Yngsta Ungmennaráðið til þessa

Helgina 7-9. febrúar var Ungmennaþing 2025 haldið. Upprunalega átti það að vera í Stykkishólmi en vegna veðurs var það fært í Skátaheimili Vogabúa. Þingið sjálft fór hins vegar fram í Skátamiðstöðinni. 

Á föstudaginn mættum við um kl. 20:00 í Skátafélag Vogabúa. Við komum okkur fyrir, settum mótið og fórum svo stuttu eftir að sofa. 

Á laugardeginum var vaknað um kl. 09:00 og farið í morgunmat, síðan var lagt af stað í strætó upp í Skátamiðstöðina þar sem þingið var haldið. Á þinginu var farið yfir áskoranir og lagabreytingatillögur t.d. Skátafrakka, fleiri útilegur fyrir Rekka- og Róverskáta og að hækka lágmarks aldur Ungmennaráðs. Einnig var kosið í Ungmennaráð og Áheyrnarfulltrúa Ungmenna. Í hádegismat voru tortillur. Þingið stóð í sjö tíma. 

Þegar komið var aftur í Vogabúa heimilið voru hamborgarar í kvöldmat. Horft var á söngvakeppnina, spilaður foosball og voru allir mjög pepp. Síðan var farið í karaoke keppni. 

Ræs var á svipuðum tíma á sunnudeginum og svo beint í frágang. Það var haldið uppboð til þess að losna við allan mat sem eftir var. Af því loknu var mótinu slitið og þau sem vildu fóru í sund!

Eins og á hverju ári var kosið í nýtt Ungmennaráð. Núna eru komnir þrír nýir meðlimir:
Emil Kjartan Valdimarsson - Ægisbúi,
Ragnar Eldur Jörundsson - Ægisbúi
og
Ragnheiður Óskarsdóttir - Kópur.
Meðlimir sem sitja áfram eru:
Þorkell Grímur Jónsson - Garðbúi og
Hafdís Rún Sveinsdóttir - Fossbúi
.

Þetta er yngsta Ungmennaráð sem hefur verið, þar sem 4 meðlimar þess eru Dróttskátar!

Einnig var kosinn Áheyrnarfulltrúa ungmenna. Það var aðeins einn frambjóðandi þar og eftir stuttar og einfaldar kosningar var Einar Tryggvi Petersen - Árbúi kosinn nýji Áheyrnarfulltrúi ungmenna.


Fundarboð Skátaþings 2025

Með bréfi þessu boðar stjórn Bandalags íslenskra skáta til Skátaþings 2025.

Þingið verður haldið dagana 4.-6. apríl í Víðistaðaskóla, Hafnarfirði. Þingið hefst með setningu kl. 19:00 föstudaginn 4. apríl og lýkur sunnudaginn 6. apríl kl. 13:00. Aðstaðan opnar kl. 17:00 og frá þeim tíma er hægt að fá þinggögn afhent. Vakin er athygli á að ekki verður boðið upp á kvöldmat á föstudegi. Skátafélagið Hraunbúar er gestgjafi þingsins.

Dagskrá þingsins er skv. 21. grein laga BÍS og kosið verður í embætti gjaldkera og tveggja meðstjórnenda skv. 23. grein laga BÍS. Vakin er athygli á því að skv. 21. grein laga BÍS er ekki kosið í fastaráð að þessu sinni.

Einnig er rétt að vekja athygli á greinum 18-20 í lögum BÍS sem fjalla um Skátaþing. Starfandi skátar hafa rétt til að sitja Skátaþing með málfrelsi og tillögurétt óháð aðildarleið. Fulltrúar skátafélaga með aðild A fara með 4 atkvæði, þar af skal eitt atkvæði bundið félagsforingja eða öðrum stjórnarmeðlim skátafélagsins í hans stað og æskilegt er að minnst eitt atkvæði sé í höndum einstaklings á aldrinum 13-25 ára.

Öll sem hyggjast taka þátt skulu skv. 18. grein laga BÍS skrá sig á skraning.skatarnir.is fyrir kl. 19:00 þann 28. mars. Félagsforingjar eða annað stjórnarfólk skátafélaganna skal skila kjörbréfum rafrænt fyrir setningu þingsins. Kjörbréf tilgreina hver fara með atkvæði fyrir hönd félagsins. Hægt verður að fylgjast með þinginu rafrænt í gegnum steymi en rafræn þátttaka verður ekki möguleg að þessu sinni.

