Nýjar reglugerðir og afsökunarbeiðni fyrir WSJ23 á Alheimsþingi

Alheimsþing skáta fer nú fram í Egyptalandi og á Bandalag íslenskra skáta tvo fulltrúa þar, þau Berglindi Lilju Björnsdóttur og Daða Má Gunnarsson.
Ýmislegt hefur verið á dagskrá en meðal annars var samþykkt níu ára áætlun til að tryggja öryggi á viðburðum, stórum sem smáum. Áætlunin er þróuð í nánu samstarfi við hagsmunaaðila og leggur áherslu á öryggi, tækniframfarir og að öll séu velkomin með óháð kyni, trú, kynhneigð, fötlun eða öðru. Markmiðið er að setja hærri staðla í að tryggja að Alþjóðlegir viðburðir séu öruggir, grípandi, áhrifamiklir og hvetjandi fyrir næstu kynslóðir leiðtoga. Hægt er að lesa nánar um áætlunina hér.
Bandalag Kóresku skátanna baðst afsökunar til allra bandalaga, þátttakenda alheimsmóts 2023 og aðra hlutaðeigandi og lýsir eftirsjá yfir göllum mótsins og þeim erfiðleikum sem öll þurftu að takast á við. Þau hafa endurmetið mótið og lýstu þeim atriðum sem fóru úrskeiðis til að hægt verði að koma í veg fyrir slíkt á komandi mótum. Hægt er að horfa á myndbandið hér, en það hefst á mínútu 46:33.
Einnig var lögð fram viðburðarreglugerð sem gengur út á viðburðarstefnu þar sem ábyrgð er skýr, væntingastjórnun er skilvirk og öryggi tryggt. Stefnan miðar að því að geta haft öruggari, sjálfbærari og áhrifaríkari viðburði um leið og traust meðal aðildarfélaga og gestgjafa er gætt. Einnig mun WOSM hafa auknari heimildir til að stíga inn í og veita utanumhald og aðstoð.
Forseti fagnar með Kóreuförum

Síðastliðin sunnudag var haldið lokahóf á Úlfljótsvatni, fyrir fararhópinn á Alheimsmót skáta 2023. Veðrið lék við gestina sem nýttu sér það vel og léku sér úti og snæddu pylsur að klassískum skátasið.
Guðni Th. forseti kíkti í heimsókn sem vakti mikla lukku. Hann, ásamt Hrafnhildi Ýri, fararstjóra, og Hörpu Ósk, skátahöfðingja, afhentu þátttakendum, sjálfboðaliðum og foringjum viðurkenningjaskjal vegna þátttöku sinnar á 25. Alheimsmóti skáta í Suður Kóreu, en þessi hópur sýndi af sér mikla seiglu og dug í ferðinni og stóðu sig eins og hetjur.

Einnig var Guðni Th. forseti sæmdur gullmerki skáta sem þakkir fyrir síðastliðin ár sem verndari skátahreyfingarinnar.

Það kom ekki annað til greina en að syngja nokkur lög saman og tók forsetinn vel undir með hópnum. Eftir athöfnina var opin dagskrá á svæðinu og mátti sjá skáta klifra í klifurturninum, sigla á Úlfljótsvatni, strengja boga í bogfimi, hoppa í hoppukastala og spjalla saman. Frábær dagur á Úlfljótsvatni með skemmtilegum skátum.



