Védís Helgadóttir

Framboð: Starfsráð

Ferill þinn í skátastarfi?

Það var eitt mánudagskvöld í september 2011, þá 14 ára gömul, að ég sótti minn fyrsta skátafund en hann var hjá dróttskátasveitinni Hvítu fjöðrinni í Ægisbúum. Fram að því hafði ég látið mér það nægja að lesa útbúnaðarlista systkina minna þegar þau voru á leið á skátamót en nú skyldi klúturinn um hálsinn og ævintýrið hefjast! Í Ægisbúum átti ég frábært dróttskátastarf og eignaðist dásamlega vini. Viðfangsefni Hvítu fjaðrarinnar voru æði mörg; allt frá skýjafari og sushigerð til flaggstafrófs og fánaborgar, og útivistin var alltaf ofarlega á blaði. Okkur í Hvítu fjöðrinni þótti líka frábært að taka þátt í millifélagaviðburðum á borð við göngumótið Ds. Vitleysu, Saman, Smiðjudaga og Vetraráskorun Crean því þar gátum við stækkað sjóndeildarhringinn og treyst vinaböndin, bæði innan sveitarinnar og við kollega úr öðrum félögum.

Sumurin 2015-2017 var ég sumarstarfsmaður á Úlfljótsvatni og fyrir þau sumur verð ég alltaf þakklát. Fyrir utan það hvað það er dásamlegt að liggja í sumargrænunni á Úlfljótsvatni á kvöldin og hlusta á lóukliðinn og finna í hjarta friðinn, þá lærði ég svo undurmargt á Úlfljótsvatni og í mínum foringjastörfum í dag sæki ég margt í viskubrunn Undralandsáranna. Við gengum í fjölbreytileg verk, lærðum að brasa ýmislegt, gera við og dytta að, mála, elda hafragraut, kenna leiki, selja ís og sólarvörn, standa á eigin fótum og að vera foringjar í sumarbúðum – en ef til vill fyrst og fremst lærðum við hvað það er gaman að læra eitthvað þegar maður fær að spreyta sig sjálfur, sem sagt: með reynslunámi (e. learning by doing).

Haustið 2017 nam ég land í Landnemum í Reykjavík og var dróttskátaforingi fyrsta veturinn en síðustu fjóra veturna hef ég verið sveitarforingi drekaskátasveitarinnar Hugins og Munins. Ég hef ótrúlega gaman af því að starfa með drekaskátum því þau hafa svo mikla leikgleði og ævintýraþrá og geta meir en margan grunar. Þar að auki sit ég í stjórn Landnema og gegni þar hlutverki aðstoðarfélagsforingja. Ég hef aðeins komið að námskeiðahaldi og tók þátt í undirbúningi nokkurra Skátapeppnámskeiða veturinn 2019-2020 og nú sit ég í nýstofnaðri Leiðbeinendasveit BÍS en hún hefur það hlutverk að efla leiðtogafærni skáta og heldur til þess leiðtoga- og sveitarforingjanámskeið.

Skemmtilegasta sem þú hefur fengist við í skátunum?

Góð spurning – og úr mörgu að velja! Ábyggilega Jamboree í Vestur-Virginíu 2019, þegar ég var IST-liði. Svo hef ég mjög gaman af útivist þannig að mér fannst frábært að fara á Landsmót rekka- og róverskáta 2018 þegar við gengum Laugaveginn og áttum svo góða daga í Þórsmörk á eftir. Hlakka mikið til að fara aftur á Landsmót R&R í sumar!

Hví gefur þú kost á þér í starfsráð?

Ég býð mig fram til starfsráðs vegna þess að ég hef áhuga á því að taka þátt í því að móta dagskrárgrunn skátastarfsins og að aðstoða skátafélögin við að innleiða hann. Ég tel að það sé mikilvægt að samræmi sé í skátastarfi þvert á skátafélög og að til séu grindur sem aðstoða okkur við að gefa hverju aldursbili sérstöðu og sem stuðla að því að efla persónuþroska hvers skáta. Fyrst og fremst vil ég að sveitarforingjar hafi tækin og tólin til að skapa það ævintýri sem skátastarfið er.