Hátíðarkvöldvaka 2. nóvember

Hátíðarkvöldvaka 2. nóvember

Hróp og söngur dundu um samkomusal Ráðhúss Reykjavíkur þann 2. nóvember síðastliðinn þegar kátir skátar á öllum aldri komu saman til að fagna 110 árum frá upphafi skátastarfs á Íslandi  og 100 árum frá upphafi kvennskátastarfs á Íslandi.

Skátasamband Reykjavíkur ásamt Bandalagi íslenskra skáta héldu utan um hátíðarkvöldvöku í tilefnis tímamótanna. Skátar komu víða að á eigin vegum eða með sínu félagi.   Skátahöfðingi setti kvöldvökuna og Helena Sif Gunnarsdóttir fulltrúi 100 ára afmælisnefndar kvennskáta kynnti upphaf kvennskátastarfs fyrir kvöldvökugestum.  Dróttskátar frá skátafélaginu Hraunbúum stigu á stokk með tjald skemmtiatriði og skátaflokkurinn Hrefnurnar komu með eitt gamalt og gott skemmtiatriði um hann lata Gvend.  Að lokinni kvöldvöku var boðið upp á kakó og kex að skáta sið og rabbað var um skemmtilegar minningar úr starfinu.

Hægt er að nálgast upptöku kvöldvökunnar hér:

Sérstakar þakkir fá kvöldvökustjórarnir Agnes, Gunnhildur Ósk, Magnea og Sunna Dís. Undirleikararnir Eðvald Einar, Guðmundur Páls, Harpa Ósk og Sigurður Viktor.
Undirleikarar í rólegu lögunum Ragnheiður Silja og Védís
Hljóð og mynd: Haukur Harðarson (Hljóðx)


Kröftugar konur Íslandssögunnar þema Fálkaskátadagasinns í ár

Sunnudaginn 6.nóvember tóku um 80 vaskir 10-12 ára skátar þátt í fálkaskátadeginum sem að þessu sinni var tileinkaður 100 ára afmæli kvennskátastarfs.  Skátafélagið Mosverjar í Mosfellsbæ voru umsjónarfélag dagsins og settu upp 12 spennandi verkefnapósta þar sem varpað var ljósi á konur sem hafa skarað fram úr á sínu sviði á Íslandi allt frá Hallgerði Langbrók til Vigdísar Finnbogadóttur og Annie Mist.

Dagskráin hófst á miðbæjartorgi Mosfellsbæjar þar sem skátafélög mættu með vel búna skáta enda veðrið nokkuð kalt.  Hópurinn fékk kynningu á lífi og störfum Lady Olive Baden-Powell og upphafi skátahreyfingarinnar.

Dagskrárpóstum hafði verið dreift um bæinn og þurfti hver flokkur að velja sér sína leið.  Ratleikurinn gekk út á að stofnandi kvennskátastarfs í heiminum Lady Baden-Powell væri að safna saman kröftugum íslensku konunum í skátaflokkinn sinn og þurftu flokkarnir að takast á við áskoranir í nafni þekkra kvenna.  Til dæmis þurftu þau að draga einn stærsta björgunarsveitarbíl landsins í nafni Annie Mist og búa til grímu úr náttúrulegum efnum í anda Bjarkar Guðmundsdóttur.  Auk þess voru verkefni í ætt við kassaklifur, baka pönnukökur á kókdós og semja skátalag.

Í lok dags hópuðust flokkarnir aftur saman á miðbæjartorginu þar sem heitt kakó beið þeirra og farið varið í nokkra leiki áður en farið var heimleiðis.

 


100 ára afmælisár kvenskáta á Íslandi

Í tilefni af 100 ára afmæli kvenskátastarfs á Íslandi ætlum við að varpa sérststöku ljósi á sérstöðu kvenskátastarfs í heiminum:

Nóvember - sameiginleg hátíðarkvöldvaka með SSR 2.nóvember í ráðhúsi Reykjavíkur.
Sérstaklega miðuð að skátafélögunum, börnum og ungmennum en allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Desember - Vörpum ljósi á Friðarloga verkefnið á vegum st. Georgs gildanna og hvetjum til þátttöku

Janúar - Kynnum sérstaklega leiðtogamódel WAGGGS á Neista og á fyrstu helgi Gilwell.

