Súrefnismettaðir skátar á sterum

Vinnuhópur um aukið útilif skáta verður stofnaður í ársbyrjun 2021 og er það í samræmi við samþykkt sem gerð var á síðasta skátaþingi. Skátarnir vilja bjóða upp á metnaðarfullt og aðgengilegt dagskrárefni fyrir skáta sem byggt er á heildstæðum starfsgrunni með aukna áherslu á útiveru og verndun náttúru.

 

Viltu taka þátt?

Stjórn BÍS leitar að sjálfboðaliðum í vinnuhóp um aukið útilíf. Gert er ráð fyrir 3 – 5 manna hópi þar sem brennandi áhugi og/eða reynsla fá að njóta sín. Með vinnuhópnum verður tengiliður við stjórn og Skátamiðstöð. Tekið verður við umsóknum frá einstaklingum og teymum.

Láttu vita af þínum áhuga með pósti á veramemm@skatar.is fyrir 7. janúar. Nánari upplýsingar veitir Marta Magnúsdóttir skátahöfðingi.  Gjarnan má senda kynningarbréf þar sem líst er áhuga og reynslu þátttakanda. Á vef áttavitans eru hagnýt ráð hvernig kynningarbréf getur litið út – skoða fyrirmynd að kynningarbréfi.
Öllum umsóknum verður svarað.

Skuldbindingin sem þú brennur fyrir!

Þau sem senda umsókn skuldbinda sig til vinnu í hópnum frá 10. janúar 2021 og fram að Skátaþingi 2022, en þá verður kosið í útilífsráð.

Markmið vinnuhópsins eru:

  • að hvetja til viðburða sem fela í sér útilíf og styðja við þá útilífsviðburði sem bæði skátafélög og BÍS standa fyrir.
  • að stuðla að því að fyrir lok árs 2025 sé útivist enn ríkari partur af skátastarfi og að fræðsla, dagskrárefni og viðburðir taki mið af því.