Sex dróttskátar feta fótspor Suðurskautsfara

Sex dróttskátar frá félögunum Árbúum, Fossbúum, Garðbúum og Kópum sóttu um síðastliðinn ágúst um á fá að taka þátt í Vetraráskorun Crean, þá hófust 4 undirbúningshelgar þar sem krakkarnir fengu allan þann grunn sem þau þurftu fyrir aðalvikuna.
Þann 9. febrúar byrjaði aðalvikan með því að allir mættu á úlfljótsvatn, Íslendingarnir hittu loks Írana og kepptust við að ná að tala við alla.
Yfir vikuna var farið í æfingargöngur, fyrst upp í Fossbúð svo Írarnir gætu áttað sig á aðstæðum og veðri, seinni gangan var stór hringur gegnum skóglendi, meðfram vatni, yfir tún og fjall.
Þess á milli var ýmis konar kennsla og fræðsla, veðurfræði, hvernig á að ganga í línu í fjallafæri og sagt frá ferðum Tom Crean.

Miðvikudagsmorgunn 14. febrúar vöknuðu allir eldsnemma til að klæða sig upp og borða morgunmat. 4 flokkar biðu eftir því að byrja að ganga, kl 07:00 fór fyrsti flokkurinn, kl 07:20 fór næsti flokkur, kl 07:40 fór þriðji flokkurinn og kl 08:00 fór síðasti flokkurinn. Flokkarnir gengu með flokksforingjum og björgunarsveitarmönnum, héldu fyrst upp að Fossbúð og þaðan í Grafningsrétt upp í fjöll og að hellisheiðinni. Stefnan var tekin á skátaskálana 3 sem eru saman á heiðinni: Þrym, Kút og Bæli.

Gangan var krefjandi og þegar komið var niður að skálunum um kl 17:00, fögnuðu margir þeim risastóra áfanga sem þau höfðu náð, mánuðir af þjálfun hafði þarna skilað sér í risastóru afreki sem var að feta fótspor Tom Crean. Allir elduðu sér kvöldmat og fóru þreytt og sátt að sofa eftir viðburðaríkan dag. Daginn eftir var allur búnaður tekinn saman og hópuðu sér allir saman fyrir framan Kút til að taka hópmyndir. Eftir fallegar pósur héldu allir af stað í áttina að Hellisheiðavirkjun þar sem rútan myndi taka alla í bæinn. Þegar komið var að virkjuninni tóku allir bakpokana sína af sér, fengu sér að borða og nutu þess að setjast niður. Þegar komið var í bæinn tóku allir sundfötin sín og haldið af stað í laugardalslaug enda fátt betra eftir slíka göngu.
Lokadaginn fóru allir í menningargöngu um Reykjavík, þegar líða fór að kvöldi var komið að loka athöfninni, Harpa Ósk Skátahöfðingi kom þá í heimsókn og afhenti viðurkenningarnar fyrir þátttöku á vetraráskorun Crean, allir þátttakendur hlutu viðurkenningu, enda óstöðvandi hópur.
Fagnað var með pizzaveislu og síðan var kveðjustundin mikla og haldið var heim á leið eftir langa, krefjandi og góða viku.


Við þökkum írsku skátunum frá Crean Challenge fyrir þennan magnaða viðburð.
Öflugir skátar hefja Gilwell vegferðina

Nýlega héldu 14 öflugir skátar af stað í Gilwell vegferðina en þau luku fyrsta þrepi af þremur helgina 2-4. febrúar og bera núna stolt Gilwell hnútinn eftirsótta.
Á námskeiðið mættu skátar víðsvegar að, frá Búðardal, Reykjavík, Mosfellsdal og Kópavogi, sum ný á Gilwell vegferðinni en önnur eru að koma aftur til að klára.
Hópurinn lét ekki ófærð og vont veður á sig fá og hóf námskeiðið í Mosverjaheimilinu þar sem farið var yfir helstu leiðtogastíla og hvernig leiðtogar við viljum vera, bæði í skátastarfi sem og í eigin lífi.
Á laugardeginum lá leiðin austur á Úlfljótsvatn og hófst þar með námskeiðið og flokkarnir litu dagsins ljós. Dagskráin hófst með stórskemmtilegum póstaleik þar sem skátaaðferðin var í fyrirrúmi. Dagskrá laugardagsins miðaði svo að gildum í skátastarfi og leiðtogaþjálfun.

Hefðbundin Gilwell kvöldvaka var á sínum stað, þátttakendur slógu í gegn með frumsömdum skemmtiatriðum þar sem persónur úr Njálu skelltu sér á Gilwell! Kvöldinu lauk svo í Ólafsbúð þar sem við ornuðum okkur við eldinn og grilluðum smors og pylsur.

