leituðu skjóls í helli þar sem tekin var stutt nestispása fyrir lokasprett að Hlíðarvatni en þar þurfti að vaða og gekk hópurinn síðasta kílómetrann á tám, tevum eða blautum skóm. Þegar komið var á leiðarenda leitaði hópurinn skjóls frá rigningunni inn í tjaldi sem frábærir sjálfboðaliðar höfðu reist. Restin af mótsstjórninni mætti svo á svæðið með fjöldann allan af búnaði svo hægt var að reisa almennilega tjaldbúð og matartjald. Eftir kvöldmat höfðu skátarnir það kósí inn í matartjaldi, spiluðu borðspil og spjölluðu. 

Tjaldbúðin var lengi á fætur næsta dag enda margir ansi þreyttir eftir langa göngu en eftir góðan morgunmat var fánastöng fljót að rísa ásamt og hengirúmi úr trönum. Skátarnir tókust svo á í góðum hópeflisleikjum, spiluðu spil, föndruðu og höfðu það almennt frekar notalegt. Yfir daginn bættust skátar við hópinn og voru í heildina 32 skátar frá Árbúum, Fossbúum, Garðbúum, Heiðabúum, Hraunbúum, Klakki, Kópum, Landnemum, Svönum, Vogabúum og Ægisbúum ásamt frábæru liði sjálfboðaliða. Vindur var yfir svæðinu og smá þoka svo skátarnir treystu sér ekki út á bát á vatninu, þessi þoka reyndist svo vera gosmengun og eftir að hafa hringt og ráðstafað okkur við gáfaðra fólk var tekin ákvörðun um að gista innandyra.

Þátttakendur eiga stórt hrós skilið fyrir hvernig þau tóku þessum fréttum. Með góðri samvinnu var sett heimsmet í frágangi á tjaldbúð, smalað í bíla og lagt af stað í Búðardal. Við erum ótrúlega þakklát Skátafélaginu Stíganda og Búðardal sem leyfði okkur að gista í grunnskólanum og nýta aðstöðuna þar.

Laugardaginn 19. júlí, vaknaði hópurinn í Auðarskóla og eftir morgunmat, morgunleikfimi og fánaathöfn dreif hópurinn sig í sund í Laugum í Sælingsdal. Mjög gott var að geta skolað af sér ferðarykið, slappa af í pottinum og leika sér í lauginni. Laugin var full þegar hópurinn mætti á svæðið en varð ansi tóm þegar hann fór af einhverjum ástæðum. Eftir sund heimsótti hópurinn Erpsstaði, gæddi sér á dýrindis ís og heilsaði upp á dýrin þar. Einnig var klifrað upp ganginn í skólanum á rúllustólum og spilað fleiri borðspil. Um kvöldið tók svo við söguleg kvöldvaka með frábærum kvöldvökustjórum, fallegum söng og sprenghlægilegum skemmtiatriðum sem stóð yfir í þrjá klukkutíma. Lokadagur ferðarinnar einkenndist að frágangi og þrifum. Eftir góða kveðjustund og merkjagjöf skiptist hópurinn í bíla og kom sér heim.

Við í mótsstjórn erum alsæl með þetta mót þó svo að það hafi ekki farið alveg eins og upphaflega var planað. Við viljum þakka öllum sjálfboðaliðum sem komu að þessu móti þar sem það hefði ekki getað orðið að veruleika án þeirra. Einnig viljum við þakka öllum frábæru þátttakendunum sem gerðu þetta mót svona skemmtilegt og tóku vel í allar breytingar og verkefni sem við hentum í þau. 

Skátakveðja,

Mótsstjórn Náttúrulegu 2025, Landsmóts Rekka-og Róverskáta.

 


Sjálfboðaliðar skátahreyfingarinnar velkomin í Skátamiðstöðina

Þann 5. desember næstkomandi er dagur sjálfboðaliðans og viljum við í Skátamiðstöðinni þakka okkar sjálfboðaliðum kærlega fyrir allt þeirra framlag til skátahreyfingarinnar og bjóða þeim að koma í Hraunbæ 123 og þyggja léttar veitingar kl. 15:00-17:00. 

