Þroski - samheldni - heiðarleiki

Glæsilegur hópur skáta fengu Gilwell einkennin sín afhent á hátíðlegri stund í Gilwell skálanum um helgina. Þeir sem fá Gilwell einkenni hafa lokið 10 daga leiðtogaþjálfun og gert lokaverkefni. Gilwell leiðtogaþjálfun er æðsta stig foringjaþjálfunar BÍS. Fyrsti hluti ævintýrsins var í febrúar, í júní var tjaldbúð reist á Úlfljótsvatni í 5 daga þar sem fræðslu var blandað við tjaldbúðarupplifun. Þriðji og síðasti hlutinn var svo núna um helgina. Hápunktur helgarinnar var þegar skátarnir kynntu Gilwell verkefnið sitt fyrir hópnum en þau völdu sér verkefni á vordögum sem þau unnu svo að fram á haust. Óhætt er að segja að verkefnin hafi verið fjölbreytt, allt frá því að smíða sturtuhús við vatnasafaríið á Úlfljótsvatni í að gera handbók fyrir fararstjóra á Landsmót skáta og endurskoða hlutverk sjálfboðaliðaforingja.

Þó nokkrir gestafyrirlesarar hafa komið að námskeiðunum en á þessum síðasta hluta má nefna Jakob Frímann Þorsteinsson og Vöndu Sigurgeirsdóttur, Elínu Ester, Hrönn Pétursdóttir, Guðrúnu Ásu og Arnór Bjarka Svarfdal. Þau eru öll skátar og miklir leiðtogar á sínum sviðum í atvinnulífinu en leiðtogafræði og leiðtogaþjálfun var einmitt þema helgarinnar og unnið er með hæfni hvers og eins
Skátarnir fjórtán eru á aldrinum 20 – 52 ára og koma úr 9 skátafélögum. Skipt var í flokka í upphafi sem héldust í gegnum ferlið, flokkarnir unnu saman að stórum sem smáum verkefnum. Síðasta verkefni þeirra var að velja eitt orð sem lýsir upplifun af námskeiðinu – þessi orð urðu fyrir valinu: Þroski – samheldni - heiðarleiki