Stjórn BÍS boðar til félagsforingjafundar

Stjórn BÍS boðar til félagsforingjafundar í Skátamiðstöðinni þann 13. september 2023 frá klukkan 19:30-22:00. Boðaðir eru félagsforingjar, dagskrárforingjar, sjálfboðaliðaforingjar eða staðgenglar þeirra. Þá verður að sjálfsögðu hægt að taka þátt í gegnum fjarfundarbúnað en við biðjum öll sem mögulega geta að mæta í persónu.
Skráning fer fram á skraning.skatarnir.is
Dagskrá fundarins verður eftirfarandi:
- Kynning frá Skátabúðinni (10 mínútur)
Skátabúðin mun upplýsa félögin um helstu verkefni sem snúa að félögunum. Farið verður yfir hvernig staðið er að pöntun á skátabúningnum, félög fá upplýsingar um nýjan innkaupasamning sem BÍS hefur gert við Rekstrarvörur sem skátafélögum býðst einnig að nýta sér, farið verður yfir afsláttarkjör skáta og framtíðar fyrirætlanir í þjónustu til skátafélaga t.d. við búnaðarkaup. - Áskoranir tengdar seinum skráningum á viðburði (10 mínútur)
Ein stærsta áskorun í viðburðarhaldi á vegum BÍS starfsárið 2022-2023 var hversu seint skráningar þátttakenda bárust en dæmi voru um að 70-95% skráninga bárust í síðustu viku skráningarfrests. Stjórn og Skátamiðstöð vilja velta upp nokkrum spurningum með forystu félaganna um hvað geti valdið, hvað megi bæta og fá álit á hugmynd um seinagangs gjöld sem bætist ofan á þátttökugjöld. - Kynning og umræðuhópar um ánægjukönnun (50 mínútur)
Ánægjukönnun var gerð meðal skáta og forráðafólks þeirra fyrir starfsárið 2022-2023. Við viljum kynna niðurstöður hennar en síðan mun fundurinn skiptast í umræðuhópa sem munu skoða afmörkuð svið könnunarinnar, ræða og koma með tillögur um hvernig skátahreyfingin getur þróað þau áfram.Hlé – 5 mínútur - Samhæft átak í rekkaskátastarfi 2023-2024 (15 mínútur)
Félagatal milli ára sýnir að þvert á félög er mikil þörf fyrir eflt rekkaskátastarf á landsvísu. Talsvert brottfall verður á rekkaskátaaldri en þótt fjölmennir árgangar byrji í rekkaskátum er iðulega minna en helmingur þeirra sem gengur upp í gegnum aldursbilið. Erindrekar kynna hvernig reynt verður að stýra samhæfðu átaki yfir komandi ár, hver hlutur félaganna er í því, hvaða stuðning BÍS býður og hvaða markmiðum við viljum ná á komandi ári. - Kynning á smiðju um hvernig skuli fá fleiri fullorðna til starfa (10 mínútur)
Flestum félögum vantar sjálfboðaliða en það getur verið meira en að segja það að afla þeirra. BÍS er tilbúin með smiðju að fyrirmynd þýsku skátanna til keyra með félagsráði skátafélaga þar sem félagið setur sig í stellingar til að skilgreina þörf sína, auglýsa eftir og taka á móti sjálfboðaliðum. Á fundinum kynnum við smiðjuna, hvað hún felur í sér, hvað vonast er til að félagið taki út úr henni og hvernig félög óska eftir henni til sín. - Landsmót skáta 2024 (25 mínútur)
Landsmót skáta fer fram á Úlfljótsvatni næsta sumar og því er mikilvægt að öll skátafélög fari að undirbúa sinn fararhóp. Mótsstýra landsmóts mun kynna alla helstu þætti mótsins, verð, skráningu og fleira. - Alheimsmót skáta 2023 (15 mínútur)
Farið verður stuttlega yfir ferð íslenska fararhópsins á Alheimsmót skáta en fararstjórn gefur nákvæmari skýrslu um ferðina síðar eins og hefð er fyrir. - Önnur mál (10 mínútur)
Fréttatilkynning frá Bandalagi íslenskra skáta vegna Alheimsmóts skáta í Suður Kóreu
Þessa stundina taka 140 íslenskir skátar þátt í Alheimsmóti skáta í suður Kóreu sem stendur dagana 1-12.ágúst. Á mótssvæðinu eru nú um 50.000 skátar við leik og störf. Fréttir hafa borist af bágum aðstæðum á svæðinu, en í upphafi vikunnar hófst mikil uppbygging á aðstöðunni sem seinkaði vegna rigninga og bleytu vikunni áður.

Þeir íslensku skátar sem taka þátt í vinnubúðum á mótinu mættu á svæðið þegar uppbygging var að hefjast, en vegna bleytu og byrjandi hitabylgju einkenndust fyrstu dagarnir af upplýsingaskorti og aðföng eins og vatn og matur voru lengi að berast.

Þegar ljóst var að uppbygging gekk hægt var sendur mikill mannafli á staðinn, frá Suður Kóreska hernum, Rauða Krossinum og öðrum sjálfboðaliðum. Íslenski fararhópurinn seinkaði komu sinni á mótið um sólahring á meðan nauðsynlegar úrbætur fóru fram.
Síðustu dagar hafa litast af hitabylgjunni sem gengur yfir. Breytingar hafa verið gerðar á dagskrá svo ungmennin séu ekki undir berum himni á heitasta tíma dagsins, aðgengi að vatni og kælitjöldum hefur verið stórbætt og heilbrigðisstarfsfólki fjölgað.

