Kynning á frambjóðendum - Sif

Sif Pétursdóttir

Framboð: Útilífsráð

Ferill þinn í skátastarfi?

Hef verið í skátunum frá aldamótum
Starfa núna í Skjöldungum og er í stjórn Skjöldunga
Hef sinnt foringjastörfum fyrir Ægisbúa og Skjöldunga
Sat í stjórn SSR
Hef komið að skipulagningu og framkvæmd hinna ýmsu viðburða innan skátahreyfingarinnar og má þar helst nefna DS. Vitleysu, Skátapepp og Landsmót Róver og Rekkaskáta.

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Mjög erfitt að velja á milli, finnst flest viðburðahald sem inniheldur mikla útivist mjög skemmtilegt. Að skipuleggja og halda utan um DS. Vitleysu var ótrúlega skemmtilegt og mikli reynsla sem safnaðist upp við það verkefni. En að fara út sem þátttakandi 2007 og síðar sem sveitarforingi á Jamboree 2019 var svo gaman að orð fá því varla lýst.

Hví gefur þú kost á þér í útilífsráð?

Ég tel mig hafa mikla reynslu af skátastarfi og hef starfað í nánast öllum krókum og kimum þess. Sem sveitarforingi, þáttakandi, viðburðarhaldari, skipuleggjandi og stjórnarkona. Einnig hef ég mikinn áhuga og ástríðu fyrir útivist af öllum toga og er því sæti í útilífsráði kjörinn staður fyrir mig til að halda áfram að þróa skátastarf á íslandi með útilíf að leiðarljósi.


Kynning á frambjóðendum - Daði

Daði Björnsson

Framboð: Alþjóðaráð

Ferill þinn í skátastarfi?

Drekaskáta foringi hraunbúa.
Dróttskáta foringi Árbúa
Ungmenna ráð BÍS 3 ár
Meðstjórnandi stjórn Árbúa
Dróttskáta foringi Skjöldunga
External representative fyrir WAGGGS
Drekaskáta mótstjórn
Alþjóða ráð BÍS 3 ár
Gender equality ambassador WOSM Europe.

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Að geta farið á fundi hjá evrópu skatun og ráðstefnu fyrir hönd BÍS

Hví gefur þú kost á þér í alþjóðaráð?

Ég gef kost á mig í endur kjör þar sem ég vil halda áfram að vinna að alþjóðar tengsl Bandalagsins with alþjóðar skáta hreyfinguna. Vinna að verkefnum sem gefur yngri skátum tækifæri og upplifun sem alþjóðar skatun gefur.


Kynning á frambjóðendum - Jón Þór

Jón Þór Gunnarsson

Framboð: Starfsráð

Ferill þinn í skátastarfi?

Byrjaði sem ylfingur (drekaskáti í Hraunbúum) ’94. Sinnti á sínum tíma ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Hraunbúa og síðar landshreyfinguna, Bandalag Íslenskra Skáta. Sit í stjórn Grænna Skáta sem styður fjárhagslega undir skátastarf á landsvísu, en er einnig eitt stærsta einstaka umhverfisverkefni skátahreyfingarinnar.

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Það skemmtilegasta við skátastarf er lærdómurinn að hafa unnið með svo fjölbreyttum hópi fólks, hvaðanæfa úr heiminum, með mismunandi bakgrunn – en eiga það sameiginlegt að leggja sitt af mörkum til búa til betri heim. Skátahreyfingin er friðhreyfing.

Hví gefur þú kost á þér sem skoðunarmaður reikninga?

Ég gef kost á mér í hlutverk skoðunarmanns reikninga þar sem ég tel mig til þess bæran að geta leyst verkefnið vel úr hendi og jafnframt nægilega afmarkað í umfangi og tíma að ég nái að sinna því.


Kynning á frambjóðendum - Sigurður Viktor Úlfarsson

Sigurður Viktor Úlfarsson

Framboð: Starfsráð

Ferill þinn í skátastarfi?