Febrúar - Thinking day dagskrárpakki WAGGGS verður unninn í öllum skátafélögum. Sérstök hátíðardagskrá tileinkuð sögu kvenskátastarfs og sýning á munum tengdum starfinu verður haldin 19.febrúar


Tíðindi frá félagsforingjafund

Haustfundur félagsforingja BÍS var haldinn í Hraunbæ 123 4. október síðastliðinn.

Þar var farið yfir stöðu mála á skrifstofunni, rætt um samning skátanna við Sportabler, farið yfir niðurstöður ánægjukönnunar BÍS, ný viðbragðsáætlun Æskulýðsvetvangsins var kynnt, og skipun mótsstjóra landsmóts skáta 2024 var tilkynnt.

Af starfsmannamálum skrifstofunnar var það helst að Helga Þórey Júlíudóttir framkvæmdastjóri BÍS hefur látið af störfum og mun Harpa Ósk skátahöfðingi stíga tímabundið í stöðu hennar meðan á ráðningarferli stendur.  Auglýst verður eftir nýjum framkvæmdastjóra fljótlega.   Önnur starfsmannamál skrifstofunnar haldast óbreytt. Helstu verkefni skrifstofunnar voru kynnt en framundan eru spennandi tímar þar sem endurgerður starfsgrunnur BÍS mun brátt líta dagsins ljós og síðustu mánuði hefur leiðbeinendasveitin hafið námskeiðahald fyrir ungmenni innan skátahreyfingarinnar.  Þátttaka í nýju námskeiðunum hefur verið mjög góð.

Rætt var um þann samning sem BÍS hefur með skráningar- og miðilskerfinu Sportabler. Núna er sá prufusamningur sem BÍS gerði við skráningarfyrirtækið að renna út og breytast í hefðbundinn samning. Mun sú breyting hafa í för með sér mánaðarlegan kostnað og ræddir voru möguleikar þess að félögin muni þurfa að greiða árgjald til að bera kostnað af sínum hluta samningsins. Umræða félags- og aðstoðarfélagsforingja um Sportabler var jákvæð, og lýsti fólk yfir ánægju með kerfið í samanburði við fyrra skráningarkerfi.  Einnig var lýst yfir ánægju með leiðbeiningar fyrir skráningarkerfið sem erindrekar BÍS hafa útbúið og dreift til félaganna.

Send var út ánægjukönnun á þátttakendur skátastarfs í vor. Þar var forráðafólk beðið um að svara spurningum um upplifun barna sinna í starfinu. Niðurstöður könnunarinnar voru kynntar á fundinum og var þar helst minnst á ánægju forráðafólks með útivist og gildi skátastarfs í lífi barna sinna. Forráðafólk óskaði eftir meiri útivist, fleiri útilegum, og að upplýsingar um starfið bærist bæði í gegnum Sportabler og með tölvupósti.

Ný viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins verður birt 8. nóvember og fengu félagsforingjar stutta kynningu á efnistökum.  Skátar hafa lengi starfað eftir viðbragðsáætlun ÆV og hafa lagt mikið af mörkum við uppfærslu þeirrar nýju.

Kolbrún Ósk Pétursdóttir hefur verið skipuð mótsstjóri Landsmóts skáta 2024.  Mótið verður haldið á Úlfljótsvatni 12-19.júlí 2024.  Kolbrún Ósk hefur strax hafist handa við að búa til mótsstjórn og munu nánari upplýsinga vera að vænta fljótlega.


Skátarnir hljóta höfðingjalega gjöf

Lionsklúbburinn Muninn og Lionsklúbburinn Ýr færðu Skátunum að gjöf 114 gerðarleg borð með samanfellanlegum fótum í minningu hjónanna Friðriks Haraldssonar og Steinu Haraldsdóttur. Þessi borð munu koma sér vel víða um land hjá skátafélögunum sem og á Úlfljótsvatni. Skátahreyfingin sendir þeim miklar þakkir fyrir!