Á sunnudag var rýnt í leiðtogalilju WOSM sem stefnumótunar og verkefnastjórnunartæki. Nú tekur við spennandi tími þar sem Gilwell nemarnir fara að skapa verkefnin sín og var því sunnudagurinn nýttur undir hugarflug og rýni á það hvernig hægt sé að bæta skátastarf á Íslandi.
Þátttakendahópurinn var einstaklega samstilltur og til í allar þrautir og verkefni sem leiðbeinendum datt í hug að leggja fyrir þau. Það gerði helgina sérlega skemmtilega fyrir okkur öll. Yndislegi Gilwell skálinn heldur vel utan um hópinn þar sem sagan og táknræna umgjörðin eru í aðalhlutverki og koma okkur í Gilwell stemminguna.
Næsta þrep verður í júní þar sem við munum búa í tjaldbúð og reynir þá meira á hópastarf og samvinnu.

Skemmtilegt viðtal um skátastarf í hlaðvarpinu "Þú veist betur"
Hér getið þið hlustað á skemmtilegt viðtal sem Arnór Bjarki fór í á dögunum.
Í viðtalinu spjallar hann við Atla Má um skátastarf, söguna og hvað við erum að fást við í dag!
Mælum með því að hlusta.
Skátar á skátamóti í vetrarhríð

Vetrarmót Reykjavíkurskáta var haldið í áttunda sinn um helgina í útivistarparadísinni á Úlfljótsvatni. 140 skátar sóttu mótið að þessu sinni.
Markmið með mótinu var fyrst og fremst að kenna ungum skátum á að takast á við fjölbreyttar áskoranir að vetrarlagi og að efla samstarf milli skátafélaganna í Reykjavík. Þau verkefni sem skátarnir þurftu að takast á við um helgina voru sig og klifur í 8 metra háum turni, elda mat á prímus, búa til kyndil og að auki hefðbundin skátadagskrá eins og póstaleikir, gönguferðir kvöldvaka og risa næturleikur.
Tjöld sett upp í milli stórhríða
Eitt mest krefjandi verkefni Vetrarmótsins var að setja upp tjaldbúðir fyrir elstu skátanna. Um það bil 20 skátar gistu í tjöldum í tvær nætur. Veðrið var bæði mjög slæmt og en einnig komu kaflar þar sem var heiðskírt og logn. Skátarnir skemmtu sér konunglega þótt veðrið hafi barið hressilega á þeim en það verður eflaust það sem mun standa upp úr þegar litið er til baka að hafa tekist á við svona krefjandi aðstæður.
Rosaleg útivera og mikilvæg næring
Um helgina voru krakkarnir um það bil 15 tíma úti í snjónum í leik og starfi sem er vel rúmlega það sem börn eru vön nú til dags í og eiga skátarnir mikið hrós skilið að hafa tekist á verkefnin með bros á vör. Það skiptir miklu máli að vera vel nærður og við erum mjög heppinn að eiga góða að til þess að elda góðar og næringarríkar máltíðir á mótinu. Þá gefst tækifæri til þess að fylla á orkubirgðir og fá smá yl í kroppinn til þess að halda áfram útiverunni.

Neistinn kveiktur fyrir 2024

Síðastliðna helgi komu hátt í 80 manns saman á Neista sem haldinn er árlega í upphafi janúar á Úlfljótsvatni. Þátttakendur voru skátar, 16 ára og eldri, sem lærðu nýja færni, kynntust öðrum skátum og byrjuðu skátaárið á skemmtilegan hátt.
Neisti er færninámskeið þar sem boðið er upp á margvíslegar smiðjur og fá þátttakendur að velja sína eigin dagskrá.
Þema Neista að þessu sinni var Landsmóts þar sem styttist í Landsmót skáta í sumar. Þemað var nýtt í flokkaskiptingu þar sem flokkar helgarinnar voru félög á leið á landsmót en einnig hafði þemað áhrif á dagskrá helgarinnar.

