Skátamiðstöðin að sumri

Breyttur opnunartími skátamiðstöðvarinnar

Skátamiðstöðin að sumri
Frá áramótum styttist opnunartími Skátamiðstöðvarinnar í samræmi við styttingu vinnuvikunnar sem samið var um í síðustu kjarasamningum.

Nýr opnunartími Skátamiðstöðvarinnar:

Mánudagar til fimmtudagar 9:00 - 17:00
Föstudagar 9:00 - 16:00


Stefnumótunardagur BÍS

Áfram veginn - Stefnumótun BÍS

Sunnudaginn 10. nóvember 2019 verður stefnumótunardagur BÍS haldinn í Skátamiðstöðinni, Hraunbæ 123, milli klukkan 10 og 16.  Þá gefst skátum tækifæri til að móta framtíð BÍS, koma sínum skoðunum á framfæri og hafa áhrif.  Húsið opnar klukkan 9:30 og boðið verður upp á léttar veitingar yfir daginn.

Ekki láta þetta tækifæri til að móta framtíð skátahreyfingarinnar á Íslandi framhjá þér fara, skráðu þig á http://skatar.felog.is/


World thinking day 2020

Vinnuhópur World Thinking Day

World thinking day 2020Auglýst er eftir sjálfboðaliðum í vinnuhóp sem mun þýða og staðfæra dagskrárpakkann fyrir World thinking day 2020 sem WAGGGS þróaði og setti saman. World thinking day er dagur alþjóðlegrar vináttu þar sem skátar út um allan heim hugsa hlýtt til annarra skáta og lýsa þökkum og þakklæti. Dagurinn er haldinn 22. febrúar en sá dagur var valinn vegna þess að það er afmælisdagur bæði Lord Baden-Powell, stofnanda skátahreyfingarinnar og Olave Baden-Powell, sem var World Chief Guide. Dagskrárpakkinn skiptist í þrjú þemu:

  • leiðtogafærni
  • fjölbreytni, sanngirni og allir með
  • friðaruppbygging

Frekari upplýsingar eru hér að neðan og áhugasamir skulu hafa samband við kolbrun@skatar.is.

Hvaða kröfur þarf ég að uppfylla til að vera með?

Við óskum eftir fólki sem er:

  • 16 ára og eldri
  • Fært í ensku
  • Áhugasamt um að fræðast betur um World Thinking Day og dagskrárpakkann

Þýðing

Bæklingur sem segir frá World thinking day og öllum verkefnunum er á ensku. Flest ungmenni kunna góða ensku og gott að geta nálgast efnið á ensku líka en kapp er þó lagt á að sem mest af stuðningsefni BÍS sé á íslensku og því þarf að þýða öll verkefnin.

Tímalína

Vinnuhópurinn mun hittast 4 sinnum fram að desember, fara yfir stöðu verkefnis og skipta þeim verkefnum á milli sín sem eftir eru. Áætluð skil eru um mánaðarmótin nóvember / desember. Áhugasamir hafi samband við kolbrun@skatar.is.


Skátamiðstöðin að sumri

Skátamiðstöðin lokuð vegna starfsdags

Skátamiðstöðin lokar kl 14:30 á morgun föstudaginn 4. október vegna starfsdags starfsfólks. Við bendum ykkur á að senda fyrirspurn á skatar@skatar.is og við svörum strax eftir helgi.


Forsíða skatarnir.is

Skatarnir.is fyrsti áfangi kominn í loftið

Forsíða skatarnir.is

Eftir þrotlausa vinnu síðustu tvo mánuði er fyrsti áfangi nýrrar heimasíðu kominn í loftið. Í þessari fyrstu umferð eru komnar góðar síður um öll aldursbil skátastarfsins, sjálfboðaliðastarfið auk upplýsingasíðna um öll skátafélög landsins.
Kíkið í heimsókn á https://skatarnir.is/

Ritstjórn:
Jón Halldór Jónasson
Hulda Mjöll Þorleifsdóttir
Kolbrún Ósk Pétursdóttir
Sigurgeir Bjartur Þórisson
Unnur Líf Kvaran

Þakkir:
Aron Gauti Sigurðarson - Ljósmyndun
Benedikt Þorgilsson - Tæknivinna
Berglind Lilja Björnsdóttir - Textavinna
Guðmundur Vestmann - Uppsetning vefsíðu
Halldór Valberg Skúlason - Ljósmyndun
Margrethe Grönvold Friis - Ljósmyndun
Nanna Guðrún Bjarnadóttir - Ljósmyndun
Sigurður Ólafur Sigurðsson - Ljósmyndun
Sigríður Ágústsdóttir - Yfirlestur
Tryggvi Bragason - Tæknivinna
Auk allra annarra sem aðstoðuðu okkur