– Er í dag dróttskátaforingi og skátapabbi í Landnemum.
– Fráfarandi formaður uppstillingarnefndar BÍS.
– Ég býð mig fram í starfsráð BÍS 2022-2024.

– Sat áður í starfsráði BÍS ansi mörg ár milli 1995 og 2005 eða þar um bil. Vann að Skátasöngbókinni, skipulagi forsetamerkis og ýmsu öðru. Sat í vinnuhópi um endurskoðun skátadagskrárinnar (RAP) árið 2005.
– Ég byrjaði í skátunum 10 ára í Skjöldungum í febrúar 1985 og gegndi stöðu flokks-, sveitar- og deildarforingja í félaginu ásamt ýmsu öðru.

– Starfsmaður skátamiðstöðvarinnar í Kandersteg, starfsmaður Úlfljótsvatns, útilífsskóla Skjöldunga og skrifstofu BÍS á ýmsum tímum.
– Í Skátakórnum frá ca. 2005, þar af formaður í nokkur ár.
– Jamboree í Kóreu 1991 (þátttakandi) og Chile 1998/1999 (sveitarforingi), World Moot 1992 í Sviss og 2017 á Íslandi. Yfir Reykjavíkurbúðunum á Moot 2017. Umsjón með erlendum þátttakendum á landsmóti 1999 og 2002. Erlend markaðssetning og umsjón erlendra þátttakenda í tengslum við Nordjamb 2000 og 2002. Skátaferðir til Rússlands, Belgíu, Suður-Afríku, Namibíu, Botswana og Zimbabwe. Fyrsti Íslendingurinn sem sótti evrópska smiðjudaga, IMWe, í Rieneck kastala í Þýskalandi og í nokkur ár þar á eftir.
– Norrænar skátaráðstefnur og -námskeið.
– Þátttakandi í vinnuhópum á vegum WOSM og WAGGGS í Evrópu.
– SSR: Formaður uppstillingarnefndar, meðlimur í dagskrárráði SSR í nokkur ár, viðburðahald, göngustjóri, utanumhald með skátamessu í Hallgrímskirkju og fleira.
– Kvöldvökustjórnun hér og þar.
– Ótrúlega margt fleira innanlands og utan!

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Erfitt að velja. Skátastarf hefur farið með mig um allan heim þar sem ég hef prófað ótrúlega margt og kynnst ótrúlega mörgu merkilegu fólki. Söngur, útilíf og alþjóðastarf finnast mér mjög skemmtilegir hlutir af skátastarfi.

Hví gefur þú kost á þér í starfsráð?

Ég er dróttskátaforingi í Landnemum og búinn að vera það undanfarin þrjú ár. Mér finnst við mega gera mikið betur þegar kemur að daglegum stuðningi við sveitarforingja. Spennandi að koma að innleiðingu á nýjum dagskrárramma.


Kynning á frambjóðendum - Björk

Björk Norðdahl

Framboð: Skátaskólinn

Ferill þinn í skátastarfi?

Ég varð skáti 9 ára í Kópum og skátastarfið heillaði mig strax. Ég fór þessa hefðbundnu leið sem flokksforingi og sveitarforingi og fór á Gilwell þegar ég var tvítug en flosnaði því miður upp úr starfi eftir það. Ég kom síðan aftur þegar börnin mín hófu skátastarf, fyrst sem tengiliður við foreldra í Kópum, þar sem ég prófaði ýmsar leiðir til að tengja foreldra inn í skátastarfið. Ég kláraði Gilwell eftir afskaplega langt hlé og í framhaldi af því sat ég í fræðsluráði um tíma þar til ég varð formaður fræðsluráðs í stjórn BÍS árið 2017 og hef ég starfað í stjórn BÍS síðan og sinnt fræðslumálum og félagaþrennunni, svo eitthvað sé nefnt. Einnig er ég núna skólastjóri Gilwell-skólans.

