Samfélagsleg verkefni skáta skiptir máli
Vinnuhópur um aukna samfélagsþátttöku skáta verður stofnaður í ársbyrjun 2021 og er það í samræmi við nýlega samþykkta stefnu skátahreyfingarinnar. „Markmið skátanna er að leggja sitt af mörkum til að stuðla að framförum í samfélaginu og að vera til fyrirmyndar þegar kemur að samfélagsþátttöku og umhverfisvernd,“ segir í stefnunni sem samþykkt var á skátaþingi í haust.
Viltu taka þátt?
Stjórn BÍS leitar að sjálfboðaliðum í vinnuhóp um samfélagsleg verkefni. Gert er ráð fyrir 3 – 5 manna hópi þar sem brennandi áhugi og/eða reynsla fá að njóta sín. Með vinnuhópnum verður tengiliður við stjórn og Skátamiðstöð. Tekið verður við umsóknum frá einstaklingum og teymum.
Láttu vita af þínum áhuga með pósti á veramemm@skatar.is fyrir 7.janúar. Nánari upplýsingar veitir Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi. Gjarnan má senda kynningarbréf þar sem líst er áhuga og reynslu þátttakanda. Á vef áttavitans eru hagnýt ráð hvernig kynningarbréf getur litið út – skoða fyrirmynd að kynningarbréfi.
Öllum umsóknum verður svarað.
Skuldbindingin sem þú brennur fyrir!
Þau sem senda umsókn skuldbinda sig til vinnu í hópnum frá 10. janúar – 15. maí 2021.
Vinna hópsins verður í samræmi við markmið stefnu BÍS, en eins og áður segir vilja skátarnir vera til fyrirmyndar þegar kemur að samfélagsþáttöku og umhverfisvernd. Í stefnunni segir einnig að fyrir lok árs 2025 eigi samfélagsverkefni að vera sjálfsagður hluti af starfi flokka, sveita, félaga og BÍS. Verkefni vinnuhópsins er að leggja til aðgerðir til að þessi markmið náist.
Vinnuhópur skili af sér til stjórnar BÍS í síðasta lagi um miðjan maí 2021 heildarskipulagi fyrir verkefnið og hugmyndum að næstu skrefum varðandi framkvæmd þess. Gjarnan mega fylgja tillögur um fræðsluefni fyrir skátaforingja og skáta, sem og verkefnapakkar fyrir skátasveitir.