Íslenski hópurinn ber sig vel, sú dagskrá sem hefur verið í boði verið vel sótt og ótal tækifæri boðist til þess að kynnast skátum frá öllum heimshornum enda eru alheimsmót skáta eitt mesta ævintýri sem skátar fá tækifæri til að taka þátt í. Þátttakendur eru á aldrinum 14-18 ára og hafa undirbúið sig fyrir þátttöku í mótinu síðastliðin tvö ár.

Íslensku þátttakendurnir hafa líkt og aðrir, sótt heilbrigðisþjónustu vegna hita og skordýrabita en engin alvarleg óhöpp hafa átt sér stað. Hópur 4.000 breskra skáta hefur ákveðið að færa sig um set til að minnka álag á mótssvæðinu. Dvöl íslenska hópsins á svæðinu er metin daglega og hefur ekki verið tekin ákvörðun um að færa hópinn enn sem komið er.
Nánari upplýsingar veitir Ragnar Þór Þrastarson, framkvæmdastjóri BÍS á ragnar@skatarnir.is
Fyrir beint samband við skáta stadda í Suður Kóreu má hafa samband við
Guðjón Sveinsson fararstjóra á guðjon@skatarnir.is
Myndasmiður er Sigrún María Bjarnadóttir
141 íslenskir skátar lagt af stað á 25. Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu

Nú hafa um 141 íslenskir skátar lagt af stað á 25. Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu!
Frá 1.-12. ágúst mun Saemangeum á vesturströnd Suður Kóreu taka á móti um 55.000 skátum frá mismunandi löndum alls staðar úr heiminum og byggja upp tjaldbúð með þemanu ,,teiknaðu þinn draum".



