Landsmóti skáta frestað til 2021
Gleðilegt sumar.
Eins og við vitum öll þá stóð til að halda Landsmót skáta að Hömrum á Akureyri í sumar. Mikill undirbúningur er búinn að eiga sér stað og stefndi í virkilega gott mót. Aðstæður í samfélaginu hafa hins vegar sett strik í reikninginn og fengið okkur til að endurskoða ákvörðun um mótahald í sumar. Við höfum verið í mjög góðu samstarfi við yfirvöld í þessu ferli og fengið liðsinni þeirra í þessari vinnu.
Stjórn BÍS hefur í ljósi aðstæðna ákveðið að fresta Landsmóti skáta 2020 til næsta sumars. Óvissuþættirnir eru of margir til að geta réttlætt þessa framkvæmd í sumar.
Á næstu vikum munum við kynna betur hvernig verður staðið að Landsmóti skáta að Hömrum 2021. Nánari upplýsingar um endurgreiðslur og skráningu munu koma eigi síðar en 15. maí n.k.
Þessi ákvörðun var erfið en við trúum því að hún hafi verið rétt. Það er mikilvægt að við stöndum saman og vinnum okkur í gegnum þessa veiru.
Með skátakveðju
Stjórn BÍS