Þátttökugjald er 12.900 kr., innifalin eru þinggögn, léttar veitingar á föstudagskvöldi, morgunverður og  hádegisverður bæði á laugardegi og sunnudegi ásamt almennri dagskrá sem boðið verður upp á samhliða þinginu.

Skráning og upplýsingar um gistingu í Hraunbyrgi sem og hátíðarkvöldverð á laugardegi verða auglýst sér, á Abler og á upplýsingasíðu skátaþings.

 

Eftirfarandi embætti eru laus til kjörs á Skátaþingi 2025:

Stjórn
Gjaldkeri
Tveir meðstjórnendur
Kjörin á Ungmennaþingi 2025

Áheyrnarfulltrúi ungmenna í stjórn BÍS
Fimm sæti í ungmennaráði

Framboðstilkynningar og tillögur um fólk í þessi hlutverk óskast sendar hið fyrsta og eigi síðar en 14. mars kl. 19:00 á netfangið uppstillingarnefnd@skatarnir.is. Með fundarboði fylgir tilkynning frá Uppstillingarnefnd þar sem finna má nánari upplýsingar og lýsingu á hverju hlutverki fyrir sig.

Sérstök athygli er vakin á því að ekki er hægt að skila framboðum á þinginu sjálfu.

Uppstillingarnefnd skipa:
Hafdís Bára Kristmundsdóttir s. 617-1591 barahafdis@gmail.com
Ásgeir Ólafsson s. 844-4069 asgeir@hraunbuar.is
Reynir Tómas Reynisson s. 698-6226 reynirtomas@gmail.com
Ingimar Eydal s. 862-2173 ingimar.eydal@simnet.is
Dagbjört Vatnsdal Brynjarsdóttir s. 862-4605 dagga@mosverjar.is

Mikilvægar dagsetningar fram að Skátaþingi:

Rétt er að vekja athygli á eftirfarandi dagsetningum fram að þingi samkvæmt gildandi lögum BÍS.  

  1. febrúar kl. 19:00 - Fresti til að boða til Skátaþings lýkur.
  2. mars kl. 19:00 Fresti til að skila tillögum að lagabreytingum til stjórnar BÍS lýkur.
  3. mars kl. 19:00 Framboðsfrestur í laus embætti stjórnar BÍS rennur út.
  4. mars kl. 19:00 Fresti til að skila beiðnum um upptöku mála á Skátaþingi til stjórnar BÍS lýkur.
  5. mars kl. 19:00 Fresti stjórnar BÍS til að senda félagsforingjum þinggögn og drög að dagskrá Skátaþings lýkur.
  6. mars kl. 19:00 Fresti til að skila athugasemdum um útsend gögn til Skátamiðstöðvarinnar lýkur.
  7. mars kl. 19:00   Skráning á Skátaþing lýkur.
  8. apríl kl. 19:00 Fresti skátafélaga til að skila gögnum og kjörbréfum til Skátamiðstöðvarinnar lýkur.
  9. apríl kl. 19:00   Skátaþing er sett.

Upplýsingasíðu Skátaþings má finna á skatarnir.is/skatathing. Þar verður öllum gögnum hlaðið upp þegar þau berast og í síðasta lagi fyrir tilgreindan frest samkvæmt lögum. Öll þinggögn verða aðgengileg þar á rafrænu formi fyrir setningu Skátaþings.

Reykjavík,  21. febrúar 2025
Fyrir hönd stjórnar BÍS

Harpa Ósk Valgeirsdóttir
Skátahöfðingi

 


Tilkynning uppstillinganefndar vegna Skátaþings 2025

Sækja tilkynningu á PDF formi

Tilkynning frá uppstillingarnefnd BÍS vegna Skátaþings 2025

Reykjavík 19. febrúar 2025

Á Skátaþingi helgina 4.-6. apríl n.k. verður kosið í neðangreind embætti í samræmi við lög BÍS.
Uppstillingarnefnd hvetur skáta sem hafa áhuga og hugsjónir fyrir skátastarfi í landinu að skoða þau embætti sem eru laus til kjörs, að gefa kost á sér til starfa og hvetja aðra til þess. Lýsingar á þeim embættum sem kosið er í má finna neðst í þessari tilkynningu.