Við óskum íslenska fararhópnum góðrar ferðar og við vitum að þau munu njóta sín í þessari ævintýraferð og eignast einstaka lífsreynslu.
Til að fylgjast nánar með hópnum getið þið fylgt aðgangnum á instagram og facebook.
Fararstjórn og sveitarforingjar á WSJ23
UM ALHEIMSMÓT SKÁTA Í SUÐUR-KÓREU
Alheimsmót skáta er fastur liður í viðburðarhaldi á vegum heimssamtaka skáta, WOSM. Það hefur verið haldið í 24 skipti á fjögurra ára fresti fyrir skáta á aldrinum 14 til 17 ára og 25. mótið fer fram í Suður-Kóreu 2023. Mótið verður haldið dagana 1.-12. ágúst, íslenskur fararhópur stefnir að því að sækja mótið, mun hópurinn halda út nokkrum dögum fyrir mót og dvelja í nokkra daga til viðbótar. og geta skátar fædd á tímabilinu 22. júlí 2005 til 31. júlí 2009 verið þátttakendur, þau sem eldri eru geta farið sem alþjóðlegir þjónustuliðar (e. ISTs) eða sótt hér um að fá að fara sem sveitarforingjar (e. leaders) eða sem hluti fararstjórnarhóps (e. CMTs).
HLUTVERK
Sveitarforingjar
Með hverjum 9 þátttakendum í fararhópnum þarf að fylgja 1 sveitarforingi á mótinu, þau mynda saman 1 flokk og hverjir 4 flokkar mynda síðan sveit sem verður saman á mótinu sjálfu. Sveitaforingjar eru ábyrg fyrir skátum sinnar sveitar á meðan að á ferð stendur, þau dvelja með þeim í tjaldbúð, fylgja þeim í dagskrá á mótinu sjálfu og reyna hvað þau geta til að tryggja þátttakendum góða upplifun af ferðinni. Sveitarforingjar verða í miklum samskiptum við fararstjórnarteymið og þurfa að fylgja öllum þeirra leiðbeiningum á meðan að á ferð stendur.
Fararstjórar
Fararstjórar eru hluti af fararstjórnarteymi fararhópsins (e. Contingent management team), þau annast undirbúning ferðarinnar og sinna allri upplýsingagjöf fram að ferð. Þau undirbúa þátttakendur, sveitarforingja og IST liða fyrir það sem koma skal á mótinu. Fararstjórn stýrir öllum ferðalögum hópsins frá því að farið er út og þar til komið er heim aftur en nýtur dyggrar aðstoðar sveitarforingja. Meðan dvalið er úti fyrir og eftir mót stýrir fararstjórn og hefur yfirumsjón með öllu skipulagi en njóta dyggrar aðstoðar sveitarforingja. Á mótinu sjálfu annast fararstjórnin miðstöð fararhópsins í miðbæ mótsins, mætir á fararstjórnarfundi og miðlar upplýsingum áfram til sveitarforingja og þjónustuliða fararhópsins. Þau fylgjast með að allt gangi eftir óskum hjá sveitum fararhópsins og eru til taks ef eitthvað kemur upp. Þau annast einnig upplýsingagjöf til Skátamiðstöðvar og til forráðafólks þátttakenda eftir því sem við á.
SKYLDUR OG ÁBYRGÐ
Sveitarforingjar
Fyrir mót þurfa sveitarforingjar að taka virkan þátt í undirbúningi, að kynnast skátum sinnar sveitar að skuldbinda sig til að taka þátt í undirbúningsviðburðum fararhópsins og að mæta á upplýsingafund fyrir forráðafólk sinnar sveitar. Á mótinu sjálfu dvelja sveitarforingjar í tjaldbúð með þátttakendum, þau skipuleggja tjaldbúð, halda reglulega upplýsingafundi með þátttakendum, tryggja að þátttakendur mæti í dagskrá og fylgja þeim í dagskrá, skipuleggja matseld með þátttakendum og fylgjast vel með líðan sinnar sveitar. Á mótinu gætu sveitarforingjar þurft að mæta á fundi með fararstjórn eða með fulltrúum mótstjórnar og skipta því með sér eftir þörfum og leiðbeiningum frá viðkomandi aðilum. Á ferðalögum með fararhópnum aðstoða sveitarforingjar fararstjórn hafa þá líka umsjón með skátum sem eru ekki úr þeirra sveitum. Sveitarforingjar þurfa að vera tilbúin til að fylgja fararhópnum hvert skref frá Íslandi og heim aftur. Sveitarforingjum eru ábyrgir fyrir velferð skáta í þeirra sveitum á meðan að á móti stendur og að skátarnir fylgi reglum fararhópsins og mótsins meðan að á því stendur.
Fararstjórar
Meðlimir fararstjórnarteymisins þurfa að skuldbinda sig til að mæta á reglulega undirbúningsfundi fararstjórnar að vera tilbúin að deila ábyrgð og verkefnum með aðalfararstjórum. Fararstjórn þarf að sinna hverju atriði sem mótstjórn alheimsmóts skáta ætlast til af þeim og þurfa því að fylgjast með og lesa fréttabréf mótstjórnar. Fararstjórn er ábyrg fyrir kynningu mótsins til skátafélaga og skáta og leggur sig alla fram við að vekja áhuga sem flestra á mótinu. Fararstjórn skiptir þátttakendum í flokka og velur þeim sveitarforingja, síðan hefur hún yfirumsjón með að sveitirnar undirbúi sig með viðeigandi hætti. Hún auglýsir eftir og velur inn þjónustuliða innan þeirra takmarkana sem mótið setur. Fararstjórn skipuleggur undirbúningsferð sveita og fararhópsins í heild og virkjar þar sveitarforingjana. Fararstjórn skipuleggur og er ábyrg fyrir upplýsingafundi fyrir forráðafólk fram að móti og annast reglulega upplýsingagjöf til forráðafólks t.d. í formi reglulegra upplýsingabréfa. Fararstjórn skipuleggur og leiðir öll ferðalög tengd mótinu og stýrir hópnum þegar ferðast er á milli staða. Hún skipuleggur einnig og stýrir dvöl úti utan mótsvæðis fyrir og/eða eftir mót.
Á mótinu annast fararstjórn miðstöð fararhópsins í miðbæ tjaldbyggðar mótsins, þar er staðið fyrir kynningu á Íslandi og íslensku skátastarfi. Mótstjórn skipuleggur hvernig sú kynning fer fram og aflar samstarfsaðila um það. Fararstjórn fylgist með sveitum og þjónustuliðum á mótinu og tryggir að allt gangi vel hjá þeim. Þau mæta á fararstjórnarfundi með mótstjórn og miðla upplýsingum áfram til sveitarforingja og þjónustuliða eins og ætlast er til. Þau bregðast við ákalli um aðstoð innan fararhópsins og mæta reglulega í heimsókn til skátasveitanna til að gera úttektir, leiðbeina og benda á hvað megi gera betur. Mótstjórn tryggir að upplýsingaflæði sé gott milli allra aðila og miðlar frá mótinu til íslenskra skáta, Skátamiðstöðvar og forráðafólks þátttakenda eins og er viðeigandi.
Fararstjórn er endanlega ábyrg fyrir öllum störfum fararhópsins og skal gera hvað hún getur til að tryggja öllum góða upplifun og góðan stuðning á meðan að á ferð stendur.
HÆFNI OG AÐRAR KRÖFUR
Sveitarforingjar
Þurfa að hafa náð 18 ára aldri hið minnsta, þurfa að hafa góða kunnáttu í ensku en kunnátta í öðrum tungumálum er kostur. Sveitarforingjar starfa mjög náið með þátttakendum og því er reynsla af starfi með ungmennum nauðsynleg, gott er að viðkomandi búi yfir ríkri ábyrgðarkennd, jákvæðu viðhorfi, útsjónarsemi og góðum samskiptahæfileikum. Reynsla af ferðalögum með ungmenni, þá sérstaklega til útlanda, er kostur. Sveitarforingjar munu að einhverju leiti endurspegla félagsdreifingu þátttakenda. Sveitarforingjar skulu hafa sótt Verndum þau á tímabilinu 2019-2023 en annars er nauðsynlegt að það sé sótt áður en farið er út, þau skulu skila inn sakavottorðsheimild til BÍS og skulu þekkja og starfa eftir siðareglum ÆV og kynna sér og starfa eftir reglugerð BÍS um utanferðir skáta. Sveitarforingjar skulu skila öllum upplýsingum til móts sem kallað er eftir um þau og sækja Safe from harm og önnur námskeið sem mótið gæti farið fram á fyrir mót.
Fararstjórar
Þurfa að hafa náð 18 ára aldri hið minnsta, þurfa að hafa góða kunnáttu í ensku en kunnátta í öðrum tungumálum er kostur. Fararstjórar þurfa að kynna sér mjög vel mikið af upplýsingum fyrir mót, vera vakandi fyrir breytingum og miðla upplýsingum áfram, því þarf viðkomandi að hafa góða skipulagshæfni og samskiptatækni. Fararstjórn vinnur ýmist með þátttakendum, sveitarforingjum, þjónustuliðum, forráðafólki og starfsfólki Skátamiðstöðvar, gott er að viðkomandi hafi gaman af því að vinna með öðrum og sé tilbúið að tileinka sér þjónandi forystustíl. Reynsla af fararstjórn, verkefnastjórn stærri verkefna og forystustarfi er kostur. Fararstjórar skulu hafa sótt Verndum þau á tímabilinu 2019-2023 en annars er nauðsynlegt að það sé sótt áður en farið er út, þau skulu skila inn sakavottorðsheimild til BÍS og skulu þekkja og starfa eftir siðareglum ÆV og kynna sér og starfa eftir reglugerð BÍS um utanferðir skáta. Fararstjórar skulu skila öllum upplýsingum til móts sem kallað er eftir um þau og sækja Safe from harm og önnur námskeið sem mótið gæti farið fram á fyrir mót.
UMSÓKNIN SJÁLF
Forskráning á Alheimsmót 2023 í Kóreu opin
Forskráning á Alheimsmót 2023 í Kóreu opin!

Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu er alþjóðlegt mót sem fer fram 1.-12. ágúst 2023 fyrir ungmenni fædd frá 22. júlí 2005 til 31. júlí 2009, en eldri skátar eiga möguleika á að fara sem starfsmenn mótsins, foringjar þátttakenda eða sem meðlimir fararstjórnar.
Ef þú hefur brennandi áhuga á að koma með á alheimsmótið 2023 í einhverju af þessum hlutverkum er forskráning núna opin án nokkurrar skuldbindingar um endanlega þátttöku. Þau sem eru forskráð munu reglulega fá upplýsingar um leið og þær liggja fyrir.
Forskráning á: skraning.skatarnir.is
Guðjón Rúnar Sveinsson og Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir fararstjórar á Alheimsmót
Guðjón Rúnar Sveinsson og Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir fararstjórar á Alheimsmót

Þau Guðjón Rúnar Sveinsson og Hrafnhildur Ýr Hafsteinsdóttir munu leiða fararhóp Bandalags íslenskra skáta á Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu 2023. Þau vinna nú að ljúka allri helstu áætlanagerð svo hægt verði að opna skráningu sem allra fyrst!
Alheimsmót skáta í Suður-Kóreu er alþjóðlegt mót sem fer fram 1.-12. ágúst 2023 fyrir ungmenni fædd frá 22. júlí 2005 til 31. júlí 2009, en eldri skátar eiga möguleika á að fara sem starfsmenn mótsins, foringjar þátttakenda eða sem meðlimir fararstjórnar.
Ef þú hefur brennandi áhuga á að koma með á alheimsmótið 2023 í einhverju af þessum hlutverkum er forskráning núna opin án nokkurrar skuldbindingar um endanlega þátttöku. Þau sem eru forskráð munu reglulega fá upplýsingar um leið og þær liggja fyrir.