Dróttskátar í þúsund metrum

Ds. Fimmvörðuháls hófst með því að hátt í 30 dróttskátar ásamt foringjum lögðu af stað í ævintýri seinnipart föstudagsins 10. júní, full eftirvæntingar með stútfulla bakpoka. Hópur með sameiginlegt markmið: Ganga yfir Fimmvörðuháls á tveimur dögum í hópi skemmtilegra dróttskáta. Við í foringjahópnum settum markið ennþá hærra: að koma öllum alla leið heilum á húfi og brosandi.

Hópurinn lagði af stað um klukkan 16 frá Skógarfossi og tók fyrsti hjallinn á, en því var bjargað með því að stilla vel bæði bakpokann og höfuðið. Hópurinn hélt síðan áfram og var stefnan sett á Baldvinsskála og Fimmvörðuskála þar sem átti að gista eina nótt í 800 eða 1.000 metra hæð. Á leiðinni skoðuðum við þrjátíu og eitthvað fossa sem sannarlega glöddu augað.

Leiðin upp tók á alla bæði líkamlega og andlega en ýmsar leiðir voru nýttar meðal dróttskátanna til að koma sér upp. Einhverjir fóru í hláturjóga, sumir gengu alltaf fyrstir, aðrir sungu og svo tóku nokkrir að sér að vera í peppliðinu.

Þegar klukkan var orðin eitt eftir miðnætti sáum við loksins skálana og hresstust ansi margir við það, en mörgum fannst þetta engan endi ætla að taka, enda allir með þunga bakpoka á bakinu og hækkunin mikil. Tilfinningin að sjá jökultoppana og skálanna þar á milli, í bjartri sumarnótt, er eiginlega ólýsanleg.

Helmingurinn af hópnum renndi sér í átt að Baldvinsskála og hinn helmingurinn í átt að Fimmvörðuskála. Hópurinn í Baldvinsskála var kominn í hús um tvöleytið en Fimmvörðuskálahópurinn um klukkan þrjú. Skálaverðir tóku óvænt á móti hópunum en allir komust loksins í poka og sváfu til morguns.

Hópurinn úr Baldvinsskála lagði af stað fyrr morguninn eftir og hittust hóparnir uppi á hálsinum í þúsund metra hæð. Á laugardeginum var stefnan sett á Bása með viðkomu hjá Magna og Móða, nýjum tindum sem urðu til í eldgosi 2010 og eru því yngri en dróttskátarnir. Ferðin niður gekk hraðar að mörgu leyti. Fjölbreytt umhverfi og að sjá niður í Þórsmörkina hjálpaði öllum að muna eftir markmiðinu.

Brattafönn var hápunktur göngunnar fyrir marga. Mikil lækkun á mjög stuttum tíma. Skálaverðir höfðu útvegað nokkra plastpoka sem voru nýttir í að gera upplifunina ennþá skemmtilegri. Allir renndu sér niður brekkuna á sínum hraða með bros á vör og stundum snjó í andlitinu.

Síðan tók við Heljarkamburinn þar sem einnig var töluvert af snjó. Hópur nýliða í björgunarsveit var aðeins á undan okkur og gerði leiðina greiðari fyrir okkur meðfram hlíðinni þar sem við fikruðum okkur eftir keðjum og klifurlínum. Heppnin alveg með okkur.

Það voru síðan glaðir dróttskátar sem gengu yfir Kattahryggi og alveg niður í Bása. Allir höfðu lagt af stað saman og kláruðu saman. Í Básum voru frábærir foringjar búnir að tjalda flestum tjöldunum og gera klárt á grillið. Tók því á móti okkur kvöldmatur og standandi tjöld sem var kærkomið fyrir göngugarpana. Markmiðum ferðarinnar náð!

Eftir kvöldmat hurfu sumir inn í tjöld, spjölluðu og sáust ekki fyrr en morguninn eftir, á meðan aðrir sungu og töluðu fram eftir nóttu. Á sunnudeginum var öllu pakkað niður og haldið heim með rútunni með viðkomu í Merkurkeri. Þar óðum við upp ánna í gegnum stóran helli og gil og náði vatnið upp á læri og stundum lengra. Frábært ævintýri í stórkostlegri náttúru með góðum skátavinum og skemmtilegur endir á góðri dróttskátahelgi.

Ds. Fimmvörðuháls var svo sannarlega vel heppnuð dróttskátaferð þar sem þátttakendur og foringjar fengu að njóta sín og takast á við krefjandi verkefni. Við hlökkum til að hittast aftur í ágúst á landsmóti dróttskáta á Akureyri.