Athygli skal vakin á eftirfarandi:

  • Kosning fer fram á Skátaþingi og skal vera kosið í embætti skátahöfðingja og þriggja meðstjórnenda á sléttutöluári en í embætti gjaldkera og tveggja meðstjórnenda á oddatöluári
  • Við kosningu í stjórn BÍS er kosið sérstaklega um gjaldkera en tveir meðstjórnendur eru kosnir í einni kosningu
  • Kosið var í ungmennaráð (13 - 25 ára) og áheyrnarfulltrúa ungmenna í stjórn BÍS á ungmennaþingi 7. - 9. febrúar.
  • Uppstillingarnefnd skal leita eftir fólki til starfa fyrir Bandalag íslenskra skáta samkvæmt því sem fram kemur í 16. grein, 19. grein, 23. grein, 26. grein og 27. grein laga þessara og tryggja að í hvert laust sæti sé a.m.k. einn frambjóðandi.

Uppstillingarnefnd skipa:

Reynir Tómas Reynisson, formaður698-6226reynirtomas@gmail.comSkátafélagið Garðbúar
Ásgeir Ólafsson844-4069asgeir@hraunbuar.isSkátafélagið Hraunbúar
Dagbjört Brynjarsdóttir862-4605dagga@mosverjar.isSkátafélagið Mosverjar
Hafdís Bára Kristmundsdóttir617-1591barahafdis@gmail.comSkátafélagið Vífill
Ingimar Eydal862-2173ingimar.eydal@simnet.isSkátafélagið Klakkur

Eftirtalin embætti eru laus til kjörs á Skátaþingi 2025:

Stjórn
Gjaldkeri
Tveir meðstjórnendur
Áheyrnarfulltrúi ungmenna var kosinn á ungmennaþingi 7. - 9.  febrúar.
 
Fastaráð og aðrar nefndir
Fimm sæti í ungmennaráði voru kosin á ungmennaþingi 7.- 9. febrúar.
 
Framboðstilkynningar og tillögur um fólk í þessi embætti óskast sendar uppstillingarnefnd hið fyrsta og eigi síðar en 14. mars kl. 19:00.

Tilkynningar um framboð þurfa að berast í tölvupósti á netfang uppstillingarnefndar uppstillingarnefnd@skatarnir.is.

Sérstök athygli er vakin á því að ekki er hægt að skila framboðum á þinginu sjálfu.

 

Hér eru skýringar um helstu verkefni sem þau embætti sinna sem kosið verður í á Skátaþingi. Athugið að þetta eru ekki tæmandi listar og verkefnin geta verið jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Ennfremur starfa ráð oft saman að ýmsum verkefnum.

Stjórn

Gjaldkeri situr í stjórn BÍS.  Hann ber m.a. ábyrgð á fjármálum BÍS og vinnur náið með framkvæmdastjóra hreyfingarinnar að stjórn þeirra, framkvæmd fjáraflana, vinnslu bókhalds, áætlanagerð o.þ.h.

Meðstjórnendur (2): Sitja í stjórn BÍS sem skiptir með sér verkum og ber m.a. sameiginlega ábyrgð á starfi stjórnar, ráða og nefnda. Sitja eftir atvikum í fastaráðum samkvæmt ákvörðun stjórnar.

Áheyrnarfulltrúi ungmenna hefur áheyrnarrétt í stjórn BÍS en ekki atkvæðisrétt. Kosið er í embættið á ungmennaþingi.

Fastaráð og aðrar nefndir

Hlutverk ungmennaráðs er að hvetja til og auka ungmennalýðræði innan stjórnkerfis hreyfingarinnar og stuðla að virkri þátttöku ungmenna við stefnumótun eigin skátastarfs og hreyfingarinnar. Kosið er í ráðið á ungmennaþingi.

 


Komdu með, vekjum athygli saman

Bandalag íslenskra skáta er að fara í framleiðslu á mynd-og auglýsingaefni þar sem áherslan verður lögð á skáta og skátastarf. Nú leitum við að áhugasömum einstaklingum sem vilja taka þátt í þessu stóra spennandi verkefni með okkur.

Við leitum af skátum á öllum aldri og af öllum kynjum sem hafa áhuga á leiklist, tónlist, sminki eða öðru skemmtilegu sem gæti nýst.

Haldin verður kynningafundur fyrir þátttakendur og önnur áhugasöm á næstunni og verður hann auglýstur sérstaklega.