Ingólfur Ármannsson er farinn heim

Ingólfur Ármannsson (1936–2019), kennari og síðar fræðslustjóri og skólastjóri Síðuskóla á Akureyri, lést hinn 1. september á 83. aldursári. Ingólfur var framkvæmdastjóri og erindreki Bandalags íslenskra skáta árin 1960–1964. Þótt hann væri lengstum eini starfsmaður bandalagsins tókst honum eindæma vel að standa fyrir öflugu fræðslustarfi. Ingólfur sótti fyrsta Gilwell-námskeiðið á Íslandi árið 1959. Margir skátar sem sóttu námskeiðið þá og næstu ár voru virkjaðir við námskeiðshald og ritun fræðsluefnis undir hans stjórn. Ingólfur stýrði og leiðbeindi á Gilwell-námskeiðum og sat í sameiginlegri norrænni stjórn Jamboree árið 1975, Nordjamb.
Ingólfur bjó á Akureyri frá árinu 1966 ásamt eiginkonu sinni, Hrefnu Hjálmarsdóttur. Þar voru þau hjónin virk í skátastarfi æ síðan. Bandalag íslenskra skáta þakkar Ingólfi ríkulegt framlag til skátastarfs á Íslandi og vottar Hrefnu og börnum þeirra innilega samúð.


Hulda Mjöll þjónustufulltrúi

Búið er að ráða nýjan þjónustufulltrúa til BÍS sem mun taka sæti Unnar Lífar þegar hún fer frá okkur í ágúst. Viðkomandi kemur úr Fossbúum og heitir Hulda Mjöll Þorleifsdóttir.
Hún mun hefja störf 22. júlí.

Hulda hefur verið í hinum öfluga foreldrahóp Fossbúa og þekkir því ágætlega til skátastarfs. Hulda starfaði áður hjá Matvælastofnun/MAST á Selfossi.

Við bjóðum Huldu Mjöll hjartanlega velkomna til starfa.


Laust starf: Þjónustufulltrúi skátamiðstöðvarinnar

Skátamiðstöðin leitar að þjónustu- og upplýsingafulltrúa í fullt starf við fjölþætt skrifstofustörf, upplýsingamiðlun, verslunarrekstur og verkefnastjóra fyrir mismunandi vinnuhópa innan skátahreyfingarinnar.

Leitað er að aðila sem á auðvelt með að vinna í hópastarfi, getur unnið sjálfstætt, sýnir frumkvæði og á auðvelt með að vinna með ungu fólki. Þetta er fullt starf með aðstöðu í Skátamiðstöðinni í Hraunbæ 123 í Reykjavík. Vinnutími er alla jafna frá 9-17 virka daga.

Starfssvið m.a.:

  • Annast almenna móttöku, umsjón með kaffistofu, símsvörun
  • Annast skráningu á viðburði, kennslu og vinnu við Nóra félagatal
  • Fylgja eftir innheimtumálum
  • Undirbúa og ganga frá eftir stjórnarfundi
  • Aðstoða við markaðssetningu, skipulagningu og undirbúning viðburða
  • Sjá um heimasíðumál, þriðjudagspóst, fréttaskrif og innsetningu frétta
  • Stýra verkefna- og vinnuhópum um málefni skátahreyfingarinnar
  • Annast almenn samskipti við skáta og aðildarfélög
  • Sjá um verslunarrekstur á skátavörum

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Menntun sem nýtist í starfi
  • Góð almenn tölvukunnátta (ritvinnsla – gagnagrunnar)
  • Reynsla af frétta- og greinaskrifum
  • Góð mannleg samskipti
  • Sjálfstæð vinnubrögð og frumkvæði
  • Æskilegt að hafa starfað sem skáti

Skátamiðstöðin þjónustar skátafélög landsins, annast útgáfumál, fræðslumál, alþjóðleg samskipti, fjáraflanir, sameiginlega viðburði og önnur þau verk sem lúta að rekstri landshreyfingar æskulýðssamtaka. Hjá skátahreyfingunni starfar samhentur hópur atvinnufólks og sjálfboðaliða að því að efla skátastarf í landinu.

Áhugasömum er bent á að senda umsóknir og/eða fyrirspurnir á netfangið: sigridur@skatar.is  Allar nánari upplýsingar veitir Sigríður skrifstofustjóri, í síma 550-9800.

Umsóknarfrestur er til 15. júní nk. Viðkomandi þarf að geta hafið störf seinni hluta júlí


Tökum þátt í Bláum apríl!

Kæru skátar, við hvetjum ykkur til þess að taka þátt því mikilvæga vitundar- og styktarátaki sem Blár apríl er!

Klæðumst bláu 2. apríl til að vekja athygli á Bláum apríl og merkjum myndir af því með #blarapril

Blár apríl - styktarfélag barna með einhverfu stendur að bláa deginum og markmið átaksins er að vekja athygli á einhverfu og afna fé til styrktar málefnum er varða börn með einhverfu. Öll starfsemi styktarfélagsins er unnin í sjálfboðavinnu og allt styktarfé rennur óskert til söfnunarátaksins.

Allar frekari upplýsingar um Bláan apríl má finna á heimasíðu þeirra, blarapril.is


Privacy Preference Center