Á föstudegi var setningarathöfn þar sem skipt var í flokka og héldu þau svo af stað í póstaleik. Í póstaleiknum gafst flokkunum tækifæri á því að kynnast betur, þau bjuggu til verndargrip fyrir félagið sitt og tókust á við ýmis verkefni, meðal annars að búa til fallhlíf fyrir egg svo það gæti fallið úr klifurturninum og lent í heilu lagi.
Smiðjurnar voru svo keyrðar á laugardegi og fyrir hádegi á sunnudag en boðið var alls upp á 18 smiðjur yfir helgina. Smiðjurnar voru fjölbreyttar en m.a. var í boði smiðjur um öryggi í skátastarfi, snjallgöngur, landsmóts tjaldbúðina, leikjastjórnun og valdeflingu fálkaskáta.
Að sjálfsögðu voru Eldleikarnir á sínum stað á laugardagskvöldi ásamt kvöldvöku sem nýjir kvöldvökustjórar stýrðu eftir að hafa verið þátttakendur á smiðju um slagverk og kvöldvökur.

Eftir hádegi á sunnudegi kom mótsstjórn Landsmóts skáta 2024 og sá um póstaleik sem gaf þátttakendum innsýn í það við hverju má búast í sumar.
Sérstakar þakkir fá allir þeir sjálfboðaliðar sem komu að helginni og gerðu þennan viðburð að veruleika.
Við hlökkum til að sjá ykkur á Landsmóti í sumar!
Eflum óformlegt nám - menntaráðstefna skáta í París

Bandalag íslenskra skáta sendi 5 fulltrúa á vel heppnaða menntaráðstefnu skáta í París á dögunum. Á ráðstefnunni var áherslan lögð á að styðja og efla menntunargildi skátastarfs um allan heim. Yfir 500 skátar mættu á ráðstefnuna ásamt fulltrúum fjölda stofnana og samtaka.

Fulltrúar okkar dreifðu sér á ýmsar málstofur þar sem fjölbreytt málefni voru til umræðu. Sem dæmi má nefna:
- Hvernig á að stýra sjálfboðaliðastarfi og fá fleiri að borðinu?
- Mikilvægi þess að fá pásu frá símanum
- Hvaða leiðir getur skátastarf farið í átt að heimsfrið?
- Hvernig stuðlum við að vitundarvakningu innan skátanna í umhverfis- og loftslagsmálum?
- Hvert stefnum við sem alþjóðahreyfing?
Að auki sóttu fulltrúarnir mjög áhugaverða fræðslu um rafræn skátamerki, en nú stendur yfir þróun á rafrænu alþjóðlegu kerfi þar sem skátar geta hlaðið upp og fengið fleiri merki fyrir hæfni sína og unnin verkefni.
Vegvísir fyrir menntun í skátastarfi
Við lok ráðstefnunnar voru málefni hennar og umræður tekin saman og útbúinn vegvísir fyrir skátastarf. Vegvísirinn inniheldur 10 leiðir til að efla innihaldsríkara og aðgengilegra skátastarf. Vegvísinn má finna hér.
Sá lærdómur sem þátttakendur okkar taka með sér heim verður nýttur vel til þess að efla innra starfið.

Íslenskir skátar fóru til Noregs að taka þátt í Ung i Norden

Helgina 10.-12. nóvember 2023 lögðu þrír ungir skátar land undir fót og ferðuðust til Oslóar í Noregi. Þar var haldin viðburðurinn Ung i Norden sem er samstarf Bandalaga allra Norðurlandana. Þar koma saman ungir skátar frá öllum norðurlöndunum og kynnast og fræðast um ýmis viðfangsefni. Í ár var viðfangsefnið Flóttamenn og hvernig það er að vera flóttamaður.

Það var notast við margskonar aðferðir til að lærdómar og vitneskju vakningar. Margir fyrirlestrar voru haldnir þar sem farið kynnt ýmis málefni sem skipuleggjendurnir vildu leggja áherslu á. Fjallað var um hulinn átök sem eru átök sem eru ekki í umfjöllun í fjölmiðlum og því verða þau “hulin” sem og hver er skilgreiningin á flóttamanni.
Það var einnig farið í leik þar sem markmiðið var að fá þátttakendur til að reyna að setja sig í spor flóttamanna. Vissulega var leikurinn hannaður fyrir en yngri skáta en voru á þessum viðburði svo að megin markmið leiksins náði ekki alveg til skila.
Á laugardagskvöldinu var horft á mynd sem heitir Invisible Republic, hún var afar áhugaverð. Myndin fjallaði um átökin í Nagorno-Karabakh. Konan sem gerir myndina er fréttamaður frá armeníu og býr á þessu svæði sem átökin eru á og er á svæðinu á meðan þau standa yfir.

