Lokað vegna sumarleyfa

Skátamiðstöðin og Skátabúðin verða lokuð vegna sumarleyfa vikuna 27. -31. júlí. Opnum aftur eftir verlsunarmannahelgi.

Minnum á vefverslunina okkar skatabudin.is, pantanir sem berast verða sendar í póst eftir opnun.

Hægt er að senda okkur fyrirspurnir með tölvupósti á skatar@skatar.is, öllum fyrirspurnum verður svaraðeftir opnun.


Samskiptaráðgjafi

Samskiptaráðgjafi

Samskiptaráðgjafi tók til starfa á vor mánuðum eftir að mennta- og menningarmálaráðuneytið setti lög um starfið síðastliðið haust. Samskiptaráðgjafi hefur það markmið að auka öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna. Markmiðið er að allir geti tekið virkan þátt á sínum vettvangi og jafnframt leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem hafa átt sér stað án þess að óttast afleiðingar.

Þjónusta og ráðgjöf samskiptaráðgjafa stendur öllum þeim til boða sem tilheyra skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi á landinu. Til samskiptaráðgjafa er hægt að leita með mál sem varða andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi og áreitni, einelti og önnur sambærileg tilvik sem hafa farið fram á íþrótta- eða æskulýðsvettvangi. Einnig mun samskiptaráðgjafi koma á samræmdum viðbragðsáætlunum á landsvísu hvað slík mál varðar.

Starfi samskiptaráðgjafa sinnir Sigurbjörg Sigurpálsdóttir sem er klínískur sálfræðingur. Hægt er að hafa beint samband við hana, símatími er alla þriðjudaga kl.10-11 í síma 839-9100. Utan þess tíma er hægt að hringja í símanúmerið en ekki alltaf öruggt að ná samtali þá. Annars er hægt að senda tölvupóst á sigurbjorg@dmg.is sem verður svarað eins fljótt og hægt er. Einnig er hægt að leita til aðila innan síns félagsstarfs sem gæti svo haft samband við samskiptaráðgjafa fyrir hönd viðkomandi.

Eftir samtal eða fyrstu samskipti við samskiptaráðgjafa er boðið upp á viðtal ef málið varðar áreitni, ofbeldi eða einelti. Þá er frekari upplýsingum aflað og í kjölfarið yrðu næstu skref ákveðin, ávallt í samráði við þann sem leitar til samskiptaráðgjafa. Það er einnig hægt að leita eftir ráðgjöf hjá samskiptaráðgjafa, ekki þarf að fara lengra með mál ef viðkomandi kýs það ekki.

Samskiptaráðgjafi er óháður aðili sem getur aðstoðað og leiðbeint einstaklingum sem telja sig hafa verið beittir ofbeldi eða misrétti í sínu íþrótta- eða æskulýðsstarfi. Þjónusta samskiptaráðgjafa er gjaldfrjáls.

Nú hefur heimasíða samskiptaráðgjafa litið ljós og mun hún þjóna sem upplýsinga- og fræðslusíða starfsins. Einnig er hægt að setja sig í samband við samskiptaráðgjafa þar til að fá ráðgjöf eða aðrar upplýsingar.

https://www.samskiptaradgjafi.is/


Flakk og flandur útivistaráskorun rekka- og róverskáta

Flakk og flandur - Útivistaráskorun skáta

Flakk og flandur

Útivistaráskorun skáta sumarið 2020

Sumarið 2020 verður útivistar- og ferðasumarið mikla! Þar sem ekki er mikið um utanlandsferðir í sumar er kjörið að nýta tækifærið og eyða tíma úti í náttúrunni okkar og prófa nýja hluti. Ungmennaráð Bís setti saman áskorun sem er beint að rekka- og róverskátum en öllum er velkomið að taka þátt. Til að taka þátt þarf að framkvæma áskorun, taka mynd og setja á samfélagsmiðla með myllumerkjunum #flakkogflandur og #skátarnir eða senda myndirnar á netfangið ungmennarad@skatar.is ef þið viljið ekki birta þær á netinu. Áskoranirnar eru miserfiðar og miserfitt að ná fullkláruðu verkefni á mynd en hér ætti að vera eitthvað fyrir alla og við treystum á að allir sýni heiðarleika við að klára einstakar áskoranir og senda þær inn. Allir sem klára a.m.k. fimm áskoranir fá þátttökuverðlaun og þau sem klára þær allar fá sérstaka viðurkenningu.