Sjálfboðaliðar eru ómetanlegt afl sem drífur skátahreyfinguna áfram. Sem dæmi má nefna: sinna foringjastörfum, sitja í stjórn skátafélags, vera í baklandi, byggja upp og viðhalda skátaheimilum eða skátaskálum, stýra dagskrá á viðburðum, ganga frá og þrífa eftir viðburði, taka að sér hlutverk í ráðum og nefndum, yfirfara fjölmargar eldri minjar og gamlan búnað, elda ljúffengan mat fyrir aðra sjálfboðaliða og þátttakendur, slá gras, mála byggingar, klippa tré og setja upp skilti til að undirbúa stórviðburð, vera fararstjórar og sveitarforingjar á erlendum skátamótum, bjóða fram sína sérþekkingu og kunnáttu á skátafundum eða á fræðsluviðburðum.

Sjálfboðaliðar leika líka lykilhlutverk í rekstri útilífsmiðstöðvarinnar okkar á Úlfljótsvatni. Þangað koma árlega hátt í 30 erlendir sjálfboðaliðar sem dvelja í 3-9 mánuði hver og leggja ómælda vinnu í dagskrá, matseld, þrif og viðhald. Þegar á þarf að halda er svo fjöldinn allur af íslenskum sjálfboðaliðum sem er tilbúinn að stökkva til og lyfta grettistaki.
Meðal sjálfboðaliðaverkefna sem hafa verið unnin í ár eru ótal handtök í undirbúningi fyrir landsmót, svo sem við að mála hús, slá gras, hreinsa blómabeð, hengja upp skilti, leggja vatnslagnir, setja upp sturtur, leggja göngustíga, halda við tækjum og búnaði og margt, margt fleira.
Án sjálfboðaliða væri Úlfljótsvatn ekki sá staður sem það er í dag, og þeir munu halda áfram að vera mikilvægasti drifkrafturinn bakvið áframhaldandi uppbyggingu staðarins.

Augljóst er að án sjálfboðaliðanna okkar væri varla hægt að bjóða upp á spennandi, skemmtilegt og öflugt skátastarf og erfitt er að ná almennilega yfir öll þau fjölbreyttu verkefni sem sjálfboðaliðar hafa tekið að sér í gegnum árin.


Nýtt ungmennaráð kosið á ungmennaþingi

Ungmennaþing var haldið fyrstu helgina í febrúar á Akranesi þar sem kosið var í ungmennaráð Bandalag íslenskra skáta.  Fimm sæti voru laus til kjörs í ungmennaráði auk þess sem kosið var í stöðu sérstaks áheyrnafulltrúa ungmenna í stjórn BÍS. Þau ungmenni sem voru kosin í embætti og myndi því nýtt ungmennaráð eru:

  • Annika Daníelsdóttir Schnell - Skátafélagið Akraness
  • Grímur Chunkuo Ólafsson - Skátafélagið Fossbúar
  • Hafdís Rún Sveinsdóttir - Skátafélagið Fossbúar
  • Lára Marheiður Karlsdóttir - Skátafélagið Fossbúar - Áheyrnafulltrúi ungmenna í stjórn BÍS.
  • Þorkell Grímur Jónsson - Skátafélagið Garðbúar

Nýja ungmennaráðið hefur þegar hafið störf og héldu þau fyrsta ungmennaráðsfundinn strax í vikunni eftir ungmennaþing ásamt fráfarandi meðlimum sem munu vera nýja ráðinu innan handar fyrst um sinn.

Við óskum nýju ungmennaráði innilega til hamingju með kjörið og óskum þeim velfarnaðar í nýju hlutverki.


Grænir skátar leita að framkvæmdastjóra

 

Grænir skátar leita að framkvæmdastjóra í fullt starf. Um er að ræða fjölbreytt starf sem krefst bæði forystuhæfileika en auk þess vilja og hæfni til að sinna ýmsum verkefnum í daglegum rekstri. Fyrirtækið leggur áherslu á arðsaman rekstur og samfélagslega ábyrgð. Fyrirtækið stuðlar að sjálfbærni og náttúruvernd með starfsemi sinni og veitir einstaklingum með skerta starfsgetu atvinnutækifæri.