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Frá unglingsárunum eru það ferðirnar okkar upp í Þrist sem eru eftirminnilegastar. Að orna sér við eldinn í ísköldum skálanum, skara í glæðurnar og ræða málin, það eru góðar minningar. Það sem helst stendur upp úr núna undanfarið eru Gilwell-námskeiðin sem við höfum haldið á Úlfljótsvatni, þar sem ég hef fengið tækifæri til að starfa með okkar frábæra unga fólki og fylgjast með þeim vaxa og þroskast.

Hví gefur þú kost á þér í Skátaskólan?

Ég gef kost á mér í stjórn skátaskólans því mig langar að halda áfram þeirri vinnu sem við höfum unnið að undanfarið við endurskipulagningu foringjaþjálfunar og leiðtogaþjálfun allra skáta frá 12 ára aldri. Góð þjálfun og fræðsla er nauðsynleg svo við fáum gott skátastarf og að því vil ég vinna.


Kynning á frambjóðendum - Jón

Jón Ingvar Bragason

Framboð: Uppstillinganefnd

Ferill þinn í skátastarfi?

Skáti frá 1987 í Kópum
Sveitarforingi
Stjórn BÍS 2009-2013
Starfsmaður BÍS og Skátamóta 1999-2009 og aftur 2013-2018.
Starfsmaður WOSM 2019
Setið í fjölmörgum nefndum á vegum WOSM 2004-2019
IMWe team member 2003-2017
og svo margt fleira.

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Tekið þátt og skipuleggja fjölmarga viðburði. Sérstaklega stendur uppúr IMWe og að sjálfsögðu Moot.

Hví gefur þú kost á þér í uppstillinganefnd?

Miðla af reynslu og leggja mitt af mörkum til skátastarfs.


Kynning á frambjóðendum - Védís

Védís Helgadóttir

Framboð: Starfsráð

Ferill þinn í skátastarfi?

Það var eitt mánudagskvöld í september 2011, þá 14 ára gömul, að ég sótti minn fyrsta skátafund en hann var hjá dróttskátasveitinni Hvítu fjöðrinni í Ægisbúum. Fram að því hafði ég látið mér það nægja að lesa útbúnaðarlista systkina minna þegar þau voru á leið á skátamót en nú skyldi klúturinn um hálsinn og ævintýrið hefjast! Í Ægisbúum átti ég frábært dróttskátastarf og eignaðist dásamlega vini. Viðfangsefni Hvítu fjaðrarinnar voru æði mörg; allt frá skýjafari og sushigerð til flaggstafrófs og fánaborgar, og útivistin var alltaf ofarlega á blaði. Okkur í Hvítu fjöðrinni þótti líka frábært að taka þátt í millifélagaviðburðum á borð við göngumótið Ds. Vitleysu, Saman, Smiðjudaga og Vetraráskorun Crean því þar gátum við stækkað sjóndeildarhringinn og treyst vinaböndin, bæði innan sveitarinnar og við kollega úr öðrum félögum.

Sumurin 2015-2017 var ég sumarstarfsmaður á Úlfljótsvatni og fyrir þau sumur verð ég alltaf þakklát. Fyrir utan það hvað það er dásamlegt að liggja í sumargrænunni á Úlfljótsvatni á kvöldin og hlusta á lóukliðinn og finna í hjarta friðinn, þá lærði ég svo undurmargt á Úlfljótsvatni og í mínum foringjastörfum í dag sæki ég margt í viskubrunn Undralandsáranna. Við gengum í fjölbreytileg verk, lærðum að brasa ýmislegt, gera við og dytta að, mála, elda hafragraut, kenna leiki, selja ís og sólarvörn, standa á eigin fótum og að vera foringjar í sumarbúðum – en ef til vill fyrst og fremst lærðum við hvað það er gaman að læra eitthvað þegar maður fær að spreyta sig sjálfur, sem sagt: með reynslunámi (e. learning by doing).