Ferðin var styrkt af Bandalagi íslenskra skáta í gegnum Styrktarsjóð skáta og má með sanni segja að þar hafi “dósum verið breytt í káta skáta”.

Texti: Sigurður Úlfarsson og Ragnheiður Silja


Drekatemjari fær gullmerki, mótsstjórn Drekaskátamóts kveður og ný tekur við

Landsmót drekaskáta var haldið um síðustu helgi þar sem yfir 240 skátar skemmtu sér við leik og störf.  Í lok móts var Dagbjört Vatnsdal Brynjarsdóttir heiðruð fyrir dygg störf sín í þágu ylfinga og nú drekaskáta og var afhentur þórshamarinn úr gulli.

Dagga eins og hún er alltaf kölluð hefur sýnt ótrúlega þrautseigju og eljusemi og mætt sem foringi með skátana sína  á aldrinum 8-10 ára á hvert drekaskátamót sem haldið hefur verið síðan 1997. Auk þess að vera einnig starfandi félagsforingi Mosverja hefur hún unnið fjölmörg óeigingjörn störf í þágu skáta og skátahreyfingarinnar og fyrir það ber að þakka.

Unnur Líf Kvaran var einnig heiðruð fyrir ötult starf í þágu drekaskáta og drekaskátamóts síðustu 5 ár. Hún hefur starfað sem sveitarforingi í Skjöldungum, áður var hún aðstoðarfélagforingi Fossbúa og hefur verið í forsvari fyrir mörg verkefni á vegum BÍS. Var henni afhentur þórshamarinn úr bronsi.

Á mótinu kvaddi elsti hópur mótsstjórnar sem hefur starfað saman í 4-6 ár og ný mótsstjórn sem hefur verið í þjálfun síðustu 2 ár tekur nú við.  Stjórn BÍS þakkar fráfarandi stjórn fyrir vel unnin störf og einstakan starfsanda og hvetur nýja mótsstjórn til dáða. Var eldri mótsstjórn afhent þjónustumerki BÍS úr gulli, þeim Sölku, Ísaki og Birtu úr Mosverjum, Óla úr Árbúum og Aroni úr Skjöldungum.

Yngri hluti mótsstjórnar fékk þjónustumerki BÍS úr silfri, þeir Davíð og Reynir úr Garðbúum, Ægir úr Faxa, Valur Kári úr Skjöldungum og Andri úr Kópum.

 


Vífilsbúð – ný útilífsmiðstöð skáta vígð

Skátafélagið Vífill og Garðabær vígðu nýja stórglæsilega Vífilsbúð í stórglæsilegu umhverfi í Grunnuvötnum. Við óskum þeim innilega til hamingju með þessu nýju útilífs- og ævintýramiðstöð í miðri Heiðmörk.


Berglind Lilja nýr alþjóðafulltrúi WOSM

Stjórn BÍS hefur skipað Berglindi Lilju Björnsdóttur sem alþjóðafulltrúa fyrir WOSM. Berglind verður tengiliður BÍS við heimssamtök skáta og á norrænum samstarfsvettvangi skáta ásamt því mun hún vinna náið með alþjóðaráði. Stjórn BÍS óskar Berglindi hjartanlega til hamingju með stöðuna og hlakkar til að vinna með henni í nýju hlutverki. Um leið vill stjórn BÍS færa fráfarandi alþjóðafulltrú, Þóreyju Lovísu þakkir fyrir vel unnin störf, Þórey mun leiða Berglindi fyrstu skrefin og koma henni inn í hlutverkið.

 

EN:

The board of Bandalag Íslenskra Skáta has appointed Berglind Lilja Björnsdóttir as the new International Commissioner for WOSM. Berglind will represent BÍS within the World Organization of the Scout Movement abroad and within the Nordisk Speiderkomité she will also work with BÍS's council on international scouting. The board of BÍS would like to congratulate Berglind on her new position and looks forward to working with her. At the same time, the board of BÍS would like to thank Þórey Lovísa, the outgoing International Commissioner, for a job well done. Þórey will guide Berglind during her first steps and bring her into the role.


Privacy Preference Center