Sig mynd frá Erlu Sóley
Sig mynd frá Erlu Sóley

Gunnar Atlason

Gunni Atla er farinn heim

Kveðja frá skátahreyfingunni

Gunnar AtlasonGunnar Atlason er farinn heim. Gunnar var sannur skáti, hann lét gott af sér leiða, var jákvæður með eindæmum, hjálpsamur og lífsglaður. Gunnar var átta ára gamall þegar skátaheimili Dalbúa opnaði fyrir aftan heimili hans og hann ákvað að byrja í skátunum. Hann sagði sjálfur að þar hafi hann kynnst skemmtilegum krökkum, og síðan þá haldið áfram að kynnast skemmtilegu fólki í skátastarfinu. Án efa hafði það áhrif á fólkið sem hann hitti að Gunnar var sjálfur mjög skemmtilegur maður. Um tíma leiddi Gunnar skátastarfið í Mosfellsbæ með eftirtektarverðum árangri og nú undanfarin ár var Gunnar forstöðumaður Fræðaseturs skáta og mun hans ötula og óeigingjarna starf fyrir Fræðasetrið verða minnst um ókomin ár. Á sama tíma og Gunnar vann að varðveislu og kynningu á sögu skátahreyfingarinnar á Íslandi, hvatti hann til nútímalegrar hugsunar í skátastarfi og hvatti fólk á öllum aldri til dáða og treysti þeim til góðra verka.

 

Þú ert skáti horfinn heim,

himinn, jörð, ber sorgarkeim.

Vinar saknar vinafjöld,

varðar þökkin ævikvöld.

Sérhver hefur minning mál,

við munum tjöld og varðeldsbál,

bjartan hug og brosin þín,

þau bera ljósið inn til mín.

Kveðjustundin helg og hlý,

hugum okkar ríkir í.

Skátaminning, skátaspor,

skilja eftir sól og vor.

H.Z.

 

Skátahreyfingin sendir ástvinum Gunnars og skátasystkinum einlægar samúðarkveðjur og minnist hans með miklu þakklæti.

Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi

 

Þeim sem vilja minnast Gunna bendum við á styrktarsíðu Skátasafnsins.


17. júní featured image

17. júní - Hæ hó jibbí jei

Hæ hó jibbí jei það er kominn 17.júní!

Á morgun er 17. júní, þjóðhátíðardagur Íslendinga. Í ár verða hátíðarhöldin þó með breyttu sniði en venjulega þar sem ekki er mælt með því að stór fjöldi safnist saman. Eru fjölskyldur hvattar til að halda hátíð heima, skreyta heimilin sín og nærumhverfið og fagna með sínum nánustu.

Skátar eru oft sýnilegir í hátíðarhöldum og er ekki mikil breyting í ár. Hægt verður að finna hressa skáta um allt land að bralla ýmislegt skemmtilegt! Við mælum með að þið kynnið ykkur dagskrána betur en hér er stiklað á stóru hvað skátafélögin eru að gera.

Klakkur á Akureyri sér um fánahyllingu, skrúðgöngu og einnig ætla þau að vera með tívolí þar sem hægt verður að prófa risatafl, frisbígolf og fleira skemmtilegt! Frekari upplýsingar hér.

Garðbúar í Bústaðarhverfi ætla að bjóða upp á hoppukastala fyrir framan skátaheimilið sitt. Frekari upplýsingar hér.

Fossbúar á Selfossi ætla að vera með ratleik um Selfoss Frekari upplýsingar hér.

Mosverjar í Mosfellsbæ bjóða upp á fjölskylduratleik um MosfellsbæS þar sem spennandi þrautir verða út um allt. Frekari upplýsingar hér.

Vífill í Garðabæ verður með Kanósiglingar við Ylströndina í Sjálandi og ratleik sem leiðir þátttakendur um bæinn. Auk þess munu þau standa heiðursvörð í Vídalínskirkju og selja snuð á meðan Eyþór Ingi syngur. Frekari upplýsingar hér.

Svanir á Álftanesi munu standa heiðursvörð í Safnaðarheimili Bessastaðasóknar og selja snuð á meðan Eyþór Ingi syngur í Álftanesi. Frekari upplýsingar hér. 

Faxi í Vestmannaeyjum leiðir skrúðgöngu frá íþróttamiðstöðinni. Frekari upplýsingar hér.