Áhugasöm eru beðin um að fylla út umsókn og senda á Ragnar Þór framkvæmdarstjóra og Halldóru Aðalheiði kynningamálastýru.


Nýjungar á heimasíðu Skátanna

Undanfarin misseri hefur verið unnið að úrbótum á heimasíðu Skátanna. Heimasíðan hefur fengið litlar og stórar en nauðsynlegar upplyftingar ásamt því að upplýsingar og efni hefur verið einfaldað og gert aðgengilegra fyrir öll. Einnig hefur verið unnið að því að koma áður birtu efni ásamt nýju efni inn á heimasíðuna, en sú vinna er enn í gangi og mun halda áfram jafnt og þétt.

Við mælum með að vafra um síðuna til að kynnast henni og læra á hana þar sem eitthvað hefur færst til í þessum breytingum.

Það sem er nýtt á síðunni er:

Undir "Um okkur" hafa birst tveir nýjir undirflokkar sem eru "Öryggi í skátastarfi" og "Útgefið efni" ásamt flestu því efni sem þar er undir en einnig er þar reglulega efni að bætast við.

Undir "Verkfærakista" hefur "Bakpokinn" verið uppfærður og fengið nýja undirkafla. Þar má helst nefna "Dagskrárbankann" en þar munu bætast við gömul verkefni af gömlu skátamál síðunni ásamt nýjum og spennandi verkefnum frá ykkur. Hér má senda inn hugmyndir að dagskrárefni sem væri hægt að setja þar inn.

Ef farið er í "EN" í valmyndinni birtist síða með ýmsum nytsamlegum upplýsingum fyrir erlenda skátahópa sem vilja koma í heimsókn til Íslands en einnig fyrir skáta með annað móðurmál og vilja kynnast íslensku skátastarfi og finna skátafélag.


Vetrarskátun á Úlfljótsvatni

Vetrarmót Reykjavíkurskáta var haldið í níunda sinn í útivistarparadísinni á Úlfljótsvatni um helgina. Þema mótsins að þessu sinni var heimskautaferðalangar.

Um 150 skátar skemmtu sér konunglega í frábæru veðri. Á föstudagskvöldið var setning þar sem skátarnir bjuggu til kyndla og kveiktu upp í stórum varðeld og kyrjuðu skátalög.

Að því loknu fóru eldri skátarnir að reisa tjaldbúðir til að gista í og á meðan fóru yngri skátarnir í dýrindis skátakakó og kex.

Á laugardeginum var fjölbreytt skátadagskrá þar sem tekist var á við klifurturninn, eldað hikebrauð yfir opnum eldi, byggt snjóhús, grunnur í snjóflóðafræðum var kennd en það sem stóð uppúr hjá skátunum var sleðabrekkan þar sem var rennt sér niður á öllu því sem hendi var næst. Gleðin var á hverju andliti þegar þau renndu sér niður brekkuna í frábærum vetraraðstæðum.

Fálkaskátar komu í dagsferð á laugardeginum en vegna slæmrar færðar á leiðinni austur var farið góða skoðunarferð um suðurlandið í gegnum Laugarvatn á leiðinni á Úlfljótsvatn en Fálkaskátarnir voru hamingjusamir þegar loksins var komið á Úlfljótsvatn og tóku þátt í póstaleiknum og í lok dagsferðar var kvöldvaka með skátakakó, snúðum og gómsætum kökum.

Boðið var upp á glæsilegan kvöldverð að hætti Arthurs gjaldkera SSR og eftir hann tók við næturleikur þar sem skátarnir þurftu að fanga góðar mörgæsir og forðast vondar mörgæsir til þess að fá hráefni til þess að búa til risa skilti til þess að senda neyðarboð til þess að komast aftur heim frá suðurskautinu.

Á sunnudaginn var frágangur á staðnum og stórleikur þar sem skátarnir tókust á í „capture the flag“ en sleðabrekkan var áfram afar vinsæl. Mótinu var síðan slitið með Bræðralagssöng og félögin fengu þátttökuviðurkenningar sem voru glæsilegir skildir í tilefni 10 ára afmælis vetrarmóts. Við brottför fengu skátarnir svo afhent mótsmerki fyrir vel unnin skátastörf um helgina.