Haustið 2017 nam ég land í Landnemum í Reykjavík og var dróttskátaforingi fyrsta veturinn en síðustu fjóra veturna hef ég verið sveitarforingi drekaskátasveitarinnar Hugins og Munins. Ég hef ótrúlega gaman af því að starfa með drekaskátum því þau hafa svo mikla leikgleði og ævintýraþrá og geta meir en margan grunar. Þar að auki sit ég í stjórn Landnema og gegni þar hlutverki aðstoðarfélagsforingja. Ég hef aðeins komið að námskeiðahaldi og tók þátt í undirbúningi nokkurra Skátapeppnámskeiða veturinn 2019-2020 og nú sit ég í nýstofnaðri Leiðbeinendasveit BÍS en hún hefur það hlutverk að efla leiðtogafærni skáta og heldur til þess leiðtoga- og sveitarforingjanámskeið.

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Góð spurning – og úr mörgu að velja! Ábyggilega Jamboree í Vestur-Virginíu 2019, þegar ég var IST-liði. Svo hef ég mjög gaman af útivist þannig að mér fannst frábært að fara á Landsmót rekka- og róverskáta 2018 þegar við gengum Laugaveginn og áttum svo góða daga í Þórsmörk á eftir. Hlakka mikið til að fara aftur á Landsmót R&R í sumar!

Hví gefur þú kost á þér í starfsráð?

Ég býð mig fram til starfsráðs vegna þess að ég hef áhuga á því að taka þátt í því að móta dagskrárgrunn skátastarfsins og að aðstoða skátafélögin við að innleiða hann. Ég tel að það sé mikilvægt að samræmi sé í skátastarfi þvert á skátafélög og að til séu grindur sem aðstoða okkur við að gefa hverju aldursbili sérstöðu og sem stuðla að því að efla persónuþroska hvers skáta. Fyrst og fremst vil ég að sveitarforingjar hafi tækin og tólin til að skapa það ævintýri sem skátastarfið er.


Kynning á frambjóðendum - Sævar

Sævar Skaptason

Framboð: Gjaldkeri BÍS

Ferill þinn í skátastarfi?

Alla mína æsku var ég félagi í Kópum, fyrst í Labbakútum og síðar kom ég að því að stofna Róver skátaflokk, einnig var ég í skálastjórn skátaskálans Þrists, úr Kópum lá mín leið yfir í Hjálparsveit skáta Kópavogi.

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Það var þegar við fórum í 50 km. göngu til að ná (ég man ekki alveg hvaða próf það var) einnig árin í skálastjórn Þrists

Hví gefur þú kost á þér sem Gjaldkera BÍS?

Ég ber ótakmarkaða virðingu fyrir hlutverki skátahreyfingarinnar hvað unga fólkið varðar, því vil leggja lið og ekki síður að hafa tækifæri til að eldast með ungu flottu og hæfaleikaríku fólki.


Kynning á frambjóðendum - Unnur

Unnur Líf Kvaran

Framboð: Meðstjórnandi BÍS

Ferill þinn í skátastarfi?

Ég byrjaði í skátunum sirka 9 ára vegna þess að amma mín benti mér á að það var hoppukastali á kynningardegi skátafélagsins Hamars. Síðan þá hefur ekki verið hægt að slíta mig frá hoppinu og hí-inu í skátunum. Ég starfaði svo með skátafélaginu Fossbúum frá árinu 2007. Þar fékk ég mikla hvatningu og tækifæri til að spreyta mig í ýmsum verkefnum, byrjaði ung sem sveitaforingi og tók þannig þátt í uppbyggingu félagsins. Mig langaði að flytja í tjaldbúðina á Landsmóti skáta árið 2008 og búa þar að eilífu í skátaparadís, þar sem það var ekki möguleiki hef ég keppst um að komast á eins mörg skátamót og hægt er eftir það. Ég tók þátt í að skipuleggja útilegur og ferðir, tók þátt í foringjaþjálfunum og súrraði út í rauðan dauðann á sumardeginum fyrsta ár hvert. Ég sat í stjórn Fossbúa og gegndi stöðu aðstoðarfélagsforingja á árunum 2017-2019, þrátt fyrir að hafa flutt til Reykjavíkur í miðri stjórnarsetu.