Helstu verkefni og ábyrgð:

  • Stýra daglegum rekstri fyrirtækisins og gæta jafnvægis milli fjárhagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta starfseminnar
  • Forysta og framkvæmd á nýlegri stefnumótun félagsins
  • Umsjón og ábyrgð með fjármálastjórn, þ.m.t. áætlanagerð, mælingum og eftirfylgni
  • Ábyrgð á að byggja upp og leiða fjölbreyttan hóp starfsmanna til árangurs
  • Innkaup á stærri rekstrarvörum
  • Ábyrgð á samskiptum við helstu samstarfsaðila og aðra hagsmunaaðila
  • Markaðs- og sölumál

Menntun og hæfnikröfur:

  • Farsæl reynsla af rekstri
  • Leiðtoga- og stjórnunarhæfileikar til að leiða einstakt fyrirtæki til árangurs
  • Hæfni til að styðja öflugan hóp starfsmanna til ábyrgðar og nýta mismunandi hæfileika allra starfsmanna óháð starfsgetu
  • Viðleitni til að sinna ýmsum úrlausnarefnum í daglegum rekstri
  • Háskólamenntun eða önnur menntun sem að nýtist í starfi

Um Græna skáta:
Grænir skátar er endurvinnslufyrirtæki í eigu Skátahreyfingarinnar á Íslandi. Helstu verkefni þess er söfnun skilagjaldsskyldra umbúða frá fólki og fyrirtækjum. Fyrirtækið rekur 150 söfnunargáma á stór-höfuðborgarsvæðinu, móttökustöð fyrir skilagjaldsskyldar umbúðir auk söfnunar- og flokkunarstöðvar. Hjá fyrirtækinu starfa 40 starfsmenn í 20 stöðugildum. Fyrirtækið hefur langa sögu af því að bjóða fólki með skerta starfsgetu atvinnu. Allur ágóði af starfsemi félagsins fer til uppbyggingar skátastarfs á Íslandi.

Umsóknarfrestur er til og með 28. janúar 2024.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Sævar Skaptason, stjórnarformaður Grænna skáta, saevar@heyiceland.is.

Umsókn skal fylgja ferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir áhuga á starfinu og rökstuðningur um hæfni til að geta sinnt starfinu með farsælum hætti.

Sæktu um hér


Sigurgeir rær á ný mið

Takk Sigurgeir,

Sigurgeir Þórisson hefur lokið störfum sem erindreki BÍS eftir fimm ára starf og kveðjum við hann með mikilli eftirsjá en að sama skapi miklu þakklæti fyrir gríðarlega gjöfult og faglegt samstarf.

Við óskum Sigurgeiri velfarnaðar í námi sínu og skilum til hans miklum þökkum fyrir allt sem hann hefur lagt af mörkum til þess að efla skátastarf á Íslandi.

Við bendum á að Sædís Ósk mun svara fyrirspurnum skátafélaga Sigurgeirs tímabundið, eða þar til að nýr erindreki tekur til starfa sem nú er unnið í að ráða.


Nýjar og breyttar reglugerðir stjórnar BÍS

Á árinu uppfærði stjórn BÍS nokkrar reglugerðir og samþykkti nýja sem talið var þörf fyrir og hafa þær nú verið birtar. Eins og 25. grein laga BÍS kveður á um getur stjórn BÍS sett reglugerðir um starfsemi innan BÍS og aðra þætti starfsins, eftir því sem þurfa þykir, efni þeirra skal rúmast innan laga BÍS og skulu þær kynntar aðildareiningum BÍS. Þær sem voru uppfærðar voru reglugerð um hæfi skátaforingja ásamt reglugerð um Landsmót skáta. Þá var samþykkt ný reglugerð um hæfi sjálfboðaliða.