Yfirlýsing stjórnar
Vegna umfjöllunar RÚV í liðinni viku um alheimsmót skáta 2023 og um meint fjármálamisferli og frændhygli hjá Bandalagi íslenskra skáta viljum við, undirrituð, koma eftirfarandi á framfæri.
Við sem sitjum og sátum í stjórn BÍS í aðdraganda ferðarinnar, á meðan á henni stóð og eftir hana stöndum þétt við hlið skátahöfðingja Íslands. Í ljósi umræðu síðustu daga þykir okkur rétt að benda á að þótt skátahöfðingi sé í forsvari fyrir stjórn BÍS eru allar ákvarðanir teknar af stjórninni í sameiningu. Þetta á einnig við um þær ákvarðanir sem teknar hafa verið í kringum alheimsmótið.
Okkur er fyrirmunað að skilja hver tilgangur þessarar umfjöllunar er annar en að kasta rýrð á starfsemi skátahreyfingarinnar og þá sérstaklega á störf skátahöfðingja, þar sem bæði öllum hlutaðeigandi, þar á meðal fararstjórn, hefur verið boðið til samtals um málið og var það okkar upplifun að þau sem hefðu þegið það boð hefðu gengið sátt frá borði. Við ítrekum að við erum enn opin til samtals og viljum ekkert frekar en að leysa málin á farsælan hátt. Umfjöllun RÚV hefur verið mjög einhliða og byggð á rangfærslum sem fjölmiðlafólki ætti að hafa verið ljóst um. Það er okkar mat að umfjöllunin brjóti gegn siðareglum blaðamanna. Í siðareglunum er meðal annars gerð sú lágmarkskrafa að upplýsingar séu settar fram á heiðarlegan hátt og greinarmunur gerður á skoðunum og staðreyndum. Það er ljóst að umfjöllunin uppfyllir ekki þessa lágmarkskröfu.
Varðandi starfsmannamál þá kemur stjórn BÍS eingöngu að ráðningu framkvæmdastjóra og hefur annars ekki beina aðkomu að mannaráðningum bandalagsins. Þær eru á ábyrgð framkvæmdastjóra. Það er þó alltaf svo að í litlu samfélagi eru óhjákvæmilega tengsl á milli aðila. Tekið skal fram að Harpa Ósk var hvorki skátahöfðingi né framkvæmdastjóri í afleysingum þegar báðar systur hennar og kærasti annarrar þeirra voru ráðin í störf á vegum BÍS. Það skal ítrekað að þau sem eru ráðin til starfa fyrir hreyfinguna eru ráðin af eigin verðleikum en ekki vegna skyldleika. Að gefa annað í skyn er ekki síður áfellisdómur á það góða fólk sem þar hefur unnið við afar fjölbreytt störf.
Við teljum brýnt að ávarpa þær ásakanir sem fram hafa komið um hæfi Hörpu Óskar til þess að sinna stöðu framkvæmdastjóra BÍS í afleysingum. Hefur í þessu samhengi verið vísað í starfsreglur stjórnar BÍS og gefið í skyn að ráðning hennar í afleysingar með skömmum fyrirvara brjóti gegn þeim. Í starfsreglum stjórnar BÍS segir orðrétt “Stjórnarmenn skulu ekki þiggja laun fyrir stjórnarsetu né vera fastráðnir starfsmenn BÍS eða dótturfyrirtækja.” Það er alveg á hreinu að Harpa Ósk hefur aldrei þegið laun fyrir stjórnarsetu og aldrei verið fastráðin á skrifstofu BÍS. Starfsfólk í afleysingum er enda ekki fastráðið.
Haustið 2022 kom upp sú staða að framkvæmdastjóri BÍS þurfti að hverfa frá störfum með mjög skömmum fyrirvara. Þetta var álagstími á skrifstofunni og því var mikilvægt að finna afleysingu fyrir hana strax til að hægt væri að sinna áfram brýnustu málefnum BÍS og dótturfélaga. Sú ráðstöfun var í fyrstu hugsuð til nokkurra vikna en þegar ljóst var að fyrrum framkvæmdastjóri myndi ekki snúa aftur til starfa var hún framlengd. Skátahöfðingi hafði á þessum tíma svigrúm í sinni vinnu til þess að færa til verkefni og varð því úr að lögð var tillaga fyrir félagsforingjafund um að hún sinnti störfum framkvæmdastjóra tímabundið á meðan á ráðningarferli nýs framkvæmdastjóra stæði. Sú tillaga var samþykkt. Ráðningarferlið tók lengri tíma en áætlað var. Nýr framkvæmdastjóri kom formlega til starfa í maí 2023 en hóf í raun ekki störf að fullu fyrr en í ágúst, viku áður en farið var á alheimsmót. Harpa var því enn að sinna aðlögun hans að nýju starfi þegar mótið átti sér stað. Það er því ljóst að stjórn hafði umboð félagsforingjafundar fyrir afleysingunni og er afgreiðsla þessa máls því í samræmi við lög og reglugerðir BÍS þrátt fyrir að annað hafi verið gefið í skyn í umfjöllun RÚV um málið.
Við viljum árétta að allir þeir sjálfboðaliðar sem starfa í stjórn BÍS, þar á meðal skátahöfðingi, gera það af heilindum með það að markmiðiði að móta uppbyggilegt og skemmtilegt skátastarf í landinu.
Auður Sesselja Gylfadóttir, meðstjórnandi
Björk Norðdahl, fyrrum meðstjórnandi
Davíð Þrastarson, meðstjórnandi
Guðrún Stefánsdóttir, meðstjórnandi
Huldar Hlynsson, fyrrum meðstjórnandi
Sævar Skaftason, gjaldkeri
Unnur Líf Kvaran, meðstjórnandi
Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, fyrrum meðstjórnandi
Þórhallur Helgason, aðstoðarskátahöfðingi
Sendum okkar dýpstu samúðarkveðjur

Bandalag íslenskra skáta vottar aðstandendum, félögum í björgunarsveitinni Kyndli í Mosfellsbæ og öllum vinum okkar í Slysavarnarfélaginu Landsbjörgu innilega samúð vegna fráfalls félaga og formanns Kyndils.
Risaþrautir, eldkeppni og kvöldvaka á fálkaskátadegi
Fálkaskátadagurinn var haldinn laugardaginn 2. nóvember á 112 ára afmæli skátastarfs á Íslandi en í þetta sinn voru það Landnemar sem voru gestgjafar dagsins.

Dagskráin hófst á póstaleik í Öskjuhlíðinni þar sem flokkarnir fóru í risamíkadó, risamyllu, leystu skátadulmál, fóru í blindandi skógargöngu, bjuggu til sjúkrabörur, reiknuðu út hæð, lengd og rúmmál undirganganna undir Bústaðaveg, gáðu til veðurs, kynntust vatnstankinum á Veðurstofuhæðinni, fluttu vatn og fleira. Í lok póstaleiksins söfnuðust allir flokkarnir saman fyrir framan Landnemaheimilið og kepptu í eldkeppni þar sem markmiðið var að brenna snæri sem strengt hafði verið yfir eldstæðin. Eftir æsispennandi póstaleik stóð flokkurinn Ostasnakk úr Garðbúum uppi sem sigurvegarar leiksins en flokkurinn fékk samtals á þriðja þúsund stig og hlaut að launum farandfánann Fálkakempur.