Strókur í Hveragerði mun taka þátt í skrúðgöngu og sjá um skemmtilegan ratleik fyrir fjölskylduna. Frekari upplýsingar hér.

Stígandi í Dalabyggð verður með candy floss til sölu, eldstæði og pylsur á pinnum á túninu bakvið stjórnsýsluhúsið. Frekari upplýsingar hér.

Heiðabúar í Reykjanesbæ verða með skrúðgöngu, draga stærsta íslenska fánann að húni, leiða fjallkonuna og sjá um fánahyllingu fyrir fjallkonuna. Frekari upplýsingar hér.

Skátar úr Reykjavík standa heiðursvakt í morgunathöfninni á Austurvelli. Frekari upplýsingar hér.


World Scout Moot frestað til 2022

World Scout Moot sem átti að fara fram í Írlandi sumarið 2021 hefur verið frestað til sumarsins 2022.

Hér að neðan má sjá tilkynningu frá mótshöldurum:

Due to the worldwide disruption caused by the COVID-19 pandemic, the 16th World Scout Moot will be postponed until the summer of 2022. This difficult decision was made following a lengthy review and consultations between the Moot Planning Team, Scouting Ireland, WOSM, and other key stakeholders. We want the 16th World Scout Moot to be a beacon of hope and understanding, of unity and solidarity for scouting across the globe. Let us use the World Scout Moot as a moment of revival and recovery. Let’s do this Le Chéile.

For the link to the full statement and https://www.worldscoutmoot.ie/covid-19-faqs/.

Vinnuskólaliði í Útilífsskóla Hamars (Grafarvogur)

Viltu leika þér úti í allt sumar?

Vinnuskólaliði í Útilífsskóla Hamars - sumarstarf

Skátafélagið Hamar í Grafarvogi óskar eftir því að ráða sumarstarfsfólk á aldrinum 15-17 ára til að sinna leiðbeinendastörfum í Útilífsskóla Hamars, sem eru námskeið fyrir 8-12 ára börn, þar sem þátttakendur stunda útivist, kynnast öðrum krökkum og vinna skemmtileg verkefni í anda skátastarfs. 

Helstu verkefni:

  • Samskipti við börn í uppbyggilegu starfi
  • Umsjón með leikjum og verkefnum 
  • Þátttaka í útivist og ævintýralegri dagskrá í anda skátastarfs 

Hæfniskröfur:

  • Umsækjendur þurfa að vera á aldrinum 15-17 ára
  • Ábyrgðarkennd, dómgreind, glaðværð og stundvísi
  • Reynsla af starfi með börnum er æskileg
  • Reynsla af útivist er kostur

Frekari upplýsingar veitir Sól Gísladóttir, starfsmaður Hamars á soldisg@gmail.com, 6919595.


Ungmennaráð heimsmarkmiðanna auglýsir

Ungmennaráð heimsmarkmiðanna auglýsir eftir tíu nýjum fulltrúum á aldrinum 13 - 18 ára í ráðið. Meginmarkmið ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði á meðal ungmenna og innan samfélagsins í heild. Fulltrúar ráðsins fræðis og fjallar um heimsmarkmiðin ásamt því að vinna og miðla gagnvirku efni á samfélagsmiðlum um markmiðin og sjálfbæra þróun. Ungmennaráðið veitir jafnframt sjtórnvöldum, í gegnum verkefnastjórn heimsmarkmiðanna, aðhald og ráðgjöf við innleiðingu markmiða.

Skátar um allan heim hafa flykkt sér á bak við heimsmarkmiðin og gert þau að táknrænni umgjörð sem nýtt er til gagns og gamans í dagskrá og á alþjólegum skátamótum. Íslenska skátahreyfingin hefur sjálf starfrækt stýrihóp heimsmarkmiðanna í tvö ár, gefið út dagskrárefni tengt heimsmarkmiðunum og gert heimsmarkmiðin að þema Landsmóts skáta 2021. Því eru allir drótt- og rekkaskátar sem brenna fyrir heimsmarkmiðunum og bættum heim hvött til að sækja um í ráðið.

Umsóknir fara fram á vefsíðu stjórnarráðsins um heimsmarkmiðin.