Síðan var svona pallborðsumræður þar sem komu sérfræðingar frá Noregi í þessum málefnum. Þar gátu þátttakendur spurt spurninga og var þetta mjög áhugaverður líður í dagskrá viðburðarins. Viðburðin kláraðist síðan með fallegri athöfn þar sem allir skátarnir kveiktu á kertum og sungu bræðralagssöngin á sínu eigin tungumáli. Noregsfararnir mæla með þessum viðburði fyrir alla unga skáta. Maður kynnist ekki bara nýju fólki heldur líka nýjum skátamenningum.
Höfundur: Reynir Tómas Reynisson
ESC verkefni - Aðgengilegt skátastarf

Starfsárið 2023-2024 vinnum við að verkefni sem snýr að því að auka þátttöku barna af erlendum uppruna í skátastarfi. Þetta er okkur mjög mikilvægt verkefni, við höfum verið að leggja aukna áherslu á innglindingu í skátastarfi og er þetta einn liður í því að gefa öllum börnum tækifæri á að kynnast skátastarfi.
Verkefnið hefur hlotið styrk úr samfélagsverkefnahluta Erasmus+ áætlunarinnar og eru verkþættir verkefnisins eftirfarandi:
- Bjóða starfsfólki og sjálfboðaliðum hreyfingarinnar upp á fræðslu
- Þýða dagskrárefni skáta
- Þýða bókina “Hvað er skátastarf?” ætlað börnum, foreldrum og starfsfólki til kynningar
- Koma á tengslaneti fullorðinna skáta með erlendan uppruna búsett á Íslandi og hvetja þau til þátttöku.
Forsenda þess að verkefnið takist vel er að við sem hreyfing leggjumst öll á eitt að gera starfið aðgengilegt, á vettvangi bandalagsins en einnig á vettvangi skátafélaganna.
Því er fyrsti verkþátturinn fræðsla fyrir sjálfboðaliða, starfsfólk og önnur áhugasöm þar sem við fáum tækifæri á því að öðlast innsýn í reynsluheim fólks af erlendum uppruna á Íslandi og hvað aftrar þátttöku þeirra í æskulýðsstarfi.
FJÖLMENNINGARFRÆÐSLA MANNFLÓRUNNAR
Fyrsta fræðsluerindið var haldið í nóvember en þá kom Chanel Björk Sturludóttir, stofnandi Mannflórunnar, til okkar og hélt fræðslu um fjölmenningu.
Chanel kom með ýmsan fróðleik og upplýsingar um hvernig íslenskt samfélag er byggt upp með þátttöku einstaklinga með ólíkan bakgrunn, fjölda ólíkra og sameiginlegra uppruna og einnig einstaklingar sem tilheyra mörgum fjölbreyttum menningarheimum.
Hún kom einnig með fræðslu varðandi ýmiss hugtök sem snertir fjölmenningu og mikilvægt fyrir virka einstaklinga í samfélagi að vera meðvituð um eins og
- Staðalímyndir
- Kynþátttafordóma
- Menningarfordóma
- Öráreiti
- Hvítleika
- Forréttindi
- Forréttindi hvítra
Við hvetjum öll að fræðast um þessi mikilvægu málefni en þau sem ekki komust á fræðsluna hjá Chanel geta nálgast ítarefni hjá starfsmanni síns skátafélags.
Við vonum að sem flest sjái sér fært um að mæta á aðrar fræðslur á vorönn.
Ef þið hafið hugmyndir að áhugaverðum fræðsluerinudm má endilega senda þær á skatarnir@skatarnir.is.
Kraftur í fálkaskátum Skjöldunga
Í nóvember voru fálkaskátar í skátafélaginu Skjöldungum fyrstu þátttakendur FálkaKrafts, sem eru ný leiðtoaþjálfunarnámskeið haldin af Leiðbeinendasveitinni.
Á FálkaKrafti fá þátttakendur tækifæri á því að taka þátt í dagskrá sem þjálfar þau í flokkastarfi, að plana-gera-meta og samvinnu. Þátttakendur fá færi á því að kynnast gildum skátahreyfingarinnar í gegnum leiki og reynslunám og eru þau hvött til að vinna að samfélagsverkefnum að viðburði loknum.