Eftir póstaleikinn var haldin kvöldvaka þar sem fálkaskátarnir tóku vel undir í söng og að henni lokinni var boðið upp á kakó og kex en rúsínan í pylsuendanum var draugahúsið sem dróttskátarnir í Landnemum höfðu sett upp í skátaheimilinu.

Um 100 fálkaskátar ásamt foringjum tóku þátt í Fálkaskátadeginum og veður var með besta móti. Landnemar þakka öllum þeim sem tóku þátt í deginum kærlega fyrir samveruna, og óska öllum skátum til hamingju með 112 ára afmæli skátastarfs á Íslandi!

Andrea Dagbjört ráðin í fullt starf sem Erindreki BÍS

Andrea hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af skátastarfi og hefur sinnt fjölmörgum verkefnum fyrir hreyfinguna og sitt félag. Hún er starfandi sveitarforingi dróttskátasveitar og hefur reynslu í stjórnarsetu skátafélaga og sem aðstoðarfélagsforingi. Andrea mun taka við starfi erindreka og vinna að stefnu BÍS við að styðja skátafélög landsins og viðburðum.
Við bjóðum Andreu hjartanlega velkomna til starfa.
Vefverslun Skátabúðarinnar komin í loftið!

Skátabúðin hefur að undanförnu unnið að uppfærslu á vefverslun sinni til að gera síðuna notendavæna og aðgengilegri. Nú er hún loks komin í loftið! Fleiri vörur munu bætast við á komandi misserum. Skoðaðu vefverslunina hér!

Myndaratleikur um eyjuna Soumenlinna

Höfundur og myndir: Ísold Vala Þorsteinsdóttir
Dagur 1 á Ung i Norden í Finnlandi
Til að byrja með voru allar upplýsingar sem voru gefnar fyrir viðburðin mjög skýrar og mjög hjálplegar. T.d. Hvernig maður kæmist frá flugvellinum að hostelinu og hvernig dagskráin yrði.
Þegar ég lenti í Helsinki vissi ég strax hvert ég átti að fara og var komin á hostelið á innan við hálftíma. Hitti þar mótstjórana, þær Ronju og Kimmel og voru þær mjög almennilegar og hjálplegar. Ég kom mér fyrir í koju og svo var farið í kynningarleiki.
Það fannst nánast öllum mjög áhugavert að ég væri eini Íslendingurinn, það voru meira að segja fleirri frá færeyjum, en við lærðum nöfnin á öllum (eða ekki) og fórum svo út að kanna svæðið og borða svo kvöldmt á Indverksum stað.

Dagur 2
Ræs kl 8:00 og borðað morgunmat, þriggja tíma mismunur fór aðeins illa í mann en maður reyndi sitt besta að halda sér vakandi. Við fórum í heimsókn til bandalags skáta í Helsinki þar sem við vorum frædd um allskonar friðarsáttmála og allskonar tengt frið. Fórum svo út í leiki og fengum okkur hádegismat. Við kíktum svo niður á höfn þar sem beðið var eftir bát til að fara með okkur á eyjuna Soumenlinna. Þegar við komum á eyjuna var talað meira um frið og mismunandi sjálfsmyndir. Fengum við þá blað þar sem við áttum að finna 5 staðreyndir (sjálfsmyndir) um okkur, fara svo í tvöfalda línu og velja úr hjá hvoru öðru hvaða sjálfsmynd ætti að taka í burtu, þar til þú ættir eitt eftir. Áhugaverður “leikur”.
Eftir þetta var okkur skipt í hópa þar sem hver og einn úr hverju landi átti að vera í hópnum, nema auðvitað var það ekki hægt þar sem það var einn Íslendingur og of margir Svíar 😂 en hafðist allt að lokum. Fórum svo í myndaratleik um eyjuna. Taka mynd af góðum felustað, taka mynd af góðum stað til að slaka á, taka mynd af einhverju múmínlegu og meira til. Það var mjög gaman að skoða eyjuna með þessum hætti og gaman að kynnast fólkinu sem var með mér í hóp. Fórum svo aftur upp á land og fórum á annan asískan veitingastað að borða kvöldmat. Eftir kvöldmat var að sjálfsögðu kvöldvaka, en þar sem veðrið var vont þurftum við að hafa hana inni. Þar átti hvert og eitt land að koma með skemmtiatriði eða einhverskonar leik. Ég vissi reyndar ekki af því en náði að kenna þeim hið víðfræga aramdamdaram. Danir kendu leikinn slurp, Svíarnir komu með einhvern froska söng/dans, Færeyingar kendu þjóðdans, Finnar sýndu okkur Finnskar martraðir og Norðmenn komu með brúnan ost, smash og hlaup fyrir alla til að smakka og sýndu einnig ósýnilega bekkinn. Að kvöldvöku liðinni fór ég að sofa.