Markmið með Vetrarmóti Reykjavíkurskáta er fyrst og fremst að kenna ungum skátum að takast á við fjölbreyttar áskoranir að vetrarlagi og að efla samstarf milli skátafélaganna í Reykjavík. Sjálfboðaliðar úr skátafélögunum sjá um undirbúning og framkvæmd mótsins og eiga þau hrós skilið fyrir frábært vetrarmót og spennandi dagskrá.


Árangur, ævintýri og undirbúningur: Crean 2025 tekur síðustu skrefin fyrir stóru ferðina!

Crean 2025 sveitin er á lokasprettinum í undirbúningi sínum fyrir hina stóru ferð í febrúar. Helgin sem leið var stór áfangi, þar sem skátarnir komu saman við Skátalund í Hafnarfirði, tóku þátt í vetrarfærnis kynningum, gistu í tjöldum í -3° frosti og gengu 18km til Bláfjalla. Núna er ljóst að þau eru vel undirbúin fyrir það sem fram undan er.


Vikan í febrúar, Ævintýrið sem sameinar

Vikan í febrúar, þar sem sveitin mun sameinast 32 írskum skátum við Úlfljótsvatn, verður stútfull af ævintýrum, fræðslu og þjálfun í vetrarfærni. Skátarnir munu læra um Tom Crean, írskan suðurskautsfara, og hetjudáðir hans, sem er mikill innblástur í þessari áskorun. Auk þess munu þau fá þjálfun í rötun og kortalestri, vetrarfærnin tekur einnig á mikilvægum þáttum eins og snjóflóðum, félagabjörgun, ganga í mannbroddum, byggja snjóhús og að draga púlku.
Ekki má gleyma að ferðin er líka tækifæri til að efla vináttu og læra hvert af öðru. Skátarnir munu einnig kynnast menningu og sögu landa hvor annars í gegnum fræðslu, samskipti og samverustundir. Þetta mun dýpka skilning þeirra og auka enn frekar ríkidæmi þessa ævintýris.
Til viðbótar við þessa þjálfun mun sveitin fara í tvær upphitunargöngur í nágrenni Úlfljótsvatns og gista tvær nætur í tjaldi. Þetta verður einstakt tækifæri til að prófa búnað, byggja upp reynslu og auka sjálfstraustið fyrir stóra daginn.
Ferðin endar með göngu frá Úlfljótsvatni í skátaskálana á Hellisheiði, þar sem hópurinn mun hvíla sig og fagna vel unnu verki. Þaðan verður ferðinni haldið áfram til Reykjavíkur, þar sem henni verður lokið með hátíðlegri athöfn og pizzaveislu – fullkominn endir á þessari mögnuðu áskorun. Vetraráskorunin Crean er einstakt verkefni sem sýnir hvað hægt er að ná þegar unnið er saman með ástríðu og þrautseigju.


Dagskrárbankinn stækkar með þinni hjálp

Saman getum við hjálpast að og búið til stóran og flottan dagskrárbanka. Vegna fjölda áskorana hefur Skátamiðstöðin tekið af skarið og byrjað að setja inn efni. Við vitum að skátar og skátaforingjar eiga mikið af spennandi dagskrárefni í bakpokanum sínum sem gæti nýst öðrum. Hér getur þú skoðað efnið sem er komið inn núþegar!

Villt þú hjálpa til við að stækka dagskrárbankann? Þú getur fyllt út formið eða sent póst á skatarnir@skatarnir.is með þínum hugmyndum!

Hvaða aldursstigi hentar verkefnið? Hvað tekur verkefnið langan tíma? Hvaða búnað þarf?
Drag & Drop Files, Choose Files to Upload
Ef þú villt, getur þú hlaðið upp viðhengi hér.

 


Kolbrún Ósk rær á ný mið

Kolbrún Ósk Pétursdóttir mun í byrjun janúar hætta sem starfsmaður Skátamiðstöðvarinnar og Skátamóta. Kolbrún hefur unnið ötult og glæsilegt starf sem viðburðastýra BÍS, mótsstjóri Landsmóts skáta 2024 á Úlfljótsvatni og stutt fararhópa og aðra viðburði á vegum BÍS.

Með þakklæti í hjarta kveðjum við Kolbrúnu Ósk og óskum henni velfarnaðar í nýjum ævintýrum í leik og starfi. Takk fyrir alla þá vinnu sem þú hefur veitt skátastarfi á Íslandi.


Privacy Preference Center