Reglugerð um hæfi skátaforingja

Einhver mikilvægasta reglugerð skátastarfs var uppfærð lítillega til að ríma betur við samtímakröfur. Helstu atriði sem var breytt:

  • Textinn gerður kynhlutlaus.
  • Áréttað að félagseiningar skipa skátaforingja frekar en formenn stjórna þeirra.
  • Tvítekning um lögræði skátaforingja tekin úr 2. grein
  • Úrelt skilyrði fjarlægð m.a. um að einstaklingar skuli á sig komnir andlega að þeir séu færir um að gegna störfum tekið út og krafa um að einstaklingur hafi forræði yfir búi sínu sem hafi ekki verið til gjaldþrotaskipta sl. 2 ár.
  • Skilyrði um færni uppfærð til að spegla kröfur um ráðningar ábyrgðaraðila fyrir æskulýðsstarf í Æskulýðslögum.
  • Nákvæmara tungumál um hvaða brot það eru sem koma í veg fyrir að einstaklingur megi starfa í Æskulýðsstarfi samkvæmt lögum.
  • Skilyrði um undirritun upplýsingaröflunar úr sakaskrá áréttuð.
  • Setning um hvernig félagsforingi þurfi að afla leyfis BÍS til að taka við því embætti fjarlægð. Félagsforingjar sækja umboð til aðalfunds síns félags að því gefnu að þau uppfylli skilyrði í lögum BÍS um hlutverkið. Ekki talið endurspegla verklag í nútíma og ekki talið eiga heima í þessari reglugerð.
  • Í þriðju grein hvatt til þess að skrifleg samkomulög séu gerð við skátaforingja í stað fyrra orðalags um að félög gæfu út skipunarbréf, til að endurspegla það verklag sem BÍS talar fyrir í dag.
  • Í fjórðu grein áréttað að skátahreyfingunni sé skylt að vísa skátaforingja úr starfi ef þau gerast brotleg í því, í stað fyrra orðalags um að afturkalla skipunarbréf viðkomandi.
  • Fimmta grein um hvernig veita megi undanþágu frá öðrum greinum reglugerðarinnar tekin út. Undanþágur skulu ekki veittar frá þessum kröfum.

Reglugerð um hæfi sjálfboðaliða

Þar sem reglugerðin um hæfi skátaforingja nær í raun eingöngu til þeirra sem leiðbeina í skátastarfi með börnum þá hefur samskonar reglugerð verið samþykkt af stjórn BÍS.

Reglugerð um Landsmót skáta

Talin var ástæða til að uppfæra reglugerð um landsmót og voru breytingarnar unnar í nánu samstarfi við skátafélagið Klakk. Breytingar fela í sér:

  • Tilmælum um ólíka þátttöku mismunandi aldurshópa breytt. Í stað þess að hvetja gegn þátttöku yngri skáta er hvatt til hennar.
  • Fest í reglugerð að mótið fari fram á Hömrum og Úlfljótsvatni á víxl í stað þess að stjórn sé falið að ákvarða staðsetningu í kjölfar ábendinga frá Skátaþingi.
  • Grein um sérstaka undirbúningsnefnd og allar tilvísanir til hennar teknar úr reglugerð þar sem ekki hefur verið stuðst við slíka í langan tíma.
  • Breytingar á ákvæðum um skipun mótstjórnar, fjármálastjóri BÍS sé héðan af fjármálastjóri mótsins og krafa um að minnst einn í mótstjórn sé af landsbyggðinni.
  • Tímarammi í 3. grein styttur úr 18 mánuðum í 15. Einnig áréttað að mótstjórn skuli tryggður aðgangur að gögnum fyrri móta.
  • Orðalag um fjármagn til mótstjórnar á undirbúningstíma gert opnara.
  • Tímasetning Landsmóta skáta fest við miðjan júlí.
  • Ný krafa sett um dagskrá sem hefur tengsl við heimsmarkmið sameinuðu þjóðana.

Reglugerðirnar eru samkvæmt skilyrðum 31. greinar laga BÍS ávallt aðgengilegar á sérstöku vefsvæði á heimasíðu skátanna ásamt öðrum gildandi reglugerðum.


Privacy Preference Center