Dagur 3
Ræs kl 8:00, morgunmatur og pakka niður. Við kvöddum hostelið um 10 leitið og komum okkur aftur upp í bandalag, þar var okkur skipt í tvennt þar sem fyrsti hópurinn bjó til jólaskraut á klútinn sinn og hinn talaði um staðalímyndir og hvernig við getum breytt þeim. Fórum í nokkra leiki og fengum okkur hádegismat. Eftir matinn var kynnt fyrir okkur hinir og þessir viðburðir sem eru væntanlegir í skátahreyfingunni og hvernig við getum farið á hina og þessa skáta staði í heiminum og gerst sjálfboðaliðar. Þegar dagskránni var við það að ljúka komumst við að því að það væri ekki búið að hanna eða búa til Ung i norden merki handa okkur, unnum við þá í að hanna flottasta merkið og ætlum að láta framleiða það fyrir okkur. Þá var komið að kveðjustund, kvöddum foringjana okkar og héldum í smá búðarferð.
Ég kynntist mikið af nýju fólki og nýjum leikjum og fannst verulega áhugavert að fara ein á skátaviðburð.
Ég tel þetta góðann viðburð sem mun standa uppúr ❤️

Vel heppnað Merkjamót
Þann 12. október hélt Ungmennaráð Merkjamót í Skátamiðstöðinni. Um 30 skátar á aldrinum 13-19 ára sóttu viðburðinn og fræddust um merki og merkjaskipti. Dagskrá var fjölbreytt og kom margt skemmtilegt fólk með dagskrárliði. Starfsráð kom og hélt geggjaða kynningu um færnimerkin og svo fengu skátarnir að búa til sín eigin færnimerki. Aldrei að vita, kannski koma færnimerki í Skátabúðina hönnuð af þátttakendum Merkjamóts.
Katrín fræðslustýra BÍS ræddi um samskipti og fór með skátana í leik sem heppnaðist mjög vel. Á milli dagskrárliða var farið í nafnaleiki og geggjað boðhlaup með veglegum vinningum og heppnaðist það einstaklega vel. Haldin var smiðja um red flags í samskiptum, hverju þarf að taka eftir, hvenær er verið að svindla á þér og svo framvegis. Tveir rekkaskátar sögðu frá þeirra reynslu í merkjaskiptum. Þrír sjálfboðaliðar Úlfljótsvatns komu og kynntu skátastarf í sínu heimalandi og merkin þeirra.

Seinni part dags var farið í tvær stórar keppnir, önnur þeirra var Skátatankurinn sem er keppni byggð á þáttunum “Shark Tank” þar sem þátttakendur þurf að selja dómnefnd einhverja vöru. Að þessu sinni áttu skátar að selja dómnefnd merki. Í dómnefnd sátu Harpa Ósk skátahöfðingi, Úlfur Kvaran og Einar Tryggvi. Það var ríkti mikið keppnisskap enda voru vegleg verðlaun í boði. Seinni keppnin var skátarúlleta, þá skiptu skátarnir merkjum og var markmiðið að safna sem flestum. Veitt voru verðlaun fyrir flest merki og mesta úrvalið.
Einnig var borðuð pizza og Skátabúðin var opin og seldi meðal annars bland í poka af merkjum svo öll ættu að geta skipt við erlenda skáta á næstu viðburðum.

Ungmennaráð vill þakka skipulagsteyminu og öllum sem komu og tóku þátt fyrir frábært Merkjamót. En hugmyndin af þessu móti kviknaði hjá Styrmi í Garðbúum og Einari og Daníel í Árbúum. Þeir í samvinnu við Ungmennaráð skipulögðu svo viðburðinn. Ef þú ert með hugmynd sem þig langar að gera að veruleika, ekki hika við að hafa samband í tölvupósti.

Ert þú jólaálfur?
Hó hó hó! Þann 1. nóvember mun jólaskógur Skátabúðarinnar opna í öllu sínu veldi! 🎄✨
Við leitum því að hressum skátum sem vilja vera jólaálfar og aðstoða við sölu jólatrjáa frá og með 1. nóv, allar helgar fram að jólum 🧑🎄
Um er að ræða verktöku og munu jólaálfar fá vinnu sína greidda.
Frekari upplýsingar veitir Ragnar Þór, framkvæmdarstjóri, í tölvupósti.