"GAMAN AÐ SJÁ HVAÐ KRAKKARNIR ERU FLOTT"
Helena Sif, annar sveitarforingi fálkaskátanna í Skjöldungum, var mjög ánægð með FálkaKraft og fannst gaman að fylgjast með því hversu vel skátarnir þeirra stóðu sig á viðburðinum.
"Þetta gekk vel og var bara kósý" segir Helena en á FálkaKrafti koma tveir aðilar úr Leiðbeinendasveitinni og keyra dagskrána með fálkaskátunum. Helena sagði það vera mjög þægilegt í ljósi alls sem sjálfboðaliðar eru oft að fást við innan og utan skátastarfs að fá tilbúna dagskrá og aðila sem sjá um hana.
"Við þurftum ekkert að gera nema vera stolt" sagði Helena en einnig fannst henni gaman að fá nýja að starfinu og sjá þau hvetja skátana þeirra áfram til að vinna að verkefnum sem þeim hefði kannski ekki dottið í hug að gera sjálf. Það helsta sem stóð uppúr fyrir foringjana var "að sjá hvað krakkarnir eru flott og fá einhvern nýjan inn sem sýnir fram á hvað er hægt í skátastarfi. The sky is the limit í rauninni en þau taka ekki alltaf mark á því þegar það kemur frá okkur foringjunum"
Dagskráin gekk vel og höfðaði vel til skátanna, viðfangsefnin voru fjölbreytt og var ólíkt hvað stóð uppúr hjá þátttakendum að sögn Helenu. Það sem hefur þó farið mest fyrir eftir að viðburðinum lauk eru samfélagsverkefni en einn dagskrárliður FálkaKrafts var að flokkarnir áttu að velja sér samfélagsverkefni sem þeim þótti mikilvægt. Í framhaldi að því fóru þau í lýðræðisleik þar sem hver flokkur kynnti sína hugmynd og svo var kosið um bestu hugmyndina sem þau myndu vinna saman að sem sveit. Að auki voru þau hvött til að vinna samt sem áður að sínum samfélagsverkefnum og hafa fálkaskátarnir svo sannarlega gert það en þau hafa þegar framkvæmt tvö samfélagverkefni.


JÓLABALL FYRIR ALLA FJÖLSKYLDUNA
Einn flokkurinn vildi halda jólaball fyrr fjölskyldur í hverfinu og voru þau búin að skipuleggja dagskrá ballsins sjálf. Þau hönnuðu auglýsingar fyrir jólaballið á skátafundum en fóru svo sjálf að dreifa þeim um hverfið í sínum frítíma. Einnig sáu þau um að baka veitingar til að bjóða uppá á ballinu heima hjá sér.
Jólaballið var haldið í skátaheimili Skjöldunga 9. desember og voru um 20 manns sem mættu, hittu jólasveina og skreyttu piparkökur.
DÓSASÖFNUN FYRIR GRINDVÍKINGA

Annar flokkur var mjög áhugasamur um að safna dósum til að styðja söfnun Rauða Krossins vegna jarðrhræringanna við Grindavík. Vörðu þau þrem fundum í að ganga í hús og safna flöskum og dósum úr hverfinu og náðu þau að safna 51.442 krónum sem afhentar voru Rauða Krossinum.
Hér má lesa frétt á vef Rauða Krossins um dósasöfunina.
BÓKA FÁLKAKRAFT
FálkaKraftur er haldinn á vettvangi félagsins en nokkur félög geta einnig sameinast um að halda námskeiðið. Skátafélögin sem óska eftir Fálkakrafti fyrir sínar fálkaskátasveitir útvega húsnæði fyrir námskeiðin (t.d. skátaheimili eða skátaskála) og þannig kemur Fálkakrafturinn til skátafélaganna! Hvert námskeið stendur yfir í 5 klukkustundir og því er tilvalið að prjóna lengri dagskrá við Fálkakraftinn, t.d. sveitarútilegu yfir alla helgina.
Langar þig að fá FálkaKraft í þitt félag? Hafðu samband við Leiðbeinendasveitina með því að senda þeim tölvupóst á leidbeinendasveit@skatarnir.is.
Læst inni í Garðbúaheimilinu

Síðastliðinn þriðjudag spreyttu róverskátar sig á nýju flóttarými (escape room) í Garðbúaheimilinu. Flóttarýmið var sett upp sem dagskrá fyrir róverskáta og eldri skáta og fékk styrk frá Evrópusambandinu. Þetta flóttarými, Föst á fjöllum, var með skátaþema þar sem skátaflokkur í fortíðinni fór í útilegu í fjallaskála og dularfullir atburðir áttu sér stað. Skátarnir sem prófuðu flóttarýmið leystu svo þrautir og gátur til að komast að því hvað hefði gerst og opna lásinn á herberginu til að komast sjálf út.
Viðburðurinn var vel heppnaður og er nú hægt að fá allan búnað í flóttarýmið lánaðan til að setja upp í sínu skátafélagi. Þeir sem hafa áhuga á að setja upp flóttarýmið fyrir dróttskáta, rekkaskáta, róverskáta eða eldri hafið samband við skatarnir@skatarnir.is