Félagsforingja fjarfundur

FJARFUNDAÐ Í LJÓSI AÐSTÆÐNA

Félagsforingjafundur var boðaður og haldinn 21. apríl 2020 síðastliðinn. Ekki var hægt að halda Skátaþing á tilsettum tíma þetta árið sökum heimsfaraldurs, á aðalfundi BÍS 2020 hefði átt að kjósa í stjórn og fastaráð í fyrsta sinn samkvæmt nýju stjórnskipulagi sem fest var í lög á Skátaþingi 2019. Tveir stjórnarmenn BÍS höfðu beðist lausnar frá embættum sínum frá síðasta Skátaþingi sökum anna og margir meðlimir fastaráða höfðu gert ráð fyrir að hætta störfum í apríl mánuði. Á sama tíma var sjálfboðaliði reiðubúinn að taka sæti í stjórn BÍS og mörg fleiri búin að bjóða sig í öll sæti fjögurra fastaráða BÍS en án aðalfundar ekki hægt að veita þeim umboð til verksins. Því var boðað til aðalfundar til að sækja tímabundið umboð til skátafélaganna þar til unnt yrði að halda Skátaþing.

STJÓRN FULLSKIPUÐ AFTUR FRAM AÐ SKÁTAÞINGI

Dagmar Ýr Ólafsdóttir, aðstoðarskátahöfðingi og formaður alþjóðaráðs, hafði sagt sig úr stjórn BÍS og með vísan í 22. grein laga BÍS  bar uppstillingarnefnd upp þá tillögu við félagsforingjafund að Þórhallur Helgason skipi stöðuna fram að aðalfundi, var tillagan samþykkt samhljóma af félagsforingjafundi. Stjórnin er þannig svo skipuð fram að aðalfundi:

Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi
Sævar Skaptason, gjaldkeri
Ásgerður Magnúsdóttir, meðstjórnandi
Björk Norðdahl, meðstjórnandi
Harpa Ósk Valgeirsdóttir, meðstjórnandi
Jón Halldór Jónasson, meðstjórnandi
Þórhallur Helgason, meðstjórnandi

TILVONANDI FULLTRÚAR NÝRRA FASTARÁÐA STARFA Í VINNUHÓPUM FRAM AÐ SKÁTAÞINGI

Uppstillingarnefnd lagði þá tillögu fram við félagsforingjafund að stjórn BÍS hefði umfram lögbundið umboð sitt til að skipa vinnuhópa, umboð félagsforingjafundar til að skipa tilvonandi fulltrúa nýrra fastaráða í vinnuhópa sem skyldu starfa fram að Skátaþingi 2020. Í ljósi þess að sjálfkjörið var í öll nýju fastaráðin væri heppilegt fyrir skátahreyfinguna ef að þessir öflugu sjálfboðaliðar gætu tekið til starfa sem allra fyrst. Tillagan var samþykkt samhljóma.

TILKYNNT UM FRESTUN LANDSMÓTS

Stjórn BÍS tilkynnti félagsforingjafundi sameiginlega ákvörðun sína og mótstjórnar um að fresta Landsmóti skáta halda átti 8. - 14. júlí 2020 til sumarsins 2021.

FREKARI UPPLÝSINGAR UM FUNDINN AÐ FINNA Í FUNDARGERÐ

Fundargerð félagsforingjafundar má sækja með að smella hér.


Leiðbeinandi í Útilífsskóla Ægisbúa (Vesturbærinn)

Elskarðu krakka?

Leiðbeinandi í Útilífsskóla Ægisbúa - sumarstarf

Skátafélagið Ægisbúar í Vesturbæ óskar eftir því að ráða sumarstarfsfólk á aldrinum 18-25 ára til að sinna leiðbeinendastörfum í Útilífsskóla Ægisbúa, sem eru námskeið fyrir 8-12 ára börn, þar sem þátttakendur stunda útivist, kynnast öðrum krökkum og vinna skemmtileg verkefni í anda skátastarfs. 

Helstu verkefni:

  • Samskipti við börn í uppbyggilegu starfi
  • Taka þátt í dagskrárgerð
  • Þátttaka í útivist og ævintýralegri dagskrá í anda skátastarfs 

Hæfniskröfur:

  • Umsækjendur þurfa að vera á aldrinum 18-25 ára
  • Metnaður, frumkvæði og hugmyndaauðgi
  • Reynsla af starfi með börnum er æskileg
  • Reynsla af útivist og/eða æskulýðsstarfi er kostur

Frekari upplýsingar veitir Einar B. Árnason, skólastjóri Útilífsskóla Ægisbúa, einararnason@gmail.com, 894-6661. Umsóknarfrestur er til 20. maí, 2020.


Privacy Preference Center