Laugardalurinn heillaði og tóku Skjöldungar mér opnum örmum. Þar hef ég verið sveitaforingi fálkaskáta og áfram fengið tækifæri til að spreyta mig í nýjum verkefnum með góðan stuðning frá foringjum og stjórn félagsins. Ég starfaði sem skólastjóri Útilífsskóla Skjöldunga sumarið 2020 og tók þátt í uppbyggingu skátaskálans Hleiðru, sem er staðsettur í ævintýraveröld við Hafravatn. Ég tel mig tilheyra bæði Fossbúum og Skjöldungum og verð ævinlega þakklát fyrir öll tækifærin sem ég hef fengið hingað til og allan stuðninginn og hvatninguna sem foringjar mínir og vinir í félögunum hafa gefið mér gegnum árin.

Þegar ég kynntist skátastafi utan félags stækkaði heimurinn minn umtalsvert. Ég fór auðvitað að teygja angana í allar áttir og hef sinnt ýmsum verkefnum á vegum BÍS. Ég var mótsstjóri Drekaskátamóts frá 2017-2019, fararstjóri á Roverway í Hollandi árið 2018, Upplýsingastjóri Landsmóts skáta 2020 og starfaði á skrifstofu BÍS sem þjónustufulltrúi frá 2018-2019. Einnig tók ég vettvangsnám á BÍS við að skipuleggja Skátaþing árið 2018 sem hluta af námi mínu í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum.
Mér mun aldrei takast að gera tæmandi lista yfir allt það sem skátastarf hefur gefið mér og alla þá reynslu sem ég hef fengið í skátastarfi, en eitt er víst og það er að ég er skáti í húð og hár!

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Það skemmtilegasta sem ég geri í skátunum er að skipuleggja og framkvæma viðburði. Það sem mér finnst skemmtilegast við það er að kynnast nýju fólki, búa til tækifæri og upplifanir og verja tíma með frábæru fólki að fást við krefjandi og spennandi verkefni. Félagslífið er klárlega það sem mér þykir vænst um á mínum skátaferli og það er ómögulegt að velja afmarkaðan viðburð eða upplifun sem stendur sérstaklega uppúr.

Hví gefur þú kost á þér sem meðstjórnanda BÍS?

Ég gef kost á mér í stjórn BÍS vegna þess að ég hef brennandi áhuga á skátastarfi og vil helst verja öllum mínum stundum í að skátast. Mig langar að láta gott af mér leiða í þágu skátahreyfingarinnar og ég tel krafta mína nýtast best í stjórn BÍS. Ég hef mikla og fjölbreytta reynslu innan sem utan skáta og er mjög spennt að nýta hana í ýmis verkefni innan skátanna á næstu misserum. Mig langar að leggja áherslu á að auka viðburðahald og veita stuðning við skátaforingja og félögin og þannig leggja mitt af mörkum í uppbyggingu og framþróun skátastarfs á Íslandi.


Kynning á frambjóðendum - Hafdís

Hafdís Bára Kristmundsdóttir

Framboð: Uppstillinganefnd

Ferill þinn í skátastarfi?

Byrjaði sem ljósálfur í Vífli 9 ára gömul og var virk í starfi fram á unglingsár, almennur skáti og foringi. Hóf síðan störf aftur í Vífli 2007 sem foreldri og settist í stjórn. Var félagsforingi í átta ár. Starfa nú í baklandi félagsins, skálanefnd og húsnefnd.

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Skemmtilegast við skátastarf er að vinna með frábæru fólki og upplifa vöxt og þroska barna og ungmenna. Að vinna með skátunum og bakalndinu og styðja við starfið. Útilegur og Landsmótin standa upp úr bæði sem þátttakandi og baklandsliði.

Hví gefur þú kost á þér í uppstillinganefnd?

Ég vil leggja mitt af mörkum til þess að styðja við öflugt skátastarf. Að eiga þátt í því að velja úr fjölbreyttum leiðtogahópi skáta til forystu og trúnaðarstarfa innan hreyfingarinnar. Er þakklát fyrir að fá tækifæri til þess að gefa til baka með þakklæti fyrir minn vöst og þroska.